Upphaf siðbreytingarinnar í Evrópu er oft tengd við ungan munk að negla mótmælaskjal í 95 liðum á kirkjuhurð í smábænum sínum. Vissulega var mótmælaskjalið merkilegt, en boð um að taka þátt í guðfræðilegum rökræðum um hlutverk náðarinnar og áherslur í kirkjustarfi hefði líklega ekki breytt kristnihaldi á heimsvísu ef aðstæður hefðu ekki verið réttar.
Siðbreytingin var fjölþætt ferli og átti sér stað á ýmsum vígstöðvum á svipuðum tíma. Gagnrýni Lúthers snerist fyrst og fremst um guðfræði og enska biskupakirkjan varð til upp úr deilum um áhrifavald páfastóls á Englandi. Í Genf var það nýmótuð borgarastétt sem snerist gegn kirkjuvaldi Rómar, að undirlagi lögfræðingsins Kalvín.
Gagnrýni Lúthers var mögnuð upp af konungum, prinsum og furstum í Norður Evrópu, sem sáu tækifæri til að losna undan valdi Rómar og ná undir sig trúarlegum stofnunum. Þannig breyttist kirkjan á þessu svæði frá því að vera útibú alþjóðastofnunar í að vera ríkiskirkja undir stjórn konungsvaldsins. Þjónustustofnun konungsins á sviði trúmála. Svipuð þróun varð í Englandi. Í Genf varð kirkjan hins vegar verkfæri hinnar nýju borgarastéttar, nokkurs konar dyggðasvipa þar sem framlegð varð með tímanum mælikvarði á trúarhita. Anabaptistar Niðurlanda eru utan míns áhugasviðs að mestu, en þar virðist aðaláherslan hafa snúist um hver það var sem tilheyrði hópnum og hver stóð fyrir utan, sem auðvitað var ein meginspurningin í allri þessari trúargerjun í Evrópu.
Áherslur Lúther, Kalvín og Hinrik VIII urðu ekki til í tómarúmi og þær lifðu ekki í einangrun. Kenningar blönduðust og gerðu fólki á stundum erfitt um vik að vita hver mátti vera með og hver stóð utan hóps. Sem svar við því komu á sjónarsviðið rétttrúnaðarhreyfingar, sem var síðan mætt af píetískum hópum (hreintrúarhreyfingum). Þar sem önnur lagði áherslu á réttan lestrarskilning meðan hin horfði til réttrar upplifunar. Þegar einstakir hópar kölluðu á helgisiðarétttrúnað komu á sjónarsviðið aðrir hópar sem höfnuðu öllu prjáli og hittust í litlum samkomuhúsum án nokkurra helgimynda.
Viðskilnaður Hinriks VIII við páfastól var ekki eina kirkjulega ókyrrðin á Bretlandseyjum á tíma siðbreytingarinnar. Líkt og í Genf var borgarastéttin að styrkjast, auk þess sem spenna milli katólikka og ensku biskupakirkjunnar, leiddu til þróunar ýmissa jaðarhópa. Einn slíkur hópur var kallaður púritanar sem leituðust við að eyða öllum katólskum áhrifum úr kirkjulífi ensku biskupakirkjunnar. Þeim var ekki mætt af skilningi innan eigin kirkjudeildar, enda ögruðu þeir valdastéttum með hugmyndum um aukin völd leikmanna og sjálfdæmi safnaða í eigin málum. Púritanar leituðu í smiðju Kalvíns til að undirbyggja guðfræði sína og voru á stundum í nánum tengslum við öldungakirkjuna (presbyterian) í Skotlandi.
Hópar púritana héldu vestur um haf til Ameríku í lok 17. og í upphafi 18. aldar og tóku þar virkan þátt í frummótun bandarísks samfélags, til góðs og ills. Fólkið sem hafði verið kallað púritanar til að gera gys að þörf þeirra fyrir að hreinsa allt illt úr samfélaginu, mótaði kirkjulífið í nýja landinu sem byggði á lýðræði og leikmannavaldi, sem það kallaði congregationalism.
Með aukinni þjóðerniskennd í Prússlandi, kom fram sterk þörf á að sameina lúthersku kirkjuna og reformertu kirkjuna (Kalvín). Sigur Napóleons á Prússum í upphafi 19. aldar varð áfallið sem kallaði á sameinaða prússneska þjóðkirkju. Í kjölfar þess að Prússar losnuðu undan Frökkum, hófst Friðrik Vilhjálmur III Prússakeisari handa við að sameina lúthersku og reformertu kirkjurnar í eitt, sem gerðist með formlegum hætti 1817.
Prússar héldu einnig yfir til nýja landsins, þó flestir færu nokkru síðar en púritanarnir. Með í för var sameinuð þjóðkirkja Prússlands, sem fékk á endanum heitið The Evangelical and Reformed Church. Reyndar er vert að nefna að þýskumælandi lútherskar og reformertar kirkjur í nýja heiminum höfðu sameinast um húsnæði og jafnvel prédikara allt frá upphafi 18. aldar.
