Aðgreiningin styrkt / Tímabundin lausn?

Sjá athugasemd Þráins Haraldssonar!

<DEL>Það er sorglegt að sjá þetta stigma í garð geðsjúkra barna og ungmenna. Að í einu af ríkustu ríkjum heims, með besta velferðar- og heilbrigðiskerfi veraldar skuli viðhorf heilbrigðiskerfisins vera að halda þeim geðsjúku frá hinum líkamlega veiku.

Á sama tíma og stefnt er að uppbyggingu glæsilegs sjúkrahús á Hringbrautarsvæðinu, þar sem öll þjónusta er á einum stað – þá á að halda einum hópi sér. Geðsjúk börn og ungmenni eru væntanlega öðruvísi en aðrir eða hvað?</DEL>

Að sjálfsögðu fagna ég endurbótum og bætri húsnæðisaðstöðu fyrir BUGL-ið, <DEL>en um leið harma ég það viðhorf sem ég tel felast í áframhaldandi uppbyggingu á Dalbraut.</DEL>

Athugasemd:
Sæl Elli, það hefur komið fram í umræðunni að það standi til að BUGL verði staðsett við hlið nýs spítala við Hringbraut. Húsnæðisvandi deildarinnar er hins vegar svo mikil að ekki er hægt að bíða eftir nýjum spítala. Væntanlega verður húsnæði BUGL selt þegar kemur að flutningum á Hringbraut, en hvenær það verður, veit nú enginn!
Þráinn Haraldsson (IP-tala skráð) 20.2.2007 kl. 16:05

Kostnaðarliðir stjórnarsáttmálans

Þegar stjórnarsáttmálinn er skoðaður þá vekur athygli áhugamanns á sviði stjórnmála að forsendur allra aðgerða eru stöðugleiki, sterk staða ríkissjóðs, jafnvægi í utanríkisviðskiptum og svo framvegis. Þannig eru allar kostnaðarsamar aðgerðir í sáttmálanum með fyrirvara um að það þurfi að henta hagstjórninni að ráðast í þær. Continue reading Kostnaðarliðir stjórnarsáttmálans

Áhersla á menninguna eina

Unnin verði heildstæð framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda sem hafi það markmið að betur verði tekið á móti erlendu fólki sem flyst til landsins og því auðveldað að verða virkir þátttakendur í íslensku samfélagi og rækta menningu sína. (Stjórnarsáttmálinn)

Næstu vikurnar ætla ég að greina stjórnarsáttmála Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar með það í huga að skilja hvað er sagt og hvað ekki. Continue reading Áhersla á menninguna eina

Pólítíski áttavitinn

Það eru nokkur vefpróf sem er hollt að taka reglulega til að skilja og sjá hvernig maður breytist með nýjum aðstæðum. Eitt þessara prófa er pólítíski áttavitinn (e. Political Compass.

Ég tók það síðast fyrir tæpum þremur árum og benti þá á að ég væri ekki jafn öfgafullur og Birgir, en það kynni að lagast. Það sem er kómískt er að dvöl mín í BNA nú síðustu eina og hálfa árið hafa lagað stöðuna nokkuð, og ég færst þónokkuð til vinstri enda erfitt annað í þjóðfélagi þar sem lögfræðingar og bókarar eru mikilvægustu starfsmenn heilbrigðiskerfisins og greiðsla fyrir barnabólusetningu fyrir 12 mánaða son minn, þýðir reikning upp á $750 og 7 símtöl til mismunandi fyrirtækja á sviði sjúkratrygginga sem öll hafa eitthvað að segja um hvað á að borga og hvað ekki þegar kemur að sjúkraþjónustu fyrir fjölskylduna.

Economic Left/Right: -5.13
Social Libertarian/Authoritarian: -5.54

Hlutfall kvenna á alþingi

Það er áhugavert að skoða hvernig hlutfall kvenna á Alþingi sveiflast eftir könnunum. Þannig taldi ég saman stöðuna skv. könnun í Fréttablaðinu, 22. apríl, sem sýndi skammarlega útkomu Samfylkingarinnar. En staðan önnur nú þremur dögum fyrir kosningar.

