Áhugaverður

Ég fór í tilraunakennda guðsþjónustu á sunnudaginn þar sem Spencer frá stopconsuming.org lét dæluna ganga. Ekki besti guðfræðingur Bandaríkjanna en þörfin fyrir að breyta einhverju var svo sannarlega til staðar. Hverju og hvernig á að breyta var hins vegar e.t.v. ekki skýrt. Spencer heldur út í samstarfi við fleiri eða er á einhvern hátt tengdur shemamovement.com.

Áframhaldandi nám

Í dag fékk ég staðfestingu á áframhaldandi námi við Trinity Lutheran Seminary. En næstu 1-2 árin mun ég vinna að námsgráðu sem heitir Master of Sacred Theology (S.T.M.), en um er að ræða framhaldsgráðu í guðfræði, eftir M.Div. eða hefðbundið meistaranám. Hægt er að nýta S.T.M. gráðuna sem hluta af Ph.D. námi við Lutheran School of Theology in Chicago, en það er þó ekki stefnan eins og er.
Áherslan í rannsóknarverkefninu mínu verður að öllum líkindum samspil kirkjufræða (Ecclesiology) og leiðtogakenninga, en sá annmarki er á fjölmörgum kenningum um leiðtoga og stjórnun sem notaðar eru í kirkjustarfi að þær eru á stundum lítt eða illa tengdar eldri hugmyndum um eðli kirkjunnar. Vissulega eru frasar eins og almennur prestsdómur notaðir í leiðtogatextum og í markmiðsplöggum, en merkingin er ekki alltaf skýr. Þannig mætti spyrja hvort að SVÓT og árangursmiðuð skorkort séu heiti kirkjufræða 21. aldarinnar.

Um námið
Trinity Lutheran Seminary offers a Master of Sacred Theology (S.T.M.) degree program to a limited number of candidates. The program is intended for those persons whose interests lie in pursuing an advanced theological degree with emphasis upon study of an academic nature. The seminary believes that the scholarly vocation is a gift to the ministry of the church. Because theology can never properly be separated from its relationship to mission and ministry, the S.T.M. degree aims at enriching both scholarly and pastoral competency. It is thus an appropriate program for both parish pastors and those whose goals include further graduate study on an advanced level.

Trúarafstaða mín

Vegna ummæla sem má finna um mig hér á blog.is er rétt að taka fram að ég er vígður djákni en ekki prestur. Þannig er mér ekki ætlað að hafa um hönd sakramenti kirkjunnar, heldur að sinna kærleiksþjónustu við einstaklinga og hópa án tillits til bakgrunns, kyns eða trúar.

Þessi hugmynd um kærleiksþjónustu kirkjunnar byggir á þeirri trú að allar manneskjur séu skapaðar í Guðs mynd og hafi rétt á því að komið sé fram við þær af virðingu og kærleika. Framkoma okkar í garð einstaklinga á þannig ekki að stjórnast af utanaðkomandi þáttum eins og trúarskoðunum, kyni, kynhneigð, móðurmáli eða uppruna. 

Um leið hljótum við að viðurkenna og takast á við þá staðreynd að heimurinn er “fallinn”, óréttlætið er til staðar og manneskjur nota stöðu sína og völd til að gera það sem er rangt. Sem einstaklingur sem játar trú á Jesús Krist, hlýt ég að líta til hans, aftöku hans og upprisu í leit að von fyrir óréttlátan heim. Eins hlýt ég að líta til Jesús og viðbragða hans þegar hann mætti óréttlætinu á sinni vegferð í heiminum. Viðbrögð hans voru skýr, okkur ber að standa upp þegar ráðist er á þá sem minna mega sín. Gagnrýni Jesús á ráðandi stétt samtíma síns, er mér sem vígðs þjóns þjóðkirkjunnar, sífelld næstum óleysanleg glíma.

Í þessari glímu trúi ég að Jesús sé með. Verði mér á mistök í tilraun minni til að feta í fótspor Krists, þá veit ég að náðarboðskapur kristninnar, fyrirgefningin er til staðar.

Skattaskemmtun

Það er óneitanlega kómískt að sitja við tölvu í LSS West Pantry, bíða eftir næsta kúnna sem þarf hjálp með skattskýrslu eða aðstoð við að fylla út umsóknir um húshitunarstyrk, læknishjálp eða matarmiða og lesa á sama tíma eftirfarandi texta í bók Thomas Friedman, The World Is Flat.

