The Matrix

Í lok janúar 2003 fór ég á ráðstefnu fyrir æskulýðsfulltrúa sem var haldin í High Leigh Christian Conference Centre í Englandi. Pétur Björgvin vildi heyra meira um ráðstefnuna og því skelli ég þönkum mínum hér.

Ráðstefnan var sameiginlegt verkefni kirkna og félagasamtaka á Englandi, m.a. Amaze (www.amaze.org.uk), Frontier Youth Trust (www.fyt.org.uk), Youth for Christ, Baptist Union of Great Britian, Centre for Youth Ministry, Oxford Youth Works, Scripture Union og CPAS. Öll þessi samtök eiga það sameiginlegt að standa að kristilegu starfi fyrir ungt fólk. Ég frétti af ráðstefnunni í gegnum tímaritið Youthwork sem KFUM og KFUK á Íslandi er áskrifandi að og ákvað að skrá mig eftir að hafa skoðað á heimasíðu ráðstefnunnar hvaða málefni yrði fjallað um. Landssamband KFUM og KFUK styrkti mig um fargjöld og námskeiðsgjald.

Um ráðstefnuna

Ráðstefnan stóð í rúma tvo sólarhringa og var byggð upp í kringum tvo meginfyrirlestra og valdagskrá sem skiptist í fjórar samverur. Þar var upp á vinnuhópa (workshops) og tveir spjallstundir (chat-rooms). Í lokin var samantekt á umfjöllun ráðstefnunar.

Aðalfyrirlesarar voru tveir, Graham Glay, biskup frá ensku biskupakirkjunni, sérfræðingur á sviði unglingamenningar og æskulýðsstarfs og Sam Richards, framkvæmdastjóri Oxford Youth Works.

Þá stýrði mikill fjöldi sérfræðinga spjallstundunum og vinnuhópunum.

Rúmlega 200 æskulýðsfulltrúar sóttu ráðstefnuna, því sem næst allir frá Bretlandi, en þó voru einstaklingar frá Danmörku, Hollandi, Bandaríkjunum, Íslandi (ég) og Sviss. Hér á eftir fylgja minnispunktar af ráðstefnunni. Þar er margt að finna sem að gagni getur komið í kristilegu æskulýðsstarfi.

Fyrirlestur Graham Glay

Graham Glay hóf ráðstefnuna með umfjöllun um stöðu kirkjunnar og okkar í þjóðfélagi sem væri ekki lengur post-modernískt, ekki lengur post eitt eða neitt, heldur alveg nýtt. Hann lagði áherslu á að þetta nýja þjóðfélag skilgreindi fjarlægðir á nýjan hátt, fjarlægðir væru mældar í sekúndum en ekki metrum. Tíminn væri mælieiningin sem sameinaði eða sundraði. Hið nýja þjóðfélag gerði kröfu um hraða, við værum í neysluþjóðfélagi þar sem fólk vildi kaupa skilgreinda pakka en hafnaði óljósum óskilgreindum hugmyndir um félagskennd eða samfélag. Safnaðarvitund væri hugtak gamals tíma, engin lofar að tilheyra einhverju alla tíð. Æviráðningar heyra fortíðinni til.

Hvernig mætir kirkjan/kristilegt starf til leiks í þessum aðstæðum? Höfum við eitthvað að bjóða?

Graham Glay lagði áherslu á að þörfin fyrir elsku, traust og það að tilheyra væri ekki horfin. Hún væri breytt og kristilegt starf þyrfti líkt og áður að koma til móts við þessar breytingar. Vandamálið væri hvernig!

