Viðhorf forréttindastétta

Fyrir nokkuð mörgum árum þýddi ég nokkra valda hluta út 5. kafla bókarinnar Moral Man and Immoral Society eftir Reinhold Niebuhr. Ég þarf væntanlega að fara að skoða það rit aftur á næstu vikum og mánuðum.

Efnahags- og þjóðfélagsstéttir innan ríkis búa ekki yfir eða hafa ekki búið yfir völdum, innri samloðun eða jafn skýrt markaða stöðu og þjóðir. Því er mun erfiðara og ónákvæmara að tala um orð og athafnir stétta en þjóða.  Continue reading Viðhorf forréttindastétta

Jeremía 28. kafli

Jeremía leggur áherslu á í samskiptum sínum við Hananja spámann að vonandi sé svartsýni sín byggð á mistúlkun sinni á orðum Drottins, en …

Hvort spámaður, sem boðar heill, er í raun sendur af Drottni sannast af því að orð hans rætast.

Hananja kallar eftir óraunhæfri framtíðarsýn, hann boðar að allt verði gott, allt verði eins og áður. Innan árs er Hananja hins vegar látinn, og loforðin láta lítið á sér kræla.

Jeremía 27. kafli

Jeremía boðar uppgjöf gagnvart konungi Babýlon. Það er engin önnur leið fær en að sættast við tapið. Jeremía fordæmir enn á ný spámennina sem halda að aðrar leiðir séu færar. Framtíðin felst í að gangast undir öflugasta konungsveldið á svæðinu.

Fyrst að ég hef velt fyrir mér meintum tengingum við Matteus hér í síðustu köflum, þá má velta fyrir sér hvort að Mt 22.15-22 og sér í lagi orðin

Gjaldið þá keisaranum það sem keisarans er og Guði það sem Guðs er,

kallist ekki á við 27. kafla Jeremía. Maður spyr sig.

Jeremía 22. kafli

Vei þeim sem byggir hús sitt með ranglæti,
sali sína með rangindum
og lætur landa sinn þræla án launa
og greiðir honum ekkert.
Hann segir: „Ég byggi mér stórt hús
og rúmgóðar vistarverur.“

En þú sérð hvorki né hugsar um annað
en eigin gróða,
að úthella saklausu blóði,
kúga og skattpína.

Ég talaði til þín þegar þú varst enn áhyggjulaus
en þú sagðir: „Ég vil ekki hlusta.“

Dómur Drottins yfir Jójakím konungi er harður. Honum bíður að deyja í útlegð, engin niðja hans mun ríkja á ný í Júda.

Jeremía 18. kafli

Þjóð mín hefur gleymt mér,
hún fórnar reykelsi fánýtum goðum
sem hafa leitt hana í hrösun
á gömlu götunum
inn á óruddar slóðir.
Þeir gera land sitt að skelfilegum stað
sem sífellt er hæðst að,
hver sem fer þar um
fyllist hryllingi og hristir höfuðið.

Jeremía varar við því sem framundan er. Kaflinn hefst á líkingunni um leirkerasmiðinn, sem byrjar upp á nýtt þegar leirkerið sem unnið er með skemmist. Orðum Jeremía er ekki mætt af skilningi, Jeremía upplifir hatrið í sinn garð, reiðina vegna spádómsorðanna. Þegar Jeremía hrópar til Guðs:

Má gjalda gott með illu?

Þá er augljóst að Jeremía telur sig vera að gera rétt, gera það sem gott er, þegar hann flytur orð Guðs. Jeremía vonast eftir iðrun og yfirbót þeirra sem heyra orðin, en þess í stað ákveða áheyrendur spádómanna að drepa sendiboðann. Jeremía reiðist og kallar eftir hefnd Guðs.

Jeremía 15. kafli

Hlutskipti Jeremía er ekki eftirsóknarvert:

Vei mér, móðir, að þú fæddir mig,
mann sem á í málaferlum og deilum við alla landsmenn.
Ég hef engum lánað og enginn hefur lánað mér,
samt formæla mér allir.

Hann varar við því sem framundan er, í miðri gleðinni, í partýlátunum stendur Jeremía á mittisskýlunni og varar við að partýið endi í eymd, dauða og samfélagshruni. Hann kvartar undan móttökunum við Guð, hann upplifir sig berjast nær vonlausri baráttu, en treystir á fyrirheitið:

Ég geri þig að rammbyggðum eirvegg
til að verjast þessu fólki.
Þeir munu ráðast á þig en ekki sigra þig
því að ég er með þér,
ég hjálpa þér og frelsa þig, segir Drottinn.
Ég bjarga þér úr höndum vondra manna
og frelsa þig úr greipum ofbeldismanna.

