Viðbrögð við gagnrýni

Í kjölfar færslunnar minnar Vantrú skv. kenningum um jaðarhópa birtust á Vantrúarvefnum ágæt viðbrögð við henni undir yfirskriftinni Feilskot djáknans. Hér fyrir neðan er svar mitt við þeirri grein. En svarið birtist upphaflega sem ummæli á Vantrúarvefnum.

Þakka ykkur fyrir ágæta gagnrýni á grein mína. Sem ég viðurkenni að hafi verið að mörgu leiti kæruleysislega unnin. Til að einfalda umræðuna þá held ég því EKKI fram í grein minni að þið séuð á móti kristinfræðikennslu enda veit ég betur. Þannig að segja má að við séum sammála um re-active þáttinn nema hvað þið teljið að mér hafi orðið á þegar ég benti á harkalegar deilur ykkar við annan trúleysingja. Það má vera að þarna hafi ég lesið meira í þær deilur en ástæða var til. Ég sé þó ekki að svo sé.

Þá langar mig strax í upphafi að nefna það að ekkert neikvætt felst í sjálfu sér í þeim þáttum sem einkenna jaðarhópa skv. skilgreiningum þeim sem ég notast við. Þegar þessir fimm þættir koma hins vegar saman og eiga allir við á sama tíma, er ástæða til að hafa varann á að mati R. Scott Appleby og Martin E Marty. Reyndar bendir katólikkinn Dr. Appleby á að allir þessir þættir eigi við um starf Móður Teresu á Indlandi, þannig að e.t.v. er ekki leiðum að líkjast eða hvað?

Ég aðhyllist algildan sannleik líkt og þið. En eins og þið segið, hann birtist okkur með ólíkum hætti. Ég tek undir með ykkur um ykkur um að fjölmargir hópar eru “re-active” og það er frábært. Aðrir hópar eiga í sífelldri baráttu. Ég myndi reyndar ekki setja Þjóðdansafélagið undir þann hatt, en ég hef svo sem aldrei lent í þeim.

Tvíhyggjan er erfiður þáttur. Ég skil hugmyndir um tvíhyggju mjög trúarlegum skilningi og vísa þar í hugmyndir Plató. Slíkri tvíhyggju sýnist mér að þið hafnið. Sú félagslega tvíhyggja sem þið játið fellur þó hugsanlega undir þennan hátt eins og ég velti upp og Carlos ýjar að í ummælum, en ég vil samt láta það liggja á milli hluta. Það er enda rétt hjá ykkur að við höfum öll þessa þörf fyrir félagslega tvíhyggju og skilgreinum öll milli okkar og hinna. Ég bendi enda á það í lok greinarinnar að höfnun ykkar á tvíhyggju í anda Plató bendi til þess að þið fallið EKKI undir skilgreiningar R. Scott Appleby og Martin E. Marty.

Niðurstaða greinar minnar var því í upphafi og er enn að vegna höfnunar ykkar á tvíhyggju í anda Plató séuð þið ekki slíkur hópur sem Dr. Appleby og dr. Marty fjalla um. Hins vegar gerði ég það af skömm minni með vísan til þess að þið uppfylltuð aðra þætti greiningarinnar að þið væruð augljóslega cult og vísa þar til skilgreiningar sem má finna á Wikipedia.

cohesive group of people (often a relatively small and recently founded religious movement) devoted to beliefs or practices that the surrounding culture or society considers to be far outside the mainstream.

Það var ekki faglegt og enn síður fallegt af mér, en ég hef svo sem séð ljótari hluti sagða. 🙂

Enn þá að megingagnrýni ykkar. Þannig er fullyrðing mín um valkvæðni sú sem er gagnrýniverðust. Það er um margt skiljanlegt að ykkur finnist slík stimplun neikvæð. Hins vegar stend ég enn við þá staðreynd að þið einblínið á texta Lúthers en hafnið t.d. ofurmennskuhugmyndum Nietzsche í tengslum við ofsóknir nasista. Það er skoðun sem þið megið hafa en gefur í skin valkvæðni.

Fullyrðingar um að WTC stæði ennþá ef ekki væri fyrir trúarbrögð gefur líka í skin að ójöfnuður og ofbeldi sé því sem næst einvörðungu fylgifiskur trúarbragða. Ég veit að þið teljið að hér sé of mikið lesið inn í orð Dawkins og vera má að svo sé. Hins vegar einblínið þið í skrifum ykkar á Vantrú á þennan þátt ofbeldis en látið liggja milli hluta í skrifum ykkar félagslegt óréttlæti og misskiptingu. Þessi nálgun er valkvæð nálgun á umfjöllun um ofbeldi.

Ég biðst afsökunar á að hafa snúið út úr orðum Matta. Ástæða þess að ég horfi jafn mikið til hans skrifa og raun ber vitni, er að ég les samviskusamlega hverja þá færslu sem hann skrifar. Enda eru vangaveltur hans oft áhugaverðar og spennandi, auk þess veruleiki hans rýmar skemmtilega við veruleika minn (burtséð frá trúarskoðunum, en meira að segja samsama ég mig við ýmislegt í trúarlegri umfjöllun hans).

Ég er ósammála ykkur í nálgun ykkar að guðfræði og stend við þau orð mín. Enda byggir öll fræðileg nálgun á framsetningu tilgátna sem síðan eru rannsakaðar. Þeim tilgátum haldið sem standast rannsókn, öðrum hafnað. Slíkar aðferðir eiga allt eins við um guðfræði og aðrar fræðigreinar.

Þannig að með nokkru sanni má segja að fullyrðing mín um valkvæðni sé ekki byggð gífurlega sterkum rökum, en þó er í grein ykkar hér að ofan sterk vísun til nefndrar valkvæðni þó á öðru sviði sé.

En það breytir því ekki að við gagnrýnum ekki þá trúleysingja sem vilja beita öðrum aðferðum en við.

Já og það sem ég gleymdi. Í umfjöllun minni um algildan sannleika er ég ónákvæmur í nálgun minni. Enda er alls ekki rétt að segja að þið séuð bókstafstrúar. Þið hins vegar gerið þá kröfu til þeirra sem trúa og gerið lítið úr þeim sem eru það ekki. Þið gefið í skin að þeir séu óheiðarlegir og á flótta. Til að sjá dæmi um þetta má fletta upp hugtakinu grænsápuguðfræði á vefnum.

(Upphaflega birt sem ummæli á Vantrú.is)