Blendin gleði

Fyrir tveimur vikum fengum við póst frá tryggingafyrirtækinu okkar. Sagan hófst á því að skóli dóttur okkar vildi meina að það hefði farist fyrir að gefa henni tvær bólusetningarsprautur á réttum tíma. Við tókum athugasemdinni vel, héldum reyndar að um miskilning væri að ræða, en fórum að sjálfsögðu með stelpuna á læknastofu. Þar fékk hún aðra af sprautunum tveimur, skorturinn á hinni sprautunni var byggður á miskilningi vegna þess að ekkert rafrænt kerfi er til staðar í landinu til að halda utan um upplýsingar um heilsu landsmanna, enda er hræðslan við slíkt kerfi svo mikið að fjölmargir læknar hér í BNA notast helst aðeins við blað og penna.

En hvað um það. Bréfið frá tryggingafyrirtækinu var sent til að tilkynna okkur að þar sem dóttir okkar væri bólusett eftir 9 ára aldur þá félli allur kostnaður þjónustunnar á okkur, kostnaður sem samkvæmt bréfinu væri rétt um $200. Það kom líka fram að þetta væri bara áminning, raunverulegur reikningur kæmi síðar beint frá lækninum og gæti orðið hærri en þetta. 

Það er stórkostlegur sigur fyrir Obama að fulltrúadeildin komi í gegn frumvarpi um betrumbætur á heilbrigðiskerfinu. Fögnuðurinn er þó blendin, því til að koma frumvarpinu í gegn þurfi að bæta í það fyrirvara um að ríkisvaldinu væri með öllu óheimilt að greiða fyrir fóstureyðingar, sem þýðir í raun að flest tryggingafélög munu einnig hafna því. Reyndar eru einhver frávik frá þessu banni, og það á eftir að koma í ljós hversu þröngt þau verða túlkuð.

Þetta þýðir að til að koma í gegn frumvarpi sem mun líklegast lengja líf meðal Bandaríkjamanns um 3-5 ár, mun draga úr ungbarnadauða um hugsanlega allt að 3-5 af hverjum 1000 á ári hverju, þá var dregið úr réttindum kvenna til að taka ákvarðanir um líf sitt. Einhverjum kann að finna það lítill fórnarkostnaður, en ég verð að viðurkenna að ég veit það ekki. Ákvörðun 64 þingmanna Demókrata að spyrða þetta tvennt saman er fremur ógeðfelld.

En fyrirsögnin er sönn og rétt. Sigurinn í þessu máli er sigur Obama, þó kvennréttindum hafi verið fórnað í skákinni.

Muuhahaha…

Það er ekki erfitt að sjá fyrir sér handrit að glæpamynd. Þráðurinn væri eitthvað á þessa leið. Smáglæpamaður sem sérhæfir sig í peningaþvætti kemst yfir stórt fyrirtæki sem hann notar til að lifa í vellystingum um skeið. Þegar í ljós koma vafasamir gjörningar í bókhaldinu, brýst lögreglan inn á heimili hans og handtekur fyrir framan ungan son og eiginkonu af hefðarættum. Eftir réttarhöld og ævintýralegt plott, þar sem stjórnmálamenn fara hamförum er smáglæpamaðurinn dæmdur í fangelsi, þar sem hann situr um tíma. Eftir að fangavistinni lýkur halda faðir og sonur úr landi og hefja rekstur í alræmdri glæpaborg í fjarlægu landi og ná á óútskýrðan hátt ráðandi stöðu á markaði þar sem samkeppnisaðilar hverfa einn af öðrum. En það fullnægir þeim ekki. Þeir vilja hefnd, hefnd vegna fangavistarinnar og niðurlægingarinnar fyrir fjölskylduna forðum daga. Það eykur hatrið að einn stjórnmálamannanna sem gekk hvað harðast fram er nú orðin forseti í heimalandinu. Þá kemur að plotti myndarinnar. Þeir feðgar mynda tengsl við valdamenn í heimalandinu, gefa örlátlega til góðgerðamála og með ótrúlegri útsjónarsemi fá heimild í gegnum vinatengsl, til að taka yfir stærsta banka heimalandsins. Þeir nota næstu árin til að kaupa upp róttæka gagnrýna listamenn, gefa þeim jafnvel hús, kaupa sérfræðinga til að skrifa um sig bækur, þar sem fortíðinni er breytt, kaupa fjölmiðla til að aðstoða sig í þessu skini og þegar einhverjum verður á að rifja upp fortíðina eru haldnar bókabrennur. Hefndarþorsti feðgana virðist horfin og flestir trúa að réttlætið felist í því að fá að endurskrifa söguna og endurheimta stöðuna sem þeir nú hafa. En svo er víst ekki. Skyndilega og án viðvörunar kemur í ljós að þeir feðgar hafa notað stöðu sína til að steypa heimalandinu í gjaldþrot. Bankinn sem þeir tóku yfir, skuldar þrefalda þjóðarframleiðslu, Óskabarn Þjóðarinnar, eitt elsta hlutafélag landsins er gufað upp og erlendir menn og konur eiga kröfur á þjóðarbúið vegna horfina peninga. Landið er rjúkandi rúst, vart stendur steinn yfir steini. Ég sé fyrir mér að lokaskotið, sé af föðurnum að stíga upp í svarta einkaþotu sonar síns á Reykjavíkurflugvelli. Síðan er klippt á skot inn í þotuna þar sem þeir feðgar sitja með kampavínsflösku, horfa hvor á annan og faðirinn segir stundarhátt, Muuhahaha…

