Kirkjan uppfærð í samræmi við gildandi lög

Ákvörðun Kirkjuþings um málefni samkynhneigðra færir kirkjuna á par við núgildandi lög í landinu. Kirkjan gengur inn í það fyrirkomulag sem ríkir um staðfesta samvist og “óskar” eftir heimild fyrir þá sem eru vígslumenn að lögum til að staðfesta samvist. Jafnframt stendur kirkjuþing áfram við hefðbundin skilning á hjónabandinu sem sáttmála karls og konu.

Allt orðalag og sér í lagi framsetning á tillögunum hefur verið milduð. Þannig er ekki lengur talað um ályktun um hjónabandið líkt og þegar málið var lagt fram. Eins hefur hugtakið vígslumenn verið sett inn í tillöguna til að mynda hugrenningatengsl við vígslu staðfestrar samvistar þó það sé ekki sagt berum orðum.  Þá er áherslan á heimildarákvæði veikari enn áður, ekki er talað um samviskufrelsi presta til að neita um athöfn en á móti lögð áhersla á að frelsi presta sé virt.

Vangaveltur sem vakna við lestur þessara breytinga og við þessa samþykkt eru nokkrar:

  • Ef frumvarp VG um ein hjúskaparlög nær fram að ganga, er ljóst að málið þarf að fara aftur fyrir Kirkjuþing vegna orðalagsins í þessari samþykkt.
  • Það virðist augljóst að hugtakið vígslumenn er sett inn til að mynda hugrenningatengsl við vígslu. Hvernig tókst fylgismönnum réttinda samkynhneigðra að fá kirkjuþingsmenn til að samþykkja það?
  • Hvers vegna er ekkert um form helgihalds samþykkt, en það var hluti af 15. máli. Nú þegar ný helgisiðahandbók er væntanleg má ekki seinna vænna að ganga frá formi fyrir athafnir, ef ekki á einfaldlega að notast við hjónavígsluformið.
  • Hvaða hugmyndir eru uppi um hvernig virða á frelsi presta? Þetta er augljóslega gert til að friða presta sem vilja ekkert með samkynhneigða hafa, en hefur þetta einhverja raunverulega merkingu. Hafa prestar frelsi til að neyta einhverjum um fyrirbæn?
  • Hér má segja að skrefið sé stigið til fulls guðfræðilega til jafnrar stöðu gagn- og samkynhneigðra innan kirkjunnar. Boltanum er rúllað yfir til löggjafans að stíga næsta skref, veita vígslumönnum rétt til staðfestingar samvistar og hugsanlega kalla eftir einum hjúskaparlögum.
  • Hvernig tekst kirkjunni að spila úr þessari ákvörðun? Ég verð að viðurkenna að ég efast um að það takist vel. Kirkjan tapaði fyrir löngu síðan allri PR-vinnu vegna þessara mála og ég fæ ekki séð að það breytist núna. En hver veit?

Á hálum ís

Það er áhugavert hvernig sjálfskipaðir fræðimenn í koine-grísku hafa nýtt tækifærið til að koma visku sinni á framfæri síðustu sólarhringana. Það á sér í lagi við þá sem hafa sterkar skoðanir á þýðingu orðsins Arsenokoitoi og telja að hin eina rétta guðdómlega þýðing feli í sér fordæmingu samkynhneigðra. Continue reading Á hálum ís

Sérverkefni

Á hverju ári tek ég ákvörðun um að draga úr sérverkefnavinnu, sér í lagi á sviði umbrots og hönnunar, en á hverju ári segi ég samt já við fleiri verkefnum en e.t.v. ég ætti að gera. Ein af ástæðum já-anna er að þeir sem leita til mín eru oft að gera svo frábæra hluti að mér finnst gaman að fá að taka þátt. Þar eru Skyrgámur og Jól í skókassa auðvitað í sérflokki enda lít ég á þátttöku í þeim verkefnum sem framlag mitt til betri heims, en ekki er síður gaman að fá að setja mark á Landsmót kirkjunnar á Hvammstanga, skrifa greinargerðir um kirkjuleg málefni, hanna merki fyrir æskulýðsmót, taka þátt í vefmótun frjálsra félagasamtaka eða viðhalda útliti og sjá um hönnun fréttabréfs Grensássafnaðar.

