Forsetakosningar í Bandaríkjunum og hugmyndir um Guð

Hér fyrir neðan er handritið að fræðsluerindi sem ég flutti á Sæludögum í Vatnaskógi sumarið 2016. Það er alltaf nokkrum vandkvæðum bundið að færa erindi sem er flutt munnlega inn á bloggið, viðbótarútskýringar sem ég bætti við í framsögunni og viðbrögð úr salnum vantar en innihaldið er í grunninn óbreytt.

Yfirlýsing John Kasich ríkisstjóra Ohio vakti athygli margra:

Ég virði þá staðreynd að þú trúir á að ríkisvaldið eigi að vera sem allra smæst. Ég trúi því líka. Ég veit samt einnig að þú ert trúuð manneskja.

Þegar þú deyrð og mætir Lykla Pétri við hliðið að himnaríki, þá mun hann líkast til ekki spyrja þig hvernig þú stóðst þig í að minnka opinbera geirann. Hann mun hins vegar spyrja hvað þú gerðir fyrir fátæka og þá sem þjást. Ég vona að þú hafir gott svar.

Í júní 2013, eftir að Greater Cleveland Congregations, hreyfing kirkna, moska og samkomuhúsa gyðinga í norðaustur Ohio hafði beitt sér af gífurlegum krafti og með stöðugum áróðri fyrir því að sjúkratryggingakerfi hins opinbera í Bandaríkjunum yrði útvíkkað í Ohio, gafst John Kasich ríkisstjóri Ohio upp.

Útvíkkunin var mikilvægur þáttur í tilraun alríkisstjórnar Obama til að hjálpa sem flestum Bandaríkjamönnum að fá sjúkratryggingu, en það var síðan lagt í hendur hvers ríkis (fylkis) fyrir sig að framkvæma hana. Í mörgum ríkjum þar sem repúblikanar voru við völd, tóku stjórnmálamenn sig til og höfnuðu útvíkkuninni að sögn af hugmyndafræðilegum ástæðum og andúð á hinu opinbera, en samspil alríkisins, þ.e. stjórnvalda í Washington DC og sjálfsákvörðunarrétts hvers ríkis fyrir sig er eitt af stærstu deilumálum bandarískra stjórnmála.

Söfnuðirnir sem mynduðu Greater Cleveland Congregations sáu greinilega afleiðingarnar af höfnuninni í nærumhverfinu, heyrðu sorgarsögur í matarbúrunum, meðlimir vinna á sjúkrahúsum sem tóku á móti ótryggðum börnum sem féllu á milli í hugmyndafræðilegum slagsmálum. Í söfnuðunum voru auðvitað bæði demókratar og repúblikanar, skynsamt fólk sem áttaði sig á að barnadauði í fátækrahverfum Cleveland er aldrei réttlætanlegur í nafni stjórnmálakenninga. Ungbarnadauði í Kinsmann hverfinu í Cleveland er rúmlega tífaldur á við ungbarnadauða á Íslandi svo dæmi sé tekið, þrátt fyrir að eitt af öflugustu sjúkrahúsum heims Cleveland Clinic, sé í aðeins 4-5 mínútna fjarlægð frá hverfinu. Auðvitað var medicare útvíkkunin ekki að fara að breyta öllu en hugmyndin um að gera ekkert var óhugsandi.

Þrýstingurinn skilaði sér eins og ég sagði, John Kasich gaf eftir. Kasich er íhaldsmaður, trúir sterklega á minnkandi ríkisafskipti og er mjög íhaldssamur í siðferðislegum efnum, hann er virkur í katólsku kirkjunni, hefur ötullega minnkað aðgengi að fóstureyðingum eftir að hann varð ríkisstjóri í Ohio og hefur verið gagnrýnin á aukin réttindi samkynhneigðra.

