Fyrirgefið mér

Það er erfitt að horfast í augu við veruleikann þessa dagana. Öll leitum við sökudólga og á sunnudaginn var birtist grein í Morgunblaðinu þar sem átta guðfræðingar bentu á hvernig þjóðfélagið varð græðginni að bráð, missti sjónar á því sem máli skiptir. Hugsanlega ekki verri nálgun en hvað annað. Hins vegar segir greinin ekki alla söguna, hún segir nefnilega ekki frá mínum þætti í öllu þessu, mér vígðum þjóni kirkjunnar sem segist standa fyrir manngildi og ábyrgð. Ég, vígður þjónn þjóðkirkjunnar, starfsmaður á plani, brást hlutverki mínu.

Fyrirgefið mér.

Þegar ég hefði átt að beina sjónum að búlgörskum símamönnum sem misstu vinnuna vegna hlutabréfabrasks íslenskra fjárglæframanna, var ég upptekinn við að kalla inn greiða hjá þeim sömu mönnum, í von um lækkun vaxta á skuldum kirkjunnar. Ég talaði ekki gegn misnotkun farandverkamanna, vegna þess að ég var of upptekinn við að fylgjast með samningaviðræðum um vatnsréttindi. Ég gerði ekki athugasemdir við þjófnað úr almenningshlutafélögum, vegna þess að þjófarnir veittu svo góðan afslátt á aðföngum fyrir æskulýðsmót. Ég lét mér vel líka þegar glæpamennirnir keyptu aflátsbréf í formi orgelpípna. Ég, starfsmaður Æskulýðssambands kirkjunnar þagði þegar æska Íslands fékk steindan glugga að gjöf frá ríkisstjórninni. Ég gladdist þegar ég frétti að stjórnmálaforingjar væru til í að veita fyrirgreiðslu “á ská” til að auðvelda kirkjunni að leysa vandamál.

Fyrirgefið mér.

Ég hef talnaskilning á við þá bestu í viðskiptageiranum. Ef ég hefði sest niður og gefið mér tíma til að reikna hefði ég líklegast geta séð hitt og þetta. Ég vissi sem var hvað var á seyði með FL-Group. Ég ákvað hins vegar að nota gjöf mína, til að útbúa Excel-skjöl með kirkjutölum, velta vöngum yfir hvernig við gætum náð í stærri bita af kökunni. Ég eyddi orku í að réttlæta viðveru vígðra kirkjustarfsmanna í grunnskólum, þegar ég með réttu hefði átt að berjast gegn þátttöku stjórnmálamanna í stjórnum fyrirtækjanna sem þeir hefðu átt að vakta.

Fyrirgefið mér.

Ég var vígður til þjónustu við æsku landsins. Nú 10 árum eftir vígslu mína, er erfiðara fyrir æskuna að horfa vonaraugum til framtíðar, en þegar ég tókst á við köllun mína. Sú köllun mín að vera farvegur fyrir von virðist hafa brugðist.

Fyrirgefið mér.

Það er gott og blessað að skrifa lærðar greinar um mikilvægi guðfræðinnar þegar kemur að endurreisn. En sá tími er ekki kominn enn. Áður en endurreisn hefst þarf að horfast í augu við það hver við erum, hvað við gerðum/gerðum ekki. Aðeins ef við erum tilbúin að horfast í augu við okkur sjálf, erum tilbúin til að iðrast og viðurkenna sekt okkar, getum við vænst upprisu.

Hvað merkir skuldastaðan?

Í október spáði ég því að heildarskuldir sem féllu á ríkið myndu vera af stærðargráðunni 4.000 milljarðar króna [1] [2]. Núna virðist hins vegar ljóst að minnsta kosti helmingur þeirra upphæðar mun falla á aðila sem lánuðu peninga til íslensku bankanna eða notuðu bankaþjónustu þeirra erlendis. Þannig virðist skv. frétt mbl.is sem ég vísa til í fyrri færslu, skuldirnar verða nær 2.000 milljörðum. Ef við gerum ráð fyrir 5% vöxtum að jafnaði erum við að tala um 100 milljarða í vaxtagreiðslur á ári eða á milli 20-25% af fjárlögum. Rétt er að hafa í huga að einhver lán munu bera lægri vexti en sér í lagi lán í krónum munu bera mun hærri.

