Að mæta til starfa í Tremont

Í þessari viku hef ég störf hjá Pilgrim Congregational UCC sem fræðslufulltrúi (e. Director of Christian Education). Atvinnuleitin hefur tekið langan tíma og ekki alltaf verið auðveld, en Pilgrim UCC er spennandi staður í Tremont hverfinu í Cleveland.

Í upphafi 20. aldar var Tremont hverfið í mikilli uppsveiflu, fullt af innflytendum frá Austur-Evrópu sem fengu vinnu í stálvinnslum og öðrum verksmiðjum meðfram Cuyahoga ánni. Á þeim tíma þótti þetta góð vinna, stéttarfélög vernduðu starfsmennina gegn misnotkun verksmiðjueigendanna. Cleveland var land tækifæranna. Verksmiðjur menguðu vissulega umhverfið, en sköpuðu verðmæti fyrir samfélagið og þjónustuiðnaðurinn naut góðs af.

Pilgrim Congregational Church var hluti af þessu samfélagi. Kirkjan var stofnuð 1859 af einstaklingum frá mismunandi kirkjudeildum sem höfðu metnað fyrir kirkju sem léti sig varða um samfélagið sem hún þjónaði. Þegar söfnuðurinn byggði nýja kirkjubyggingu í lok 19. aldar, leit lykilfólk safnaðarins svo á að hlutverk kirkjunnar væri fyrst og fremst að þjóna samfélaginu. Kirkjubyggingin var metnaðarfullt verkefni með tugum kennslustofa, kapellu, stórum matsal, eldhúsi, boxhring, keilusal og glæsilegu kirkjuskipi sem enn í dag er eftirsóttur tónleikasalur. Boxhringurinn er þó ekki notaður lengur og keilubrautirnar hafa verið fjarlægðar til að koma fyrir innanhúskörfuboltavelli.

Tremont er rétt við miðborgina, stendur á hæð á vesturbakka Cuyahoga árinnar. Niður við ána voru verksmiðjurnar og á austurbakkanum eru háhýsin, hafnaboltavöllurinn og körfuboltahöllin þar sem Lebron James leikur sér.

Samfélagið í Tremont tók stórstígum breytingum um miðja síðustu öld. Stærsta breytingin fyrir samfélagið var uppbygging þjóðvegakerfisins (e. interstate) í Bandaríkjunum. Meðan ríkari samfélög eins og Shaker Heights beittu sér gegn lagningu hraðbrauta í gegnum samfélögin sín, stundum með góðum árangri, var það ekki raunin í Cleveland. Tremont hverfið var skorið í fjóra bita rétt eftir miðja síðustu öld með I-71, I-90 og I-490 hraðbrautunum. Rúmlega 600 hús í hverfinu voru rifin niður til að koma hraðbrautunum fyrir og í kjölfarið fækkaði íbúum í Tremont um meira en 75%.

Á þessum tíma var fleira í gangi. Verksmiðjurnar eitruðu umhverfið sem aldrei fyrr og drápu allt líf í Cuyahoga ánni. Frá 1868 til 1969 kviknaði í ánni sjálfri að minnsta kosti 13 sinnum með tilheyrandi eyðileggingu á bátum, brúm og bryggjum. Í kjölfar brunans 1969 fjallaði Time Magazine um mengunina, þá mótsagnakenndu staðreynd að á geti brunnið og opnaði með því umræðu um mengun og umhverfisvernd á svæðinu. Umræðu sem staðarfjölmiðlar höfðu að mestu sniðgengið sem óumbreytanlegan veruleika.

Á 7. áratugnum var Tremont hverfið því sundurskorið, dregið hafði úr vinnu í verksmiðjunum og nálægðin við miðborgina var ekki lengur aðdráttarafl, heldur dragbítur. Úthverfavæðingin sem fylgdi hraðbrautaruppbyggingunni virtist ætla að gera út af við hverfi eins og Tremont. Framtíð kjarnafjölskyldunnar í Bandaríkjunum var talin vera í stórum húsum með miklum görðum í úthverfunum.

Í lok 9. áratugarins var Pilgrim UCC að niðurlotum komin. Söfnuðurinn hafði ekki haft prest í föstu starfi í tæp 10 ár. Þegar nýr prestur var settur inn í embætti við kirkjuna 3. júní 1990, voru 32 við athöfnina, þar af sex vinir nýja prestsins sem mættu til að fá hana til að hætta við. Margar af kirkjunum í Tremont voru í sömu stöðu. Það voru helst „þjóðkirkjurnar“ sem héldu reisn, gríska rétttrúnaðarkirkjan, kóreska kirkjan, sýrlenski söfnuðurinn og rússneski orthodox-söfnuðurinn. Enda héldu margar fjölskyldur ennþá tryggð við „þjóðina“ þrátt fyrir að vera fluttar í úthverfin.

