Upplifun – ígrundun – reynsla

Ég sat í gær áhugaverða ráðstefnu á menntavísindasviði Háskóla Íslands um útinám. Það var um margt áhugavert að heyra faglegt samtal um þætti sem ég hef tileinkað líf mitt, þar sem notast var við fullkomlega “sekúliserað” orðfæri. Þannig rímaði áherslan á naratívuna og persónulega upplifun ásamt mikilvægi ígrundunar fullkomlega við helstu áherslur í því fræðsluefni sem ég hef unnið að síðustu ár. Þó inntak naratívunnar, upplifuninnar og reynslunnar væri kannski ekki alltaf á hreinu í framsetningu fyrirlesaranna í gær, enda að þeirra mati e.t.v. ekki aðalatriði.

Það var áhugavert að ræða mjög stuttlega við Mr. Henderson aðalræðumann ráðstefnunar um mannskilning og heyra útskýringu hans á því hvað fælist í að hafa “slæman” (e. bad) mannskilning. En til að útskýra hugtakið þá benti hann á hvernig kristnir menn sjá fyrir sér mannkyn í kjölfar fallsins. Ég reyndi kurteysislega að malda örlítið í móinn og benti á að “sinner/saint” nálgunin væri meira “ambiguous” en svo að hægt væri að flokka kristinn mannskilning sem alfarið góðan eða slæman, en ég er ekki viss um að hafa verið mjög sannfærandi.

Annars var margt mjög spennandi sagt og vangavelta sem Jakob Frímann Þorsteinsson velti upp eitthvað á þá leið að reynsla væri ígrunduð upplifun (og ég vona að ég hafi skilið hann rétt), fannst mér gífurlega gagnleg og hjálpleg, þegar við notumst við þessi hugtök í samtali og framsetningu á því hvað við erum að gera í óformlegu námi.