Sökudólgurinn Davíð

Það er eiginlega kómískt að heyra og sjá köllin og hrópin um burtreksturs Davíðs þessa dagana. Ásakanirnar eru á þá leið að þetta sé honum að kenna. Það er reyndar jafnabsúrd að heyra ásakanir Davíðsmanna í garð breskra stjórnvalda, eða einhverra annarra sem verða fyrir árásum. Staðreyndin er einfaldlega sú að nokkur íslensk fyrirtæki skulduðu meira en þau áttu og gátu ekki borgað af lánunum. Að reyna að gera málið flóknara er barnaleg tilraun til að halda því fram að þegar allt komi til alls snúist fjármál um eitthvað annað en peninga. Það er einfaldlega svo að þegar viðskiptafélaginn telur að þú getir ekki greitt skuldir þínar, þá er viðskiptunum lokið.

Bankarnir íslensku fengu lán til að kaupa dót sem lækkaði í verði og því urðu eignir verðminni en lánin sem hvíldu á þeim. Líkt og margir gengiskörfulánabílaeigendur hafa reynt upp á síðkastið. Auðvitað var ekkert vit í því fyrir Seðlabankann að láta Glitni fá peninga til þess eins að lengja í ólinni, hælar Glitnis hefðu aldrei náð til jarðar. Rýrnun eigna á alþjóðamarkaði er komin til að vera næstu árin og engar spár gera ráð fyrir hækkunum í bráð. Tekjur bankanna voru einfaldlega ekki að duga fyrir afborgunum á lánunum og eignir dugðu ekki til að borga skuldirnar upp.

Það merkir samt ekki að Seðlabankinn eða Fjármálaeftirlitið séu saklaus. Eftirlitið brást, en ákvarðanatakan á síðustu tveimur vikum skiptir litlu í því samhengi. Allir þingmenn meira eða minna studdu að taka yfir bankanna, án tillits til kostnaðar og því gagnslaust að velta fyrir sér þeim gjörningi á mánudagskvöldi, þó það séu líklega stærstu mistökin hingað til. Líklega hefði verið best að láta fjármálakerfið á Íslandi deyja drottni sínum, og byrja upp á nýtt í stað þess að fara á kennitöluflakk sem á eftir að fylla veski lögfræðinga um áratugaskeið.

 

  • Á Davíð að taka pokann sinn, já.
  • Á Jónsson í FME að taka pokann sinn, já.
  • Á að boða til kosninga í vor, já. 
  • Á að gera eigur Björgúlfsfeðga, Baugsfeðga og Bakkabræðra upptækar, já.
  • Á að fara í hart og kalla eftir upplýsingum um stórar millifærslur úr landi og á reikninga erlendis, já.
  • Á að elta peningana sem hurfu úr landi og gera þá upptæka, já.
  • Á að semja reglur sem kalla eftir meira gagnsæi á fjármálamarkaði, já.
Þetta er samt ekki það mikilvægasta. Það er mikilvægast að láta okkur öll vita hver staðan er í raun. Það þarf að draga úr óvissunni og kvíðanum í samfélaginu með því að leggja tölurnar á borðið fyrir okkur öll. Setningar eins og að þetta sé verra en við héldum í síðustu viku eru mjög óheppilegar. Sannleikurinn getur verið erfiður, en það er ennþá verra að lifa í óvissunni.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.