Öll þessi verkefni gera mér mögulegt að hlera hvað er í gangi heima, um leið og ég get réttlætt fyrir sjálfum mér og konunni að ég þurfi að eiga MacBook og viðeigandi hugbúnað. Þegar ég fór að atast í svona verkefnum fyrir rúmum 10-12 árum, þá man ég að mörkin fyrir vsk-skyldan rekstur var í 180.000 krónum og ég reyndi að miða við að halda verkefnatekjum neðan þess ramma. Reyndar var ég um tíma með vsk-númer enda starfaði ég freelance í rúmt ár og verkefnatekjurnar þurftu að duga fyrir meiru en viðhaldi hug- og vélbúnaðar.

Upp á síðkastið hafa dottið inn nokkur verkefni sem eru spennandi eða gætu orðið það og því ákvað ég að fletta upp vsk-mörkunum fyrir einstaklinga. Það er af sem áður var. Nú eru vsk-mörkin orðin 500.000 krónur og ljóst að lítil hætta er á að ég ögri þeim að ráði verandi í námi í BNA.

Hvar er kiljan?

Biblían er ein af þessum bókum sem ég nota nokkuð og  því spennandi að ný íslensk þýðing sé komin út. Hins vegar hef ég ótrúlega litla þörf fyrir að fá ritið í glæsilegu leðurbandi eða með flauelsáferð. Þannig á ég mjög flott eintak af gömlu þýðingunni í mjúku leðurbandi sem ég nota aldrei, en ódýra harðspjalda Biblían mín er hins vegar útkrotuð, hefur komist í kynni við polla og rigningu og stendur fyrir sínu. Eins er NRSV þýðingin í kilju það sem notast er við hér þegar leita þarf í ensku þýðinguna.

Ég spyr því hvers vegna ekki er boðið upp á létta og netta kilju við útgáfu nýrrar Biblíu. Er hugmyndin e.t.v. sú að fyrst sé boðið upp á Biblíur fína fólksins og fermingarbarna og síðan eftir ár eða svo boðið upp á Biblíur til almenningsbrúks?

R.E.M.

Fyrir nokkrum árum líklega þegar ég vann hjá ÆSKR, hlustaði ég stöðuglega á R.E.M. til að slaka á og í bílnum. Ég glataði einhvers staðar uppáhaldsdisknum mínum með þeim, hugsanlega er hann ennþá í diskageymslunni á skrifstofu ÆSKR ég veit ekki

Hins vegar hljómuðu R.E.M. liðar rétt í þessu í hljóðkerfinu hér á COSI-café og mér leið strax miklu betur þrátt fyrir að þurfa að skila ritgerð eftir 3 1/2 tíma sem ég er enn að bisa við og eigi að fara í próf eftir 5 tíma. Ég ætti e.t.v. að fjárfesta í nýjum disk í stað þess týnda.

Afkast ritgerðar

Þar sem ég sit og skrifa ritgerð í “Theology and Human Sexuality”, sé ég að á glósublaði sem ég hafði krotað á þegar ég var að undirbúa ritgerðina hef ég skrifað texta á íslensku. Þar sem ég mun ekki notast við hann í ritgerðinni, þá ætla ég að setja hann hér.

Orðsifjafræði er ekki verkefni KIRKJUNNAR. Ef hjónabandið er ekki sakramenti heldur fyrirbæn og blessunarathöfn á kirkjan ekki að vera að eyða tíma og púðri í að ræða merkingu orðsins hjón. Það skiptir einfaldlega ekki máli.

Vandamálið?

