„Get séð um að taka á móti boltanum og senda hann áfram“

Þegar ég kom til starfa hjá KFUM og KFUK á Íslandi fyrir rúmum tveimur árum tók Ragnar Gunnarsson viðtal við mig fyrir Bjarma – tímarit um kristna trú. Ég rakst á viðtalið við tiltekt í skjölunum mínum í tölvunni og datt í hug að birta það hér. Þrátt fyrir að ég hafi staldrað styttra við hjá KFUM og KFUK en planið var í upphafi, þá er innihald viðtalsins jafn mikilvægt og fyrr.

Halldór Elías Guðmundsson eða Elli kom til starfa á æskulýðssviði KFUM og KFUK nú á haustmánuðum eftir að hafa dvalið við nám í Bandaríkjunum síðastliðin fimm ár. Fulltrúi Bjarma ákvað að koma að máli við hann og forvitnast um manninn, námið í Bandaríkjunum og hvernig Elli sér framtíð kristilegs æskulýðsstarfs á Íslandi og þá sér í lagi hjá KFUM og KFUK.

Í dag er ég giftur, tveggja barna faðir og í þeirri undarlegu stöðu að eiga heimili í tveimur heimsálfum, annars vegar í Laugardalnum í Reykjavík og hins vegar í Chapel Hill í Norðurkarólínufylki í Bandaríkjunum, þar sem konan mín vinnur við rannsóknir fyrir Duke háskóla næstu tvö árin.

En hvernig kynntist þú trúnni?

Ég er uppalinn í Laugarneshverfinu með tveimur eldri bræðrum og yngri systur. Þegar ég var í kringum níu ára aldurinn fór ég að elta bræður mína á yngri deildarfundi hjá KFUM á Kirkjuteignum, en þeir voru þá orðnir aðstoðarsveitarstjórar. Ég man að fundirnir voru á laugardagsmorgnum kl. 11. Eitt árið voru handboltaæfingar hjá Ármanni líklega um kl. 10:00 og eftir æfingu stormuðum við úr Sigtúninu og niður eftir Kirkjuteignum, reyndar iðulega of seinir, en það varð að fá stimpil í skírteinið. Í minningunni eru það sveitarstjórarnir sem skiptu öllu máli. Þegar ég sá Stefán Sandholt og Sigurbjörn Þorkelsson spjalla saman á hlaðinu í Vatnaskógi á Sæludögum í sumar, fann ég hversu mikið mér finnst ég eiga þeim að þakka.

Ég hafði líka verið í sunnudagaskólanum í Laugarneskirkju sem barn og fór í sumarbúðir, bæði í drengjaflokka í Ölveri og í Vatnaskógi. Líkt og með sveitarstjórana þá sé ég enn foringjana mína úr skóginum í vissum dýrðarljóma. Það er kannski frekar í gamni en alvöru að ég segi að helsti hvatinn til þess að læra þó stundum heima í stærðfræði í fjórða bekk í MR, var að valda ekki kennaranum, Bjarna Gunnarssyni, vonbrigðum en hann hafði verið foringinn minn í Vatnaskógi nokkrum árum áður.

Á unglingsárunum flutti Elli nánast inn á Holtaveg, helstu félagsmiðstöð KFUM og KFUK. Það var áður en byggt var við gamla húsið.

Það var ekkert unglingastarf á Kirkjuteignum þegar ég komst á fermingaraldur, en Þórunn Elídóttir, Hörður Kjartansson, Auður Pálsdóttir og fleira gott fólk voru hins vegar með unglingadeild í KFUM og KFUK húsinu við Holtaveg. Það má e.t.v. segja að frá haustinu 1986 og til dagsins í dag hafi ég meira og minna verið á Holtaveginum, nema þá helst á sumrin þegar ég fór í Vatnaskóg. Sú trúarlega mótun sem átti sér stað í starfinu hjá Tótu og Hödda, hafði mikil áhrif á mig og um Verslunarmannahelgina 1987 ákvað ég að spila með í liði Guðs. Í dag sé ég hlutverk mitt sem sem framliggjandi miðjumaður. Ég reyndar hleyp ekkert sérlega mikið, en get séð um að taka á móti boltanum og senda hann áfram. Auk þess sem ég hef ágætan leikskilning. Reyndar hef ég ekki alltaf verið sammála Skaparanum um liðsuppstillinguna og hef svo sem rifist við Guð um það, en ég er smátt og smátt að læra að það er ekki mitt að dæma.