Nei eða já, af eða á

Það er margt sagt um stöðu kirkju og kristni á Íslandi, en líklega er fátt eins sorglegt og þegar vígðir þjónar kirkjunnar halda því fram að forsenda þess að kirkjan sinni starfsemi á landinu öllu sé að kirkjan sé þjóðkirkja og/eða nefnd sérstaklega í Stjórnarskrá. Continue reading Nei eða já, af eða á

Að mynda traust

Fyrir nokkrum mánuðum skrifaði ég færslu þar sem ég sagði:

Verkefni næsta biskups verður EKKI að endurvekja traust á kirkjunni. Einfaldlega vegna þess að það að búa til, endurvekja eða smíða traust er ekki verkefni í sjálfu sér. Traust myndast. Traust er ekki heldur markmið í sjálfu sér. Traust er verkfæri til að gera og vera. Það er gífurlega mikilvægt að næsti biskup skilji muninn á verkfærum og verkefnum. Það er ekki alltaf auðvelt að greina þar á milli. Continue reading Að mynda traust

Neysluviðmið, tjaldborg Péturs og hjónavígsluræða Tómasar

Fyrir mörgum árum fór ég í hjónavígsluathöfn hjá vinafólki þar sem Tómas Sveinsson annaðist athöfnina. Í ræðu sinni til parsins talaði hann um hjónavígsluathöfnina í tengslum við umbreytingarfrásögnina á fjallinu. Í athöfninni stæðu þau á fjallstindinum og allt væri frábært. Hins vegar stæði okkur ekki til boða að vera þar alltaf, það væri ekki valmöguleiki að setja upp tjaldbúð í blissinu. Við þyrftum að stíga niður af fjallinu og takast á við hið daglega. Continue reading Neysluviðmið, tjaldborg Péturs og hjónavígsluræða Tómasar

Jeremía 9. kafli

Upplifun Jeremía er af samfélagi vantrausts, lyga og blekkinga. Sannleikurinn hefur orðið eiginhagsmunum að bráð. Ekki er hægt að treysta bræðrum, vinir hafa gerst rógberar. Jeremía sér kúgun og svik gegnsýra samfélagið sem hann tilheyrir. Hrunið er yfirvofandi, óumflýjanlegt og væl þeirra sem sviku, prettuðu og lugu í kjölfar hrunsins er jafn fyrirsjáanlegt. Af hverju ég, spyrjum við, eftir að hafa kallað yfir okkur hremmingarnar.

Hinn vitri hrósi sér ekki af visku sinni, hinn sterki hrósi sér ekki af afli sínu og og hinn ríki hrósi sér ekki af af auði sínum. Nei, sá sem vill hrósa sér hrósi sér af því að hann sé hygginn og þekki mig.

Því að ég Drottinn, iðka miskunnsemi, rétt og réttlæti á jörðinni, á því hef ég velþóknun, segir Drottinn.

Það að þekkja Guð í huga Jeremía er að láta sjálfsmynd sína skína af miskunnsemi, rétti og réttlæti.

Jeremía 8. kafli

Konungsríkið, hús Davíðs, sem átti að ríkja um aldir eins og stendur í 2Sam 7, á sér ekki mikla framtíð í spádómi Jeremía. Þjóðinni er ómögulegt að horfast í augu við gjörðir sínar, iðrunin er enginn, blygðunin er engin. Sjálfhverfan og sjálfseyðileggingarhvötin ræður ríkjum. Getuleysið er algjört þegar kemur að því að laga það sem hefur misfarist.

Guð grætur þjóð sína sem lætur ekki segjast.

Okurlánaviðskipti Múla

Þær eru trendí auglýsingarnar hjá Múla þessa dagana. Þeir bjóða lán til þeirra sem eru í klemmu og fyrsta 10 daga lánið er vaxtalaust. Ef ég geng út frá 10.000 króna láni í 10 daga reynist reyndar lánstökukostnaðurinn 4,5% sem reiknast sem 490% kostnaður á ársgrundvelli. Ef við hins vegar ákvæðum/þyrftum að framlengja lánið um 30 daga, þá myndu 10.450 krónurnar sem við skuldum eftir dagana 10, fyrst byrja að kosta okkur. Miðað við upplýsingar sem ég tók saman á vefsíðu Múla má reikna út að vextirnir af upphæðinni ásamt kostnaði yrði 3.404% á ársgrundvelli.* Continue reading Okurlánaviðskipti Múla

Jeremía 7. kafli

Zion guðfræði musterisins, um fyrirheitnu þjóðina sem hefur byggt sér hús þar sem Guð býr, musterið í Jerúsalem, þar sem Guð býr sama hvað. Hugmynd sem við sjáum t.d. í áætlunum Davíðs og væntingum um ævarandi konungsdóm í Annarri Samúelsbók 7. kafla og bregður víða fyrir hjá fyrsta Jesaja, fær harkalega útreið hér hjá Jeremía.

Treystið ekki lygaræðum þegar sagt er: “Þetta er musteri Drottins, musteri Drottins, musteri Drottins.”

Trúarskilningur Jeremía byggir ekki á húsinu glæsilega í Jerúsalem, heldur á afstöðunni til Torah, til lögmálsins. Guð býr þar sem aðkomumenn búa við frelsi, munaðarleysingjar og ekkjur hafa réttindi, þar sem saklausu blóði er ekki úthellt. Guð er þar sem sanngirni ríkir, á slíkum stað finnur Guð sér bústað.