This weekend there will be accountants painting watercolors in their garages. There will be laywers writing screenplays. But I guarantee you that you won’t find any sculptors who on weekends will be doing other people’s taxes for fun.

Það er nefnilega þannig að sum okkar sem tilheyrum “liberal arts” hluta heimsins, leggjum stund á listir, heimspeki eða guðfræði, lítum á tölur og “fill-in-form” sem áhugaverð hliðarskref sem er vert að stíga sér til skemmtunar. Thomas hefur þannig einfaldlega vitlaust fyrir sér í þönkum sínum hér að ofan. En þetta er svo sem ekki eini galli bókarinnar.

Sá hlær best sem síðast hlær

Í síðustu viku þegar ég mætti í frístundaknattspyrnuna hér í Bexleybæ, hugsuðu ýmsir liðsmenn mínir honum nágranna okkar Mike Hodge þegandi þörfina. Tveir liðsmenn höfðu enda pantað flug fyrir sig og fjölskylduna til Florida með Skybus og ljóst að sú pöntun var gagnslaus og framundan kærumál til kreditkortafyrirtækis til að fá endurgreiðslu. Mér varð að orði á vellinum að ég væri glaður hafa staðist freistinguna að panta Boston flugið mitt og minnar fjölskyldu hjá Mike, en ég hefði í stað þess kosið að notast við þjónustu Delta.

Það er vonandi að knattspyrnufélagar mínir hlæi ekki að mér næsta sunnudag, ef fara skyldi að Delta tæki upp á að skera niður ferðir. 

Olympíueldurinn

Er það almenn vitneskja að þessi hefð að hlaupa með eldinn í gegnum borgir á leiðinni frá Grikklandi til mótsstaðar, var hönnuð af áróðursmaskínu Nasista í þriðja ríkinu í tengslum við leikanna 1936?

Skorkort

Eitt af áhugasviðum mínum er árangursmat hvers konar, en ég á allt eins von á að taka lesnámskeið eða tvö á því sviði á komandi ári. Þessi frétt er skemmtilega uppfull af “standard” BSC fordómum sem e.t.v. hafa rétt á sér.

Main Street Forum


Síðustu daga hef ég unnið að frágangi á veftímariti fyrir Healthy Congregations, Inc. En tímaritið er einungis aðgengilegt áskrifendum að þjónustu félagsins. Það er áhugavert hversu fjölbreytileg vandamál notenda eru, en mikil áhersla hefur verið lögð á að hægt sé að prenta tímaritið út á snyrtilegan hátt.

Íslandsferð í sumar

Ákvörðunin um að koma ekki til Íslands í sumar hefur nú verið endurskoðuð en rétt í þessu gekk ég frá kaupum á flugmiðum fyrir alla fjölskylduna til sumarleyfisparadísarinnar Íslands. Nú er ekki lengur flogið til Íslands frá Baltimore þannig að í stað þess að kaupa miðana til Íslands og miðana innanlands í BNA í sitt hvoru lagi, borgar sig nú að kaupa alla leið með Flugleiðum. Verðið fyrir Flugleiðafarið er reyndar ekki gefið, en flug innan BNA er fáránlega dýrt, sér í lagi á flugvellina sem Flugleiðir fljúga á. Á móti kemur að Flugleiðir fljúga í sumar tvisvar á dag til Boston, þannig að við þurfum ekki að fljúga með Tómas að næturlagi og gista þar sem við millilendum. En flugáætlun sumarsins er þannig að við fljúgum öll saman til Íslands frá Columbus í gegnum Boston og lendum í Keflavík kl. 23:40 (19:40 að Ohio-tíma) 9. júlí. Jenný heldur svo til baka kl. 10:30 þann 16. júlí og lendir í Columbus kl. 21:13 sama dag. Anna Laufey fer í Ölver 17.-23. júlí, vonandi næ ég að kíkja til Akureyrar með börnunum síðustu vikuna í júlí, ég og börnin förum svo á Sæludaga í Vatnaskógi 1.-4. ágúst og fljúgum til baka til Ohio 6. ágúst kl. 10:30 og lendum í Columbus 21:13 sama dag.

