Vingltrúarflokkurinn Frjálslyndir

Í málefnahandbók Frjálslynda flokksins sem er nýkominn út segir (feitletranir eru mínar):

Íslenskt samfélag er að breytast í fjölmenningarþjóðfélag enda fjölgar ört Íslendingum af erlendum uppruna. Um leið og unnið er vel að því að aðfluttir finni sér hlutverk, aðlagist og kynnist menningu þjóðarinnar og hefðum, ber að fagna öllu því sem auðgað getur samfélagið.

Síðar er áhugavert að sjá neðangreind orð í handbókinni, þegar litið er til ummæla Magnúsar Þórs um múslima:

Ríka áherslu ber að leggja á virðingu fyrir sjálfstæðum rétti einstaklingsins. Sömu réttindi skulu gilda fyrir alla, óháð stjórnmálaskoðunum, trú, litarhætti, kynferði eða kynhneigð.

Ummælin um hættuna af atvinnufrelsi í Evrópu eru ekki sjáanleg í þessum orðum hér:

Það er hægt að gera með því að efla samskipti við einstakar þjóðir og með virkri þátttöku í Atlantshafsbandalaginu (NATO), Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (OSCE), Evrópska efnahagssvæðinu (EES), Evrópuráðinu, Norðurlandaráði og Vestnorræna ráðinu svo nokkuð sé nefnt.

Ekki er mismunun sjáanleg í þessum orðum:

Allir skulu njóta fullra mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernis, aldurs, kynþáttar, kynhneigðar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.

Þessi orð hér benda ekki í þá átt sem Magnús Þór vísar flokknum:

Þjónusta við nýbúa verði aukin og þeim þannig auðvelduð þátttaka í samfélaginu.

Eða þessi orð hér:

Leggja þarf aukna áherslu á íslenskukunnáttu innflytjenda til að auðvelda þeim þátttöku í íslensku þjóðfélagi. Tryggja ber að þessi hópur njóti félagslegs jafnréttis og geti tekið fullan þátt í samfélaginu, öllum til hagsbóta.
Íslenskt þjóðfélag mun í framtíðinni að hluta til verða myndað af hópum fólks sem á rætur að rekja til ólíkra menningarheima. Frjálslyndi flokkurinn telur að tilkoma fólks af erlendu bergi brotið leiði til víðsýni meðal þjóðarinnar og auki samkeppnishæfni hennar á alþjóðavettvangi.
Ísland á ekki að skorast undan ábyrgð í málefnum flóttafólks. Einnig ber Íslendingum að taka þátt í mannúðar- og hjálparstarfi á erlendum vettvangi.

Þarna er ekki settar kröfur á innflytjendur heldur þeim boðið að aðlagast. Já, stefnan getur tekið hröðum breytingum ef hentar. Nema Nýs-afls fólkið og Magnús Þór hafi ekki lesið stefnu flokksins, eða telji sig ekki bundið af orðum hennar.

One thought on “Vingltrúarflokkurinn Frjálslyndir”

Comments are closed.