United Church of Christ (UCC) varð til 1957 með sameiningu fjölmargra mótmælendakirkja, þar sem stærstu greinarnar voru annars vegar fyrrum prússneska þjóðkirkjan og congregationalistar sem rekja upphaf sitt til púritananna svokölluðu í Englandi. Þrátt fyrir að sameiningin hafi átt sér stað fyrir 58 árum, þá má geta þess að einungis um 100 metra sunnan við Pilgrim Congregational UCC í Tremont hverfinu, er önnur UCC kirkja enn starfandi sem á uppruna sinn í reformertu hefðinni. Þrátt fyrir að sóknarbörn þar séu einungis 12 eftir og oft ekki nema 6 í guðsþjónustu á sunnudögum, þá telja þau sig ekki eiga samleið með Pilgrim í ljósi ólíkra hefða og uppruna.
UCC er enda fyrst og fremst kirknasamband, vettvangur fyrir söfnuði til að eiga í formlegu samtali, fá ráðgjöf og aðstoð. Þannig eru áliktanir aðalfunda UCC ekki bindandi fyrir einstaka söfnuði. Áhersla kirkjunnar á samfélagsleg réttindi og barátta kirkjunnar fyrir réttindum samkynhneigðra endurspegla þannig fyrst og fremst hugmyndir meirihluta þeirra sem koma á aðalfund UCC og mótar þjónustuáherslur aðalskrifstofu kirkjunnar sem er staðsett hér í Cleveland, Ohio en er ekki ætlað að móta stefnu einstakra safnaða sem öllum ber að fylgja.
Þessi skilningur á hlutverk UCC sem kirknasambandi veldur því að enginn getur talað fyrir hönd UCC í Bandaríkjunum. Þannig má segja að aðalskrifstofan og aðalfundur hafi í besta falli áhrifavald, en ekkert raunverulegt ákvarðanavald.
Hér er áhugavert að velta fyrir sér að hvort að skortur á raunverulegum völdum hafi áhrif á það hvers kyns einstaklingar veljast til ábyrgðarhlutverka innan UCC, sem gæti aftur útskýrt hvers vegna opinber afstaða UCC eins og hún birtist í aðalfundaráliktunum er jafnfrjálslynd og raun ber vitni.
Sjálfsvitund og saga UCC er fjölþætt og UCC sem heild á sér ekki eitt upprunaland eða svæði með jafnskýrum hætti og margar aðrar hefðbundnar kirkjudeildir í Bandaríkjunum. Uppruninn tilheyrði kirkjudeildunum sem voru lagðar niður 1957. Þá má geta þess að einungis um helmingur þeirra sem sækja UCC kirkjur eru fæddir og uppaldir innan kirkjudeildarinnar.
Í dag tilheyra um 1.000.000 Bandaríkjamanna UCC söfnuði. Skv. Pew Research Center hefur hlutfallslega fækkað mest í 30-49 ára aldurshópnum á síðustu 7 árum og ríflega 60% kirkjumeðlima eru konur. Í samanburði við aðrar kirkudeildir hefur UCC hvað hæst hlutfall þeirra sem lokið hafa háskólagráðum, en jafnframt næst hæst hlutfall þeirra sem hafa einvörðungu lokið grunnskólanámi eða minna. Þá er hópur þeirra sem hefur tekið eitthvað háskólanám án þess að klára áberandi fámennur í hópi UCC fólks.
Hlutfall svartra hefur aukist verulega í UCC á liðnum árum, frá því að vera 4% meðlima 2007 í að vera 8% í dag, en fjölgunin nemur um 30 þúsund einstaklingum.
Tveimur tekjuhópum hefur fjölgað nokkuð í UCC á síðustu 7 árum annars vegar þeim með tekjur undir $30.000 á ári (úr 27% í 31%) og þeim sem hafa tekjur yfir $100.000 á ári (úr 18% í 29%). Þetta er áhugavert í því ljósi að 47% höfðu tekjur undir $50.000 bæði árin, 2007 og 2014. Þetta rýmar við meinta þróun í samfélaginu í heild, þ.e. að laun láglaunafólks fari lækkandi en laun hálaunafólks fari hækkandi.
Líkt og aðrar hefðbundnar kirkjudeildir hefur fækkað verulega í UCC á undanförnum áratugum. Tölum kirkjunnar sjálfrar um breytingar á meðlimafjölda og upplýsingum Pew Research Center ber saman um að frá 2007 hafi meðlimum UCC fækkað um nær 20%. Þessi þróun er ekki ný af nálinni. Frá stofnun kirkjudeildarinnar 1957 hefur fækkað stöðugt í kirkjunni sbr. mynd.
Hér sýnir bláa línan fjölda söfnuða, rauða línan táknar fjölda meðlima í þúsundum, gula línan stendur fyrir þátttakendur í fræðslustarfi í þúsundum og græna línan tekjur kirkjunnar í milljónum dollara.
Um 0,3% Bandaríkjamanna tilheyra UCC kirkju samkvæmt Pew Research Center og opinberum tölum kirkjudeildarinnar. Kirkjan er þannig ein sú minnsta af hefðbundnu kirkjudeildunum. Þrátt fyrir þá stöðu og að allt ákvarðanavald liggi í söfnuðunum sjálfum, hefur kirkjudeildinni tekist að skapa sér sérstöðu í kirkjulífi hér í Bandaríkjunum, með skilaboðum um réttlæti öllum til handa og skýrri afstöðu með baráttu samkynhneigðra fyrir viðurkenningu og réttindum til hjónabands.