Hlutverk okkar

Á miðvikudaginn þarf ég að skila ritgerð um leiðtoga á nýrri öld. Í stað þess að lesa mér til sat ég með konunni í kvöld og naut þess að horfa á bíó. Að loknu áhorfi er ég margs vísari um leiðtoga nýrrar aldar. Hlutverk leiðtogans er að nota reynslu sína til að hjálpa fólki að njóta. Hvort vínið er frá 1860 eða 1845 er ekki það mikilvægasta, heldur “getan” til að opna farveg fyrir okkur píetistana til að njóta og þiggja náðina sem okkur stendur til boða. Einhverjir þarfnast lítils stuðnings, geta greint það sem skiptir máli, geta sagt “den er gode” án þess að þurfa að fá leyfi til að þakka. En við erum flest píetistar inn við beinið, hræðumst ekkert meira en breytingar og því þörfnumst við leiðtoga.
Hlutverk okkar ef við viljum leiða, er að hjálpa fólki að lifa lífsins til fulls, með skjaldbökusúpu og kampavíni, í fullvissu til náðarinnar. Leiðtogar á nýrri öld eru þannig farvegur fyrir fegurðina, en ekki dogmatískir dómarar í stjórnunarstöðu eða sérfræðingar í sálgæsluþjónustu og messutækni.

(Nú er bara að skrifa þetta á ensku, lengja þetta upp í 5 síður með vísunum í fræðiritin sem ég hef verið að lesa og vona það besta.)

Kynþáttahyggja

Eitt af því sem ég hef glímt við hér í náminu mínu er kynþáttahyggja og ýmsar birtingarmyndir þess, m.a. í kirkjuþátttöku. Hugtakið “white privilege” er mér mjög ofarlega í huga í flestu því sem ég tek mér fyrir hendur þessa dagana. Dr. Cheryl Peterson benti mér og fleirum nýlega á áhugaverða grein eftir Juan Cole þar sem hann notar dæmi frá Detroit.

Rétt er að taka fram að ég þekki ekki annað til Juan Cole og hans verka en þessi skrif sem eru mikilvæg. Með því að vísa til þessara skrifa með velþóknun er ég ekki að taka undir önnur skrif hans.

Skírnarkostnaður

Í umfjöllun um kirkjuna og rekstrarkostnað í námskeiði um breytingar á ásýnd kirkjunnar var varpað fram áhugaverðri nálgun á kostnað við kirkjustarf. En ein breytan sem notuð var er kostnaður á skírn. Hér er í sjálfu sér gengið út frá mjög áhugaverðri hugsun um kirkjuna, þ.e. að skírn sé markmiðið og annað starf sé stuðningur við skírnina. Ég tók mig til og reiknaði kostnaðinn út fyrir þjóðkirkjuna á Íslandi byggt á tölum í fjárlögum, en bendi á að velta kirkjunnar er ekki að fullu skrásett þar. Óhætt er að álykta að þjóðkirkjan velti allt að 35% meira fé en hún fær í gegnum skattkerfið. Ég er þó ekki viss um að nákvæm tala sé til. Þá er ekki ólíklegt að rekstrarkostnaður sumra kristinna söfnuða á Íslandi sé hærri á hvern skírðan einstakling en í þjóðkirkjunni, vegna samskota og ýmiskonar hliðartekna. En alla vega kostnaður á hvern nýskírðan einstakling í þjóðkirkjunni er eins og hér segir:

Sóknargjöld – 2.026.750.824
Jöfnunarsj. – 340.107.710
Kirkjumálasj. – 262.894.067
Laun presta og fleira – 1.458.000.000

Kostnaður er c.a. 4.1 milljarður króna eða 54 milljónir dollara. Ef 4000 börn eru skírð á ári, kostar hver nýskírður einstaklingur $13.500 eða rétt rúmar 1.025.000 krónur. Ef við bætum við 35% sem er jafn gott gisk og hvað annað fáum við 1,4 milljónir sem kostnað á hvern skírðan.

Þetta er í sjálfu sér mun eðlilegri leið til að reikna út kostnað hvers og eins skírðs einstaklings en að reikna út sóknargjöld og hliðargreiðslur, margfalda með ævilíkum og fá þannig út tölu, sem yrði eitthvað lægri en kostnaður á hvern nýskírðan.