Upphaflega birt á halldorelias.blog.is sem viðbrögð við frétt á mbl.is.

Fundurinn

Geir Haarde
  • Ekki leita blóraböggla, við skulum vinna sökudólga þegar við höfum komið á stöðugleika.
  • Styrkja krónuna nr. 1.
  • Þetta er tímabundið ástand.
  • Útbúa sterkan gjaldeyrissjóð.
  • Góðar viðræður.
  • Formlegar viðræður um stöðugleika.
  • Tveggja milljarða dollara lán frá IMF, til 2012-2015. 
  • Markmið er að endurvekja traust, styrkja ríkissjóð, styrkja krónuna og reisa bankana við.
  • Þetta mun taka líklega um 10 daga. 800 milljónir dollara strax við samþykkt.
  • Aldrei neitt klárt, fyrr en það er klárt.
  • Það er verið að skoða frekari aðstoð annars staðar á sama tíma.
  • Það eru engin skilyrði um uppgjör við Breta, önnur en að það sé í farvegi.
  • IMF lánið kallar ekki á skattahækkanir.
  • IMF getur ekki lánað Íslandi meira, vegna kvótareglna sjóðsins.
  • Fall í þjóðarframleiðslu, meira atvinnuleysi, verðbólguóvissa, ríkissjóðshalli í nokkur ár.
  • Rússalánið er ennþá á borðinu, en ekki jafnhátt og áður.
  • Þjóðhagsspá er í vinnslu.
  • Trúnaður um aðgerðir ríkissjóðs.
  • Við gerum ráð fyrir að verðbólga fari hratt niður.
  • Tilkynningin ætti að slá á gengisvandann.
  • Kaupmáttarrýrnun 7,5% á þessu ári og sama á næsta ári fullyrt af blaðamanni. Geir tekur undir.
  • Við munum ekki borga upp skuldir bankanna. En við borgum það sem ríkið er í ábyrgðum fyrir.
  • Upphæðin er hærri, en ítrustu reglur IMF hljóða á um. 
  • Útflutningur er að aukast, innflutningur er að hrynja.
  • Skammarleg vinnubrögð Breta.

Ingibjörg Sólrún

  • IMF er mikilvægur sem festa í ólgusjó.
  • Tækifæri til að takast á við erfiðleikana felst í IMF.
  • Uppbygging samfélags sem hefur alþjóðlegt traust.
  • IMF er miðlægur stöðumatsaðili, og vekur traust annarra.
  • Ekki endanleg niðurstaða, heldur drög.
  • Inntakið er ekki gefið upp. Stjórn IMF þarf að sjá þetta fyrst.
  • Getur tekið vikur að klára þetta venjulega, en nú er hraðafgreiðsla sem getur tekið nokkra daga.
  • Það er IMF sem bannar að inntakið sé gefið upp.
  • Engin skilyrði sem við getum ekki sætt okkur við.
  • Við viðurkennum ábyrgð gagnvart Bretum, en ekki upphæðir.
  • Rannsókn þingnefndar með erlendri aðstoð.
  • Endurskoðun lífeyrissjóðalaga er brýn.
  • Engar þjóðskipulagslegar breytingar settar sem skilyrði fyrir IMF.
  • Upphæðin skiptir ekki öllu máli, heldur opnunin sem þetta veldur gagnvart lántöku frá öðrum.
  • Endurheimt orðstýrs í Bretlandi, ekki víst að málaferli séu best til þess fallin til að laga það.