Viðmælandi Bjarma kynntist fyrst Ella að einhverju ráði þegar þeir unnu saman undir sama þaki, hann fyrir Kristniboðssambandið og Elli fyrir Kristilegu skólahreyfinguna, KSH. Í minningunni var Elli mjög duglegur við að koma málum áfram, hann sá til þess að hlutirnir gerðust og boltinn færi áfram. Þar sem við Elli spilum saman fótbolta einu sinni í viku má það einnig fylgja með að þar er Elli ekki síður duglegur við að senda boltann áfram.

Að loknu stúdentsprófi vann ég einn vetur sem ársmaður hjá KSH meðan ég áttaði mig á framtíðinni. Ég var um margt spenntur fyrir að fara í kennaranám, en fannst líka að ég þyrfti að nýta meinta hæfileika mína í stærðfræði. Í miðjum þessum pælingum endaði ég í bíl með dr. Einari Sigurbjörnssyni sem ég þekkti fremur lítið, en hann var að skutla mér og einhverjum fleirum eitthvert sem ég man ekki hvert var. Í þessari stuttu bílferð sagði dr. Einar mér frá nýju námi við guðfræðideildina, djáknanámi, og svo fór að ég fann sterkt að deildin hefði hafið þetta nám sérstaklega fyrir mig. Svo að eftir tvo mánuði í stærðfræði við HÍ, flutti ég mig yfir Suðurgötuna og hóf nám við guðfræðideildina. Síðan þá hef ég gert fátt nema menntað mig meira og meira, milli þess sem ég vinn hjá kirkjunni og/eða KFUM og KFUK.

Þú talar um nám. Hvað varstu að læra í Bandaríkjunum?

Þegar spurt er um námið mitt í Bandaríkjunum síðustu fimm árin er ekki auðvelt að svara. Ég var ekki að læra til að fá titil heldur skilning, þó námið hafi reyndar skilað tveimur meistaragráðum. Þegar spurt er hvort þekking mín frá BNA hafi erindi til Íslands, hvort kirkjan þar sé ekki öðruvísi en hér og önnur lögmál í gildi, þá er svarið bæði já og nei.

Meðan ég var í náminu úti þá sá ég bæði kirkjur í bestu hugsanlegu aðstæðum hegða sér á versta hugsanlega hátt, í sjálfsupphafningu og sjálfumgleði. En ég sá líka kirkju Krists að starfi í aðstæðum sem erfitt er að ímynda sér að nokkur manneskja eða hópar séu í, þar sem kirkjan gaf sig að fullu fyrir aðra, fórnaði sér í þjónustu við náungann. Þessi sýn á mismunandi hegðun kirkjunnar, mismunandi lífsýn fólks sem kallaði sig kristið, hjálpar mér að spegla sjálfan mig og hegðun mína og auðveldar mér e.t.v. að greina kjarnann frá hisminu þegar kemur að starfi hér á Íslandi.

Sterkt kirkjulíf í BNA byggir ekki fyrst og fremst á því að íbúar þar hafi sterkari trúarlegri þörf en íbúar í Evrópu svo dæmi sé tekið. Kirkjulífið í BNA mótast fremur af því að fjarlægðir eru miklar og hugmyndin um stórfjölskylduna er mjög veik. Þannig stígur kirkjan inn í hlutverk sem afi og amma, frændur og frænkur hafa á Íslandi. Þegar við fjölskyldan þurftum að leita eftir barnapíu í BNA, fjarri öllum vinum og ættingjum, þá höfðum við samband við fólkið í kirkjunni okkar. Þegar erfiðleikar knýja dyra, þá eru það fólkið í kirkjubekkjunum sem stígur fram og eldar mat og vitjar á sjúkrabeðinu. Verkefni sem sögulega eru á hendi stórfjölskyldunnar hér á Íslandi. Þetta sést auðvitað líka á styrk íslensku safnaðanna á Norðurlöndunum, sem margir Íslendingar sem hafa farið til náms þar þekkja svo vel. Kirkjusamfélagið tekur að sér að hlutverk fjölskyldunnar sem er svo fjarri.

Við aðrar aðstæður, hvað getum við lært hér heima?

Þessi skilningur á þjóðfélagslegu hlutverki kirkjunnar hefur veitt mér aukinn skilning á því hvers við getum vænst af kirkjustarfi á Íslandi og hvað er óraunhæft. Forðað mér frá að falla í þá gryfju að halda að hægt sé að færa gagnrýnislaust vinnubrögð í BNA yfir hafið og halda að slíkt skili sama árangri hér og þar. Kirkjan er hins vegar meira en samfélagslegt fyrirbæri og skilningur minn á kirkjunni sem mótsstaðar Guðs og manneskja mótaðist gífurlega meðan ég dvaldist erlendis. Þannig vona ég að glíma mín í náminu, þar sem ég reyndi að skilja hvernig Guð mætir manneskjum í samfélagi heilagra komi að einhverjum notum þegar kirkjan og kristni á Íslandi horfist í augu við framtíð sína.