Fyrirlestur Sam Richards

Sam Richards nálgaðist veruleikann á annan hátt. Hún vísaði til iðnbyltingarinnar á 17. öld og sagði að e.t.v. væri breytingin ekki jafnmikil nú og við héldum. Alla vega væri ljóst að þarfir ungs fólks væru þær sömu, ást, traust og það að tilheyra. Kirkjan hefði það hlutverk að finna þessum þörfum farveg í samfélagi fólks og við Guð. Sam velti einnig fyrir sér stöðu æskulýðsstarfs í kirkjunni og notaðist við líkingu Páls postula um að við værum líkami Krists. Hennar niðurstaða var sú að æskulýðsstarfið væru kynfæri kirkjunnar. Alla vega liti svo út að kirkjan væri heltekin af kynlífi ungs fólks, um það væru skrifaðar fleiri bækur en um nokkuð annað sem snertir unglinga. Þá væru kynfærin yfirleitt hulin sjónum annarra, við værum feimin að tala um þau og til hvers þau væru ætluð. Síðast en ekki síst væri æskulýðsstarfið það starf sem ylli vexti í kirkjunni. Hennar kall til okkar var að hugsa áfram og reyna að gera æskulýðsstarfið að sjálfsögðum hlut sem kirkjan þyrði að viðurkenna og samþykkja. Vandi barna- og æskulýðsstarfs er að við erum að kenna unga fólkinu að lifa í samfélagi. Samfélagið hræðist þetta unga fólk því það er ekki visst um að unga fólkið nái að læra rétt á samfélagið. Segja má að í ungu fólki felist bæði í senn ógnanir og tækifæri kirkjunnar.

Þá fjallaði Sam um mikilvægi þess að hafa jafnvægi milli vinnu-hvíldar-helgihalds-frítíma. Hún nefndi til sögunnar nunnureglu sem skiptir tíma sínum í fernt, sex tímar á sólarhring fari í hvern þátt.

Þá er mikilvægt að við nýtum okkur það að unglingar hafa oft ekkert að gera – en fullt að gefa.

Lokaorð Graham Glay

Í samantekt sinni í lok ráðstefnunnar kallaði Graham Glay, æskulýðsfulltrúa til að vera brúarsmiði, sem brúuðu gjána milli kirkju samtímans og unga fólksins. Það væri kirkjunni nauðsyn að finna leið til að bjóða ungt fólk inn í kirkjuna.

Spjallstund um stuðning

Fyrra spjallið sem ég tók þátt í fjallaði um mikilvægi þess að hafa virkan stuðning jafnt til að takast á við heimilislífið, vinnuna og trúarlífið. Greint var á milli tvenns konar stuðnings, annars vegar jafningastuðnings (peer-support) og hins vegar ráðgjafar (counsultary). Í hópnum sem ég settist í varð nokkur umræða um mikilvægi þess að geta greint á milli ofangreindra þátta (heimilis/vinnu/trúarlífs). Spurningar um andlega uppbyggingu þess sem sífellt er að vinna að helgihaldi og möguleika til byggja sjálfan sig upp trúarlega í vinnunni voru meðal þess sem rætt var.

Spjallstund um hagnýt málefni

Síðara spjallið var um hagnýt málefni, en 1999 var sett á stofn skrifstofa til að annast ráðgjöf til æskulýðsleiðtoga um lagaleg álitamál tengd starfinu og eins um kjaramál. Starfsmaður skrifstofunnar bauð upp á spjall um slík mál. Þar var áhugavert að heyra að starfsumhverfi kirkjustarfsmanna á Englandi er um margt líkt íslenskum aðstæðum. Óljóst vinnuumhverfi, illa unnar starfslýsingar (eða engar) og flókin ákvarðanataka eru daglegt brauð fjölmargra leiðtoga á Bretlandseyjum. Umræðan snerist nokkuð um líðan starfsfólks við slíkar aðstæður og mikilvægi gagnkvæms stuðnings.

Meðal endingartími æskulýðsfulltrúa á Bretlandseyjum er 18-24 mánuðir. Ástæðan að hluta sú að það að starfa fyrir Krist er tengt öllum öðrum þáttum í lífi okkar, starfinu fylgja miklar tilfinningar, okkur er ekki sama.

