Sjálfstýrð teymi

Einn af fjölmörgum bloggurum sem ég les reglulega hefur sérstakan flokk sem kallast dylgjublogg. Þetta gæti flokkast undir það.

Eitt af fjölmörgum verkefnum hér í Organisational Behavior í síðustu viku var að fjalla um “self-managed teams” (e. sjálfstýrð teymi). En slík eru talin allra meina bót. Í verkefninu átti ég að fjalla um reynslu mína af slíkum teymum og bera saman við kenningarnar. Nú má segja að sjálfstýrð teymi einkenni uppbyggingu félagasamtaka eins og KFUM og KFUK. Því leitaði ég í reynslu mína sem æskulýðsfulltrúi þar. Minnistæðasta teymið frá þeim tíma, með fullri virðingu fyrir deildarstarfsteymum, er án vafa undirbúningshópur landsmóts unglingadeilda líklega 2002, en ég bar ábyrgð á þeirri ákvörðun að skipa í nefndina hóp efnilegra leiðtoga og gaf þeim lausan tauminn í skipulagsvinnu, í samræmi við þær kenningar sem þykja bestar þegar kemur að sjálfstýrðum teymum. Alla vega er það svo í minningunni. Ég reyndar vissi ekkert um slík teymi og kenningar á því sviði á þessum tíma, svo ég var ekki nægilega meðvitaður um hætturnar sem gætu skapast.

Ég vona að kennarinn minn hafi hins vegar ánægju og gleði af að lesa um það þegar ung og ábyrg stúlka kom að máli við mig á miðju landsmóti til að segja mér hvað væri framundan þá um kvöldið. Annars verð ég að segja að ég gat hlegið þegar ég skrifaði frásögnina og bar atburðarásina saman við kenningarnar nú meira en 5 árum síðar, en boy child, o, boy child, mér var ekki hlátur í huga þá.

Sérverkefni

Á hverju ári tek ég ákvörðun um að draga úr sérverkefnavinnu, sér í lagi á sviði umbrots og hönnunar, en á hverju ári segi ég samt já við fleiri verkefnum en e.t.v. ég ætti að gera. Ein af ástæðum já-anna er að þeir sem leita til mín eru oft að gera svo frábæra hluti að mér finnst gaman að fá að taka þátt. Þar eru Skyrgámur og Jól í skókassa auðvitað í sérflokki enda lít ég á þátttöku í þeim verkefnum sem framlag mitt til betri heims, en ekki er síður gaman að fá að setja mark á Landsmót kirkjunnar á Hvammstanga, skrifa greinargerðir um kirkjuleg málefni, hanna merki fyrir æskulýðsmót, taka þátt í vefmótun frjálsra félagasamtaka eða viðhalda útliti og sjá um hönnun fréttabréfs Grensássafnaðar.

Öll þessi verkefni gera mér mögulegt að hlera hvað er í gangi heima, um leið og ég get réttlætt fyrir sjálfum mér og konunni að ég þurfi að eiga MacBook og viðeigandi hugbúnað. Þegar ég fór að atast í svona verkefnum fyrir rúmum 10-12 árum, þá man ég að mörkin fyrir vsk-skyldan rekstur var í 180.000 krónum og ég reyndi að miða við að halda verkefnatekjum neðan þess ramma. Reyndar var ég um tíma með vsk-númer enda starfaði ég freelance í rúmt ár og verkefnatekjurnar þurftu að duga fyrir meiru en viðhaldi hug- og vélbúnaðar.

Upp á síðkastið hafa dottið inn nokkur verkefni sem eru spennandi eða gætu orðið það og því ákvað ég að fletta upp vsk-mörkunum fyrir einstaklinga. Það er af sem áður var. Nú eru vsk-mörkin orðin 500.000 krónur og ljóst að lítil hætta er á að ég ögri þeim að ráði verandi í námi í BNA.

Hvenær á að bakka?

Ég fór í sumarbúðir um helgina með dóttur minni, e.t.v. ekki í frásögur færandi, nema hvað að þetta er í fyrsta sinn síðan 1991 sem ég fer í sumarbúðir án þess að hafa annað hlutverk en það að vera þátttakandi eða vera gefið hlutverk/verkefni þegar ég mæti á staðinn. Þetta var um margt spennandi reynsla, helgi í feðginadagskrá þar sem markmiðið var að njóta þess að vera til. Continue reading Hvenær á að bakka?

