Veikindi

Það fara fljótlega að safnast upp vísar að bloggfærslum á skjáborðinu mínu, þannig bíða nú þegar punktar um Sköpunarsafnið og þar sem ég er búin að kaupa mér miða á Sicko í kvöld bætast væntanlega vísar að færslum um heilbrigðiskerfið við á morgun. Sér í lagi þar sem ég mun eyða næstu viku í að skrifa ritgerð í Bioethics, sem ber vinnuheitið “How to prioritize?” En samspil þess sem ég mun lesa og þess sem ég mun sjá í kvöld má ætla að kalli fram nokkur skrif hér. En ekki núna, væntanlega seinna!

Sköpunarfræðisafnið

Ég fór í dag á hið merka Sköpunarfræðisafn rétt utan við Cincinnati. Nákvæm færsla um ferðina býður betri tíma, en þó var merkilegt að sjá vitnað í James Ussher, sem sérstaklega virtan fræðimann á sviði Biblíuvísinda og ekki síður var það sérstakt fyrir mig persónulega að skilja loksins trúarlegt inntak stórmyndarinnar “Ekki á morgun heldur hinn” sem ég sagði ranglega í færslu fyrir þremur árum að hefði “engin hefðbundin trúarleg tákn”. Hamfarir þeirrar myndar kallast skemmtilega á við Nóaflóðið eins og það er sett fram á safninu. Reyndar minnist ég þess ekki að Veðurfræðingurinn (Nói) í kvikmyndinni hafi verið sérlega mikið fyrir sopann, en hins vegar er ljóst að það voru verulegir brestir í fjölskyldulífi hans. Reyndar kemur ekkert fram um þessa bresti Nóa á sýningu safnsins.

En ég hyggst fjalla nánar um safnið síðar, enda klukkan vel fram yfir miðnætti hér á vegamótelinu sem ég dvelst á í fjallabænum Bridgeport í norðvesturhluta Vestur-Virginíufylkis.

Magnús Ver

Það eru 10,4 sekúndur eftir af þriðja leiknum í úrslitum NBA-deildarinnar og nágrannar mínir í Cleveland biðja um leikhlé. Það þýðir auglýsingar og hver annar en sterkasti maður heims, Magnús Ver Magnússon er kynntur til sögunnar, lyftir bíl, rífur hurð af hjörunum og biður um Coors Light á barnum. Það er alltaf gaman að því þegar landar manns meika það.

Adam fallinn

Yfirmenn Creation Museum, rétt utan við Cincinnati eru í vandræðum eftir að í ljós kom að leikarinn sem leikur Adam í myndbandi á safninu, hefur ekki einungis verið með skráð lén fyrir klámsíðu á netinu heldur verið fyrirsæta fyrir fatalínu sem ber hið vafasama heiti SFX, sem í fjarlægð gæti litið út fyrir að heita SEX. Myndbandið hefur að sjálfsögðu verið tekið úr sýningu, enda ekki við hæfi að Adam sé fallinn.

Ég reyndar skil ekki vandamálið þar sem ég taldi að Adam væri allt annað en syndlaus, en sjálfsagt fæ ég meira að heyra á laugardaginn í næstu viku, en þá mun ég heimsækja safnið ef að líkum lætur.

Frétt af Dispatch.

Fermingartollurinn

Ég er stundum svolítið lengi að tengja. En þar sem ég var að taka til í glósunum mínum áðan, flaug mér í hug umræða sem ég rak augun í skýrslu af aðalfundi Prestafélags Íslands, þar sem rætt var um fermingartollinn og hugmyndir um að greiða hann beint til presta úr Héraðssjóði.  Hugmynd sem er hreint afleit og fáránleg í alla staði. Ég ætla svo sem ekki að útskýra að öllu leiti hvers vegna hugmyndin er vitlaus, en velta aðeins fyrir mér vandamálinu eða öllu heldur vandamálunum sem eru tvíþætt. Continue reading Fermingartollurinn

Dýrasta heilbrigðiskerfi í heimi

Í desember fórum við með son minn í læknisskoðun, við fundum út hvaða barnalæknir væri innifalinn í sjúkratryggingunni okkar og pöntuðum tíma. Í sjálfu sér gekk það vel, við fengum skoðun og þegar tímanum var lokið, fengum við nýjan tíma fyrir þrjár bólusetningar, þessar sem öll börn þurfa að fá. Við mættum síðan nokkrum dögum seinna og strákurinn fékk sprauturnar sínar. Tveimur vikum síðar kom reikningurinn, tvær heimsóknir og þrjár sprautur $760 eða 48.000 krónur. Fram kom að tryggingafélagið neitaði greiðslu vegna formatriðis, sem ekki var útskýrt. Það tók mig þrjá mánuði og 7 símtöl að leysa vandamálið. Ég þurfti að hringja á læknastofuna, tryggingafyrirtækið, fyrirtækið sem sér um greiðslur á kröfum fyrir tryggingafyrirtækið og síðan annan hring til allra. Eftir nokkur símtöl þar sem mér var sagt að ekki væru til nein gögn um að ég hefði kvartað, fékk ég loks bréf um að tryggingafyrirtækið hefði borgað sinn hlut.