Það er því ljóst að 10% niðurskurðurinn á Fjárlögum þessa árs mun duga skammt. Ég hef áður bent á niðurskurðarleiðir í Fjárlögum í annarri af fyrri færslum og geri ráð fyrir að skattahækkanir þurfi einnig að eiga sér stað fljótlega.

Skuldirnar okkar allra

Ég ákvað að skrá hér hjá mér skuldir ríkisins í íslenskum krónum skv. frétt mbl.is frá 15. janúar (evran var rétt um 170 krónur). Ég set upphæð erlendra lána í evrum innan sviga til að auðvelda mér að fylgjast með tölunum í framtíðinni.

Innlendar skuldir – 336 milljarðar

Endurfjárm. bankanna – 385 milljarðar

Tap v. skortsölu – 35 milljarðar

Fjárlagahalli 2009 – 154 milljarðar

Alls skortir því 910 milljarða íslenskra króna.

 

Erl. langtímaskuldir – 318 milljarðar (1,9 milljarðar evra)

Icesave skuldirnar – 695 milljarðar (4,1 milljarðar evra)

Veðlánatöp – 270 milljarðar (1,3 milljarðar evra)

FIH bankinn – 84 milljarðar (0,5 milljarðar evra)

Alls skortir því 1.367 milljarða (7,8 milljarða evra)

 

Hvaðan koma peningarnir?

Til að mæta þessu er lánið frá IMF og vinum okkar út í heimi upp á 644 milljarða króna (3,8 milljarða evra).

Eins kemur lán frá ICESAVE og Edge löndum upp á 695 milljarða (4,1 milljarð evra).

Fyrirvarar

  • Kostnaður vegna endurfjármögnunar bankanna gæti orðið mun hærri en 345 milljarðar króna.
  • Yfirvöld láta sig dreyma um að sala á ICESAVE eignum skili 445 milljörðum (2,6 milljörðum evra), sem gengur upp í lánið frá ICESAVE og Edge löndum.
  • Hugsanlega fást allt að 60 milljarðar (0,35 milljarðar evra) fyrir FIH bankann í Danmörku. Það verður að teljast fremur ósennilegt.

Af hverju borða þau ekki bara kökur?

Konan mín las rétt áðan viðbrögð Þorgerðar Katrínar við mótmælunum í gær og reyndi að útskýra hvernig hroki og yfirdrepskapur menntamálaráðherra virkaði á sig. Eftir smá umhugsun lagði Jenný, Þorgerði orð í munn og sagði: “Af hverju borða þau ekki bara kökur?”

Dagurinn í gær er um margt merkilegur, ég klökknaði þegar ég fylgdist með Obama taka við embætti og hef reynt að fylgjast með stemmningunni hér í BNA sem er stórkostleg. Gleðin og spennan ræður ríkjum, nema í þær 30 sekúndur sem ég hlustaði á Rush Limbaugh.

Á hinn bóginn fann ég hversu illa mér leið yfir ástandinu á Íslandi, sorgin, reiðin og sársaukinn sem fylgir því að uppgötva að fulltrúum okkar á Alþingi er drullusama. Vanlíðanin yfir að hafa verið blekktur og rændur. Ég fann líka til með löggunum sem virðast ekki vita í hvorn fótinn þær eiga að stíga. Ég fékk sting í hjartað þegar ég sá að Lalli hafði verið handtekinn. Ég fylltist sorg yfir því að Ísland sem ég hélt að ég þekkti en skildi ekki alveg, var ekkert annað en blekking. Í dag dó Samfylkingin í mínum huga, andlát Sjálfstæðisflokksins átti sér stað fyrir nokkrum mánuðum, þegar Davíð hótaði endurkomu í pólítík og Geir rak hann ekki. Framsóknarflokkurinn boðaði byltingu um helgina og kallaði til starfa son eins af glæpamönnunum sem rændu fyrirtækjum í eigu ríkisins. E.t.v. er sonurinn föðurbetrungur, en það er ekki áhættunar virði. Innflytjendastefna Frjálslynda flokksins gerir hann að alls ónýtum kosti. Staðan skilur ekki marga möguleika eftir…

Nú í nótt þegar lögreglan nýtti sér fámenni mótmælenda til að slökkva eldinn við Alþingishúsið, slökknaði síðasta von mín um að ástandið myndi lagast af sjálfu sér. Lögregla sem bíður færis til að beita valdi, bíður eftir að mótmælendur huga ekki að sér og ræðst þá gegn þeim, er að gefa óhugnanleg skilaboð. Þetta er ekki geðfellt ástand og ef Samfylkingarlíkið hristir ekki af sér xxx á næstu tveimur sólarhringum mun ástandið líklegast versna til muna.

