Nýr dagur í Trumplandi

Á mánudögum sit ég heima allan daginn og sinni verkefnum sem hafa ekkert með Bandaríkin að gera. Eftir að ég hef komið börnunum í skóla og konunni í vinnu þá sest ég inn á heimaskrifstofuna og sinni verkefnum fyrir sjálfstæða reksturinn minn. Í dag var m.a. á dagskrá að endurhanna innskráningarkerfi fyrir notendur á vef frjálsra félagasamtaka á Íslandi og vinna í litasamsetningum á fjölnota innkaupapoka fyrir hjálparsamtök. Með öðrum orðum, fremur lame og lítt áhugaverður dagur, þar sem ég að öðru jöfnu hefði látið duga að pirra mig í hljóði á íslenskum stjórnmálum, en látið áhyggjur af ástandinu í Bandaríkjunum bíða. En þar sem ég sat í þögn fyrir framan tölvuna mína á mánudagsmorgni, þá byrjaði síminn að titra,

SHHS in lockdown as a precaution at 10:45am following a report of a possible threat. …

SHHS er einmitt skóli dóttur minnar. Skólinn var í fréttum í síðustu viku, eftir að stúlka í skólanum sendi fyrrum vinkonu sinni mjög rasísk textaskilaboð sem var síðar dreift á Twitter og náði athygli aktívista sem hafa verið að safna saman dæmum um aukin rasisma í Bandaríkjunum í vikunni eftir kosningarnar. Á föstudaginn var skólinn gagnrýndur í fjölmiðlum fyrir að mistakast að taka með réttum hætti á fyrrnefndum textaskilaboðum og umræðan um skólann í ákveðnum afkimum Twitterheimsins var langt í frá falleg.

En núna kl. 10:45 í dag fékk umræðan nýjan og alvarlegri blæ. Meðan dóttir mín var í tíma í sagnfræði að læra um fasisma og einræðisherra á 20. öld var skólinn settur í neyðarlokun. Nemendum var smalað í skápa og skrifstofur inn af kennslustofum, meðan þyrlur flugu yfir og lögreglumenn leituðu að vopnum og sprengjum. SWAT-lið mætti á staðinn og eftir að nemendur höfðu verið í felum í eina og hálfa klukkustund, var ákveðið að senda alla heim undir vökulu auga lögreglunnar.

Þetta er svo sem ekki í fyrsta skipti sem SHHS fer í „lockdown“ og ég man enn eftir því þegar dóttir mín sagði 7 eða 8 ára gömul að hún hefði verið á “shooter” æfingu í grunnskólanum sínum þar sem börnin áttu öll að fela sig undir borði í einu horni kennslustofunnar og kennarinn tók sér síðan stöðu milli þeirra og hurðarinnar.

En veruleikinn var ögn öðruvísi núna. Skólinn hennar var búinn að vera í umræðunni. Nafngreindur nemendi hafði verið gerður að blóraböggli fyrir hatrið á samfélagsmiðlum af sumum og aðrir nemar voru sagðir hetjur fyrir að segja frá. Umræða síðustu viku hafði leitt til ógnanna og kallað fram reiði langt út fyrir veggi skólans. Spennan í bandarísku samfélagi í kjölfar kosninganna, óttinn og óvissan, kallaði fram ýkt viðbrögð við einhverju sem kannski fyrir nokkrum mánuðum hefði fyrst og fremst verið afgreitt sem heimska hjá unglingum.

En hvað um það, dóttir mín er komin heim og sagði að það væri engin heimalærdómur fyrir morgundaginn, þannig að þetta væri ekkert stress, enda margt sem býður eftir henni á Netflix.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.