Það var magnað að sjá hér í sjónvarpi innlegg Green Day og U2 í kvöld við enduropnun SuperDome í New Orleans. En Edge hefur tekið virkan þátt í uppbyggingu tónlistarlífs í borginni eftir flóðin í fyrra. Það er ekki minna magnað að sjá þetta þar sem ég stefni á að taka námskeið um hópslysaviðbrögð í New Orleans og taka þátt í enduruppbyggingarstarfi á svæðinu í tvær vikur á aðventunni.
Category: Íslenska
Ríkisstjórakosningar
Það er áhugavert að fylgjast með ríkisstjórakosningunum í ríkinu sem færði G.W. Bush forsetaembættið. Spilling innan Repúblikanaflokksins, óánægja með Íraksstríðið sem hefur kostað marga Ohio-drengi lífið, skólamál og erfitt efnahagsástand eru meginþættirnir í baráttunni. Það virðist einsýnt að Ted Strickland flytji til okkar í Bexley og verði nágranni okkar næstu árin. Aldrei að vita nema hann verði með í Bexley Rec Soccer League.
Það hlýtur bara að vera eitthvað að
Það hlýtur bara að vera eitthvað að
Ég hef ekki lesið greinina í heild í Morgunblaðinu í dag, enda hættur sem áskrifandi. Hins vegar er merkileg þessi fortíðarþrá, sem alltaf er hægt að koma að. Ég ítreka það sem ég hef sagt áður og kemur reyndar fram í þessum kynningarstubb. Samfélagsleg umgjörð fyrir börn á Íslandi er ein sú allra besta í gjörvallri veröldinni ef ekki sú besta. Ég vil bæta við þessu. Á síðustu 10 árum hafa flestir foreldrar náð að mynda djúp og vönduð tilfinningatengsl við börn sín. Mikilvægur þáttur í því en alls ekki sá eini er fæðingarorlofið. Að reyna að mæla þessi tengsl með skeiðklukku er með ólíkindum heimskuleg aðferð.
Næst er það ÍA og Keflavík
Nú þarf að stefna að því að fella ÍA og Keflavík úr efstu deild að ári og treysta á að Þróttur R og Fjölnir komi upp. Með því móti verður Kaplakriki eini sveitavöllurinn sem þarf að spila á. Reyndar má deila um Kópavogsliðin en það er samt eiginlega úthverfi.
Mathákur og vínsvelgur
Sat í fyrirlestri um “The Historical Jesus” rétt í þessu. Þar voru kynntar fyrir okkur á áhugaverðan hátt, rannsóknir sagnfræðinga á því hvaða staðreyndir um Jesús séu taldar sagnfræðilega gildar. Þar er notast við kríteríur eins og fjölbreytni heimilda, markmið frásagnar, málfar og umhverfi, samhengi við aðrar sagnfræðilegar gildar niðurstöður og loks hvort frásögn rýmar við heimsmynd í kjölfar upplýsingar.
Continue reading Mathákur og vínsvelgur
Hrós
Það er gaman að fá hrós, það gerist alltaf öðru hvoru að einhver sjái ástæðu til að þakka mér eitthvað sem ég hef skrifað. Þó það verði að segjast að oft tek ég frekar eftir skömmunum. En ég er að vinna í sjálfsmyndinni þannig að það lagast. Continue reading Hrós
Játning mín
Ég trúi því að Guð hafi skapað allt sem er. Guð sem skapar er alltaf með, líkt og er lýst í Sálmi 139. Guð sem ég trúi á er raunverulegur, persónulegur og býður okkur að eiga samskipti við sig. Guð kallar okkur til að vera hendur hans á jörðu, hefur gefið okkur frelsi til góðs og ills.
Ég trúi því að Jesús Kristur hafi verið sonur Guðs, Orð Guðs, manneskja og Guð. Ég trúi því að Jesús hafi verið krossfestur og ég trúi því að Jesús hafi risið upp frá dauðum. Ég trúi því að upprisa Jesú Krists sé megininntak trúar minnar og sé uppspretta þeirrar vonar og náðar sem stendur öllum til boða. Ég tek undir orð Páls postula að án upprisunar sé trúin ónýt.
Ég lít á hugtökin náð og von sem meginhugtök trúar minnar. Ég lifi í náð Guðs og þarf ekki að óttast neitt og lifi í von um að vilji Guðs, hið góða, fagra og fullkomna verði í lífi allra manneskja.
Ég trúi því að heilagur andi leiði okkur í lífinu, hjálpi okkur til að sjá vilja Guðs og kalli okkur til góðra verka.