Fundurinn

Geir Haarde
  • Ekki leita blóraböggla, við skulum vinna sökudólga þegar við höfum komið á stöðugleika.
  • Styrkja krónuna nr. 1.
  • Þetta er tímabundið ástand.
  • Útbúa sterkan gjaldeyrissjóð.
  • Góðar viðræður.
  • Formlegar viðræður um stöðugleika.
  • Tveggja milljarða dollara lán frá IMF, til 2012-2015. 
  • Markmið er að endurvekja traust, styrkja ríkissjóð, styrkja krónuna og reisa bankana við.
  • Þetta mun taka líklega um 10 daga. 800 milljónir dollara strax við samþykkt.
  • Aldrei neitt klárt, fyrr en það er klárt.
  • Það er verið að skoða frekari aðstoð annars staðar á sama tíma.
  • Það eru engin skilyrði um uppgjör við Breta, önnur en að það sé í farvegi.
  • IMF lánið kallar ekki á skattahækkanir.
  • IMF getur ekki lánað Íslandi meira, vegna kvótareglna sjóðsins.
  • Fall í þjóðarframleiðslu, meira atvinnuleysi, verðbólguóvissa, ríkissjóðshalli í nokkur ár.
  • Rússalánið er ennþá á borðinu, en ekki jafnhátt og áður.
  • Þjóðhagsspá er í vinnslu.
  • Trúnaður um aðgerðir ríkissjóðs.
  • Við gerum ráð fyrir að verðbólga fari hratt niður.
  • Tilkynningin ætti að slá á gengisvandann.
  • Kaupmáttarrýrnun 7,5% á þessu ári og sama á næsta ári fullyrt af blaðamanni. Geir tekur undir.
  • Við munum ekki borga upp skuldir bankanna. En við borgum það sem ríkið er í ábyrgðum fyrir.
  • Upphæðin er hærri, en ítrustu reglur IMF hljóða á um. 
  • Útflutningur er að aukast, innflutningur er að hrynja.
  • Skammarleg vinnubrögð Breta.

Ingibjörg Sólrún

  • IMF er mikilvægur sem festa í ólgusjó.
  • Tækifæri til að takast á við erfiðleikana felst í IMF.
  • Uppbygging samfélags sem hefur alþjóðlegt traust.
  • IMF er miðlægur stöðumatsaðili, og vekur traust annarra.
  • Ekki endanleg niðurstaða, heldur drög.
  • Inntakið er ekki gefið upp. Stjórn IMF þarf að sjá þetta fyrst.
  • Getur tekið vikur að klára þetta venjulega, en nú er hraðafgreiðsla sem getur tekið nokkra daga.
  • Það er IMF sem bannar að inntakið sé gefið upp.
  • Engin skilyrði sem við getum ekki sætt okkur við.
  • Við viðurkennum ábyrgð gagnvart Bretum, en ekki upphæðir.
  • Rannsókn þingnefndar með erlendri aðstoð.
  • Endurskoðun lífeyrissjóðalaga er brýn.
  • Engar þjóðskipulagslegar breytingar settar sem skilyrði fyrir IMF.
  • Upphæðin skiptir ekki öllu máli, heldur opnunin sem þetta veldur gagnvart lántöku frá öðrum.
  • Endurheimt orðstýrs í Bretlandi, ekki víst að málaferli séu best til þess fallin til að laga það.

Bankadrengur sem skuldar milljarða?

Mikið hefur verið rætt um illu ofurlaunamennina og hvernig þeir hafa snuðað saklausan almenning og skilið hann eftir í eymd og volæði. Þar sem svona sögur virka vel og jafnvel betur ef hægt er að birta mynd af ofursumarbústöðum, þá flaug mér í hug að skoða hvaða áhrif yfirtakan á Kaupþingi hefði haft á eignastöðu  bankastjórans fyrrverandi í Kaupþingi. Continue reading Bankadrengur sem skuldar milljarða?

