Játning mín

Ég trúi því að Guð hafi skapað allt sem er. Guð sem skapar er alltaf með, líkt og er lýst í Sálmi 139. Guð sem ég trúi á er raunverulegur, persónulegur og býður okkur að eiga samskipti við sig. Guð kallar okkur til að vera hendur hans á jörðu, hefur gefið okkur frelsi til góðs og ills.

Ég trúi því að Jesús Kristur hafi verið sonur Guðs, Orð Guðs, manneskja og Guð. Ég trúi því að Jesús hafi verið krossfestur og ég trúi því að Jesús hafi risið upp frá dauðum. Ég trúi því að upprisa Jesú Krists sé megininntak trúar minnar og sé uppspretta þeirrar vonar og náðar sem stendur öllum til boða. Ég tek undir orð Páls postula að án upprisunar sé trúin ónýt.

Ég lít á hugtökin náð og von sem meginhugtök trúar minnar. Ég lifi í náð Guðs og þarf ekki að óttast neitt og lifi í von um að vilji Guðs, hið góða, fagra og fullkomna verði í lífi allra manneskja.

Ég trúi því að heilagur andi leiði okkur í lífinu, hjálpi okkur til að sjá vilja Guðs og kalli okkur til góðra verka.

Ég trúi á heilaga þrenningu sem birtingarmynd hins fullkomna samfélags, án þess þó að ég skilji hugtökin sem lýsa henni til fulls.

Ég horfi á Biblíuna sem vitnisburð um Orð Guðs, Jesús Krist. Ég veit að hún var skrifuð af manneskjum, en trúi því að þær hafi með hjálp heilags anda leitast við að birta í skrifum sínum sanna mynd af Guði.

Ég lít á sakramenti kirkjunnar, skírn og heilaga kvöldmáltíð sem bindandi fyrir manneskjur til að nálgast Guð. Ég hafna því um leið að athafnir fólks takmarki möguleika Guðs til að leiða fólk eftir sínum vilja.

Ég tel að við getum nálgast Guð og skynjað í náttúrunni, í bókmenntatextum, í tónlist, í hvers kyns helgihaldi, í íþróttum og hvar annars staðar þar sem við erum og förum. Um leið trúi ég því að aðeins fyrir upprisu Krists séum við fullkomlega frjáls.

Trú mín kallar mig til ábyrgðar á umhverfi mínu, náunga mínum, hverjum þeim sem ég mæti. Hún kallar mig til að leitast við að gera heiminn að betri stað, þar sem vilji Guðs ríkir.

Þessi trúarjátning er færð í orð, 17. september 2006. Hún er ekki endanleg enda eru ávallt takmörk á orðaðri trúarjátningu. Rétt er að taka fram að það er með vilja að ég opna ekki fyrir umræðu um þessa trúarjátningu. Ef vilji er til að ræða framsetningu slíkra játninga bendi ég á færsluna hér á undan, Uppgötvun um játningar. [BREYTT, kl. 23:30]

One thought on “Játning mín”

Comments are closed.