Skil ég ekki örugglega rétt að REI-vandinn felist í þessari ákvörðun hér, sem gekk til baka 6. október eftir að hafa verið í gildi í 6 daga.

1. október 2007 – Samþykkt á fundi stjórnar REI að selja félagi í eigu starfsmanna OR og 17 tilgreindum starfsmönnum OR og REI nýtt hlutafé í félaginu. (Í stjórn REI voru/eru Bjarni Ármannsson, Haukur Leóson, Björn Ingi Hrafnsson)

3. október 2007 – Samþykkt á fundi stjórnar REI að breyta fyrri ákvörðun varðandi hlutafjárkaup tilgreindra starfsmanna eftir samráð og samþykki hlutaðeigandi. Tekin ný ákvörðun um sölu nýs hlutafjár til 11 starfsmanna OR og REI.

6. október 2007 – Á fundi í stjórn REI er gerir BÁ grein fyrir ósk borgarstjóra um að fallið verði frá sölu nýs hlutafjár til tilgreindra starfsmanna OR og REI. Tillaga flutt þar að lútandi og samþykkt.

Grundvallarspurning

Í öllum látunum um REI og OR og Rvk virðist sem grundvallarspurning hafi gleymst. Hvers vegna í ósköpunum hefur Orkuveita Reykjavíkur svona gífurlega mikið fjármagn úr að spila? Ef hagnaður og aukageta fyrirtækisins er svona gífurleg, er ekki rétt að láta viðskiptavini njóta þess?

Minnismerkjasmíði, risarækjueldi og orkuveitur erlendis eru varla kjarnastarfsemi fyrirtækis í almannaeigu sem hefur það að markmiði að útvega almenningi ódýra orku. E.t.v. eru hugmyndir um að selja útrásina og samningur um að OR eigi að halda sig frá útlöndum ekki alskostar vitlausar.

Hugsanlega er besta lausnin að selja Hannesi og Bjarna útrásareinkaleyfið, og snúa sér að því að þjónusta borgarbúa.

Snilld

Þegar ég var búin að pirra mig á því í rúman klukkutíma að ABC-6 væri að sýna USC-Washington á PrimeTime en ekki OSU-Minnesota, uppgötvaði ég espn360.com. En þar sem við erum með nettenginguna hjá AT&T er hægt að horfa á útsendingu ESPN á fjölmörgum íþróttaviðburðum á netinu. Þannig er HM í knattspyrnu kvenna snemma í fyrramálið og síðan get ég valið um alla helstu leikina í meistaradeildinni í beinni á þriðjudag og miðvikudag.

Meira að segja er hægt að streyma allt að 5 leiki í minni gæðum í smámynd meðan horft er á 6 leikinn. Enn ein frábær ástæða fyrir að hafa ekki kapal. Nú get ég lagst upp í rúm og horft á OSU valta yfir Minnesota.

Annars er ABC með alla framhaldsþætti á vefnum, NBC býður upp á svipaða þjónustu og Comedy Central einnig (Jon Stewart).

Staða konunar sem táknmynd

Það er áhugavert í umfjöllun um þjóðfélagsbreytingar hvernig ákveðnir hópar, s.s. kristnir sköpunarsinnar í BNA, fundamental múslimar, nasistar og á ákveðnu tímabili kommúnistar í Sovét, fjarlægja konuna af hinu opinbera sviði og gera hana að musteri menningar og táknmynd þess eina rétta. Þannig verður það skylda konunnar og hlutverk að fæða og uppfræða sín eigin börn og vera táknmynd þess hreina, t.d. í klæðaburði og atferli. Allt sjálfstæði og sjálfsákvörðunarréttur er fjarlægt og konan verður viðfang heimilisfólks síns.

