Hvað merkir skuldastaðan?

Í október spáði ég því að heildarskuldir sem féllu á ríkið myndu vera af stærðargráðunni 4.000 milljarðar króna [1] [2]. Núna virðist hins vegar ljóst að minnsta kosti helmingur þeirra upphæðar mun falla á aðila sem lánuðu peninga til íslensku bankanna eða notuðu bankaþjónustu þeirra erlendis. Þannig virðist skv. frétt mbl.is sem ég vísa til í fyrri færslu, skuldirnar verða nær 2.000 milljörðum. Ef við gerum ráð fyrir 5% vöxtum að jafnaði erum við að tala um 100 milljarða í vaxtagreiðslur á ári eða á milli 20-25% af fjárlögum. Rétt er að hafa í huga að einhver lán munu bera lægri vexti en sér í lagi lán í krónum munu bera mun hærri.

Það er því ljóst að 10% niðurskurðurinn á Fjárlögum þessa árs mun duga skammt. Ég hef áður bent á niðurskurðarleiðir í Fjárlögum í annarri af fyrri færslum og geri ráð fyrir að skattahækkanir þurfi einnig að eiga sér stað fljótlega.

4 thoughts on “Hvað merkir skuldastaðan?”

  1. Það litla sem ég veit um málið: Skuldir ríkissins 31. des. voru 653 ma. Þú spurðir í fyrri færslunni hvaðan peningarnir kæmu. Ekki þarf að endurfjármagna nema lítinn hluta af þessum skuldum ríkissjóðsins á næstunni. Hvað varðar restina af tölunum úr moggagreininni þá gefur sá listi ekki alveg rétta mynd. Við fáum lán “með í kaupunum” ef við tökum á okkur IceSave/Edge skuldbindingarnar. Ekki veit ég hvernig endurfjármögnun bankanna er plönuð. Restin af tölunum eru milljarðar sem hafa þegar farið af sjóðum Seðlabankans. Ég skil td. ekki afhverju FIH Erhvervsbank er þarna — Seðlabankinn lánaði þessa upphæð til Kaupþings með veði í FIH og fær eitthvað af því til baka á endanum með sölu bankans.

    IMF/vina-lánin eru til að setja í sjóði Seðlabankans. Mestu af því má skila þegar “gengiskrísan” er yfirstaðin því það er ekki þörf á miklum sjóðum til að standa að baki nýju-bankanna. Eingöngu hafa 100 milljarðar verið afgreiddir frá IMF (og eitthvað frá Noregi?). Kannski verður IMF-lánið einnig notað til að endurfjármagna bankana.

    Það er skrítið að hafa með í þessari upptalningu spá um endanlega halla árs sem er rétt að byrja.

    5% vextir verða að teljast háir en gætu þó átt við IceSave/Edge-lánin. Ég myndi giska á að 2% væri nær lagi. Svo er líklega ekki rétt að miða við evrur fyrir mikið af þessum upphæðum eins og þú gerir — IceSave upphæðin er í pundum að mestu og IMF-lánið í bandaríkjadölum (hvorttveggja gjaldmiðlar hafa veikst og koma til með að halda áfram að gera það).

    Inn í þetta vantar milljarðana sem Seðlabankinn tók að láni með því að nýta hluta að gjaldeyrisskiptasamningum við norrænu seðlabankana. Eða var ríkið búið að taka þær skuldbindingar á sig?

    Endilega leiðrétta ef ég er að fara með rangt mál og fylla upp í gloppurnar. Ég hef einnig mikinn áhuga á að ná sýn yfir skuldastöðuna.

    Ps. Skuldir íslenska heimila við innlendar lánastofnanir voru líklega komnar yfir 2.000 ma. um seinustu áramót.

  2. Þakka þér Örvar, það er ágætt að fá viðbrögð og ábendingar.

    Vissulega er 5% háir vextir, og IMF lánið ber væntanlega mun lægri vexti eins og þú bendir á. Hins vegar er eitthvað af lánunum í íslenskum krónum og vextir þar eru gífurlega háir, eins vitum við lítið um vextina á Icesave dótinu. Þannig að þessi tala er náttúrulega út í loftið hjá mér, en hjálpar til við að fá tilfinningu fyrir stærðum.

    Varðandi þá ákvörðun mína að nota evrur í fyrri færslu, þá er það tilraun til að einfalda mér að fá tilfinningu fyrir þessu. Vissulega er flökt á milli evru, punds og dollars, en sveiflurnar þar hafa hingað til verið litlar í samanburði við lætin í krónunni.

  3. Möguleg skýring á meðtalningu FIH er á forsíðu Fréttablaðsins í dag. Seðlabankinn bókfærir veðið í FIH sem gjaldeyrir :S. Það er þó eign á móti þar eins og hjá IceSave/Edge.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.