Dhimmi

Torfi kemur með áhugaverða fullyrðingu í ummælum hjá Pétri Björgvini, þar sem hann bregst við viðbrögðum Péturs við ritgerð minni um múslima í Evrópu. Í ummælunum bendir hann réttilega á ógætilega notkun á orðinu Evrópa, þegar e.t.v. væri nær að segja Vestur Evrópa. Ábendingin er réttmæt og mikilvæg. En fullyrðing hans í lok ummælanna eru að mínu mati sínu áhugaverðari.

Reyndar er saga þessa ríkis mjög merkileg og sýnir vel hvernig kristin kirkja og Islam geta lifað saman hlið við hlið. Þarna ríkti friður milli þessar ólíku trúarbragða í margar aldir – undir stjórn Islam!

Ef við gefum okkur að þessi fullyrðing sé sönn í meginatriðum, þá hlýtur að vera nauðsynlegt fyrir kristna kirkju að velta fyrir sér hvers vegna. Mig langar að benda á nokkra þætti sem gætu skipt máli í því samhengi.

Islam mótast sem meirihlutatrú í náum tengslum við stjórnvöld (fyrst í Medína, síðar Mekkah) þar sem minnihluti íbúa tilheyrir öðrum trúarbrögðum bókarinnar og hafnar trúskiptum. Af þeim sökum reynist nauðsynlegt strax í upphafi að útskýra og gefa minnihlutanum stöðu í þjóðfélaginu. Hugtakið dhimmi er þar grundvallandi. Það er með öðrum orðum innbyggt í trúarkenninguna strax frá upphafi hvernig á að takast á við þá sem ekki eru múslimar.

Kristni verður hins vegar til í hópi hina undirokuðu og þeirra sem minna mega sín. Yfirvöld hafa ekki sérstakar skyldur gagnvart kristnum í textum Nýja Testamentisins. Kirkjan er undirmálsstofnun, sem nýtur ekki verndar og hefur því takmarkaðar skyldur gagnvart stjórnvöldum. Þannig gera mótandi textar kristninnar ráð fyrir undirgefni og hlýðni, gjalda keisaranum það sem keisarans er. Þannig er kristni mótuð sem trú minnihlutahóps sem lifir og starfar í skjóli yfirvalda sem trúa ekki á Krist.

Vendipunktur í kristni verður, þegar sólardýrkun Konstantín og kristin kirkja renna saman á 4. öld. Þar fær kristin kirkja það hlutverk að sameina alla undir einn stjórnanda. Gert er ráð fyrir að hlutverk trúariðkunnar sé að sameina alla undir keisarann, einn siður, ein lög, ein sól, einn keisari.

Þessi hugmynd um ein lög og einn sið, eða jafna stöðu allra hefur á stundum leitt til mjög takmarkaðs umburðarlyndis í kristnum löndum, þar sem krafan um jafnræði allra hefur verið túlkuð sem krafan um að allir séu eins, meðan múslimar hafa viðurkennt og fagnað mismunandi réttarstöðu, þeirra sem játa Allah og hinna.

Þetta eru einvörðungu viðbrögð við fullyrðingu Torfa sem ég tel að geti verið rétt, m.a. af ofangreindum ástæðum. Hins vegar væri gaman að skoða þetta nánar við tækifæri.

14 thoughts on “Dhimmi”

  1. Mjög góðir punktar hjá þér Elli! Ég hef aldrei pælt í þessu svona fyrr (þ.e. ólíkum uppruna trúarbragðanna) en þetta hljómar mjög sannfærandi. Þótt umburðarlyndi hafi verið lengst af ríkjandi í islömskum löndum (gyðingar höfðu það t.d. mun betra þar en í hinni kristnu Evrópu) verðum við samt að gæta okkur að alhæfa ekki um of. Trúarþvingun þekktust einnig innan islam, þótt þær væru ekki í samræmi við Kóraninn og ekki má gleyma því að þeir sem stóðu utan bókarinnar (þ.e. þeir sem voru ekki gyðingar eða kristnir) voru drepnir ef þeir skiptu ekki um trú. Saraþústra trúarbrögðin þurrkuðust t.d. nánast út í Persíu af þeim völdum en síðar meir var ákveðið að þau tilheyrðu einnig fólki bókarinnar (þar sem um eingyðistrú væri að ræða). Fjölgyðistrú í Afríku mættu hins vegar litlum skilningi.

    En þrátt fyrir þetta ríkti vissulega mun meira trúarumburðarlyndi í islömskum löndum en kristnum.

  2. Vissulega mikilvægt Þorkell að hafa í huga að umburðarlyndið í Islam náði yfirleitt bara yfir fólk bókarinnar, en ekki aðra. Eins er opinberun Kóransins endanleg, þannig að yngri trúarhópar hafa ekki alltaf haft stöðu dhimmis (sbr. Bahaí).

    En fyrirvari þinn er mjög viðeigandi, þetta hljómar mjög sannfærandi. En hvort þessar pælingar hafi einhverja raunverulega innistæðu er allt annar hlutur. Ég á væntanlega ekki eftir að kanna það sjálfur á næstunni.