Að feta í fótspor Gissurar Þorvaldssonar

Nú eru 90 ár síðan að Ísland varð fullvalda ríki. Á þessum 90 árum hafa skipst á skin og skúrir, en líklega hefur hið samfellda sólskin kreditkortanna verið besti tími eyjaskeggjanna allt síðan að Ingólfur steig á land og ákvað að það væri lífvænlegt á Íslandi. Vissulega hafa komið upp góðir tímar áður, m.a. tíminn sem Adam frá Bremen lýsti sem konungslausa fyrirheitna landinu í kringum árið 1000. Continue reading Að feta í fótspor Gissurar Þorvaldssonar

Sökudólgurinn Davíð

Það er eiginlega kómískt að heyra og sjá köllin og hrópin um burtreksturs Davíðs þessa dagana. Ásakanirnar eru á þá leið að þetta sé honum að kenna. Það er reyndar jafnabsúrd að heyra ásakanir Davíðsmanna í garð breskra stjórnvalda, eða einhverra annarra sem verða fyrir árásum. Staðreyndin er einfaldlega sú að nokkur íslensk fyrirtæki skulduðu meira en þau áttu og gátu ekki borgað af lánunum. Að reyna að gera málið flóknara er barnaleg tilraun til að halda því fram að þegar allt komi til alls snúist fjármál um eitthvað annað en peninga. Það er einfaldlega svo að þegar viðskiptafélaginn telur að þú getir ekki greitt skuldir þínar, þá er viðskiptunum lokið. Continue reading Sökudólgurinn Davíð

Hlutfall skulda af veltu

Hér fyrir neðan sló ég á að í besta falli eru skuldir bankanna 4000 milljörðum hærri en eignir. Upphæð sem lendir á Ríkissjóði að glíma við, alla vega að hluta. Í versta falli er ástandið annað og alvarlegra. Skuldir bankanna umfram skuldir gætu allt eins verið 8000 milljarðar króna ef tryggingar fyrir eignum eru ekki burðugar. Eitthvað af skuldum bankanna lendir sjálfsagt á lánveitendum sem munu bera harm sinn en væntanlega ekki í hljóði, hversu mikið er alls óljóst. En höldum okkur við þá tölu sem ég tel að sé lægsta mögulega upphæð sem Ríkissjóður mun sitja uppi með eða 4000 milljarðar króna. Það er mjög bjartsýnt og ég veit það vel. Gefum okkur því næst að upphæðin fáist að fullu að láni frá IMF með 4,5% vöxtum sem er líklega ekki langt frá ávöxtunarkröfu IMF. Segjum sem svo að um jafngreiðslulán til 40 ára sé að ræða til að auðvelda vangavelturnar og þá fáum við út að afborganir á ári séu a.m.k. í kringum 215 milljarðar króna á ári. Tekjur ríkisins hafa undanfarin ár verið um 475 milljarðar króna og því er ljóst að skera niður um 45% í útgjöldum ef tekjur haldast óbreyttar, sem verður að telja ólíklegt í ljósi aukins atvinnuleysis og hruns heillar atvinnugreinar. Continue reading Hlutfall skulda af veltu

Hvað skuldum við?

Spurningin sem öllu máli skiptir er hversu mikill munur er á uppgjöri eigna og skulda bankanna. Það sem við vitum er að skv. hálfsársuppgjöri skulduðu bankarnir 13.900 milljarða króna og áttu 14.500 milljarða króna. Ef við lítum framhjá gjaldeyrissveiflum (enda líklegt að eignir og skuldir sveiflist jafnt á þeim vettvangi) og gerum ráð fyrir að eina breytan sem líta þarf til sé breytileiki í verðmæti eignasafnsins þá er hægt að líta til hlutabréfavísitalna og meta rýrnun eignasafnsins til samræmis við lækkun hlutabréfa á heimsvísu. Þannig væri hægt að notast við Dow Jones sem gæfi rýrnun upp á tæplega 22%, sem þýddi raunlækkun eigna niður í 11.370 milljarða. Þetta er sjálfsagt vel í lagt, enda áhættan í eignasafni bankanna sjálfsagt talsvert meiri en Dow Jones. Við gætum notað S&P500 og fengið út að eignirnar hafi rýrnað um ríflega 25%. Þannig væri verðmætið í dag tæpir 10.700 milljarðar króna sem er sjálfsagt meira í áttina, þó ég efist um að eignasafn bankanna hafi verið jafn gott og S&P. Til viðbótar þessari stöðu kemur síðan þörfin fyrir að selja, sem veldur frekara verðfalli.