Sjálfsagt hafa einhverjir áhuga á hvort mér finnist upphæðin há eða lág. Ef kirkjan hefði raunverulegt vægi í samfélaginu og léti sig varða líf þessara nýskírðu einstaklinga og berðist fyrir betra lífi allra, þá væri þetta mjög lág upphæð. Ef kirkjan hins vegar væri sjálfhverf stofnun sem teldi að steindir gluggar séu besta leiðin til að heiðra börn og unglinga og teldi að ábyrg hegðun þegar kemur að fjármálum sé minna virði en risaorgel þá er upphæðin mjög há. Að mínu hógværa mati liggur veruleiki þjóðkirkjunnar einhvers staðar þarna á milli, svo …

(Enn einn “stickies”-miðinn, farinn af skjáborðinu)

Fjölskylduábyrgð

Það kemur fyrir að ég rekist á vangaveltur sem ég er sammála, eða ósammála, skrifi niður setningu eða tvær og hugsi sem svo að ég þurfi að skoða merkingu þeirra nánar. Þannig hefur einn “Stickies”-miðinn á skjáborðinu mínu innihaldið setninguna/orðin “velferðarkerfið sem ögrun við fjölskylduábyrgð” í líklega rúmt ár.

Í BNA er ekkert velferðarkerfi og fjölskylduábyrgðin virðist ekki meiri hér en annars staðar, jafnvel minni en á Íslandi. Fullyrðingin sem er haldið á lofti hér í landi frelsisins er því röng. Þegar við bætist að fjölskylduábyrgðin sem vísað er til er einhvers konar draumsýn um mann, konu og með tvö börn, strák og stelpu, sem síðan giftast fullkomnu tengdabörnunum, og þau eignast tvö börn, strák og stelpu, og allir í pakkanum styðja alla í fullkomnum heimi og allir eru hamingjusamir í fínu einbýlishúsunum sínum í úthverfunum, þá er slíkt ekki til heldur. Fjölskylduábyrgð sem hugtak í pólítískum áróðri um eitthvað sem ætti að vera er þannig frekar ögrun við velferðarkerfið en að velferðarkerfið ögri fjölskyldunni.

Nú get ég eytt “stickies”-miðanum.

Adam Bremensis og Dómarabókin

Í þá daga var enginn konungur í Ísrael. Hver maður gerði það sem honum vel líkaði. (Dómarabókin 21.25)

Fyrir rúmu ári heyrði ég sérfræðing í norrænum fræðum tala um skrif Adam frá Brimum (Adam Bremensis). En fræðimaðurinn nefndi stuttlega að Adam hefði tiltekið í annálum sínum að Íslendingar hefðu engan konung og ályktað eitthvað út frá því.

Þar sem Biblíufræði eða íslensk kirkjusaga eru ekki hluti af aðaláhugasviði mínu, enn síður bókmenntafræði og ég les ekki latínu, gerði ég ekkert með þessa ábendingu, annað en að velta stuttlega fyrir mér hvort að finna mætti samsvörun á milli þessara orða Adams og loka Dómarabókar annars vegar og umfjöllunar um ákvörðun Snorra og 1. Sam 8 hins vegar.

Þetta er reyndar fremur langsótt allt saman, en samt verðugt verkefni fyrir einhvern að skoða.

Ilmvötn eða menntun

Það er sagt að Maria Antoinette hafi spurt af hverju fólkið borðaði ekki kökur, fyrst það átti ekki brauð. Daniel G. Groody bendir á í nýrri bók sinni Globalization, Spirituality, and Justice: Navigating the Path to Peace (Theology in Global Perspective) að árið 2005 hafi veltan í ilmvatns og rakspíraiðnaðinum verið jafnmikil og kostnaður við alla menntun í Afríku og Mið-Austurlöndum, tæplega 28 milljarðar USD.

