Kosningahvatinn

Kosningaþátttaka í BNA er mjög merkilegt fyrirbæri. Í landi lýðræðisins fer þátttakan vart upp fyrir 50%. Fyrir þessu eru nokkrar ástæður. Ein er sú að flæði fólks um landið er mikið. Þrátt fyrir þá mýtu að Bandaríkjamenn ferðist ekki út fyrir fylkið sitt, þá flytur það fram og tilbaka. Þannig var Kevin kunningi minn ekki viss um hvort hann nennti á kjörstað í dag, nýfluttur yfir landið þvert og síðustu mánuðir hafa farið í annað en að velta fyrir sér muninum á SmokeLessOhio og SmokeFreeOhio.

Á sama hátt er kosningaþátttakan hvatadrifinn. Þetta náðu repúblikanar að notfæra sér frábærlega í síðustu kosningum 2004, með því að hafa Hættulegu Hommana á kjörseðlum víða, sem höfðaði sterkt til hægri sinnuðu hvítu lægri millistéttarinnar sem sækir ofurkirkjurnar og lifir við stöðuga hræðslu um að allt sé að fara fjandans til. Reyndar er hætt við að hommarnir bregðist núna, nema að Ted Haggard-vandinn valdi því að hættan nái að persónugerast, og hrædda hægri sinnaða millistéttinni sjái að fyrst Haggard heilagi er ekki óhultur sé það enginn.

Demókratar hafa sín mál til að setja á kjörseðlana, misvinsæl að vísu. Auðvitað fara einhverjir og kjósa með strætó (issue 7) og það eru örugglega ekki repúblikanar hér í Columbus, en annað demókratamál er issue 2, hækkun lágmarkslauna. Reyndar eru sumir sem halda því fram að það sé ekki demókratískt á sama hátt og hommarnir tilheyra repúblikunum en við skulum bíða og sjá.

En alla vega þá er ljóst að kosningar til ríkisstjóra eða öldungadeildarinnar, eru ekki mál sem hvetja massann til að eyða hluta þriðjudags í röðum við misfullkomnar kosningavélar. Listinn í kosningunum hér í BNA er að koma á listann, máli sem höfðar til þinna líkra og helst af öllu þarf slíkt mál að vera aðkallandi og viðbrögð við yfirvofandi hættu. Þar hafa á allra síðustu árum og þar til nú repúblikanar kunnað betur til verka.