Þegar hann var málaður út í horn í Ohio, þegar kom að hinum smæstu og fátækustu, gaf hann samt eftir. Tilvísunin í upphafi, um mót okkar við Lykla Pétur, var yfirlýsingin sem hann gaf þegar hann tilkynnti að Ohio, myndi samþykkja útvíkkunina á Medicare.

Þegar ég var beðinn um það fyrir nokkrum mánuðum að vera með erindi á Sæludögum voru ennþá fimm frambjóðendur að reyna að heilla kjósendur til að velja sig sem framtíðarframbjóðenda annars tveggja stóru stjórnmálaflokkanna í BNA. Ég var um það leiti að skoða hvernig guðsmyndir þessara einstaklinga móta kosningabaráttu þeirra og hugmyndafræði, enda er trúarbakgrunnur þessara fimm frambjóðenda mjög ólíkur og endurspeglast að mínu viti með skýrum hætti í því fyrir hvað þau standa. Ég byrja þessa samveru með innleggi og þegar ég hef lokið máli mínu mun ég opna fyrir umræður og fyrirspurnir. Við stefnum að því að ljúka formlega um kl. 15:30, þó það sé aldrei alveg víst þegar ég á í hlut. En alla vega, eftir kl. 15:30 þá skil ég vel að þið viljið fara. J

Hægt er að setja trúarskoðanir og hugmyndir okkar um Guð upp á mismunandi vegu. Ein leiðin er að skoða hvort rétt trúariðkun snúist um persónulega trúarafstöðu eða hvort trú sé fyrst og fremst samfélagslegur sáttmáli.

Önnur leið til að skoða trúarhugmyndir og þá sér í lagi trúarbrögð bókarinnar, gyðingdóm, kristni og islam, er út frá því hvort trúaratferlið miðast að því að viðhalda ríkjandi samfélagsástandi og styðja ríkjandi kerfi eða hvort trúaratferlinu sé ætlað að leiða til samfélagslegra breytinga. Í Gamla Testamentinu stendur musterishefðin og helgihaldið fyrir samfélagsfestu á meðan spámannshefðin kallar á uppgjör og breytingar. Amos talar tæpitungulaust út frá spámannshefðinni í 5. kafla samnefndrar bókar í Gamla Testamentinu.

Ég hata, ég fyrirlít hátíðir yðar.

Ég hef enga ánægju af samkomum yðar. Jafnvel þótt þér færið mér brennifórnir og kornfórnir lít ég ekki við þeim, né heldur matfórnum yðar af alikálfum. Burt með glamur sálma þinna sem aðeins er hávaði. Ég vil ekki heyra hörpuleik þinn.

Réttvísi skal streyma fram sem vatn og réttlæti sem sírennandi lækur.

Rétt helgihald og tilraunir til viðhalds ríkjandi ástands, hefða og venja er vita gagnslaust ef við ástundum ekki kærleika og berjumst fyrir réttlætinu að mati Amos. Þessa spennu milli musteris- og spádómshefðarinnar má með góðum vilja heimfæra upp á eina vídd þess sem við köllum  vinstri og hægri í nútímastjórnmálum.

Svipað viðhorf og Amos hefur má sjá hjá fleirum, t.d. Míka og Jeremía. Aðrar spádómsbækur G.T. eru vinveittari musterishefðinni, svo sem Esekíel og hugsanlega Jesaja, og eins sjáum við musterishefðina skína í gegnum ákveðna hluta Mósebókarritanna. Biblíufræði eru svo sem ekki á mínu sérsviði í guðfræði svo ég leit staðar numið hér í þeim pælingum.

