Reglurnar

Í mínum hluta skógarins hefur margt breyst. Það er minna en 10 ár síðan fagfólk og sjálfboðaliðar í kristilegu æskulýðsstarfi settu sér siðareglur og fóru á markvissan hátt að taka á óæskilegri hegðun samstarfsfólks. Fram að þeim tíma má segja að flestar siðareglur hafi lagt ofuráherslu á gagnkvæma virðingu kollega og snúist fyrst og fremst um starfsvernd og samstöðu þeirra sem tilheyrðu viðkomandi “gildi”. Þetta má sjá bæði í eldri siðareglum presta og lækna, sjálfsagt lögfræðinga líka.

Hluti af þróun síðustu ára hefur byggt á auknum skilningi á valdastrúkturum í samfélaginu og áherslu m.a. femínskra kennikvenna og -manna á að skilgreina og sjá valdaójafnvægi milli hópa og ekki síður einstaklinga. Þannig hefur áherslan í siðareglum færst af því að vernda “gildið”/hópinn/félaganna, í það að vernda skjólstæðinga frá misbeitingu valds. Þannig snúast siðareglur síðustu ára um vernd frá þeim sem undir siðareglurnar eru sett. Í stað þess að vernda samstöðu þeirra sem eiga sér reglurnar.

Hins vegar velti ég stundum fyrir mér hvort að næsta skref verði að af-fagvæða siðareglur, gera þær læsilegri og einfaldari, skýrari og beinskeyttari. Af þeim sökum skrifaði ég mér mínar eigin reglur sem hanga fyrir ofan skrifborðið mitt í vinnunni.

Reglurnar:

  • Vera góður
  • Hjálpa
  • Ekki stríða
  • Ekki meiða
  • Hlusta (oft erfitt)
  • Segja takk
  • Taka tillit
Svona reglur, ef við færum eftir þeim, myndu einfalda margt.