Bankadrengur sem skuldar milljarða?

Mikið hefur verið rætt um illu ofurlaunamennina og hvernig þeir hafa snuðað saklausan almenning og skilið hann eftir í eymd og volæði. Þar sem svona sögur virka vel og jafnvel betur ef hægt er að birta mynd af ofursumarbústöðum, þá flaug mér í hug að skoða hvaða áhrif yfirtakan á Kaupþingi hefði haft á eignastöðu  bankastjórans fyrrverandi í Kaupþingi. Continue reading Bankadrengur sem skuldar milljarða?

Hlutfall skulda af veltu

Hér fyrir neðan sló ég á að í besta falli eru skuldir bankanna 4000 milljörðum hærri en eignir. Upphæð sem lendir á Ríkissjóði að glíma við, alla vega að hluta. Í versta falli er ástandið annað og alvarlegra. Skuldir bankanna umfram skuldir gætu allt eins verið 8000 milljarðar króna ef tryggingar fyrir eignum eru ekki burðugar. Eitthvað af skuldum bankanna lendir sjálfsagt á lánveitendum sem munu bera harm sinn en væntanlega ekki í hljóði, hversu mikið er alls óljóst. En höldum okkur við þá tölu sem ég tel að sé lægsta mögulega upphæð sem Ríkissjóður mun sitja uppi með eða 4000 milljarðar króna. Það er mjög bjartsýnt og ég veit það vel. Gefum okkur því næst að upphæðin fáist að fullu að láni frá IMF með 4,5% vöxtum sem er líklega ekki langt frá ávöxtunarkröfu IMF. Segjum sem svo að um jafngreiðslulán til 40 ára sé að ræða til að auðvelda vangavelturnar og þá fáum við út að afborganir á ári séu a.m.k. í kringum 215 milljarðar króna á ári. Tekjur ríkisins hafa undanfarin ár verið um 475 milljarðar króna og því er ljóst að skera niður um 45% í útgjöldum ef tekjur haldast óbreyttar, sem verður að telja ólíklegt í ljósi aukins atvinnuleysis og hruns heillar atvinnugreinar. Continue reading Hlutfall skulda af veltu

Hvað skuldum við?

Spurningin sem öllu máli skiptir er hversu mikill munur er á uppgjöri eigna og skulda bankanna. Það sem við vitum er að skv. hálfsársuppgjöri skulduðu bankarnir 13.900 milljarða króna og áttu 14.500 milljarða króna. Ef við lítum framhjá gjaldeyrissveiflum (enda líklegt að eignir og skuldir sveiflist jafnt á þeim vettvangi) og gerum ráð fyrir að eina breytan sem líta þarf til sé breytileiki í verðmæti eignasafnsins þá er hægt að líta til hlutabréfavísitalna og meta rýrnun eignasafnsins til samræmis við lækkun hlutabréfa á heimsvísu. Þannig væri hægt að notast við Dow Jones sem gæfi rýrnun upp á tæplega 22%, sem þýddi raunlækkun eigna niður í 11.370 milljarða. Þetta er sjálfsagt vel í lagt, enda áhættan í eignasafni bankanna sjálfsagt talsvert meiri en Dow Jones. Við gætum notað S&P500 og fengið út að eignirnar hafi rýrnað um ríflega 25%. Þannig væri verðmætið í dag tæpir 10.700 milljarðar króna sem er sjálfsagt meira í áttina, þó ég efist um að eignasafn bankanna hafi verið jafn gott og S&P. Til viðbótar þessari stöðu kemur síðan þörfin fyrir að selja, sem veldur frekara verðfalli.

Þar sem mig langar að vera bjartsýnn og gera ráð fyrir um 15% rýrnun vegna skyndisölunnar þá getum við vonað að eignir bankanna séu í dag um 9.000 milljarða virði. Þegar það er dregið frá 13.900 milljarða skuldinni stendur eftir mismunur upp á 4.900 milljarðar króna. Þessi upphæð er rétt um 16 milljónir króna á hvert mannsbarn á Íslandi. Þessar 4.900 milljarðar króna eru 3,75 föld verg landsframleiðsla (GDP) ársins 2007.