Ég trúi á heilaga þrenningu sem birtingarmynd hins fullkomna samfélags, án þess þó að ég skilji hugtökin sem lýsa henni til fulls.
Ég horfi á Biblíuna sem vitnisburð um Orð Guðs, Jesús Krist. Ég veit að hún var skrifuð af manneskjum, en trúi því að þær hafi með hjálp heilags anda leitast við að birta í skrifum sínum sanna mynd af Guði.
Ég lít á sakramenti kirkjunnar, skírn og heilaga kvöldmáltíð sem bindandi fyrir manneskjur til að nálgast Guð. Ég hafna því um leið að athafnir fólks takmarki möguleika Guðs til að leiða fólk eftir sínum vilja.
Ég tel að við getum nálgast Guð og skynjað í náttúrunni, í bókmenntatextum, í tónlist, í hvers kyns helgihaldi, í íþróttum og hvar annars staðar þar sem við erum og förum. Um leið trúi ég því að aðeins fyrir upprisu Krists séum við fullkomlega frjáls.
Trú mín kallar mig til ábyrgðar á umhverfi mínu, náunga mínum, hverjum þeim sem ég mæti. Hún kallar mig til að leitast við að gera heiminn að betri stað, þar sem vilji Guðs ríkir.
Þessi trúarjátning er færð í orð, 17. september 2006. Hún er ekki endanleg enda eru ávallt takmörk á orðaðri trúarjátningu. Rétt er að taka fram að það er með vilja að ég opna ekki fyrir umræðu um þessa trúarjátningu. Ef vilji er til að ræða framsetningu slíkra játninga bendi ég á færsluna hér á undan, Uppgötvun um játningar. [BREYTT, kl. 23:30]
Uppgötvun um játningar
Eitt af því sem stundum er gert, t.d. í nýju fræðsluefni fyrir fermingarfræðslunámskeið í Vatnaskógi, er að fá einstaklinga til að orða eigin trúarjátningu. Spennandi leið til að fá fólk til að svara því á hvað þeir trúa. Þrátt fyrir að játningastöðin í messuratleiknum í Vatnaskógi sé að einhverju leiti mín hönnun, þá var ég að uppgötva í umræðum hér á vefnum að ég sjálfur hef aldrei skráð niður, alla vega hér á annálum mína eigin játningu.
- Hvað er það sem ég trúi á?
- Hverjar eru mínar dogmur?
Vangaveltur um stöðu Biblíunnar
Arnold heldur áfram að velta fyrir sér umræðum okkar á Vantrúarvefnum. Umræðurnar má sjá á annálnum mínum. Það er gaman að segja frá því að eitt verkefnanna sem ég á að skila á þriðjudaginn í skólanum hefur áhugaverðan snertipunkt við samræðurnar.
Continue reading Vangaveltur um stöðu Biblíunnar
Um færslur
Næstu mánuði mun það lita mjög færslur mínar hér á vefnum að ég er að hefja nám í Trinity Lutheran Seminary (TLS). TLS er fyrst og fremst prestaskóli sem er rekinn af ELCA. Eftir aðeins eina viku hér í skólanum hef ég fengið nýja sýn á ýmsar umræður sem ég hef tekið þátt í síðastliðinn ár hér á vefnum. Hvort ég næ að færa það allt til annáls er óvíst og reyndar ólíklegt, en vonandi á eitthvað af upplifunum mínum eftir að detta hér inn.
Rétt er að taka fram að ég er ekki í prestsnámi, enda offramboð af prestslærðum guðfræðingum á Íslandi.
Eðlisfræði er bara rugl
Þegar ég var í 6.-X í MR forðum, þá var ég duglegur að halda því á lofti að eðlisfræði væri bara rugl, endalausar nálganir að sannleikanum en engin raunveruleg svör. Það væri sko annað með stærðfræði. Þar væri glímt við endanlegan sannleika, ekkert hálfkák og um það bil vísindi. Þegar ég hætti svo í stærðfræði í HÍ eftir nokkra mánuði og fór í Guðfræðideildina var ég óþreytandi við að benda á að þetta væri ekki jafn stór umskipti og margir teldu. Munurinn á stærðfræði og guðfræði væri ekki svo mikill.
Helgihald
Á hverjum virkum degi kl. 10:00 er helgihald í Gloria Dei worship center í Trinity Lutheran Seminary. Ég sé ekki fyrir mér að mæta þar daglega, heldur miða við að taka þátt í messunni á miðvikudögum og hugsanlega Taize-stundum á fimmtudögum. Ég ákvað þó sem nýnemi að mæta í gær, enda fyrsta formlega helgistundin á nýju misseri og síðan mætti ég líka í dag.