Þar sem mig langar að vera bjartsýnn og gera ráð fyrir um 15% rýrnun vegna skyndisölunnar þá getum við vonað að eignir bankanna séu í dag um 9.000 milljarða virði. Þegar það er dregið frá 13.900 milljarða skuldinni stendur eftir mismunur upp á 4.900 milljarðar króna. Þessi upphæð er rétt um 16 milljónir króna á hvert mannsbarn á Íslandi. Þessar 4.900 milljarðar króna eru 3,75 föld verg landsframleiðsla (GDP) ársins 2007.

Ef við gerðum allar eigur Björgúlfsfeðga upptækar þá myndi það duga fyrir tæplega 10% af því sem upp á vantar ef miðað er við meintar eignir þeirra á síðasta lista Forbes.com. Hins vegar hafa eignir þeirra rýrnað gífurlega síðan, sér í lagi vegna upptökunnar á Landsbankanum. Eignir annarra Íslendinga sem komu að rekstri bankanna eru mun minni og í sumum tilfellum næstum horfnar, en hugsanlega væri hægt að skrapa saman í 900 milljarða króna með peningum Björgúlfsfeðga, með sölu á einkaþotum og með að gera upptækar eignir af reikningum í Sviss, Lúxembúrg, Karabíahafinu og hvar annars staðar sem menn hafa komið varasjóðum sínum fyrir.

Að ofantöldu sögðu er ástandið þó ekki óleysanlegt, sér í lagi í ljósi þess að Ríkissjóður er að mestu skuldlaus. Hins vegar eru nokkrir óvissuþættir í þessum þönkum sem ég hyggst telja upp.

  • Hlutfall skulda og eigna bankanna í erlendum gjaldeyri.
  • Gæði eignasafns bankanna er í þessum reikningum talið svipað og uppbygging S&P500, það er líklega ofmat á gæðum þeirra.
  • Erfiðleikar í sölu eigna og rýrnun á verðmæti vegna skyndisölu. Hér geri ég ráð fyrir 15% rýrnun sem er mjög bjartsýnt í ljósi tilboðs Green svo dæmi sé tekið.
  • Það er líklegt að landsframleiðsla dragist saman næstu árin og hagvöxtur verði neikvæður. Aukið atvinnuleysi og hrun ákveðinna atvinnugreina (svo sem fjármálageirans) kemur til með að hafa þar mikil áhrif.
  • Reyndar má ekki gleyma því að hluti bankatapsins lendir á eigendum peningamarkaðssjóða og annarra ótryggðra eigna, þannig að ekki er víst að allt lendi á ríkissjóði.

Niðurstaða mín er því sú að ef allt fer á allra besta veg og við gerum eignir upptækar, þá megi gera ráð fyrir að mismunur á eignum og skuldum bankanna sé neikvæður um 4.000 milljarða króna eða um það bil 3 föld verg landsframleiðsla. Fjölskyldan mín skuldar því rétt um 51 milljón króna í pakkanum.

VIÐBÓT:

Rétt er að taka fram hér að gjaldeyrisbreytan sem ég sleppi hér að ofan er mun veigameiri en ég vonaði. Mismunur eigna og skulda erlendis í mars síðastliðnum var a.m.k. 800 milljarðar króna. Að öðru óbreyttu þýðir það líklega skuldaaukningu upp á að minnsta kosti 600 milljarðar króna miðað við gengi krónunnar í dag. En ég hef hins vegar ekki nægar upplýsingar til að geta fullyrt nákvæmlega hvaða áhrif gengið hefur.

Með öðrum orðum. Þessi færsla snýst ekki um nákvæma útreikninga heldur stærðargráður skulda. Með nokkurri vissu má halda því fram að neikvæð staða bankanna þegar uppgjöri lýkur verði einhvers staðar á milli 4000 milljaða ef allt fer á besta veg og 8000 milljarða ef allt fer á versta veg.