Já, ekki yngist maður

Ég er að skrifa pappír í Ministry in Worship, þar sem ég geri grein fyrir aðkomu minni að trúarlegu helgihaldi. Ég að sjálfsögðu lít á barnamessurnar í Laugarneskirkju, þegar Jesús í rauða sloppnum gnæfði yfir altarinu. Ég geri grein fyrir uppbyggingu KFUM/KFUK og síðar KSS funda sem helgihalds með ofuráherslu á orðið og orðið eitt. Hins vegar var mest sjokkerandi vangaveltan um hlutverk bænastunda í kapellunni í Vatnaskógi, en þar kemur fram að ég fór í fyrsta skipti í flokk í Vatnaskógi fyrir 26 árum. Ég vissi ekki einu sinni að ég væri svona gamall. Það sem verra er, ég gæti séð fram á möguleika á að koma kannski til Íslands í sumar í 10 daga, og það fyrsta sem ég hugsaði um var hvort það passaði við flokkaskrána í Skóginum.

Dómur fallinn

Í máli Kristins Jens gegn Prestsetrasjóði hlýtur neðangreind niðurstaða að teljast sú mikilvægasta:

Tilkoma sumarbústaðabyggðar felur án nokkurs vafa í sér varanlega breytingu á prestssetri, umhverfi þess og ásýnd og eru viðbætur við það. Er að mati dómsins engum vafa undirorpið að til þurfi atbeina stefnda til að sumarbústaðabyggð verði komið á fót í landi prestssetursins. Stefndi hefur fullyrt að stefnandi hafi ekki fengið leyfi stefnda til þess og hefur stefnanda ekki tekist sönnun um hið gagnstæða.

Á það sér í lagi við af tveimur ástæðum. Annars vegar að presti er ekki heimilt að nytja jörð þá sem hann hefur til umráða að vild án atbeina Prestsetrasjóðs. Hitt er að sögusögnum um að formaður prestsetrasjóðs og e.t.v. fleiri hafi jánkað sumarbústaðabyggð í landinu er hafnað sem ósönnuðum. Þessi niðurstaða er gleðifrétt fyrir Skógarmenn KFUM í Vatnaskógi, en kallar væntanlega á áfrýjun til Hæstaréttar.

Vegið að Vatnaskógi

Enn á ný birtast á prenti hugmyndir staðarhaldara á Saurbæ um að breyta hluta sumarbúðanna í Vatnaskógi í frístundabyggð. Þessar hugmyndir komu fyrst fram á aðalskipulagi fyrir 2-3 árum og var strax mótmælt harðlega af Skógarmönnum KFUM. Nú eru hugmyndirnar faldar í texta um breytingar á skipulagi frá 2014. Þannig er jarðvegurinn undirbúin fyrir aðra atlögu að því starfi sem unnið er í Vatnaskógi.

Continue reading Vegið að Vatnaskógi

Stundum eru góðir dagar

Þegar ég kom til Íslands í nótt biðu mín margvíslegar góðar fréttir. Þar má nefna að ég er uppáhalds-tengdabarnabarn Jennýjar Karlsdóttur. Ég, fyrir hönd Skógarmanna KFUM hef fengið fjármagn til að ljúka gerð fermingarfræðsluefnis um Hallgrím Pétursson og Guðrún systir hefur fengið styrk til áframhaldandi rannsókna á tónlistararfi Íslendinga.

Það er þó ekki það eina. Í gær fékk ég svohljóðandi bréf í pósti: Continue reading Stundum eru góðir dagar

Fjör í Vatnaskógi

Loksins, loksins er byrjað að berast blogg [1], [2], [3] og [4] úr sumarbúðum KFUM og KFUK. Styrmir Magnússon, sá góði maður, sendir inn færslur úr Vatnaskógi daglega á kfum.is. Ég reyndar efast um að þetta haldi áfram eftir að Styrmir kemur í bæinn. En mjór er mikils vísir.

Reyndar voru gerðar tilraunir með daglegar myndasíður úr Vatnaskógi í nokkrum flokkum sumarið 2001, en burðargeta símalínunnar í Svínadal var ekki fullnægjandi.