Detroit

Í janúar síðastliðinn var ég staðsettur á skrifstofu Kwame Kilpatrick í Detroit nákvæmlega viku áður en Free Press birtu afritin af SMS-skilaboðunum.  Heimsóknin var hluti af námskeiði í skólanum mínum um kirkjulegt starf í stórborgum. Við hittum reyndar Kwame aðeins í nokkrar mínútur, en meginhlutverk komunnar á skrifstofuna var að fá fyrirlestur hjá aðstoðarmönnum hans um uppbygginguna í borginni. Þessi tveggja tíma heimsókn var einn óþægilegasti hluti rúmlega 10 daga heimsóknar til Detroit, þar sem við hittum skólastjóra í niðurnýddum grunnskólum, töluðum við hjúkrunarfræðinga sem glöddust yfir að ungbarnadauði hefði lækkað úr 15 í 13 börn af hverjum 1000 (tölur á Íslandi 2 af 1000), tókum vakt með lögreglumönnum sem höfðu það markmið helst að komast slysalaust úr vinnunni, hlustuðum á skýrslu frá innra eftirliti lögreglunnar þar sem fram kom að enn voru 1500 kvartanir á hendur lögreglunni frá 2007 órannsakaðar í janúar 2008 (rúmlega ein kvörtun á hverja tvo lögreglumenn) og heimsóttum húsnæði heimilislausra svo fátt eitt sé nefnt.

En heimsóknin til Kwame var það sem kallaði fram hvað hörðustu viðbrögðin. Aðstoðarmennirnir lýstu markmiðum sínum og Kwame og héldu því fram blákalt að allt væri að fara á betri veg í borginni og sögðu sögur af fjölskyldudagskrá einu sinni á ári á einu af grænu svæðum borgarinnar og hrósuðu sér af spilavítunum sem eru að rísa um alla borg. Raunveruleikinn var hins vegar sá að þeir félagar og Kwame virtust ónæmir fyrir því að almenningssamgöngur eru í rúst, atvinnuleysi er 15-20% í sumum hverfum, félagsráðgjafar borgarinnar eru sumstaðar með 530 mál á ári, það er framið eitt morð á dag í borginni og lögreglan borgar 20 milljónir dollara á ári vegna rökstuddra kvartana um misbeytingu valds. Þessar upplýsingar virtust ekki hafa náð eyrum aðstoðarmannanna í leðurstólunum, þar sem við sátum umkringd myndum af Kwame með hinum og þessum stórstjörnunum.

Í borginni sjálfri heyrðum við sögusagnir af myrtum vændiskonum eftir að hafa verið í partíi í borgarstjórabústaðnum, sem reyndar líktust meira reifara en sannleikanum. Nú er að koma í ljós að sumar þessara sögusagna höfðu einhverja stoð í raunveruleikanum og ljóst að Detroitborg á enn eftir að hnigna á meðan málaferli gegn Kwame halda áfram.

Orgelsmíði

Það er sagt að munurinn á Íslendingi og Dana sem báðir vinna 2 milljónir í Lottó-i, sé að Íslendingurinn fari samstundis í B&L og kaupi BMW jeppa og taki 6 milljón króna lán fyrir mismuninum. Daninn hins vegar kaupi sér notaðan Toyota Corolla á 500 þúsund, noti það sem eftir stendur til að greiða niður af húsnæðisláninu og ef eitthvað sé eftir að því loknu sé það lagt á sparnaðarreikning til mögru áranna.

Eyrir ekkjunnar

Við í kirkjunni erum viðkvæm fyrir gagnrýni, ég held það fari ekki fram hjá neinum. Enda erum við öll viðkvæm fyrir því þegar okkur er bent á það sem miður fer. Gagnrýni getur ýmist verið til uppbyggingar eða niðurrifs og ég held að flest okkar vilji fremur það fyrra en hið síðara, þó bæði geti meitt.

Í Detroit í janúar hlustaði ég m.a. á Jim Perkinson, guðfræðing við Ecumenical Theological Seminary í Detroit þar sem hann fjallaði á mjög ákveðinn hátt um sjálfhverfu okkar sem erum hvítir, gagnkynhneigðir, giftir og karlar og sjálfhverfu kirkjunnar sem við stjórnum, eigum og ráðum. Einhver sársaukafyllsta athugasemdin hans, ekki bara fyrir mig heldur ekki síður fyrir aðra guðfræðinema og jafnvel prestanna sem sátu fyrirlesturinn var umfjöllun hans um eyri ekkjunnar.