Það að byggja hallir og skrauthýsi þar sem gengið er fram fyrir Guð, eftir að hafa svikið og prettað náungann er ekki þóknanlegt fyrir Guði. Slíkt hús er ræningjabæli. Fórnarþjónustan í musterinu er hluti af þessum blekkingarleik að mati Jeremía. Guð kallar ekki eftir fórnargjöfum heldur hlýðni við lögmálið segir spámaðurinn.

Lögmálið sem Jeremía vísar til og við sjáum í skrifum Amosar, er ekki lögmál sem festist í að fylgja í blindni, heldur lögmál sem krefst réttar fyrir hin veika, smáa og jaðarsetta. Lögmálið knýr á um rétt fyrir ekkjur og munaðarlausa, fátæka og útlendinga, það snýst ekki um hárgreiðslu, föt eða fórnaraðferðir, alls ekki.

Jeremía 6. kafli

Engin(n) vill hlusta. “Þeir skopast að orði Drottins, þeim fellur það ekki í geð.” Loforðin um betri tíð, þegar engin framtíð liggur fyrir. Skjótur gróði er markmið þeirra sem segjast hafa lausnir, hegðunin er viðurstyggileg samkvæmt Jeremía, en loforðaspámennirnir hafa enga blygðunarkennd.

Hamingja samfélagsins skiptir engu, hvíld, sátt og friður skipta engu fyrir þá sem vilja hagnast. Engin spyr um “gömlu göturnar, hver sé hamingjuleiðin.” Ógæfan er afleiðing hugarfarsins, hrunið er óumflýjanlegt.

Jeremía 5. kafli

“Engin ógæfa mun koma yfir oss, … Spámennirnir eru loftið tómt, orðið er ekki í munni þeirra, það kemur þeim í koll.”

Skeytingar- og andvaraleysið leiðir til glötunar. Þegar viðvörunarraddirnar eru hunsaðar og spámennirnir niðurlægðir, þá er endirinn nærri. Þá styttist í að samfélagið leysist upp. Þá taka völdin þeir sem svíkja og hunsa munaðarleysingjana, fátæklingana og ekkjurnar í leit að skjótum gróða. Í landi skeytingarleysisins og sjálfhverfunnar, kenna prestarnir að eigin geðþótta það sem fellur í kramið hjá þjóðinni. Sannleikurinn verður afstæður og notaður í þágu hins sterka.

Jeremía 4. kafli

Uppgjör, ákall til að snúa frá villu vega, ákall um að endurvekja traustið á Dorttin. Jeremía kallar landa sína til að opna sig gagnvart Guði, koma fram fyrir Drottin án feluleiks. Framundan er innrás, auðn og eyðilegging. Vanmátturinn að horfast í augu við sjálfan sig, ganga inn í eigin sjálfhverfu, illsku og eigingirni gerir okkur bitur og leiðir til þess að við gerum illt.

En mitt í aðkomandi eyðileggingu, klæðist sjálfumhverft fólkið skarlati, skreytir sig með gulli og faðrar augun, láta sem ekkert sé fyrr en það er of seint.

Jeremía 2. kafli

Guð er gleymdur, nema á degi neyðarinnar. Íbúar Jerúsalem hafa snúið baki við skapara sínum. Sjálfhverfan og fullvissan um eigið ágæti hefur leyst af hólmi auðmýkt gagnvart Guði. Sagan og traustið til Guðs er gleymt, guðirnir sem eru dýrkaðir eru sjálfgerðir, hver borg hefur gert guði eftir eigin mynd.

Sektin felst í því að neita að horfast í augu við misgjörðirnar. Að fullyrða, “ég hef ekki syndgað.” Að neita að horfast í augu við óréttlætið meðan blóð fátæklinganna litar klæðafald okkar.

Jeremía 1. kafli

Spádómsbók Jeremía lýsir viðvörunum spámannsins og áminningu til landa sinna, en ekki síður fjallar hún um glímu spámannsins við sjálfan sig og köllun sína. Þannig sér spámaðurinn þörfina á að boðskapurinn sem hann telur sig hafa frá Guði heyrist, en óskar sér þess að hann þurfi ekki að sjá um flutninginn. Jeremía telur sannleikann mikilvægari en eigin velferð, þó það sé alls ekki alltaf auðvelt.

Eftir að ritari tímasetur líf Jeremía Hilkíasonar á tímabilinu milli fyrri og síðari Herleiðingarinnar, eða á árabilinu 597-587 f.Kr. hefst glíma Jeremía.

Hann veit sem er að hann á að fara og benda á misgjörðir samfélagsins, hann upplifir köllun sína sem Guðs útvalningu, en Jeremía upplifir sig takmarkaðan, “ég er enn svo ungur.” Guð lofar Jeremía ekki auðveldu lífi, fullyrðir að á hann verði ráðist, en hlutverk hans sé að tala sannleikann og hjálpa þjóð sinni að horfast í augu við stöðu sína.