BARA kenning

Nú er rétt um vika síðan ég heimsótti Sköpunarfræðisafnið í Kentucky. Safnið er í nánum tengslum við áhrifamikinn hóp sköpunarsinna, Answers in Genesis og er ætlað að mynda mótvægi við það sem aðstandendur telja ofuráherslu á “villukenningar” Darwins.

Segja má að safnið gangi út frá nokkrum grundvallarforsendum. Þróunarkenningin er BARA kenning og þegar valið er á milli Biblíunnar og þróunarkenningarinnar er um að ræða val á frumforsendum sem móta allar rannsóknir sem fylgja í kjölfarið. Að mati þeirra sem halda úti safninu er frumforsendan sem Biblían gefur, Nóaflóðið, en að þeirra mati útskýrir flóðið allar hamfarir og alla þróun sem átt hefur sér stað á jörðinni. Þannig er flekakenning Alfred Wegeners tekin upp og flekarek útskýrt með hamfaraflóðinu hans Nóa. Framsetningin á því hvernig flóðið yfirtekur jörðina minnti mjög á hvernig frostið streymdi yfir jörðina í stórmyndinni “Ekki á morgun heldur hinn”. Ég fékk meira að segja á tilfinninguna að ég hefði séð myndefnið á safninu í þeirri mynd. Þá er bent á mistök í ísótópamælingum á aldri steintegunda, sem kom í ljós í kjölfar eldgossins í St. Helen og Biblían notuð til að fullyrða að heimurinn sé rétt um 6000 ára gamall, með tilvísun í Ussher. Þannig eru margskonar raunvísindi notuð til að fullyrða um rétt og rangt. Reyndar skorti nokkuð á að útskýrt væri hvers vegna til væru eldri menningarsvæði en í frjósama hálfmánanum, en líkast til missti ég af því í Babelsalnum. En þar var víst fjallað um uppruna menningarstrauma.

Það er athyglivert að nálgun safnafólksins er að öllu leiti á forsendum fræðimennsku, að gefnum ákveðnum forsendum. Þannig er vísindum ekki hafnað, heldur einmitt þvert á móti, vísindin eru notuð til að komast að niðurstöðum sem standast forsendurnar sem gefnar eru, þ.e. Nóaflóðið og 6.000 ára aldur jarðarinnar.

Biblíutúlkunin er álitin ein og endanleg, hvort sem rætt er um stærð arkarinnar eða þá fullyrðingu að Guð hafi einvörðungu skapað Adam og Evu, og allt fólk sé komið í beinan legg af þeim tveimur. Þetta hefur reyndar kallað á harkalega gagnrýni hefðbundnari kirkjudeilda sem segja safnið gera lítið úr boðskap Biblíunnar, þeirri dýpt og þeim sannleika sem Guð birtir okkur í orðum bókarinnar. Þannig eru aðstandendur safnsins sakaðir um að þykjast höndla, stjórna og hafa fullan skilning á vilja Guðs. En slíkt sé trúarvilla sem Lúther gagnrýndi og kallaði “Theology of Glory” sem væri í andstöðu við boðskap Jesús Krists sem Lúther kallaði “Theology of the Cross”.

Gagnrýnin á notkun vísindalegrar vitneskju og “misnotkun” Biblíunnar eru að sjálfsögðu gild og mikilvæg, en þó er sá þáttur ekki það sem hafði mest áhrif á mig þegar ég gekk um safnið. Í upphafi er safngestum boðið að sjá tæknibrelluleikþátt/-kvikmynd sem kynnir markmið og hugmyndir safnsins. Strax þá mætum við harðri gagnrýni á skólakerfið í Bandaríkjunum, hættum almenningsskóla og mikilvægi þess að börnum sé haldið frá þeirri heilaþvottastarfsemi sem fram fer í líffræðikennslu. Vissulega er komið inn á bænabannið og hættuna sem stafar af kynlífskennslu og svo mætti lengi telja. Ferðin um safnið leiðir okkur eftir nokkra stund inn í dal syndarinnar, sem er settur upp sem skuggasund stórborgar þar sem búið er að hengja upp fyrirsagnir úr dagblöðum og tímaritum um skólaskotárásir, réttindabaráttu samkynhneigðra, AIDS/HIV og aðra þætti sem að mati safnafólksins er afleiðing syndarinnar. Fullyrðingar um vísindaheiminn, illsku doktora og menntafólks sem reynir að ræna Guð, sköpun sinni blasa við hvarvetna sem litið er á safninu.

Þegar líður að lokum ferðarinnar, er eins og á öðrum söfnum hér í BNA endað í minjagripa og fræðslubúðinni. Þar blasa við titlar eins og “You Don’t Need a PhD” ásamt “homeschooling” kennsluefni um líffræði á forsendum Guðs og hvers kyns fræðsluefni um annars vegar ID-design og hins vegar um Nóaflóðið sem forsendu líffræðirannsókna.

Sköpunarsafnið gengur út frá einum endanlegum og réttum skilningi á Guði. Þannig verður Guð safnafólksins ekki annað en strengjabrúða þeirrar eigin sköpunar, en ekki sá skapari sem þau trúa að hafi skapað heiminn. Hvarvetna má sjá hræðsluna við veraldlega menntun og upplýsingu, borgarsamfélagið er ógn í samtímanum og samkynhneigð er birtingarmynd þess sem safnafólkið hræðist allra mest, enda virðist samkynhneigð passa illa í hugmyndir um einhvers konar náttúrulög sem allt fylgir. Sú svarthvíta heimsmynd sem safnið kynnir til sögunnar er af mörgum talin ákjósanleg framsetning kristindómsins. Það að Biblíuna sé rétt að lesa á eina vegu og aðeins eina vegu, skv. hefðum sem þau telja að eigi bakgrunn í orðum Lúthers, “Sola Scriptura”, er vinsæl af mörgum sem telja sig þess umkomna að dæma trú annarra og vissulega er það sjáanlegt á þessu safni.

Við göngu um safnið vöknuðu vissulega spurningar. Ég sá fjölmarga veikleika á fullyrðingum og framsetningu, en ég veit jafnframt að svörin við efasemdum mínum eru til, og ef ekki, þá myndu spurningar mínar einfaldlega kalla fram fullyrðingar um heiðindóm minn. Ég tók því þá afstöðu að lokinni ferð um safnið að þakka pent fyrir mig og fara út.

One thought on “BARA kenning”

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.