Það var einmitt upp úr 1990 sem byggðaþróunin byrjaði að breytast. Viðsnúningurinn var hægur í fyrstu, en frá síðustu aldamótum hefur aðdráttarafl miðbæjarlífsins kallað á nýtt líf í norðausturfjórðungi Tremont þar sem Pilgrim UCC er. Nýtt fólk hefur flutt inn. Veitingastaðir hafa gengið í endurnýjun lífdaga. Fjölbreytt listalíf hefur fylgt þessari þróun og Pilgrim UCC hefur tekið virkan þátt í endurnýjun samfélagsins.

Pilgrim UCC hefur enda frá upphafi litið á sig sem ábyrga stofnun í samfélagsgerð Tremont hverfisins og talið það hlutverk sitt að berjast fyrir samfélagsumbótum. Sú sjálfsmynd hefur haldist þrátt fyrir að kirkjusókn hafi verið mjög takmörkuð í lok síðustu aldar. Í dag er söfnuðurinn virkur í baráttunni fyrir réttlæti innan dómskerfisins í Cuyahoga sýslu, hefur tekið virkan þátt í gagnrýni á lögregluna í Cleveland og kemur að réttindabaráttu samkynhneigðra í Bandaríkjunum. Söfnuðurinn hefur tekið þátt í Gay Pride í Cleveland í mörg ár, rekur matarbúr fyrir þau sem þarfnast aðstoðar, hýsir félagasamtök sem hjálpa heimilislausum fjölskyldum og styður með virkum hætti við listalíf í Tremont. Ríflega 100 einstaklingar mæta í guðsþjónustur á sunnudögum og skráðir meðlimir eru rétt tæplega 300.

Presturinn sem kom til starfa 1990, þjónaði kirkjunni í 17 ár áður en hún snéri sér að nýjum verkefnum. Söfnuðinum gekk í framhaldinu illa að finna rétta manneskju til að leiða söfnuðinn inn í næsta skeið, en fyrir rúmlega einu ári síðan, eftir rúmlega 7 ára óvissu var núverandi prestur kallaður til starfa við kirkjuna.

Framtíðin er spennandi og framundan er að þróa starf safnaðarins áfram til að mæta nýjum aðstæðum í Tremont og nágrenni. Með það að markmiði að finna leiðir til að styðja við og styrkja trúarlíf fólksins í söfnuðinum og í nánasta umhverfi kirkjunnar. Bókaklúbbar í ísbúðum, helgihald á miðvikudagseftirmiðdögum og grænmetisrækt á kirkjulóðinni eru meðal verkefna sem eru í burðarliðnum.

Rekstur kirkjubyggingarinnar tekur til sín nærri 40% af innkomu safnaðarins, en það stöðvar samt ekki söfnuðinn frá því að leggja til viðbótar á milli 10-15% af tekjum sínum til samfélagsverkefna utan safnaðarins.

Þrátt fyrir að þróun liðina ára í Tremont, sér í lagi í fjórðungnum þar sem kirkjan stendur hafi verið spennandi, þá er ekki allt orðið gott, því fer fjarri. Það er enn mikil fátækt á svæðinu. Rúmlega 80% barna í almenningsgrunnskólum í nánasta nágrenni kirkjunnar hafa rétt á niðurgreiddum eða ókeypis skólamáltíðum.

Mörg þeirra sem hafa flutt í hverfið á liðnum árum úr betur stæðum samfélagshópum eru barnslaus. Það á við um yngra fólk sem er að feta sín fyrstu spor eftir háskóla, miðaldra fólk sem er að minnka við sig og eins samkynhneigð pör og einstaklinga. Úthverfalífið virðist enn helsti valkostur kjarnafjölskyldunnar. Þannig býr prestur Pilgrim UCC með manni og börnum í úthverfunum, líkt og ég og mín fjölskylda.

Þá þarf því miður að nefna að hverfið var í fréttum á síðastu árum vegna mannráns á þremur stúlkum sem voru pyntaðar, þeim nauðgað og beittar ofbeldi í rúm 10 ár. Húsið þar sem konunum var haldið nauðugum var í suðvesturfjórðungi hverfisins sem hefur því miður ekki notið velmeguninnar norðausturhlutans.

Smáglæpir eins og innbrot í bíla eru algengir í Tremont. Öryggisvörður er á vakt á sunnudagsmorgnum meðan á guðsþjónustu stendur og á öðrum tímum þarf að nota dyrasíma til að komast inn í húsnæði kirkjunnar.

Þetta er önnur greiningin mín á nýju starfsumhverfi og horfir til landfræðilegs umhverfis. Sú fyrsta fjallaði um bakgrunn kirkjudeildarinnar sem ég mun starfa fyrir. Líkt og fyrri greiningin er þessi um margt yfirborðskennd, enda fyrst og fremst ætlað að bregða örlitlu ljósi á aðstæður og hjálpa mér að mæta til leiks með grunnskilning á því sem framundan er.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.