Af hverju borða þau ekki bara kökur?

Konan mín las rétt áðan viðbrögð Þorgerðar Katrínar við mótmælunum í gær og reyndi að útskýra hvernig hroki og yfirdrepskapur menntamálaráðherra virkaði á sig. Eftir smá umhugsun lagði Jenný, Þorgerði orð í munn og sagði: “Af hverju borða þau ekki bara kökur?”

Dagurinn í gær er um margt merkilegur, ég klökknaði þegar ég fylgdist með Obama taka við embætti og hef reynt að fylgjast með stemmningunni hér í BNA sem er stórkostleg. Gleðin og spennan ræður ríkjum, nema í þær 30 sekúndur sem ég hlustaði á Rush Limbaugh.

Á hinn bóginn fann ég hversu illa mér leið yfir ástandinu á Íslandi, sorgin, reiðin og sársaukinn sem fylgir því að uppgötva að fulltrúum okkar á Alþingi er drullusama. Vanlíðanin yfir að hafa verið blekktur og rændur. Ég fann líka til með löggunum sem virðast ekki vita í hvorn fótinn þær eiga að stíga. Ég fékk sting í hjartað þegar ég sá að Lalli hafði verið handtekinn. Ég fylltist sorg yfir því að Ísland sem ég hélt að ég þekkti en skildi ekki alveg, var ekkert annað en blekking. Í dag dó Samfylkingin í mínum huga, andlát Sjálfstæðisflokksins átti sér stað fyrir nokkrum mánuðum, þegar Davíð hótaði endurkomu í pólítík og Geir rak hann ekki. Framsóknarflokkurinn boðaði byltingu um helgina og kallaði til starfa son eins af glæpamönnunum sem rændu fyrirtækjum í eigu ríkisins. E.t.v. er sonurinn föðurbetrungur, en það er ekki áhættunar virði. Innflytjendastefna Frjálslynda flokksins gerir hann að alls ónýtum kosti. Staðan skilur ekki marga möguleika eftir…

Nú í nótt þegar lögreglan nýtti sér fámenni mótmælenda til að slökkva eldinn við Alþingishúsið, slökknaði síðasta von mín um að ástandið myndi lagast af sjálfu sér. Lögregla sem bíður færis til að beita valdi, bíður eftir að mótmælendur huga ekki að sér og ræðst þá gegn þeim, er að gefa óhugnanleg skilaboð. Þetta er ekki geðfellt ástand og ef Samfylkingarlíkið hristir ekki af sér xxx á næstu tveimur sólarhringum mun ástandið líklegast versna til muna.

One thought on “Af hverju borða þau ekki bara kökur?”

  1. Elli, þetta var einn af skemmtilegri dögum sem ég hef lifað hér á Íslandi. Gleðin og bjartsýnin var allsráðandi á Austurvelli þann 20. janúar. Flestir hegðuðu sér vel, bæði löggur og mótmælendur en svarta sauði er að finna allstaðar. Handtaka mín var punkturinn yfir i-ið á þessum fallega degi. Þetta var frábær lífsreynsla sem ég hefði ekki viljað vera án…handjárnaður í bílakjallara…leynigöng og piparúði…þetta var brilljant. Verst er þó að vita ekki af hverju ég var handtekinn, ætli það skýrist ekki seinna.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.