Ef við gerðum allar eigur Björgúlfsfeðga upptækar þá myndi það duga fyrir tæplega 10% af því sem upp á vantar ef miðað er við meintar eignir þeirra á síðasta lista Forbes.com. Hins vegar hafa eignir þeirra rýrnað gífurlega síðan, sér í lagi vegna upptökunnar á Landsbankanum. Eignir annarra Íslendinga sem komu að rekstri bankanna eru mun minni og í sumum tilfellum næstum horfnar, en hugsanlega væri hægt að skrapa saman í 900 milljarða króna með peningum Björgúlfsfeðga, með sölu á einkaþotum og með að gera upptækar eignir af reikningum í Sviss, Lúxembúrg, Karabíahafinu og hvar annars staðar sem menn hafa komið varasjóðum sínum fyrir.

Að ofantöldu sögðu er ástandið þó ekki óleysanlegt, sér í lagi í ljósi þess að Ríkissjóður er að mestu skuldlaus. Hins vegar eru nokkrir óvissuþættir í þessum þönkum sem ég hyggst telja upp.

  • Hlutfall skulda og eigna bankanna í erlendum gjaldeyri.
  • Gæði eignasafns bankanna er í þessum reikningum talið svipað og uppbygging S&P500, það er líklega ofmat á gæðum þeirra.
  • Erfiðleikar í sölu eigna og rýrnun á verðmæti vegna skyndisölu. Hér geri ég ráð fyrir 15% rýrnun sem er mjög bjartsýnt í ljósi tilboðs Green svo dæmi sé tekið.
  • Það er líklegt að landsframleiðsla dragist saman næstu árin og hagvöxtur verði neikvæður. Aukið atvinnuleysi og hrun ákveðinna atvinnugreina (svo sem fjármálageirans) kemur til með að hafa þar mikil áhrif.
  • Reyndar má ekki gleyma því að hluti bankatapsins lendir á eigendum peningamarkaðssjóða og annarra ótryggðra eigna, þannig að ekki er víst að allt lendi á ríkissjóði.

Niðurstaða mín er því sú að ef allt fer á allra besta veg og við gerum eignir upptækar, þá megi gera ráð fyrir að mismunur á eignum og skuldum bankanna sé neikvæður um 4.000 milljarða króna eða um það bil 3 föld verg landsframleiðsla. Fjölskyldan mín skuldar því rétt um 51 milljón króna í pakkanum.

VIÐBÓT:

Rétt er að taka fram hér að gjaldeyrisbreytan sem ég sleppi hér að ofan er mun veigameiri en ég vonaði. Mismunur eigna og skulda erlendis í mars síðastliðnum var a.m.k. 800 milljarðar króna. Að öðru óbreyttu þýðir það líklega skuldaaukningu upp á að minnsta kosti 600 milljarðar króna miðað við gengi krónunnar í dag. En ég hef hins vegar ekki nægar upplýsingar til að geta fullyrt nákvæmlega hvaða áhrif gengið hefur.

Með öðrum orðum. Þessi færsla snýst ekki um nákvæma útreikninga heldur stærðargráður skulda. Með nokkurri vissu má halda því fram að neikvæð staða bankanna þegar uppgjöri lýkur verði einhvers staðar á milli 4000 milljaða ef allt fer á besta veg og 8000 milljarða ef allt fer á versta veg.

Viðskipti með Landsbankann 3. október

Samkvæmt fjölmiðlum 3. október s.l. áttu sér stað óvenjumikil viðskipti með hluti í Landsbankanum. Hluti sem nokkrum dögum síðar urðu að fullu verðlausir. Hvort um tilviljun hafi verið að ræða eða ekki er í sjálfu sér erfitt að fullyrða, en hins vegar er umfang viðskiptana slíkt að það hlýtur að vekja athygli að enginn sem kom að þeim hafi verið tilkynningaskyldur. Í tilraun til að komast að hinu sanna í málinu, notaði einn heimildamaður minn Google og sá að á vefsíðunni björn.is hafði verið skrifað í gærkvöldi neðangreind setning: “Tilefni ræðu Kjartans var spurning um viðskipti með hlutabréf í Landsbanka Íslands föstudaginn 3. október.” Hér er augsýnilega verið að tala um ræðu Kjartans á miðstjórnarfundi Sjálfstæðisflokksins og fyrir óþjálfað auga virðist gefið í skin að Kjartan hafi haft einverja vitneskju um hvað gerðist 3. október. Hins vegar er það svo að þessari færslu Bjarnar hefur nú verið breytt og eina heimildin sem við höfum er “klipp” af google leitinni. Spurningunni er enn ósvarað. Hvað átti sér stað 3. október? Hver var það sem kom peningum sínum í öruggt skjól á kostnað skattgreiðenda? Svar óskast!