Continue reading Helgihald
Fyrsti tíminn í Hebrew Scripture/Old Testament
Í dag var fyrsti tíminn í Gamla Testamentisfræðum, sem auðvitað heita ekki Gamla Testamentisfræði hér í BNA, þar sem ekki allir líta á að til sé gilt Nýja Testamenti. Mér sýnist að Biblíukrítíkin standi hér sterkari fótum en hún gerði forðum í guðfræðideildinni. Ég kláraði enda fyrir tíð Jóns Ma. Hins vegar rakst ég á bloggfærslu í kvöld sem mér sýnist að gæti orðið hjálpleg.
Spennandi vetur framundan
Nú er aðlögun minni að Trinity Lutheran Seminary lokið og námið hefst á mánudaginn. Framundan eru spennandi verkefni og ljóst að margt verður öðruvísi þegar við öll fjölskyldan er byrjuð í skóla.
Continue reading Spennandi vetur framundan
Umræður um guðfræði
Ég átti í morgun ágætt netspjall við Arnold á vefsíðunni Vantru.is. Þar sem textarnir mínur voru í lengra lagi og taka að mínu mati á áhugaverðum vangaveltum. Þá ætla ég að halda mínum hluta þeirra til haga hér á annálnum mínum, ég sleppi þó minna gagnlegum athugasemdum. Umræður okkar í heild sinni tilheyra svarhalanum við greinina Nei, Örn Bárður, þróunarkenningin er ekki tilgáta. Innlegg Arnolds eru inndreginn.
Þáttur kristinna í morðunum í Rúanda
Dr. John Karanja prófessor í kirkjusögu við Trinity Lutheran Seminary, prédikaði við helgihald í morgun út frá Markúsarguðspjalli 7. kafla. Meðan þess sem hann stiklaði á voru vangaveltur um samspil orðs og anda, venjur, hefðir og bókstafstrú. Eitt af því sem hann reifaði í prédikun sinni var þáttur kristinna leiðtoga og leikmanna í þjóðarmorðunum í Rúanda. Ég hafði ekki heyrt um tengsl kirkjunnar við atburðina í Rúanda áður á þennan hátt og því vöktu þau nokkra athygli mína.
Stórþjóðin Íslendingar
Það er með ólíkindum hvað er hægt að flækja hlutina. Á Ísafirði búa innan við 5000 manns með fjöll á alla vegu, sveigjanleikastuðull í slíku samfélagi gagnvart þeim sem búa þar ætti að geta verið mjög mikill. Sérstaklega þegar kemur að börnum og skólanámi. Hvers vegna er ekki hægt að notfæra sér aðstæður börnunum í hag.
Viðbrögð við gagnrýni
Í kjölfar færslunnar minnar Vantrú skv. kenningum um jaðarhópa birtust á Vantrúarvefnum ágæt viðbrögð við henni undir yfirskriftinni Feilskot djáknans. Hér fyrir neðan er svar mitt við þeirri grein. En svarið birtist upphaflega sem ummæli á Vantrúarvefnum.
Sjálfshatur
Sá ágæti kvikmyndahópur HOME hér í Columbus sá saman í kvöld kvikmyndina The Believer (2001). Myndin tekur á áhugaverðan hátt á sjálfshatri, en í uppgjöri við sjálfan sig og uppeldi sitt gerist ungur gyðingur ný-nasisti. Með því móti leitast við að hafna bakgrunni sínum en lendir um leið í því að hata sjálfan sig og það sem hann í raun er.
Continue reading Sjálfshatur
Vandi stjórnsýsluprestsins
Í nýjasta tímariti Trinity Seminary Review fjallar Dr. Brad A. Binau um þann vanda sem fylgir stjórnsýsluhluta (administrative) prestsstarfsins. Viðfangsefnið er nálgast út frá sálgæslunni og velt upp samspili skammar (shame) og stress í starfi prestsins vegna þeirra hluta sem eru í raun for-þjónusta (ad-ministry / pre-ministry) og taka upp stóran hluta af starfi prestsins og koma þannig í veg fyrir að hann geti sinnt köllun sinni.
Dr. Binau talar um að stjórnsýsluhluti preststarfsins hafi tilhneigingu til að verða vélræn í stað þess að vera lifandi og auki þannig vanlíðan prestsins sem finnst hann ekki ná að sinna starfi sínu. Í greininni tekur hann sérstaklega fram að hann sé ekki að reyna að útskýra þá tilhneigingu enda sé það ekki á sínu fræðisviði. En hvað um það, áhugaverð grein sem ég mun skoða nánar við tækifæri.