Kirkjujarðirnar

Ég hef alltaf ætlað mér að fara í rannsóknarvinnu og skoða hvað liggur raunverulega að baki kirkjujörðunum sem voru settar undir ríkið 1907 og liggja til grundvallar samningi um laun presta og starfsfólks Biskupsstofu frá 1997. Það er hins vegar meira en að segja það að skoða þessi mál, enda virðist losarabragurinn hafa verið mikill í þessum málum langt fram á 20. öldina og jafnvel lengur. Reyndar er einhver aðgreining gerð milli kirkjujarða og ríkisjarða í fasteignabók 1942-1944, en hvað er átt við þar er ekki alveg ljóst.

Þess fyrir utan virðist eignarréttarhugtakið eða öllu fremur ráðstöfunarheimildir á kirkjujörðum vera fremur óljósar. Kirkjur virðast hafa verið skilgreindar sem sjálfseignarstofnanir í umsjón safnaðar og prests, en eftirlit og ábyrgð, ásamt heimildum safnaða og presta til að höndla með eignir kirkna eru ekki mjög skýrar. Þetta sést auðvitað enn í dag í deilum einstakra presta um forræði yfir prestsetursjörðum, sem hafa birst í ýmsum myndum á síðustu árum.

En hvað um það, svo virðist sem að um 1695 hafi tæplega 32% jarðnæðis á Íslandi hafa verið í eigu kirkjunnar með einum eða öðrum hætti. Þar af átti Hólastóll um 9% og Skálholt tæplega 7%. Á sama tíma var 52% lands í einkaeign og ríflega 16% í eigu konungs.

170 árum síðar, 1865, hefur eignarhaldið breyst gífurlega. Þar munar mest um að Biskupsstólarnir virðast báðir eignalausir en tæplega 74% jarðnæðis er komið í einkaeigu. Um sölu á eignum Skálholtsstóls má sjálfsagt lesa í grein Guðmundar Hálfdánarsonar í Sögu, 2005; 43 (2).

Nákvæmlega hversu mikið jarðnæði var eftir í eigu kirkjunnar um 1907, liggur ekki alveg ljóst fyrir án mikillar rannsóknarvinnu. Þó er ljóst að mikil eignarýrnun hafði orðið aldirnar tvær á undan. Þessi sala á kirkjujörðum hélt síðan stöðuglega áfram eftir að ríkið tók yfir eignirnar og í kringum 1970 kom upp gagnrýnin umræða um að ríkið hafi oft og iðulega selt þessar jarðir á undirverði til að koma þeim í einkaeigu (e.t.v. fyrstu einkavæðingaráform íslenska ríkisins). Það má því leiða að því líkum að tekjur ríkisins af yfirtöku jarðanna hafi orðið verulega mun minni en þær hefðu getað orðið, ef vel hefði verið staðið að sölu þeirra.

Af ofansögðu virðist ljóst að þegar kirkjan afhendir jarðirnar til ríkisins, þá virðist það á tímapunkti þar sem kirkjan stefndi hraðbyri í að éta upp allar eigur sínar. Ávöxtun og afurðir jarðanna stóðu ekki undir rekstri og jarðir höfðu verið seldar í miklum mæli árhundruðin á undan. Þannig komst kirkjan í skjól með samningnum og tókst að viðhalda starfi sínu fram á 21. öldina. Hins vegar er jafnljóst að þegar að velvild í garð kirkjunnar minnkar hjá stjórnvöldum, þá er alls ekki ósennilegt að samningurinn verði á einhverjum tímapunkti tekinn til endurskoðunar. Þá er ekki víst að stjórnvöld telji endilega hagkvæmt að viðhalda honum. Það er e.t.v. að koma sá tími að við sem berum hag kirkjunnar fyrir brjósti búum okkur undir stórtækar breytingar á rekstrarumhverfi hennar.

Djúp rannsóknarvinna bíður betri tíma. Ef það eru villur í því sem ég hef þegar skoðað þá eru athugasemdir vel þegnar.