Picture 1

Hafnið þá aðgerðinni

Ef hluthafahópurinn er óánægður með að ríkið leysi bankann til sín, þá er um að gera fyrir þá að hafna aðgerðinni og redda þessu sjálfir. Að gera kröfu um að Seðlabankinn loki augunum og láni þeim peninga til að halda rekstrinum áfram og voni hið besta, er hrokafull afstaða manna sem eru ekki vanir að taka afleiðingum gjörða sinna. Continue reading Hafnið þá aðgerðinni

Sá hlær best sem síðast hlær

Í síðustu viku þegar ég mætti í frístundaknattspyrnuna hér í Bexleybæ, hugsuðu ýmsir liðsmenn mínir honum nágranna okkar Mike Hodge þegandi þörfina. Tveir liðsmenn höfðu enda pantað flug fyrir sig og fjölskylduna til Florida með Skybus og ljóst að sú pöntun var gagnslaus og framundan kærumál til kreditkortafyrirtækis til að fá endurgreiðslu. Mér varð að orði á vellinum að ég væri glaður hafa staðist freistinguna að panta Boston flugið mitt og minnar fjölskyldu hjá Mike, en ég hefði í stað þess kosið að notast við þjónustu Delta.

Það er vonandi að knattspyrnufélagar mínir hlæi ekki að mér næsta sunnudag, ef fara skyldi að Delta tæki upp á að skera niður ferðir. 

Predictably Irrational

Ein af grunnforsendum hagfræðinnar frá tíð Adam Smith hefur verið draumurinn um ósýnilegu höndina, markaðurinn myndi leiða okkur frá illu. Reyndar hafa stór högg verið hogginn í þessa hugmynd um að frjáls markaður leiddi til réttrar niðurstöðu, gott dæmi er leikjafræðin. Dan Ariely prófessor við MIT hefur nú gefið út bókina Predictably Irrational, Revised and Expanded Edition: The Hidden Forces That Shape Our Decisions þar sem hann færir rök fyrir því að hugmyndin um rational markað sé í raun irrational.

Í skemmtilegu viðtali á NPR.org í dag sagði hann frá skemmtilegum smárannsóknum sem hann gerði á börnum á Hallowen og benti á fjölmörg dæmi þess að markaðurinn væri gallaður, ekki bara þegar hann á ekki við, heldur jafnvel í verðlagningu á víni og súkkulaði.

Vandamálið?

Skil ég ekki örugglega rétt að REI-vandinn felist í þessari ákvörðun hér, sem gekk til baka 6. október eftir að hafa verið í gildi í 6 daga.

1. október 2007 – Samþykkt á fundi stjórnar REI að selja félagi í eigu starfsmanna OR og 17 tilgreindum starfsmönnum OR og REI nýtt hlutafé í félaginu. (Í stjórn REI voru/eru Bjarni Ármannsson, Haukur Leóson, Björn Ingi Hrafnsson)

3. október 2007 – Samþykkt á fundi stjórnar REI að breyta fyrri ákvörðun varðandi hlutafjárkaup tilgreindra starfsmanna eftir samráð og samþykki hlutaðeigandi. Tekin ný ákvörðun um sölu nýs hlutafjár til 11 starfsmanna OR og REI.

6. október 2007 – Á fundi í stjórn REI er gerir BÁ grein fyrir ósk borgarstjóra um að fallið verði frá sölu nýs hlutafjár til tilgreindra starfsmanna OR og REI. Tillaga flutt þar að lútandi og samþykkt.

Afsökunarbeiðni

Ég vil biðja landsmenn afsökunar á því að hafa fjórum sinnum á síðasta mánuði tekið stöðu gegn íslensku krónunni með verulegri sölu á krónum og kaupum á dollurum. Ég er meðvitaður um að ákvarðanir mínar hafa átt þátt í þessari veikingu krónunnar sem á sér stað núna.

Reyndar þykist ég hafa afsakanir fyrir hluta af þessum stöðutökum, bíllinn fór í viðgerð, ég keypti flugmiða heim um jólin fyrir fjölskylduna og þurfti að borga skólagjöldin hérna úti. En hluti af ákvörðunum mínum voru meðvitaðar tilraunir til að hagnast á athæfinu á kostnað náunga míns heima á Íslandi. Ég veit að þetta mun hugsanlega hafa áhrif á verðmæti húsnæðis ykkar sem búið á Íslandi, ég veit þið lendið hugsanlega í vandræðum með að borga af lánunum og þurfið jafnvel að selja hjólhýsið.