Það er mikilvægt í innleggi eins og ég er með hér að hafa þann fyrirvara að allar flokkanir og tilraunir til að útbúa stimpla, hvort sem er á stefnur, hugmyndir eða einstaklinga eru dæmdar til að vera takmarkaðar og í einhverjum skilningi til takmarkaðs gagns nema þá helst þegar við notum þær til að undirstrika fordóma okkar og styrkja fyrirframgefnar hugmyndir okkar um fólk. Innlegg mitt er einmitt þeim takmörkunum háð að mála með mjög breiðum pensli mynd af guðfræðihugmyndum sem birtast í ævi og ræðum nokkurra einstaklinga sem eiga það sammerkt að hafa leitað eftir stuðningi til að verða næsti forseti BNA, og þeir stimplar sem ég eru eðli máls skv. langt í frá fullnægjandi. En ég vona að við getum notað fyrirspurnahluta stundarinnar til að öðlast skilning á því hvernig mismunandi guðsmyndir móta okkar eigin hugmynd um Guð. Því eins og íslenski forsetaframbjóðandinn Elísabet Jökulsdóttir sagði svo eftirminnilega þá breytum við fyrst og fremst sjálfum okkur, en ekki öðrum.

En nú er rétt að staldra við og tala aðeins um mig. Ég hef orðið fyrir áhrifum af öllum þeim Guðsmyndum sem ég kynni til sögunnar og hef laðast á einhverjum tímapunkti að þeim flestum, ekki samt öllum. Þannig hef ég stundað nám, sótt námskeið eða starfað með/fyrir fólk sem aðhyllist allar þessar hugmyndir.

Þá þarf að koma fram að ég studdi kosningabaráttu Bernie Sanders fjárhagslega og mætti á kosningafund með honum í Cleveland. Þá er einnig rétt að taka fram að Pilgrim Congregational UCC er hluti af Greater Cleveland Congregations og ég hef tekið þátt í verkefnum á þeirra vegum.

Til baka að John Kasich. Eins og ég sagði áður, John Kasich er kristinn íhaldsmaður. Í áherslum hans má sjá sterka áherslu á hlýðni við yfirvald, hann var um margt feðraveldisframbjóðandinn, fulltrúi góðu íhaldsgildanna. Kasich hafði ekki áhyggjur af að standa frammi fyrir fátæklingunum sem hann hafði svipt rétti til sjúkratrygginga, áhyggjurnar sneru að Guði, yfirvaldinu, hvað myndi sá hæsti segja um gjörðir hans. Guð er dómarinn á efsta degi, það er aðeins gagnvart honum sem við svörum.

Kristni íhaldsmaðurinn er um margt hinn klassíski frambjóðandi í Bandarískum stjórnmálum og sér í lagi hjá repúblikunum. Enda átti Kasich erfitt með að skilja hvers vegna ekkert gekk upp í kosningabaráttunni. Vissulega hefur virðingin fyrir valdi minnkað, landsföðurímyndin selur ekki jafnvel, ekki einu sinni í BNA. En það var samt líklega yfirlýsingin um að standa frammi fyrir Lykla Pétri sem kostaði hann endanlega möguleikann á að verða forseti Bandaríkjanna (og auðvitað það að lenda í Trump). Í kosningabaráttunni var honum úthúðað fyrir að gefa eftir og taka upp Obamacare. Ákvörðun hans hefði verið eftirgjöf við hið illa sjálft. Frambjóðandinn sem leit til himnaföðursins eftir samþykki, gleymdi að Guð hefur ekki kosningarétt í forkosningunum.

Bernie Sanders er óhræddur við að gagnrýna yfirvöld, um leið og hann trúir á nauðsyn ríkisvaldsins. Bernie er gyðingur og hafnar því ekki að Guð gæti verið til, en mælikvarðinn á gott trúarlíf felst einvörðungu í framkomu við náungann að hans mati. Bernie stendur styrkum fótum í spámannshefð Gamla Testamentisins, fetar í fótspor Amosar og Míka. Dogmatísk guðfræði er næsta gagnslaus í hugmyndaheimi Bernie, guðfræði og guðsmyndir, eiga að snúast um hvernig við lifum lífinu. Helgihald og trúarstofnanir eiga að leitast við að skapa betra samfélag, en ef þær sinna því verkefni ekki er tilgangur þeirra næstum enginn. Þessi hugmynd Bernie rýmar sterklega við hugmyndir, sérstaklega ungs fólks í BNA, sem voru alinn upp í kirkjum og synagógum, en hafa gefist upp á sjálfhverfu trúarstofnanna og flýja kirkjur milljónum saman á hverju ári. Enda höfðaði Bernie sterklega til þessa hóps.