  3. Takk fyrir þetta. Í þessu samhengi væri líka áhugavert að skoða mismunandi ummæli Múhammeðs sem var í upphafi spámannsferils síns mun jákvæðari í garð Abrahamstrúarbragðanna heldur en síðar varð.

  4. Aukinn dómharka með aldri og þegar í ljós kemur að bókarfólkið flykkist ekki um hugmyndir þínar er þekkt víðar en hjá Múhammeð. Þar er nærtækast fyrir mörg okkar að horfa til Lúthers. En í upphafi hafði hann hugmyndir að með því að leiðrétta páfavilluna, myndu gyðingar sjá Krist sem þann er hann var. Þegar Lúther hins vegar verður leiðtogi meirihlutahreyfingar en gyðingarnir “convertera” ekki breytist hljóðið í kauða. Viðbrögð Lúthers voru aukin heldur mun sterkari en Múhammeðs.

  5. Já, gott að fá þessa umræðu því áróðurinn gegn islam er alltaf að þyngjast – og þessi svart-hvíta hugsun (sem Keli sakaði mig um!).
    Til að nefna dæmi þá færist Danski þjóðarflokkurinn sífellt í aukanna í fasistískum andófi sínu gegn múslimum. Nú síðast setti talsmaður flokksins í utanríkismálum, Sören Espersen, islam og islamista (þ.e. öfgafulla múslima) undir sama hatt. Allir múslimar eru eins í hans augum:

    »Jo mere jeg beskæftiger mig med problematikken, jo mindre mening giver det for mig at adskille islam og islamisme. Mere og mere bliver det meningsløst for mig fortsat at hævde forskellen«.

    Hann heldur því einnig fram að islam og lýðræði séu tvær ósættanlegar stærðir (rétt eins og lýðræði sé ekki til í islömskum löndum eins og Tyrklandi!):

    »Islam indeholder anvisning på alle livets forhold – herunder samfundets indretning. Det handler om, at demokrati ikke kan eksistere, fordi formen strider mod Mohammeds lære. Det vil sige, at et islamisk flertal per automatik, med mindre man da vil optræde kættersk – nødvendigvis må afskaffe demokratiet«
    Sjá http://politiken.dk/indland/article331832.ece

    Formaður flokksins, Pia Kjærsgaard finnst ekkert að þessum yfirlýsingum og er sammála talsmanninum um að ekki sé hægt að greina að islam og öfgahópa innan hans. Tónn Danska þjóðarflokksins er þannig að harðna en fyrr hafði Kjærsgaard skilið ákveðið á milli þessa tvenns:

    »det er rigtigst, når vi rejser kritik imod muslimske fanatikere, utilpassede imamer og tilsvarende, at vi kalder dem islamister, og at vores kritik af islam rettes mod islamisme og de ekstreme tolkere af islam, islamisterne«.
    sjá http://politiken.dk/indland/article331957.ece

    Ég vil minna á að þessi flokkur er með um eða yfir 20% kjósenda á bak við sig svo hér er ekki um lítinn öfgaflokk að ræða, heldur stóran.

    Já, tónninn er að harðna, svo við getum búist við áframhaldandi krossferð hinna viljugu vestrænna þjóða á hendur hins islamska heims.
    Því eru raddir eins og þær sem hér heyrast mikilvægar hér á Vesturlöndum, ekki síst hér á landi því við erum jú enn í hópi þessara viljugu þjóða, þó svo að við “hörmum” ástandið sem ríkir í Írak nú.

    Því skora ég á Ella að endurskoða áform sín um að gera eitthvað annað á næstunni – og snúa sér hið snarasta að því að skoða málið betur.

  6. Það er hægt að sjá þessi viðhorf til múslima sem Torfi tengir við Folkepartí, á íslenskum blogsíðum. Þannig að vissulega er umræðan þörf og rannsóknir mikilvægar. Ég hef þó eina athugasemd við færslu Torfa. Tyrkland er annað tveggja ríkja í Evrópu sem með sanni má tala um sem “afhelgað” (sekulariserað). Þrátt fyrir að meirihluti íbúa aðhyllist islam, þá er aðgreining stjórnmála og trúar algjör (alla vega í orði). Að tala um Tyrkland sem íslamskt ríki er enn eitt dæmið í þessari umræðu okkar um hroka og takmarkaðan skilning Vestur-Evrópu á lýðræði.

    Varðandi hvatningu Torfa, þá hyggst ég ekki verða við henni. Mín bíður ritgerð um forgangsröðun og uppbyggingu heilbrigðiskerfa út frá kristinni siðfræði. Tilraun til að nálgast mest “in” umræðuefnið hér í BNA út frá hugmyndum nokkurra siðfræðinga og leitast við að svara spurningunni hvaða leiðir séu færar þegar kemur að heilbrigðisþjónustu.