En lífið er hart, eins dauði er annars brauð. Hagnaður minn af þessum stöðutökum gerir mér mögulegt að njóta lífsins að fullu í stúdentaíbúðinni í Bexley, dóttir mín fékk nýjar stuttbuxur í gær og hver veit nema að strákurinn fái að fara í klippingu fyrir jólin.

Ef gengið gengur ekki til baka

Það virðist ljóst að ef lækkun krónunnar gengur ekki til baka á næstu 6 mánuðum, þá hefur fjölskyldan mín hagnast þónokkuð á síðustu gengisviðskiptum mínum, þeirri ákvörðun að flytja til BNA mun hærri upphæðir en áður. Reyndar virðist líklegt að lækkunin haldi áfram ef litið er til spámanna hins illa hjá Den Danske Bank, greiningardeildar Glitnis eða annarra sem hafa ofurvit á gengisþróun. Þannig að hagnaðurinn gæti aukist verulega. Ég reiknaði út áðan að hagnaður minn á gjaldeyrisviðskiptum í síðustu viku nemur verði á 8GB iPhone, eða svo við tölum í raunhæfari kostnaðarliðum, 40 máltíðum fyrir fjölskylduna á hinum virðulega skoska veitingastað McDonalds.

Annars reiknaði ég út fyrir nokkrum dögum að gengisþróun íslensku krónunnar og réttar ákvarðanir í tengslum við millifærslu fjármuna er spurning fyrir bókhald fjölskyldunnar um 20% af heildarveltu. Gengisþróun, vaxtastig á Íslandi og BNA, útborgunardagur námslána, greiðsludagur skólagjalda og ýmislegt fleira spila rullu í þessu happdrætti öllu.

Sveiflukennd króna

Þegar við bjuggum í Danmörku fyrir 7 árum voru tekjur mínar að mestu í íslenskum krónum og því fékk ég nokkurn áhuga á gjaldeyrisviðskiptum, enda gerðist það á þessum tíma að greiðslu seinkaði frá einum viðskiptavini mínum og þegar hún loksins barst, 1 og 1/2 mánuði of seint hafði kaupmáttur hennar í Kaupmannahöfn rýrnað um rúm 20%. Þetta var enda á þeim tíma sem $1 fór úr 75 krónum í 110 krónur á nokkrum mánuðum. Óstöðugleiki gengisins gerði okkur erfitt fyrir og fór svo að við fluttum heim í dýrtíðina og ég hætti gjaldeyrispælingum. Continue reading Sveiflukennd króna

Hvert fóru Actavis milljarðarnir?

Þar sem ég er áhugamaður um gengisþróun íslensku krónunnar gagnvart dollaranum, kalla þessar fréttir úr Kauphöllinni á faglegar útskýringar.

  1. Er það rétt skilið hjá mér að viðtakendur Actavis milljarðanna hafi ákveðið að fjárfesta ekki á Íslandi og markaðurinn sé að leiðrétta væntingar um kaup sem brugðust.
  2. Í tengslum við það hlýt ég líka að spyrja hvort það sé rétt hjá mér að gengi krónunnar sé að aðlagast þessum veruleika sem útskýri 5% lækkun krónunnar gagnvart dollaranum síðustu vikuna.
  3. Eitthvað hef ég heyrt um erfitt aðgengi að erlendum lánum, er það áhrifavaldur í þessari þróun núna, eða á það eftir að koma fram?
  4. Eða er eitthvað annað í gangi? 

 

Umhverfisvæni vatnsiðnaðurinn

ELCA og Lúterska heimssambandið (LWF) varpa fram spurningum um flöskuvatn (átappað vatn) í umræðum og í rituðu máli um þessar mundir. Þannig eru einstaklingar hvattir til að notast við kranavatn og endurnýtanlega vatnsbrúsa en hafna flöskuvatninu. Ástæður þessa áróðurs eru fjölmargar og áhugavert að nefna nokkrar hér. Continue reading Umhverfisvæni vatnsiðnaðurinn

Algjörlega til fyrirmyndar

Það er gleðilegt að þessi yngsti söfnuður landsins, í Þúsaldarsókn, skuli beita nútímaaðferðum við útboð og framkvæmd kirkjubyggingarinnar. Þessi vinnubrögð eru til eftirbreytni og gaman að heyra af þessari leið.

Upphaflega birt á halldorelias.blog.is sem viðbrögð við frétt á mbl.is.