Viðskipti með Landsbankann 3. október

Samkvæmt fjölmiðlum 3. október s.l. áttu sér stað óvenjumikil viðskipti með hluti í Landsbankanum. Hluti sem nokkrum dögum síðar urðu að fullu verðlausir. Hvort um tilviljun hafi verið að ræða eða ekki er í sjálfu sér erfitt að fullyrða, en hins vegar er umfang viðskiptana slíkt að það hlýtur að vekja athygli að enginn sem kom að þeim hafi verið tilkynningaskyldur. Í tilraun til að komast að hinu sanna í málinu, notaði einn heimildamaður minn Google og sá að á vefsíðunni björn.is hafði verið skrifað í gærkvöldi neðangreind setning: “Tilefni ræðu Kjartans var spurning um viðskipti með hlutabréf í Landsbanka Íslands föstudaginn 3. október.” Hér er augsýnilega verið að tala um ræðu Kjartans á miðstjórnarfundi Sjálfstæðisflokksins og fyrir óþjálfað auga virðist gefið í skin að Kjartan hafi haft einverja vitneskju um hvað gerðist 3. október. Hins vegar er það svo að þessari færslu Bjarnar hefur nú verið breytt og eina heimildin sem við höfum er “klipp” af google leitinni. Spurningunni er enn ósvarað. Hvað átti sér stað 3. október? Hver var það sem kom peningum sínum í öruggt skjól á kostnað skattgreiðenda? Svar óskast!

Picture 1

Af námsmönnum erlendis

Tilkynning fyrir þá sem gætu hafa velt fyrir sér stöðu okkar hjóna í ljósi frétta undanfarna daga.

Vegna frétta í fjölmiðlum af erfiðleikum námsmanna erlendis þá er rétt að tilkynna að strax fimmtudaginn 2. október byrjuðum við hjónin að gera ráðstafanir til að lágmarka áhrif ástandsins á Íslandi á okkar plön. Þann dag fórum við mjög nákvæmlega yfir fjárþörf okkar hér í BNA og millifærðum frá Íslandi nægt fjármagn til að dekka allan daglegan kostnað fram í miðjan janúar. Næstu mánuði munum við lifa eftir mjög vel skilgreindri fjárhagsáætlun, sem gerir ráð fyrir minna af pöntuðum pizzum og meira af frosnum pizzum -) en áður.
Þegar svo hrunið varð liðna helgi, áttuðum við okkur á að ef við ætluðum okkur að standa við áform um DisneyWorld ferð um jól og áramót, þyrftum við viðbótarfjármagn. En upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir að notast við íslensk kreditkort á Florída. Ég hafði því samband við BYR-sparisjóð á þriðjudag og millifærði nægilegt fé á föstu gengi Seðlabankans með Sparisjóðaálagi til að kosta þá ferð. Við höfum því ákveðið að halda öllum áætlunum um ferðalög um jól og áramót óbreyttum.
Þannig hefur ástandið á Íslandi ekki nein teljandi áhrif á líf okkar sem námsmanna erlendis, enn sem komið er. Geir og félagar hafa rúmlega 4 mánuði til að opna á ný fyrir gjaldeyrismillifærslur áður en við þurfum að endurskoða okkar stöðu.
Eða með orðum tónlistarmannanna í REM: “It is the end of the World as we know it. But I fell fine”.

Hafnið þá aðgerðinni

Ef hluthafahópurinn er óánægður með að ríkið leysi bankann til sín, þá er um að gera fyrir þá að hafna aðgerðinni og redda þessu sjálfir. Að gera kröfu um að Seðlabankinn loki augunum og láni þeim peninga til að halda rekstrinum áfram og voni hið besta, er hrokafull afstaða manna sem eru ekki vanir að taka afleiðingum gjörða sinna. Continue reading Hafnið þá aðgerðinni

Tryggingar fjármálafyrirtækja

Það er ekki auðvelt að skilja hvað er í gangi í bankaheiminum þessa dagana. Íslensk fjármálafyrirtæki skila fínum hagnaði en virðast ekki njóta neins trausts utan landssteinanna. Hagnaðurinn er sagður byggjast á viðskiptum með íslensku krónuna, en á sama tíma vilja fjármálafyrirtækin krónuna feiga. Þegar svo við bætist að sparisjóðir eru að verða/hafi orðið gjaldþrota á landsbyggðinni þó hljótt fari, þá hlýtur hverjum vitibornum manni að bregða. Það að bankarnir sumir hverjir hafi fengið lán hjá lífeyrissjóðum til 5 ára og lánað áfram til 40 ára, er ekki til að auðvelda manni að skilja þetta allt saman. Enda skilst mér að nú þegar kemur að skuldadögum 5 ára lánanna séu fáir tilbúnir til að lána bönkunum aftur og hvað þá til langs tíma og því eigi þeir ekki hægt um vik að greiða lífeyrissjóðunum það sem þeim ber. Continue reading Tryggingar fjármálafyrirtækja

