How Are You Today?

Á lestarpallinum á leiðinni í vinnuna í gærmorgun var ég spurður, “How are you, today?” Spurningin “How are you?” er einhver sú marklausasta í enskri tungu og eftir 10 ár í Bandaríkjunum hef ég lært að svara “Fine and you?” og ganga síðan framhjá viðkomandi.

Þegar ég hins vegar sagði “Fine” í gær, sá ég að það var eitthvað annað í gangi. Fólkið á pallinum þagnaði og leit á mig. Það var þögn þangað til lestin kom. Ég missti nefnilega af því að áherslan hjá spyrlinum var á orðinu “today”. Þetta var ekki óþolandi kurteisisspurningin, þetta var spurning um hvort að samtalið um sorgina og óttann sem hafði átt sér stað á lestarpallinum áður en ég kom gæti haldið áfram, nú þegar hvítur miðaldra karlmaður var kominn á svæðið.

Ég uppgötvaði mistökin þegar ég horfði á fólkið í kringum mig í þögn, horfandi á tærnar á sér. Ég ákvað að segja ekkert, en skrifaði Facebook status í lestinni um hvernig allir hafa tilhneigingu til að fyrirgefa siðferðisbresti þeirra sem okkur líkar við. Við frjálslynda fólkið fyrirgefum kynferðisglæpi Woody Allen og Roman Polanski í nafni listarinnar, íbúar Cleveland samþykkja kynþáttahatrið sem felst í lukkudýri hafnaboltaliðsins vegna þess að þetta eru bara íþróttir. Karlar fyrirgefa Trump kynferðisárásir vegna þess að hann er víst góður í “business”. Þegar ég kom í vinnuna, fann ég strax hversu óviðeigandi statusinn var og eyddi honum. Það er einfaldlega ekki tími fyrir hrútskýringar núna. Það er ekki eins og hræðslan sé mín.

Þar sem ég var í vinnunni og talaði við fólk sem óttaðist að hjónabandið þeirra verði ógilt, ættingjar sendir úr landi, börnin þeirra áreitt í skólanum, heilsutryggingar ógildar, heilsugæslum lokað eða nauðsynlegar læknisaðgerðir bannaðar, þá skyldi ég á nýjan hátt að næstu dagar snúast ekki um hugmyndafræðilegar útskýringar mínar á ástandinu eða sigur og tap, heldur um hræðslu, óvissu og sorg.

Múslimarnir í kjörbúðinni við kirkjuna reyndu að taka þetta á gríninu þegar ég mætti til að kaupa Dietkókið mitt í hádeginu. Hótuðu hvor öðrum með því að nú yrðu þeir sendir úr landi og reyndu að sannfæra mig um að nú væri allt að verða “great”. Þeir voru ekki mjög sannfærandi.

Þegar leið á daginn skrifaði ég undir bréf til Miðstöðvar múslima í borginni þar sem ég lofaði að standa með og styðja þau í erfiðleikunum. Á sama hátt fór nafnið mitt á kveðju til Félagsmiðstöðvar LGBTQ í hverfinu, þar sem vinnustaðurinn minn lofar að vera griðastaður sama hvað á dynur. Ég bað með fólki í eftirmiðdagshelgihaldinu í kirkjunni. Ég heyrði í fólki sem sagðist hafa brostið í grát aftur og aftur síðan það fékk fréttirnar, fólki sem treysti sér ekki úr húsi til að funda með mér þá um kvöldið, því það væri hrætt og uppgefið.

Þegar dóttir mín sótti mig á lestarstöðina um kvöldið, þegar ég loksins komst heim úr vinnunni, sagði hún mér frá því að skólinn hefði boðið upp á sálgæsluviðtöl allan daginn. Skólastjórinn hefði ávarpað nemendurna um morguninn og lofað þeim að sama hvað gerðist, þá væri skólinn þeirra öruggt svæði þar sem allir ættu sama rétt, burtséð frá innflytjendastatus, kyni, kynþætti eða kynhneigð og starfsfólkið myndi standa með þeim sama hvað.

Það verður tími fyrir hvíta gagnkynhneigða gifta karlmenn til að greina, hrútskýra og burtskýra okkar þátt í því sem gerðist í forsetakosningunum í Bandaríkjunum. Í augnablikinu er hins vegar tími ótta, óvissu og sorgar hjá mörgum sem eru ekki eins og ég.

Ég er nefnilega “fine”. Ég þarf ekki að óttast að læknastofunni sem ég nota verði lokað af stjórnvöldum, Hæstiréttur er ekki að fara að ógilda hjónabandið mitt eða gera læknisaðgerðir refsiverðar sem ég gæti þurft á að halda. Börnin mín eru ekki útsett fyrir einelti af forsetanum vegna útlits eða klæðaburðar. Mínar heilsutryggingar hverfa ekki þó “Obamacare” verði fellt úr gildi. Ég verð ekki rekinn úr landi ef Alþjóðaviðskiptasamningum verður rift.

Ég laug engu á lestarpallinum í gærmorgun. En ég tók óaðvitandi stöðu með hinum gagnkynhneigðu hvítu giftu körlunum sem kölluðu óttann, hræðsluna og óvissuna yfir alla þá sem eru ekki þeir.

One thought on “How Are You Today?”

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.