Hvað er á seyði hjá Flugleiðum?

Sumarið 2002 var gengi Icelandair í sögulegu lágmarki og fór niður fyrir 2 krónur á hlut. Nú tæpum tveimur árum síðar, nánar tiltekið 17. maí s.l. seldi Baugur Saxhóli bréf á 9 krónur hvern hlut, en það er meira en fjórföldun á verðmæti fyrirtækisins.

Þessi mikla breyting á verðmæti félagsins hlýtur að teljast í frásögur færandi og full ástæða til að velta fyrir sér hvað veldur.

Upplausnarvirði Icelandair er í dag 4,23 krónur og hefur hækkað um 1,5 krónur síðan sumarið 2002, en var næstu 10-15 ár á undan um 3 krónur á hlut. (Leiðrétt 24. maí kl. 13:55)

Margir telja að aðgengi Icelandair á flugvöllum í BNA séu gífurlega verðmæt. Þau verðmæti eru hvergi færð til bókar enda banna reglur í BNA framsal þeirra. Verðmæti “slotanna” eru engar nýjar fréttir og ekkert sem ég veit sem bendir til þess að þau breytist í verðmæti í náinni framtíð. Skýringanna er því vart að leita þar.

Undanfarin tvö ár hefur verið unnið að mikilli hagræðingu innan hús. Sú hagræðing sem um ræðir felst að miklu leiti í rýrnun þjónustu við viðskiptavini. Sem leiðir að öðru jöfnu til lækkunar á veltu fyrirtækisins. Þó er þar um að ræða einhver tækifæri til aukins hagnaðar. Þannig felst meginhluti hagræðingarinnar í bókunarmálum sem skilaði sparnaði upp á 250 milljónir króna á milli áranna 2002 og 2003. Ef gert er ráð fyrir 7% ávöxtunarkröfu ætti slík hagræðing að valda hækkun upp á 1,6 krónu á hvern hlut að öðru jöfnu. Hins vegar er ekki annað jafnt, flugfargjöld hafa lækkað verulega á þessum tíma.

Á þessum tíma hefur Icelandair styrkt leiguflugvélaþjónustu sína. Sá markaður er hægt að jafna sig eftir áfallið 11. september 2001 og ætla má að Icelandair hafi einhverja möguleika á árangri þar. Hins vegar þarf að halda vel á málum og erfitt gæti reynst fyrir Icelandair að fóta sig þar, bundið af kjarasamningum við íslenska flugmenn, ólíkt helstu samkeppnisaðilum.

Ef litið er til þátta sem ættu að hafa neikvæð áhrif á gengisþróun, má nefna að IcelandExpress hefur náð fótfestu á tveimur af dýrmætustu leiðum Icelandair. Þetta hefur valdið lækkun flugfargjalda á þeim leiðum.

Boeing verksmiðjurnar hafa tekið ákvörðun um að hætta framleiðslu 757 vélanna sem eru grunnur flugflota Icelandair. Það var í kringum 1995 að félagið ákvað að hafa einungis eina flugvélategund í flota sínum til að ná fram sparnaði. Nú liggur fyrir að sú leið er ekki lengur fær ef félagið vill notast við nýjar véla og félagið hefur nú þegar tekið Boeing 767 vél í notkun. Þessi þróun mun kalla á kostnaðarsamar breytingar á flugvélaflotanum í náinni framtíð, aukin kostnað við varahlutalager og þjálfun flugmanna.

Hvað veldur þessari hækkun? Ég hef hér farið á hundavaði yfir nokkrar breytur í starfsumhverfi Icelandair. Enginn þeirra útskýrir þessa gífurlegu hækkun á verðmæti félagsins sem hefur átt sér stað á undanförnum tveimur árum (ath. Elli 17/5 kl. 14:33 – hægt er að réttlæta með þeim gengi að 6 krónum á hlut), en verðmæti fyrirtækisins hefur aukist um 16 milljarða króna m.v. verðið 17. maí s.l. Reyndar er ein breyting sem ég hef látið ógert að nefna. Á þessum tíma losnaði Icelandair úr viðjum Kolkrabbans svonefnda. Getur verið að þeir hafi dælt svo miklu fjármagni úr fyrirtækinu á hverju ári að það standi undir þessari gífurlegu hækkun bréfa?

Það kemur væntanlega í ljós í ársreikningum félagsins fyrir árið 2004.