Vinnuhópur um öflun og viðhald sjálfboðaliða

Boðið var upp á vinnuhóp um öflun og viðhald sjálfboðaliða. Uppbyggingin var þó líkari fyrirlestri enda á 6. tug leiðtoga á samverunni. Meðal þess sem fram kom og ég vissi svo sem var að hvatningin er prímus-mótor í sjálfboðaliðastarfi. Þannig ræddi umsjónarmaðurinn um að þegar hvatinn til starfa yrði minni en daglegt stress sjálfboðaliðans myndi hann fljótt láta sig hverfa. Áhersla var lögð á að sína sjálfboðaliðunum í heild áhuga en ekki bara þeim verkefnum sem þeir sinna. Varað var við því að auglýsa eftir sjálfboðaliðum. Bent var á að senda persónuleg bréf til þeirra sem kynnu að henta, leyfa viðkomandi að hugsa málið og bjóða á fund e.t.v. tveimur vikum síðar þar sem verkefnið yrði kynnt frekar.

Ítrekað var að ráðningarsamningur og starfsmannaviðtöl eru skylda í Bretlandi ef viðkomandi sjálfboðaliðar koma til með að starfa með börnum (barnaverndarlög).

Þá væri mikilvægt að hafa starfið áberandi, myndir á veggjum, fréttir í fréttabréfi o.s.frv.

Mikilvægt er að launaður starfsmaður gefi sér a.m.k. jafn mikinn tíma með sjálfboðaliðunu
m
og börnunum/unglingunum. Bent var á mikilvægi persónulegra funda.

Þá kallaði fyrirlesarinn eftir því að fyrir og eftir hvern fund væri samstarfsfundur með starfsfólki, annars vegar til að biðja fyrir og fara yfir það sem gera á, hins vegar mat (debriefing) á því hvernig til tókst og bænastund fyrir starfsfólki í komandi viku. Slíkar samstarfsstundir séu mikilvægari en lengd viðvera með unglingunum/börnunum. Mikilvægast sé að tíminn með börnunum sé vel skipulagður, ekki sé atriði að hann sé endilega sem lengstur.

Þá benti fyrirlesarinn á mikilvægi þess að byggja skýrslur um starfið upp á frásögum og myndum en ekki tölfræðilegum upplýsingum. Umræða varð um hvort myndataka af börnum/unglingum í kirkjustarfi/kristilegu starfi væri brott á friðhelgi einkalífsins en slík umræða hefur vaknað í Bretlandi í kjölfar nýrra barnaverndarlaga.

Bent var á mikilvægi þess að sjálfboðaliðar fái tækifæri til að sækja námskeið á því sviði sem þeir sjálfir hafa áhuga á, en ekki aðeins í því sem hentar félaginu/kirkjunni. Hugmynd kom upp að hafa starfsmannanámskeið á fundartíma, fella fundinn niður og útskýra fyrir börnum/unglingum og foreldrum að starfsfólkið sé að mennta sig til að geta boðið upp á enn betri dagskrá. Jafnvel að hafa árlegan starfsdag alls starfsfólksins.

Velt var upp spurningum um trúaruppbyggingu leiðtoga, sér í lagi ef trúargrunnur leiðtoga er EKKI sterkur. Hvort hægt sé að senda leiðtoga og unglinga saman á veginn til þekkingar á Kristi.

Mikilvægi þess að ráðningarsamningur/erindisbréf innihaldi hversu mikinn tíma er verið að óska eftir, fundartíma og tíma til mats, fjölda samvera á ári og helgarferðir. Þannig að öllum sé ljóst hvað sjálfboðaliðarnir eru að bjóða sig fram til. Hægt er að gera slíka samninga við eldra starfsfólks með því að vísa til Barnaverndarlaga og/eða með vísun til starfsmannatrygginga.

Nauðsynlegt er að starfsfólk sé tekið reglulega fram til fyrirbænar í söfnuðinum.