Launamunur kynjanna

Ég sit og les um kynlífssið- og guðfræði hjá múslímum og hvernig félagslegt umhverfi mótar trúarskoðanir á því sviði. Mér flaug af þeim sökum í hug hvers vegna til sé hópur fólks í vestrænu samfélagi eins og Íslandi, sem telur það skyldu sína að berjast gegn umræðu um launamun kynjanna. Þegar fréttir og umfjöllun birtist um launamun kynjanna, sem reyndar eru misvandaðar, þá er alltaf hópur sem kemur fram og segir launamuninn minni en rannsóknir sýna, telja að þetta sé heimskulegt umræðuefni og virðast trúa því að ástandið sé besta ástand allra tíma.

Á sama hátt virðist til hópar sem berjast gegn umhverfisvernd, aðallega með því að ráðast að þeim persónum sem hafa slegið sig til riddara á því sviði. En umhverfisverndin er reyndar útúrdúr.

En launamunur kynjanna er merkilegur veruleiki sem er til staðar hvort sem hann er 13% eða 30%. Ætli hópurinn sem berst gegn umræðunni trúi því að 13% munurinn sé líffræðilegur?

Skeifan

osu horseshoe

Ég og Jenný keyptum ársmiða á leiki OSU í Skeifunni (The Horse Shoe) á þessu ári. Við fórum á fyrsta leikinn í dag ásamt rúmlega 100.000 öðrum íbúum Mið-Ohio, en OSU valtaði yfir NorthWestern frá Illinios 58-7. Útsýnið úr sætunum myndaðist svona með símamyndavélinni minni.

Ágreiningur

Í greinargerð aðgerðahóps í málefnum samkynhneigðra í ELCA er mikilvæg athugasemd sem við gleymum oft.

… participants in this debate are disagreeing not out of pride or selfish desires, but because their consciences are bound to particular interpretations of Scripture and tradition.

Hugbúnaðarbreytingar

Í gær eyddi ég síðasta forritinu af tölvunni minni sem ekki uppfyllti skilyrðið að vera annað tveggja FreeWare eða keypt. Ef til vill er ekki við hæfi að viðurkenna að hafa um 22 ára skeið notast við hugbúnað sem er ekki að fullu í samræmi við reglur, en ég vona að mér verði fyrirgefið enda búin að greiða Adobe það sem Adobe ber.

Microsoft fékk meira en þeir áttu skilið fyrir mörgum árum.

Að selja sál sína

Eins og Mr. Moore bendir réttilega á virðist Hillary Rodham Clinton hafa selt sál sína, enda er forsetastóllinn í BNA í boði. Hugmyndir HRC ganga út á það að skylda alla íbúa BNA til að kaupa sjúkratryggingu á frjálsum markaði og niðurgreiða tryggingar þeirra sem skortir til þess fé. Þannig fitna tryggingafyrirtækin enda öllum íbúum ríkisins skylt að borga þeim stórfé og þess utan mun ríkistjórnin í BNA leggja fé til þessara fyrirtækja. Í landi þar sem eftirlitsstofnanir eru litnar hornauga, mun þetta hugsanlega leiða til stórhagnaðar tryggingafyrirtækja á kostnað þjónustu og kostnaður ríkisvaldsins mun rjúka upp úr öllu valdi.

Það er einfaldlega svo að einkavædd skyldusjúkratrygging gengur ekki upp, ef hugmyndin er að sjúklingar njóti vafans/öryggis. Það þarf ekki nema eitt námskeið í hagfræði til að sjá að markaðsbrestir þegar kemur að sjúkratryggingum eru svo verulegir að einvörðungu ríkisvaldið ræður við að tryggja þegna sína. 

Nýr hugbúnaður

Í dag kom staðfesting á því að ég fæ Adobe Creative Suite Design Standard á stúdentaverði, en ég hef stefnt að því að endurnýja skjáborðsuppsetningarbúnaðinn í tölvunni hjá mér í þónokkurn tíma. En það liggur fyrir að í næstu viku fæ ég send

InDesign CS3

Photoshop CS3

Illustrator CS3

Acrobat 8 Professional

Þá verður allt gott!