Þegar ég svo nefndi þessa sögu við kunningja minn sem er lögfræðingur, sagði hann mér að allir vissu að tryggingafyrirtækin, alla vega sum, treystu á að fólk gæfist upp á 3 hringingu og greiddi þjónustuna sjálft enda kostar tíma og fyrirhöfn að standa í stöðugu tuði um þrjár sprautur.

Þetta gerist í dýrasta heilbrigðiskerfi í heimi, þar sem stór af starfsfólkinu er ekki heilbrigðisstarfsfólk heldur lögfræðingar, viðskiptafræðingar, símastarfsfólk á endalausum skiptiborðum við að neita viðskiptavinum um þjónustu. Þetta kerfi er frábært fyrir þá einstaklinga sem eiga allt, þá sem taka ekki eftir því hvort það er $760 meira eða minna á Debetkortinu. En fyrir alla hina, þær 45 milljónir manna sem eru tryggingalaus, tugi eða hundruði milljóna manna sem eru háðir vinnuveitanda í vistaböndum, þar sem vinnuveitandi veitir af gnægtum sínum þær litlu tryggingar sem flestir hafa, þá er ástandið ekki eins gott.

En það sem ætti að vekja mesta athygli þeirra sem trúa á framtak atvinnulífsins og mikilvægi einkavæðingar er að kerfið er eitt það dýrasta í heimi, þegar litið er til hlutfalls af þjóðarframleiðslu. 

Tekjuliðir sáttmálans

Kostnaðarliðirnir í stjórnarsáttmálanum eru ekki margir, en nýir tekjuliðir eru jafnvel færri. Í raun má segja að einkavæðing orkufyrirtækja, hagræðing í landbúnaði (sem virðist óljóst hvort af verði), breytingar á lífeyri alþingismanna og áframhaldandi velsæld samfélagsins séu helstu liðir sem skapa munu tekjur á Íslandi næstu árin.

Kostnaðarliðir stjórnarsáttmálans

Þegar stjórnarsáttmálinn er skoðaður þá vekur athygli áhugamanns á sviði stjórnmála að forsendur allra aðgerða eru stöðugleiki, sterk staða ríkissjóðs, jafnvægi í utanríkisviðskiptum og svo framvegis. Þannig eru allar kostnaðarsamar aðgerðir í sáttmálanum með fyrirvara um að það þurfi að henta hagstjórninni að ráðast í þær. Continue reading Kostnaðarliðir stjórnarsáttmálans

Áhersla á menninguna eina

Unnin verði heildstæð framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda sem hafi það markmið að betur verði tekið á móti erlendu fólki sem flyst til landsins og því auðveldað að verða virkir þátttakendur í íslensku samfélagi og rækta menningu sína. (Stjórnarsáttmálinn)

Næstu vikurnar ætla ég að greina stjórnarsáttmála Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar með það í huga að skilja hvað er sagt og hvað ekki. Continue reading Áhersla á menninguna eina

Hefðbundin gildi

Við lestur þessarar fréttar, hlýtur spurningin að vakna. Hvenær hafa umburðarlyndi og gestrisni einkennt Evrópu? Ég er nýbúin að bruna í gegnum evrópska sögu, reyndar í formi kirkjusögu eins og hún er kennd í bandarískri guðfræðideild. En mig rekur ekki minni í að umburðarlyndi og gestrisni hafi einkennt Evrópu á einu einasta tímabili, hugmyndir um trúfrelsi og virðingu fyrir útlendingum voru næstum óþekktar þar til á 20. öld og ekki var fyrri hluti þeirrar aldar í Evrópu tímabil umburðarlyndis og gestrisni.

Friðsæld, jöfnuður og hagsæld eru ekki þau orð sem koma í hugann heldur þegar hugsað er um Evrópu fyrr en hugsanlega á stöku stað á síðari hluta 20. aldar, og þeirri friðsæld, jöfnuði og hagsæld fylgdi ekki endilega umburðarlyndi og gestrisni.

Fyrra/fyrsta árinu lokið

Nú hef ég lokið fyrsta vetrinum mínum í Trinity Lutheran Seminary. Ég hef lokið 44,5 einingum af 84 og því 2,5 einingu á undan áætlun (leiðrétt). Ég mun reyndar bæta í nú í sumar en ég hyggst taka námskeið um Contemporary Issues in Bioethics og Educating for Global Mission, alls 5 einingar. Annars liggja ýmis verkefni fyrir næstu fjórar vikur, þangað til námskeiðið um Bioethics hefst. Helstu verkefnin eru:

  • Frágangur á efni fyrir kærleiksþjónustusvið Biskupsstofu, en skiladagur á efninu var settur í október 2006.
  • Uppsetning á hver veit hvaða útgáfu af Pétrísk-íslensku orðabókinni.
  • Skrif á greinargerð um mat á safnaðarstarfi.
  • Skutla Jennýju, Tómasi og Önnu til Baltimore, til að ná flugvél.
  • Sækja Tómas og Jennýju til Baltimore.
  • Útbúa herbergi fyrir Tómas, þannig að hann hafi sitt eigið herbergi.