Guðsmynd Bernie byggir þannig á að Guð sé hugsanlega til, en burtséð frá því hvort Guð sé, þá eigum við að leitast við að hafa áhrif til góðs, það sé einfaldlega rétt að gera gott. Stofnanir eru til vegna hlutverksins sem þau gegna, en ekki vegna þess að það hefur alltaf verið svona (hér er pláss fyrir brandara um sjálfsmyndarkreppu sumra íslenskra stjórnmálaafla). Þannig er öflugt ríkisvald ekki vandamál, svo lengi sem það gegnir því hlutverki að þjóna öllum þegnum sínum jafnt. Ríkisvaldið er enda, að mati Bernie, besta stofnun samfélagsins til að ná fram jöfnuði. Það reyndi í raun aldrei á það í kosningabaráttunni hvort að yngri stuðningsmenn Bernie deildu með honum trúnni á nauðsyn ríkisvaldsins, eða hvort það var eingöngu gagnrýnin á núverandi ástand sem knúði stuðningsmennina áfram.

Ted Cruz er líklega ólíkastur Bernie, þegar kemur að hugmyndum um Guð. Ted Cruz er fulltrúi bókstafstrúarinnar. Hann er í liði með Guði, Biblían er handbókin um hegðun og við eigum að berjast fyrir liðið okkar sama hvað. Inn í hugmyndakerfi Ted Cruz blandast hugmyndir um Bandaríkin sem fyrirheitna landið, yfirvofandi heimsendi, einstaklingshyggju Ain Rand og kapítalisma. Útkoman er það sem stundum er kallað öfgahægri kristnidómur í Bandaríkjunum. Hugmyndakerfið byggir á sterkri tvíhyggju, annað hvort ertu góður eða vondur. Þetta er baráttan við heimsdrottna myrkursins. Þarna má á stundum sjá áherslu á að innleiða “kristinn” lög, gerð er krafa um sýnileika kristindómsins t.d. með bænahaldi í skólum, þessi hópur kvartar stöðugt undan árásum á jólin og svo framvegis. Mér finnst persónulega margt áhugavert og spennandi í þessum hugmyndum, þó ég aðhyllist þær ekki, en á hvað erfiðast með að nálgast þær faglega enda finnst hrokafulla guðfræðingnum í mér magnað hversu illa læst á Biblíutextann bókstafstrúarfólk oft er. Þessi bókstafshyggja er á hörðu undanhaldi í Bandaríkjunum, en dauðateygjurnar eru sterkar og ótrúlega háværar.

Hér er rétt að benda á að varaforsetaefni Donald Trump, Mike Pence ríkisstjóri Indiana kemur úr þessari guðfræðihefð og beitti sér m.a. fyrir samþykkt laga sem gerðu sannkristnum fyrirtækjaeigendum mögulegt að neita að veita þjónustu til m.a. samkynhneigðra á trúarlegum forsendum. Lögunum var síðar breytt enda komust dómstólar að þeirri niðurstöðu að þau brytu á stjórnarskrá BNA. (Leiðr. Lögin í Indiana komu ekki til kasta dómstóla eins og ég hélt ranglega fram. Þeim var breytt vegna þrýstings hagsmunaaðila).