Lífsgæðarannsókn Sameinuðu þjóðanna

Hér í BNA hef ég á stundum vísað í þessar rannsóknir SÞ, en þær má sjá á http://hdr.undp.org/hdr2006/statistics/. Hér er litið til þátta eins og læsis, hlutfalls þjóðarframleiðslu til menntunar, rannsókna og heilbrigðismála. Það er litið til barnadauða, hverjar eru lífslíkur, þjóðarframleiðslu, misskiptingar í samfélaginu, aðgengis að síma, bifreiðum, hreinu vatni og svo mætti lengi lengi telja.

Vísanir mínar hér í BNA hafa reyndar flestar snúið að heilbrigðismálum, enda er öflug heilbrigðisþjónusta fyrir alla þegna eitt af einkennum landanna efst á listanum ef frá er talið ríkið í 8. sæti.

Áhugasamir geta skoðað einstaka þætti sem horft er til á síðu Sameinuðu þjóðanna. 

Afsökunarbeiðni

Ég vil biðja landsmenn afsökunar á því að hafa fjórum sinnum á síðasta mánuði tekið stöðu gegn íslensku krónunni með verulegri sölu á krónum og kaupum á dollurum. Ég er meðvitaður um að ákvarðanir mínar hafa átt þátt í þessari veikingu krónunnar sem á sér stað núna.

Reyndar þykist ég hafa afsakanir fyrir hluta af þessum stöðutökum, bíllinn fór í viðgerð, ég keypti flugmiða heim um jólin fyrir fjölskylduna og þurfti að borga skólagjöldin hérna úti. En hluti af ákvörðunum mínum voru meðvitaðar tilraunir til að hagnast á athæfinu á kostnað náunga míns heima á Íslandi. Ég veit að þetta mun hugsanlega hafa áhrif á verðmæti húsnæðis ykkar sem búið á Íslandi, ég veit þið lendið hugsanlega í vandræðum með að borga af lánunum og þurfið jafnvel að selja hjólhýsið.

En lífið er hart, eins dauði er annars brauð. Hagnaður minn af þessum stöðutökum gerir mér mögulegt að njóta lífsins að fullu í stúdentaíbúðinni í Bexley, dóttir mín fékk nýjar stuttbuxur í gær og hver veit nema að strákurinn fái að fara í klippingu fyrir jólin.

Hvert fóru Actavis milljarðarnir?

Þar sem ég er áhugamaður um gengisþróun íslensku krónunnar gagnvart dollaranum, kalla þessar fréttir úr Kauphöllinni á faglegar útskýringar.

  1. Er það rétt skilið hjá mér að viðtakendur Actavis milljarðanna hafi ákveðið að fjárfesta ekki á Íslandi og markaðurinn sé að leiðrétta væntingar um kaup sem brugðust.
  2. Í tengslum við það hlýt ég líka að spyrja hvort það sé rétt hjá mér að gengi krónunnar sé að aðlagast þessum veruleika sem útskýri 5% lækkun krónunnar gagnvart dollaranum síðustu vikuna.
  3. Eitthvað hef ég heyrt um erfitt aðgengi að erlendum lánum, er það áhrifavaldur í þessari þróun núna, eða á það eftir að koma fram?
  4. Eða er eitthvað annað í gangi? 

 

Tölvukennarinn minn missir vinnuna

Einn af minnistæðustum kennurum mínum í MR, kenndi mér tölvufræði í 4. bekk. Hann var í sjálfu sér litlu eldri en við, var nemandi í tölvunarfræði í HÍ og kenndi okkur pínulítið í Pascal forritun og ef ég man rétt DOS-bókina hans Davíðs Þorsteinssonar eðlisfræðikennara. Tölvuverið var svo sem ekki mikið til að hrópa húrra fyrir, málið var grænir skjáir og Word for Dos sem var reyndar hluti af kennsluefninu. Continue reading Tölvukennarinn minn missir vinnuna

Metnaður

https://www.youtube.com/watch?v=nc1eRmk7ijc

Það verður að viðurkennast að önnur auglýsingin er síst, en hrikalega er fyndið að eyða peningum í að gera grín að sjálfum sér að eyða peningum.