  7. Takk fyrir þennan útdrátt Torfi. Svipaðar raddir heyrast því miður hér á Noregi. Það er eins og það sé frjálst skotleyfi á múslima í dag og ekki bara það, flokkar nota áróður sem þennan til að veiða sér atkvæði. Það er eins og við þurfum alltaf að búa okkur til óvin.

    Annars endurtek ég fyrri hvatningar mínar. Farðu að blogga Torfi. Ég sá að þú byrjaðir einu sinni en hættir svo eftir bara nokkrar færslur. Þótt ég sé ekki alltaf sammála þér þá hef ég alltaf gaman af að lesa skrif þín og myndi því vera fastagestur.

  8. Með því að tala um Tyrkland sem islamskt ríki á ég heinlega við að íbúarnir séu múslimar, rétt eins og talað er um USA sem kristið ríki þó svo að þar sé aðgreining á milli stjórnmála og trúar.

    Á öðrum stað hér á annálnum vísaði ég á bloggsíðu manns sem er með áróður gegn islam og telur það vera hluti af innsta eðli þeirrar trúar að kúga önnur trúarbrögð (Skúli Skúlason). Því finnst mér ábending þín Halldór um dhimmi vera mjög mikilvægt innlegg í þessari áróðursherferð gegn islam sem maður verður vitni að þessi dægrin (þ.e. eftir 11. september og innrásina í Írak).

    Um eigið blogg hef ég það að segja, Þorkell, að ég neyddist til að búa til bloggsíðu vegna námsins sem ég var í síðastliðinn vetur. Ég bloggaði ekki meira en ég þurfti þar! En kannski á einum regnþungum degi …

  9. Hér er þráðurinn á síðu Skúla Skúlasonar: [vísun eytt]

    Annan intressant rugludall er að finna hér: [vísun eytt]

    Báðir eru hýstir á mbl.is blog.is en Mogginn virðist ekki sjá neitt athugavert við að láta þennan ósóma fara fram á netsíðu sinni.

    Enda segir seinni bloggarinn, til varnar frelsinu, að engin ástæða sé til að gera veður út af því þó einhver sé að dreifa barnaklámi á opinberum síðum.

    Þessir menn eru duglegir að hrópa boðskap Frelsarans í vestri, sem Evrópusambandið hefur tekið undir, að Hamas séu hryðjuverkasamtök og meðlimir þeirra því væntanlega réttdræpir sem slíkir (amk engin ástæða til að fara eftir úrslitum lýðræðislegra þingkosninga).

  10. Oft er nú gott að geta bent á vítin til að hægt sé að varast þau.
    Ég setti ekki þessar vísanir til að útbreiða skoðanir þessara manna, heldur til að sýna venjulega heilbrigðu fólki hve mikið af sjúkum einstaklingum er að finna þarna úti í í bloggheimnum.

    Að eyða þessum vísunum er svipað og að fjarlægja allt helvítistal úr Ritningunni.
    Ég vissi ekki að þú værir orðinn að nýguðfræðingi Elli minn kæri!

  11. Þannig er að vísanirnar af síðunni minni, opna ekki aðeins leið fyrir fólk til að lesa Skúla og Gísla, heldur nota svæði eins og Goggle vísanir af öðrum síðum til að dæma um mikilvægi vefsvæða. M.a. þess vegna fjarlægði ég þær

    Hins vegar er ekkert að því að benda á að síða Skúla Skúlasonar á blog.is er hatursáróður af verstu sort, illa rökstuddur og hættulegur. Ef einhver vill sjá síðu sem Morgunblaðið ætti að banna fyrst þeir eru byrjaðir að ritskoða á annað borð, þá má leita Skúla uppi á blog.is

    Eins er sérkennilegt að sjá hversu naive gamall keflvískur skjólstæðingur minn úr Vatnaskógi er. Ég hefði haldið að reynsla Gísla Freys af hættulegum ofsatrúarleiðtogum, hefði fengið hann til að varast öfgafólk. En svo virðist ekki vera. Hægt er að leita að Gísla Frey á moggablogginu.

  12. Nú er í gangi athyglisverð umræða á politiken.dk þar sem bent er á að stríðsboðskap Gamla testamentisins: sjá
    http://bibel.weblog.dk/2007/07/02/det-er-ikke-bare-muslimerne-biblen-kalder-til-hellig-krig/

    Vitnað er til Joels bókar, sem er þrír kaflar (sjá Biblíuna, bls. 921-924). Þriðji kaflinn er einkar athyglisverður þar sem boðar er heilagt stríð:
    “Búið yður í heilagt stríð! Kveðjið upp kappana! Allir herfærir menn komi fram og fari í leiðangur! Smíðið sverð úr plógjárnum yðar og lensur úr sniðlum yðar! … Egyptaland mun verða að öræfum og Edóm að óbyggðri eyðimörk, sökum ofríkis við Júdamenn … En Júda mun eilíflega byggt verða og Jerúsalmem frá kyni til kyns.”

    Svo eru menn að tala um að Júðarnir, þ.e. Síonistarnir, séu ekki ofbeldishneigðir, aðeins arabarnir nágrannar þeirra!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.