Varaforsetaframbjóðandi demókrata, Tim Kaine er íhaldssamur katólikki en virðist tengja mjög sterkt við katólska arfleifð John F. Kennedy sem sagði í kosningabaráttu sinni um 1960 og ég les:

Ég trúi á Bandaríki þar sem aðskilnaður ríkis og kirkju er algjör, þar sem engin katólskur prestur getur sagt forsetanum (ef hann er katólskur) hvernig hann á að hegða sér og enginn mótmælendaprestur getur sagt sóknarbörnum sínum hvern á að kjósa; þar sem engin kirkja eða trúarskóli fær opinbert fé eða sérstaka fyrirgreiðslu frá hinu opinbera og þar sem enginn manneskja er útilokuð frá opinberum embættum vegna þess að trúarafstaða hennar er önnur en forsetans sem velur hana til starfa eða fólksins sem gæti kosið hana til þjónustu.

Ég trúi á Bandaríki sem er hvorki katólsk, mótmælendatrúar eða gyðingleg, þar sem engin opinber starfsmaður leitar eftir eða tekur við opinberri stefnu frá páfanum, alkirkjuráðinu eða neinni annarri trúarstofnun, þar sem enginn trúarstofnun leitast við að þvinga stefnu sinni og vilja á almenning eða á atferli opinberra starfsmanna, og þar sem trúfrelsi er svo skýrt að aðgerðir gegn einni kirkju er skilgreind sem árás á þær allar.

Í þessum anda hefur Tim Kaine látið framkvæma dauðarefsingar sem ríkisstjóri Virginíuríkis þrátt fyrir að vera persónulega andvígur þeim og eins hefur hann verndað og stutt við læknamiðstöðvar sem annast fóstureyðingar, þó hann persónulega telji fóstureyðingar rangar. Þessi nálgun er sérstaklega áhugaverð í ljósi rökstuðnings John Kasich’s um Obamacare sem ég fjallaði um í upphafi.

Það hvort að trúarleg/siðferðileg sannfæring annars vegar og lagalegar afleiðingar sem við þurfum að framfylgja/fylgja eftir/berjast fyrir hins vegar séu aðgreinanlegar er grundvallandi spurning þegar kemur að stjórnmálum í almannarýminu, og er oft svarað á mismunandi hátt eftir því hvort einstaklingar standa til vinstri eða hægri í stjórnmálum, og einfalt og gott dæmi er að mínu viti umræðan um dreifingu Gideontestamenta í grunnskólum, en sannkristnir og góðir Jesúmenn eru ekki endilega allir sammála um hlutverk mannréttindanefndar Reykjavíkurborgar í því máli og afstaðan virðist að mínu viti snúast fremur um undirliggjandi stjórnmálaskoðanir fremur en afstöðuna til upprisu Jesú Krists.

En þá að forsetaframbjóðendunum flokkanna:

Það er auðvelt að afgreiða Gary Johnson frambjóðanda Frjálshyggjuflokksins í örfáum setningum sem auðvelt er að skilja. Gary segist trúa á Guð, hann var alinn upp í lútherskri kirkju, mætir aldrei og finnst gullna reglan segja allt sem segja þarf. Hann er mjög upptekinn af fullri aðgreiningu ríkis og kirkju, telur að hið trúarlega sé einkamál og hafi ekkert erindi í hið opinbera rými. Þegar hann er spurður hvort hann biðji, þá svarar hann játandi, segist biðja til Guðs, en sá Guð tilheyri ekki sérstakri trúarhefð. Sú Guðshugmynd sem Gary heldur á lofti í kosningabaráttunni virkar lítið mótuð og minnir um margt á viðhorfið “Ég á mína barnatrú”, sem er mjög sterkt hér á landi.

