Að feta í fótspor Gissurar Þorvaldssonar

Nú eru 90 ár síðan að Ísland varð fullvalda ríki. Á þessum 90 árum hafa skipst á skin og skúrir, en líklega hefur hið samfellda sólskin kreditkortanna verið besti tími eyjaskeggjanna allt síðan að Ingólfur steig á land og ákvað að það væri lífvænlegt á Íslandi. Vissulega hafa komið upp góðir tímar áður, m.a. tíminn sem Adam frá Bremen lýsti sem konungslausa fyrirheitna landinu í kringum árið 1000. En allt tekur enda og nú er spurning hvort ekki sé vænst að feta í fótspor Gissurar og vinna að því ötullega að gangast Noregskonungi á hönd á ný. Olíusjóðurinn góði myndi sjálfsagt nýtast vel við niðurgreiðslu skulda okkar, hægt væri að leggja niður Alþingi í núverandi mynd, en til að halda nafninu væri einfaldlega hægt að nota Alþingishugtakið um Hæstarétt svo krafan um elsta þing í heimi glatist ekki. Þá myndi sparast í rekstri Utanríkisþjónustu og hægt væri að skera verulega niður alla ríkisumgjörð á eyjunni.

Til að auðvelda málið enn frekar er núverandi forsætisráðherrann okkar hálfur Norðmaður, þannig að auðvelt er að færa rök fyrir því að skrefið hafi nú þegar verið stigið til hálfs. Þetta myndi líka leysa vandamál Seðlabankans og krónunnar. Við myndum halda gjaldmiðlinum krónu (reyndar norskri) en Davíð myndi missa vinnuna eins og svo margir biðja í kvöldbænunum þessa dagana. Eins myndum við spara þónokkuð með aflagningu forsetaembættisins.

Þetta myndi líka auðvelda deilur um hvort Leifur hafi verið norskur eða íslenskur og ekki má gleyma hvers kyns hagræði af því að norsk-íslenski síldarstofnin sé ekki sífellt deiluefni. Keppnin um síðasta sætið í Eurovision milli landanna milli líka leggjast af. Gissur hafði margt til síns máls og nú er spurning um að taka aftur upp aldagamla stefnu hans og ganga á fund konungsins við Karl Johan götu og spyrja hvort hann vilji taka við okkur.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.