Skv könnun í dag skiptist hlutfall kvenna svona á milli flokka

Sjálfstæðisflokkur 26 þingmenn, 8 konur (31%)
Framsókn 9 þingmenn, 4 konur (44%)
Frjálslyndir 3 þingmenn 1 kona (33%)
Samfylkingin 17 þingmenn, 6 konur (35%)
Vinstri-græn 9 þingmenn, 4 konur (44%)

Þannig eru konur 23 af 63 þingmönnum eða 37% af heildarfjölda. Það er enn vandamál að sjá hvernig Samfylkingin getur haldið á lofti fullyrðingum um jafnréttissinnaðan flokk, sér í lagi þegar horft er til landsbyggðarinnar, Sjálfstæðisflokkurinn sýnir sitt rétta föðurlega andlit en Frjálslyndir koma skemmtilega á óvart. Líklega í fyrsta og eina skiptið. Framsókn og Vinstri-græn standa sýna plikt og kemur svo sem ekki á óvart.

Bifrastarprófið

Ég hyggst ekki kjósa að þessu sinni, en ákvað þess í stað að taka Bifrastarprófið góða. Enda alltaf gaman að sjá með hverjum ég á samleið. Niðurstaðan er hins vegar ekki mjög samleiðarleg. Ég á reyndar 40% samleið með Íslandshreyfingunni, en þar sem um er að ræða eins máls flokk og ég er ósammála honum í aðalbaráttumálinu, þá virkar könnunin ekki alveg hvað það varðar (ég hef raðað flokkunum í röð eftir %-tölu).

Stuðningur við Íslandshreyfinguna: 40%
Stuðningur við Sjálfstæðisflokk: 37.5%
Stuðningur við Samfylkinguna: 25%
Stuðningur við Vinstri-Græna: 25%
Stuðningur við Frjálslynda flokkinn: 23%
Stuðningur við Framsóknarflokk: 20%

Ég ákvað því að reyna aftur og sjá hver niðurstaðan yrði við aðra tilraun enda var ég í vafa um nokkur atriði og þá kom þetta í ljós.

Stuðningur við Íslandshreyfinguna: 40%
Stuðningur við Vinstri-Græna: 37.5%
Stuðningur við Sjálfstæðisflokk: 37.5%
Stuðningur við Framsóknarflokk: 30%
Stuðningur við Frjálslynda flokkinn: 28%
Stuðningur við Samfylkinguna: 25%

Niðurstaðan er því sú að ég á samleið með Íslandshreyfingunni í 2 málum af hverjum 5, og hún kemst næst því að vera það stjórnmálaafl sem ég hallast að. Það hlýtur að vera pláss fyrir flokk á mínum slóðum.

Fléttulistar

Staða Samfylkingarinnar er hálfkómísk skv. könnun Fréttablaðsins 22. apríl, en þar lítur út fyrir að konur á Alþingi verði fleiri en nokkru sinni 25 af 63 þingmönnum (39,5%). Vissulega má gera betur, en enn eitt skrefið er stigið.
Reyndar er merkilegt að hlutfall kvenna í þingflokki lækkar, verður aðeins 33% og dregur því meðaltalið nokkuð niður, ekki síður merkilegt er hlutfall Sjálfstæðisflokksins 43,3% sem gefur til kynna sterka sveiflu kvenna í flokknum, hlutfall VG er sjálfsagt minnstu tíðindin 7 af 13 (54%), jafnara verður það ekki. Það er hins vegar Samfylkingin sem hlýtur að vekja upp sterkar spurningar. Þar er gert ráð fyrir 14 þingmönnum, þar af 3 konum (21%). Þetta er lægra heldur en hlutfallið er á Alþingi í dag, Þetta gerist hjá flokki sem hefur haldið úti “besserwisser” gagnrýnisröddum m.a. á sjálfstæðisflokkinn vegna stöðu kvenna þar, en raðar síðan jakkafataklæddu körlunum þannig á lista að konur hafa lítið svigrúm.
Auðvitað verður þetta ekki endanleg niðurröðun, konum í þingflokki Sjálfstæðismanna fækkar á kosningakvöld og einhverjar konur í neðri sætum Samfylkingarinnar banka á, en samt sem áður, þá er svona uppsetning á hugsanlegum þingmönnum fylkingunni skaðleg.

Trúarlegar tilvísanir Frjálslynda flokksins

Það er nú einfaldlega svo að trúarleg stef hafa tilhneigingu til að endurtaka sig. Höfnun réttborna erfingjans er líklega þekktast þeirra. Nú sjáum við fleiri stef ljúkast upp, Lk 4.16-30, kemur skiljanlega upp í hugann. En hætt er við að pálmagreinafögnuðurinn, þegar spámaður finnur sér nýja borg breytist í krossfestingu, en vonandi bíður síðan upprisan handan við hornið.

Upphaflega birt á halldorelias.blog.is sem viðbrögð við “Magnús Þór kjörinn varaformaður Frjálslynda flokksins.”