Hillary Clinton var um hríð sunnudagaskólakennari og er alinn upp í methódistahefð, sem er eiginlega meginstraumurinn í hefðbundnum kirkjudeildum í BNA (eða mainline of the mainline churches). Methódistar eru að mörgu leiti amerískasta og millistéttarlegasta hefðbundna kirkjudeildin. Umræðan í lutherskum kirkjum um hvort fjarlægja eigi bandaríska fánann úr kirkjuskipinu hefur ekki átt sér stað hjá methódistum, fáninn ögrar fáum methódistum og trúarskoðunum þeirra, kannski ekki ólíkt viðhorfi íslenskra kirkjugesta til fánans við altarið sem má sjá t.d. í Grensáskirkju og fánahyllingarhefðinni hér í Vatnaskógi. Hillary segist trúuð, er vel að sér um kristna kenningu, er meðlimur í kristnum söfnuði, en á sama tíma telur hún að trúin sé einkamál, huggandi og styrkjandi fyrir einstaklinginn. Hennar viðhorf virðist standa styrkum fótum í musterishefð Gamla testamentisins. Viðhorf sem má e.t.v. lýsa með orðunum, svo lengi sem kirkjan sem ég tilheyri ögrar mér ekki, þá er allt í góðu. Krísa methódistakirkjunnar þegar kemur að réttindum samkynhneigðra virðist ekki lengur hafa áhrif á Hillary, hún hefur þess til gera nýlega yfirgefið opinbera afstöðu kirkjudeildarinnar og öllum er sama, enda rúm fyrir flestar skoðanir leikmanna um flesta hluti í lýðræðislega skipulögðum kirkjudeildum eins og United Methodist kirkjunni. Hefðbundnar kirkjur eins og methódistar hafa að öðru jöfnu tiltölulega skýrra prédikun um Jesú Krist upprisinn og náð og elsku Guðs, á sama tíma og það er ekki gerð mjög sterk krafa um opinbera persónulega trúarafstöðu eða eftirfylgd við einstakar kennisetningar.

Ef auðmýkt gagnvart einhverju meira eða stærra en við, er það sem er sameiginlegt öllum ofangreindum Guðsmyndum, eitthvað sem við lútum, leitum til eftir huggun, hlýðum, virðum og/eða þjónum, þá er hægt að segja að guðsmynd fimmta frambjóðandans sé að finna í speglinum þegar hann greiðir sér á morgnanna.

Donald Trump er án vafa verst lesni frambjóðandinn þegar kemur að trúmálum. Á sama tíma tilheyrir hann þeim trúararmi í Bandaríkjunum sem er líklegast í mestri uppsveiflu um þessar mundir, og nei það er ekki trúleysi. Trump hefur reyndar sagst tilheyra sama söfnuði og faðir hans, tilheyra presbyterian kirkjunni þar sem hann var skírður. En presbyterianar eru hefðbundin kirkjudeild sem aðhyllist hreinræktaðan kalvínisma, ef það segir einhverjum eitthvað.

Trump mætir samt sjaldnar í kirkju en meðal Íslendingur, virðist ekki styrkja söfnuðinn sem hann segist tilheyra fjárhagslega og kirkjan hefur opinberlega gagnrýnt afstöðu Trump til ýmissa mála, m.a. innflytjenda.

Trump er kristinn að eigin sögn, en kristnin sem hann aðhyllist er byggð á nokkrum grunnþáttum. Í pistli í New York Times núna í byrjun júlí um guðfræði Trump sem einhver ykkar gætu hafa séð (hún birtist alla vega töluvert oft á Facebook hjá mér) þá voru trúarhugmyndir hans tengdar við ofurmennishugmyndir Nietsche, hugmyndina um hin sterka sem þarf ekki að lúta kerfinu. Ég held hins vegar að þar hafi pistlahöfundurinn skotið langt yfir markið, enda hafa ýmsir bent á síðan að það sé harla ólíklegt að Trump hafi eytt tíma sínum í lestur á þýskum heimspekingum, hvað þá að tileinka sér hugmyndir þeirra viljandi. Guðfræði Trump virðist mér enda eiga uppruna sinn í kenningum sem mótuðust mun nær hans uppeldisstöðvum.

Trump hefur talað um að hann hafi farið með pabba sínum að hlusta á Norman Vincent Peale, þekktan fjölmiðlaprédikara og prest í New York í kringum miðja síðustu öld. Sum ykkar gætu kannast við nafnið af tilvísanabókum sem voru vinsælar tækisfærisgjafir á Íslandi fyrir um 20 árum. Norman Vincent Peale prédikaði Guð sem uppfyllir þarfir okkar ef við göngum fram í sjálfsöryggi og fullvissu um eigin persónulegan mátt, sem virðist hafa haft mikil áhrif á Trump.