Hann benti á hvernig við (hvítir, gagnkynhneigðir giftir karlar) höfum um aldaraðir höfum notað orð Jesús til að upphefja fórn þess sem ekkert á, og notað þannig Jesús til að réttlæta það að fátækir gefi til trúarstofnunarinnar í neyð sinni. Þannig hafi orð Jesús verið notuð sem kúgunartæki á fátæka og hvatning til að fórna sjálfum sér fjárhagslega að fullu fyrir Guðsríkið.

Ég persónulega hef notað þennan texta á þennan hátt, hann er settur fram á þennan hátt í lestrum kirkjuársins í íslensku þjóðkirkjunni, ég hef vísað til hans í fræðsluefni sem ég hef skrifað og ef ég man rétt hér á veraldarvefnum einnig. Dæmi um þessa túlkun má sjá t.d. í prédikun Sigurbjörns Einarssonar frá því í október 2005, í vísun Arnar Bárðar til sögunnar í prédikun hér, prédikun Sveinbjarnar Bjarnasonar eða grein Karls V. Matthíassonar í BB.

Jim Perkinson benti hins vegar á að samhengi textans byði langt í frá upp á þessa túlkun sem við höldum á lofti í sjálfhverfu okkar. Jesús kemur nefnilega ekki af himnum ofan og bendir á ekkjuna án samhengis.

Þegar Jesús var að kenna þeim sagði hann: „Varist fræðimennina sem fýsir að ganga í síðskikkjum og láta heilsa sér á torgum, vilja skipa æðsta bekk í samkundum og hefðarsæti í veislum. Þeir mergsjúga heimili ekkna en flytja langar bænir að yfirskini. Þeir munu fá því þyngri dóm.“ Jesús settist gegnt fjárhirslunni og horfði á fólkið leggja peninga í hana. Margir auðmenn lögðu þar mikið. Þá kom ekkja ein fátæk og lét þar tvo smápeninga, eins eyris virði. Og Jesús kallaði til sín lærisveina sína og sagði við þá: „Sannlega segi ég ykkur, þessi fátæka ekkja gaf meira en allir hinir er lögðu í fjárhirsluna. Allir gáfu þeir af allsnægtum sínum en hún gaf af skorti sínum allt sem hún átti, alla björg sína.“
Þegar Jesús gekk út úr helgidóminum segir einn lærisveina hans við hann: „Meistari, sjáðu, hvílíkir steinar, hvílíkar byggingar!“ Jesús svaraði honum: „Sérðu þessar miklu byggingar? Hér verður ekki steinn yfir steini, allt lagt í rúst.“
(Mark 12.38-13.2)

Þannig eru orð Jesús um fórn ekkjunnar ekki sérstaklega tilraun til að lofsyngja fátæklinga sem fórna öllu fyrir musterisbygginguna heldur miklu mun fremur árás á valdastéttir sem byggja upp hallir og helgidóma, með því að mergsjúga ekkjur og hrósa sér síðan af góðmennsku sinni. Með því að einblína á ekkjuna sem fórnaði öllu og lofsyngja hana erum við að vantúlka textann í tilraun til að horfa fram hjá óþægindunum sem felast í sannleikanum. Það er e.t.v. við hæfi að tvær af prédikunum sem ég vísa í hér að ofan skuli hafa verið haldnar í tveimur af dýrustu kirkjubyggingum Íslands, miklum og glæsilegum byggingum.

Viðbrögð okkar sem hlustuðum á fyrirlestur Jim voru ekki síður merkileg. Þeim verður líklega best lýst sem skömm og sorg. Við höfðum öll lesið guðspjallið margoft en vegna kaflasetningar í þýðingum eða einfaldlega fræðslunnar í sunnudagaskólanum sáum við ekki það sem stóð. Við vorum innstillt á Jesús sem hrósar fátæklingum fyrir að fórna öllu, en ekki Jesús sem fordæmir okkur sem misnotum stöðugt aðstöðu okkar.

Þegar ég skrifaði þetta hér, varð mér hugsað til samsvörunar á milli viðbragða Níels Dungal við ekkjunni á Ítalíu sem hann lýsir í bókinni Blekking og þekking og orða Jesús. Viðbrögðin voru e.t.v. ekki ólík eftir allt. Við höfum hins vegar aldrei hlustað á hvað það var sem Jesús sagði í raun og veru.

(Sylvía Magnúsdóttir hefur áður bent á þessa túlkun á mbl-bloginu í nóvember 2007)