Kirkjuskipan Stjórnlagaráðs

Trúfrelsisákvæði eru áhugavert fyrirbæri og ekki síður hugmyndir um að kirkjuskipan geti/þurfi að vera á einhvern hátt bundin í lögum. Í hugmyndum stjórnlagaráðs er 19. grein svohljóðandi:

Í lögum má kveða á um kirkjuskipan ríkisins.

Nú samþykkir Alþingi breytingu á kirkjuskipan ríkisins og skal þá leggja það mál undir atkvæði allra kosningabærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar.

Hugmyndin með að kirkjuskipan geti verið bundin í lög snýst ekki um trú eða trúfrelsi, þ.e. kirkjuskipaninni er ekki ætlað að hafa áhrif á trúariðkun landsmanna, enda kemur skýrt fram í 18. grein að trúfrelsi ríki. Við hljótum því að spyrja hvers vegna kirkjuskipan sé og skuli vera lögbundin, nema meirihluti kosningabærra manna í landinu samþykki og svarið felst í greininni.

Kirkjuskipan og umgjörð evangelísk lúthersku kirkjunnar er ekki einkamál þeirrar kirkjudeildar, heldur háð hugmyndum meirihlutans. Þannig gæti komið upp sú staða að minna en helmingur landsmanna tilheyri kirkjunni, en ríkið getur ákveðið að ráða skipun hennar. Í slíku tilfelli gæti meirihlutinn utan kirkju sem best ráðskast með skipun trúfélags sem það tilheyrir ekki.

Kirkjan er ekki sjálfs síns ráðandi. Ég hef skrifað um þetta áður, er ég skammaðist yfir Aumingjagæsku og hroka í garð kirkjunnar fyrir 7 árum og það á enn við. Hugmynd þeirra sem sátu í stjórnlagaráði virðist fyrst og fremst að vernda kirkjuna fyrir sjálfri sér og koma þannig í veg fyrir að hún geti starfað sem kirkja.