Í seinni tíð má sjá þessar hugmyndir í prédikunum Joel Osteen, þar sem Osteen heldur því fram án hiks að árangur í lífinu sé bein afleiðing þess hversu mikla velþóknun Guð hefur á okkur persónulega. En Osteen hefur lýst yfir ánægju með framboð Trump og á sama hátt hefur Trump lofað Osteen.

Osteen, hamingjusami prédikarinn, er einn áhrifamesti trúarleiðtoginn í Bandaríkjunum, enda er boðun hans alltaf jákvæð og upplyftandi. Guð er frábær, hann vill að þú náir framúrskarandi árangri í lífinu, eigir frábæra fjölskyldu, sért laus við sjúkdóma, búir í flottu húsi og eigir splunkunýjan bíl. Frábært líf segir okkur að þú sért mest kristinn, eða með orðum Trump, “The Best Christian.” Sá sem flytur milli landa með engar eigur, sá sem lifir á götunni í Cleveland eða nær ekki endum saman um mánaðarmót eru aumingjar sem skortir velþóknun Guðs, bæði vilja og trú.

Þessi prédikun passar stórkostlega vel inn í neyslu- og samkeppnissamfélagið í BNA. Þessi guðfræði býr til mælikvarða á hver er kristnastur, og 2014 módelið mitt af Huyndai Elantra og 90 ára gamla timburhúsið sem ég bý í gefa fremur fá stig, svo skiljanlega er ég ekki fan. Þessi guðfræði velmegunar og árangurs er ekki sprottin upp úr hugmyndum Nietsches um guðlausa ofurmennið heldur byggir á skýrri og hreinni guðsmynd, sem eys velþóknun yfir þá sem verðskulda velmegun.

Þegar þessi guðfræði blandast við sjúklega sjálfhverfu, hvort sem hún er áunnin eða meðfædd, þá rennur guðsmyndin og spegilmyndin í eitt.

Neysluguðfræðin er aðlaðandi, Osteen selur bækur í bílförmum. Það sem skortir í guðfræði Osteen, er hins vegar nothæft svar við spurningunni: “Af hverju koma slæmir hlutir fyrir gott fólk.” Fólk sem lendir í slæmum hlutum í langan tíma er enda ekki góð fjárfesting, svo fyrir kirkju Osteen er auðvelt að sniðganga svarið við spurningunni og fórna þeim sem rekast á. Guð leggur ekki meira á okkur en við getum höndlað, svo ef við bugumst og gefumst upp, þá er sökin okkar sjálfra.

Trump hefur hins vegar í boðun sinni boðið upp á nothæft svar við spurningunni um þjáninguna. Hann byggir þar á hræðslunni við hið óþekkta og þeirri upplifun að það sé verið að svindla á þér, svarti maðurinn í Hvíta húsinu komi í veg fyrir að þú njótir blessunarinnar sem þú hefur áunnið þér hjá Guði. Þjáningin er vegna svika og illsku þeirra sem eru ekki þú. Hinir hafa stolið blessuninni sem þú átt með réttu.

Trump hefur ekki áhyggjur af Lykla Pétri. Svarið um hvað Guði finnst um Trump blasir að mati Trump við á horni 56th and 5th Avenue þar sem Trump Tower gnævir hátt yfir 5th Avenue Presbyterian Church. Yfir kirkjunni þar sem pabbi hans dró hans sem barn og hefur vogað sér að gagnrýna skoðanir Trump opinberlega.

Eins og alltaf tekur Trump mesta plássið í umfjöllun um kosningarnar í BNA. Ég vona að þetta innlegg mitt hafi skapað fleiri spurningar en svör, en orðið er laust.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.