Vinnuhópur um að ná til 11-14 ára

Kirkjan á Bretlandi hefur látið rannsaka þátttöku svokallaðra “Tweenagers” (between child and teenagers – 11-14 ára) í guðsþjónustustarfi, en þátttaka þeirra hefur dregist gífurlega saman. Vangaveltur eru um að virkja afa og ömmu til að taka börnin með. Vandamálin felast í því að kirkjur eru hannaðar fyrir fullvaxna, bekkir og táknmyndir t.d. Við þurfum að spyrja hvar vill unga fólkið vera og hvað viljum við gera? Frekari umfjöllun um rannsóknina og stöðu þessa aldurshóps er í bókinni Reaching and Kepping Tweenagers sem ég hef fest kaup á og hægt er að nálgast í vinnunni minni.

Vinnuhópur um að virkja ungt fólk

Ég tók einnig þátt í hópi um hvernig má virkja ungt fólk til starfa. Þar var fjallað um samspil ábyrgðar og valda. Ýmsar rannsóknir og vangaveltur sem kynntar voru má finna í bókinni Inspiration sem ég keypti og hægt er að fá lánaða hjá mér.

Vinnuhópur um trúarlíf / andlegt líf ungs fólks

Þar var rætt um þann vanda sem blasir við kristilegu starfi að ungt fólk er oft á tíðum andlega þenkjandi en tengir þá þanka ekki við kristilegt starf, þar sem sér í lagi kirkjan sé stöðnuð og hafi ekki upp á neitt að bjóða. Að lokinni ráðstefnu keypti ég Nick Hornby: How To Be Good, en þar lýsir Hornby þessum veruleika mjög vel. Kirkjan þarf að skilja mikilvægi þess að vera EPIC (Experience, Participative, Image Driven, Connected). Kirkjan er það reyndar, en þarf að muna það líka. Hætta margra er að upplifa en missa af merkingu (T.S. Elliot), kannski vegna þess að tenginguna vantar (samfélagið).

Umfjöllun í þessum vinnuhóp var um margt áhugaverð og ákall til okkar um að finna leiðir til að gera boðskapinn um Krist, veruleika í heiminum sem við lifum í en ekki aðeins forna hugmynd um góðan gæja.

Ýmsir aðrir þankar

Ráðstefnan kallaði fram margvíslega þanka, margt er skráð hér að ofan annað ekki. Nokkrir samhengislausir punktar eru þessir:

Ráðningarsamningar í kirkjunni og hjá félagasamtökum þurfa að ná til allra: Kórs, organista, kirkjuvarðar, meðhjálpara, sóknarnefndar, öldrunarstarfs, húsmóður safnaðarheimilis, sjálfboðaliða í æskulýðsstarfi o.s.frv Þá er þörf á því að markmið og stefna félagsins/kirkjunnar séu sýnileg, t.d. í ramma uppi á vegg.

Af hverju launað starfsfólk? Til að minnka álag sjálfboðaliða, vinna að langtímamarkmiðum, innra eftirlit í söfnuði (félagi).

Lokaorð

Það var margt að læra á stuttum tíma á Matrix ráðstefnunni. Margt var sagt sem ég vissi ekki að ég vissi. Annað sem ég vissi að ég vissi og loks ýmislegt sem ég hafði ekki leitt hugann að. Slíkar ráðstefnur hjálpa til við að „fókusa“ á það sem skiptir máli og minna á hvað það er sem skiptir máli.

Af þeim sökum vil ég þakka stjórn Landssambandsins fyrir að auðvelda mér að sækja þessa ráðstefnu. Ég vona að þessir punktar nýtist starfsfólki í æskulýðsstarfi KFUM og KFUK og kirkjunnar til hugleiðinga.

One thought on “The Matrix”

  1. Takk fyrir að deila þessu með okkur Halldór. Þetta hefur augljóslega verið hin gagnlegasta ferð. Hér koma fram margir gagnlegir punktar sem vert er að íhuga. Held að það myndi skila miklu ef við gætum sent hóp frá okkur á svona ráðstefnu!

Comments are closed.