Og nú ertu kominn til starfa á vettvangi KFUM og KFUK, aftur kominn heim?

Já, þar er ég nú. Í góðu samstarfi við frábært fólki á æskulýðssviði KFUM og KFUK á Íslandi, þau Hjördísi Rós Jónsdóttur, sr. Jón Ómar Gunnarsson æskulýðsprest og Jóhann Þorsteinsson, leitumst við að styðja við ósérhlífna og öfluga sjálfboðaliða í framvarðarsveit kristni á Íslandi. Við spilum á miðjunni og reynum eftir megni að senda boltann áfram á sóknarleikmennina sem starfa með börnum og unglingum. Hæfileikaríkt fólk sem leitast við að skapa með Guðs hjálp, mótsstað Guðs og manneskja í yfir 40 deildum um landið allt í hverri viku.

Hver er framtíð æskulýðsstarfsins hjá KFUM og KFUK?

Þegar spurt er um framtíð kristilegs æskulýðsstarfs er í raun verið að spyrja um framtíð kirkjunnar. Breytingar eru að eiga sér stað og umræður um samþykkt Borgarstjórnar um samskipti trúfélaga og skóla hafa líklegast ekki farið fram hjá mörgum lesendum Bjarma. Ein og sér hefur samþykktin líklegast ekki mikil áhrif, nema að sjálfsögðu á úthlutun Gídeonfélagsins. Hins vegar má vera ljóst að þessi samþykkt endurspeglar breytingar á íslensku þjóðfélagi, þar sem kennsla bæna og trúarlegt uppeldi er ekki lengur álitin sjálfsögð og eðlileg. Ég er ekki viss um að þessi breyting sé nauðsynlega slæm fyrir kristni á Íslandi.

Hvernig þá?

Það hefur lengi ríkt sinnuleysi í trúmálum á Íslandi, enda hefur kirkjan leitast við að stuða ekki, vera einhvers konar regnhlífarsamtök afstöðuleysis og eftir mætti reynt að aðlagast sinnulausum meirihlutanum. Kirkjan hefur í staðinn haft aðgengi fyrir afstöðuleysi sitt í samfélaginu í heild. Við sjáum afleiðingu þessa sinnuleysis í fullyrðingum sumra þeirra sem halda uppi „vörnum“ fyrir kirkjuna um að kristin boðun í skólum sé skaðlaus og saklaus hefð sem óþarfi sé að hrófla við og jafnvel að textar Nýja testamentisins séu nú ekki hættulegir neinum. Staðreyndin er hins vegar sú að orð Guðs hefur áhrif, það er beitt og öflugt, það breytir lífi þeirra sem mæta náðarkrafti Guðs. Ég er ekki viss um að margir samtímamenn Jesú hafi lýst honum sem boðbera saklausra og skaðlausra hefða. Fólk lætur lífið vegna trúar sinnar á boðskap Nýja testamentisins, framtíð fólks breytist við snertingu Guðs.

Hver sérðu fyrir þér að séu viðbrögð okkar?

Nú er lag að breyta þessari útvötnuðu boðun. Ef okkur sem kennum okkur við Krist tekst að rífa okkur út úr eymd sinnuleysisins, náum að lyfta merki Krists á loft og boða fagnaðarerindið sem lífsbreytandi boðskap þá eru tækifærin endalaus. Nú þegar við megum öll vita að bænir eru ekki kenndar í grunnskólum, fagnaðarerindið er ekki boðað börnum í skólunum, þá er það okkar að stíga fram.

Ég var að vinna í Vatnaskógi í sumar sem oft áður og það var magnað að heyra drengina syngja af krafti sálma sr. Friðriks og Bjarna Eyjólfssonar í rútunni á leiðinni heim úr skóginum. Ég upplifði þar sterkt að framtíð æskulýðsstarfsins felst ekki í leikjatölvum og flottum græjum. Framtíðin felst í vönduðu starfi, þar sem boðið er upp á kjarngóða fræðslu, skemmtilega samveru og nánd við frábæra leiðtoga. Framtíð æskulýðsstarfsins byggist á því að Stebbar, Sillar, Sibbar, Tótur, Höddar, Kíur og Auðar á öllum aldri heyri kall Guðs til þjónustu við börn og unglinga, kenni þeim bænir og segi þeim frá fagnaðarerindinu um náð Guðs og kærleika.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.