Afkast ritgerðar

Þar sem ég sit og skrifa ritgerð í “Theology and Human Sexuality”, sé ég að á glósublaði sem ég hafði krotað á þegar ég var að undirbúa ritgerðina hef ég skrifað texta á íslensku. Þar sem ég mun ekki notast við hann í ritgerðinni, þá ætla ég að setja hann hér.

Orðsifjafræði er ekki verkefni KIRKJUNNAR. Ef hjónabandið er ekki sakramenti heldur fyrirbæn og blessunarathöfn á kirkjan ekki að vera að eyða tíma og púðri í að ræða merkingu orðsins hjón. Það skiptir einfaldlega ekki máli.

5 thoughts on “Afkast ritgerðar”

  1. Já, þetta er afskaplega undarlegt. Kirkjuráð virðist vera sátt við að hjónaband og staðfest samvist hafi nákvæmlega stöðu að öllu leyti, nema að það megi alls ekki kalla staðfesta samvist hjónaband.

  2. Rétt Hjalti, en hjónaband og staðfest samvist hefur ekki algerlega sömu réttarstöðu á meðan að tvenn lög gilda um þessi fyrirbæri. Kirkjan er afskaplega skrýtin skrúfa í þessu, þar sem hún vill frekar hengja sig í orðið og formið en innihaldið af því.

    Að sama skapi er ég ósammála þér Elli, þar sem að orð eru afar máttug, og táknrænar athafnir ennþá megnugri. Ef kirkjan kallar annað blessun en hitt vígslu þá mismunar hún á grundvelli forms og yfirborðsþjónkunar við hefðir, sem löngu er búið að útvatna.

  3. >Rétt Hjalti, en hjónaband og staðfest samvist hefur ekki algerlega sömu réttarstöðu á meðan að tvenn lög gilda um þessi fyrirbæri.

    Er ekki eini munurinn sá að forstöðumenn trúfélaga mega ‘stofna til’ hjónabands en ekki staðfestrar samvistar? Ef því yrði breytt þá myndi ég segja að það væri algerlega sama réttarstaðan, þó svo að það væri tvenn lög um þessi fyrirbæri.

    En þegar þetta tvennt fær nákvæmlega sömu réttarstöðuna, þá verður út í hött að hafa tvenn lög. Þá verður örugglega krafist þess að hjónaband verði samband tveggja fullorðinna einstaklinga. Og þá verður Þjóðkirkjan aftur komin í klípu.

    Einfaldast væri auðvitað fyrir kirkjuna um að vígslurétturinn verði tekinn frá henni, en af einhverjum óskiljanlegum ástæðum virðast ekki margir innan kirkjunnar vilja það.

    Annars verður gaman að fylgjast með þessu máli á Kirkjuþingi. Eru þetta þeir sem hafa kosningarétt á þinginu?

  4. LEIÐRÉTT: Það sem ég er að leitast við að benda á Carlos er að mismunandi hugtakanotkun á forsendum orðsifjafræði en ekki guðfræði er óásættanleg niðurstaða. Það sem ég er að vísa til er að ef guðfræðileg rök með eða án vísunar til texta í ritningunni er ekki fyrirstaða fyrir blessun og fyrirbæn samkynhneigðra þá er óþolandi og óviðunandi að kirkjan stígi ekki skrefið til fulls á forsendum þess að málhefð leyfi það ekki.
    Slík afstaða minnir á það þegar prestum var ekki heimilt að skíra á Íslandi, nema nefnt nafn barnsins uppfyllti skilyrði ríkisvaldsins.

    Hjalti: Þetta eru fulltrúar kirkjunnar á kirkjuþingi.

  5. En þegar þetta tvennt fær nákvæmlega sömu réttarstöðuna, þá verður út í hött að hafa tvenn lög. Þá verður örugglega krafist þess að hjónaband verði samband tveggja fullorðinna einstaklinga. Og þá verður Þjóðkirkjan aftur komin í klípu.

    Og út á það gengur m.a. gagnrýni 40 presta og guðfræðinga á núverandi skipan mála á prestastefnu í sumar og er útgangspunktur þeirra þegar þeir gagnrýna tillögur kenninganefndar sem teknar verða fyrir á kirkjuþingi í haust.

    Einfaldast væri auðvitað fyrir kirkjuna um að vígslurétturinn verði tekinn frá henni, en af einhverjum óskiljanlegum ástæðum virðast ekki margir innan kirkjunnar vilja það.

    Á þessa leið bentu nokkrir prestar og guðfræðingar þessara 40 en meirihlutinn vildi halda vígslu- og könnunarvaldinu, þ.e. taka ekki upp það kerfi sem tíðkast m.a. í Frakklandi og Þýskalandi, án þess að nokkrum finnist á sér brotið.

    Reyndar eru rök þeirra sem vilja óbreytt ástand á Íslandi (kenninganefnd) þau, að vegna hefðar og vegna samstöðu annarra kirkna sem þjóðkirkjan er í samfélagi með, getum við ekki farið alla leið. Ýmsir hafa bent til vandræðagangs anglíkanska kirknasamfélagsins í sumar máli sínu til stuðnings. Þeir hafa að vissu leyti rétt fyrir sér. Það er ekki auðvelt að leggja af og breyta einhverju, sem manni hefur verið heilagt um aldir.

    Gott dæmi um þetta er að það var kristinni kirkju ekki auðvelt að leggja af þrælahald. Hefðu ekki komið til aðrir framleiðsluhættir og að mörgu leyti hagkvæmari, þá héldum við líklega enn þræla. Spurning er náttúrlega hvort við, sem vinnum meira en 7 tíma á sólarhring erum nokkru betur sett en þrælar hins forna Rómaríkis, en það var sá tími sem þeir urðu að vinna. 7 tímar á veturna og 6 á sumrin. En það er önnur og afvegaleidd umræða.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.