Trúarlegt stef í Frjálslynda flokknum

Eitt af þekktari stefjum trúarbragðasögunnar tengist réttbornum erfingja. Hver leiðir hjörðina þegar ætthöfðinginn fellur frá? Sagan af Sál, Davíð og Jónatan er þekkt, Jakob og Esaú er annað. Við gætum bent á syni Abrahams, Ísak og Ísmael. Í Postulasögunni má sjá Jakob bróður Jesú og Jerúsalemkirkjuna etja kappi við Pál og félaga í gríska arminum, deilur um réttan arftaka Múhammeðs, sem leiddi til klofnings múslima í Shita og Súnnita er enn eitt dæmið.

Trúarbragðasagan og frásagnir Biblíunnar sýna okkur að blóðerfinginn, sá sem er réttborinn erfingi lýtur ávallt í lægra haldi fyrir leiðtoganum sem er kallaður til verksins, vegna karisma. Þannig er það Davíð sem verður konungur eftir Sál, en ekki Jónatan. Jakob hlýtur arfinn, Esaú er svikinn. Ísak, yngri sonurinn er ætthöfðingi Ísraels, Ísmael lifir í eyðimörkinni. Jerúsalemkirkjan lýtur í lægra haldi fyrir Páli.

Það virðist því næsta ljóst ef litið er til trúarbragðasögunnar að tími Margrétar sé liðinn í Frjálslynda flokknum.

Upphaflega birt á halldorelias.blog.is sem viðbrögð við “Margrét segir eðlilegt að sækjast eftir embætti varaformanns.”

Stjórnarskrárbreytingar

Þrátt fyrir að demókratar hafi sótt mjög á í dag, er ekki víst að dregið hafi úr krafti “hinna sannkristnu” hér í “fyrirheitna” landinu. Líklega er hægt að halda því fram repúblikarnir hafi brugðist hinum “kristnu” fremur en að líberalisminn hafi haldið innreið sína. Þetta má sjá m.a. í því að íbúar sjö ríkja samþykktu að breyta stjórnarskrá sinni í dag og skilgreina nú hjónaband sem samband karls og konu (og ekkert annað). Reyndar virðast Arizonabúar hafa felt breytinguna í áttunda ríkinu þar sem breytingin var lögð fyrir.
Continue reading Stjórnarskrárbreytingar

Kosningahvatinn

Kosningaþátttaka í BNA er mjög merkilegt fyrirbæri. Í landi lýðræðisins fer þátttakan vart upp fyrir 50%. Fyrir þessu eru nokkrar ástæður. Ein er sú að flæði fólks um landið er mikið. Þrátt fyrir þá mýtu að Bandaríkjamenn ferðist ekki út fyrir fylkið sitt, þá flytur það fram og tilbaka. Þannig var Kevin kunningi minn ekki viss um hvort hann nennti á kjörstað í dag, nýfluttur yfir landið þvert og síðustu mánuðir hafa farið í annað en að velta fyrir sér muninum á SmokeLessOhio og SmokeFreeOhio.

Continue reading Kosningahvatinn

Stutt í kosningar

Það þarf ekki að rýna lengi í síðustu kannanir fyrir kosningarnar á þriðjudaginn hér í OHIO til að sjá að Bandaríkjamönnum er nóg boðið. Ríkið sem færði Bush forsetaembættið 2004, virðist hafa breytt um stefnu svo um munar. Þannig leiðir fulltrúi demókrata til Ríkisstjóra, kapphlaupið með 36% mun skv. nýjustu könnun Dispatch.

Continue reading Stutt í kosningar

Ríkisstjórakosningar

Það er áhugavert að fylgjast með ríkisstjórakosningunum í ríkinu sem færði G.W. Bush forsetaembættið. Spilling innan Repúblikanaflokksins, óánægja með Íraksstríðið sem hefur kostað marga Ohio-drengi lífið, skólamál og erfitt efnahagsástand eru meginþættirnir í baráttunni. Það virðist einsýnt að Ted Strickland flytji til okkar í Bexley og verði nágranni okkar næstu árin. Aldrei að vita nema hann verði með í Bexley Rec Soccer League.

Continue reading Ríkisstjórakosningar

Gegn hjónabandinu

Stjórnmálin eru öðruvísi hér í BNA. Rétt í þessu var auglýsing á skjánum þar sem kjósendur í Ohio eru varaðir við að kjósa Ted Strickland sem ríkisstjóra. Hann hefði enda barist gegn hjónaböndum. Enda var hann ekki tilbúin til að styðja frumvarp sem skilgreinir hjónabandið einvörðungu sem samband karls og konu. Líklegt er að sú staðreynd muni kosta hann nokkur atkvæði í kosningunum í nóvember.