Eðlisfræði er bara rugl

Þegar ég var í 6.-X í MR forðum, þá var ég duglegur að halda því á lofti að eðlisfræði væri bara rugl, endalausar nálganir að sannleikanum en engin raunveruleg svör. Það væri sko annað með stærðfræði. Þar væri glímt við endanlegan sannleika, ekkert hálfkák og um það bil vísindi. Þegar ég hætti svo í stærðfræði í HÍ eftir nokkra mánuði og fór í Guðfræðideildina var ég óþreytandi við að benda á að þetta væri ekki jafn stór umskipti og margir teldu. Munurinn á stærðfræði og guðfræði væri ekki svo mikill.

Þessir þankar komu upp í hugann í vikunni þar sem ég sat í inngangskúrsi hér í Trinity Lutheran. Kennarinn ræddi þar um muninn á heimsýn Plato og lærisveins hans Aristotelesar og viðhorfum þeirra til hins endanlega sannleika. Í máli hans notaðist hann m.a. við frumsendur Evklíðs og benti á muninn á nálgun þessara tveggja heimspekinga. Nú má vel vera að vegna aldurs, þroskaskorts eða einfaldlega leti (ekki mætt í tíma) hafi ég misst af þessari umfjöllun heima á Íslandi.
Það er gaman að segja frá því að nálgunin hér, opnaði augu mín fyrir því hversu kómískar umræðurnar hér á vefnum eru oft í raun. Meðan sumir aðhyllast nálganir Aristotelesar að vísindalegri leit, þá er þeim svarað með vísunum í frumsenduhugsun Plató og hún í raun gerð að forsendu í nálgun Aristótelesar. Eitthvað sem Aristóteles myndi e.t.v. ekki hafna en myndi láta liggja milli hluta. Þannig verður umræðan, sem auðvitað skortir innsæi í deilur Grikkjanna, ekkert annað en endalaus borðtennisleikur sem endar ekki öðruvísi en með því að annar leggi niður spaðann og gangi burt, nú eða það sem oftar gerist. Í stað þess að reyna að hala inn stig, þá taki annar af keppendunum sig til og slái kúluna beint í andlit andstæðingsins í von um að hann vankist og geti ekki svarað fyrir sig í framhaldinu.