Trúarlegt ofbeldi gegn börnum

Fyrir rétt um 18 árum tók ég námskeið við Félagsvísindadeild Háskóla Íslands um ofbeldi gegn börnum. Lokaverkefni mitt í námskeiðinu fjallaði um kenningar Votta Jehóva um barnauppeldi. Ástæðan fyrir því að það trúfélag varð fyrir valinu en ekki t.d. Krossinn, mormónar, lútherska kirkjan eða Ásatrúarsöfnuðurinn var sú að Vottar Jehóva lifa eftir mjög ákveðnum reglum og hugmyndir þeirra um uppeldi barna eru aðgengilegar í ritum trúfélagsins, en ekki einvörðungu í munnlegum prédikunum.

Síðan ég skrifaði verkefnið hefur sjálfsagt ýmislegt breyst hjá Vottum Jehóva. Þá hef ég tileinkað mér aðrar aðferðir í að nálgast umfjöllun um aðra (e. the other) en ég gerði í upphaflega verkefninu. Þrátt fyrir það held ég að þetta verkefni megi vel liggja hér á ispeculate.net, ekki einvörðungu sem gagnrýnin úttekt á Vottum Jehóva, heldur líka sem áminning um hvernig trúarlegar kennisetningar geta verið skaðlegar og jafnvel hættulegar.

Ég hef endurskoðað textann nokkuð frá því sem hann var í lokaverkefninu, með það að markmiði að gera innihaldið aðgengilegra og til að leyfa textanum að flæða betur. Þá er rétt að nefna að í textanum er vísað til Laga um vernd barna og ungmenna 58/1992, þau lög voru felld úr gildi með samþykkt Barnaverndarlaga nr. 80/2002 (http://www.althingi.is/altext/stjt/2002.080.html). Eins er vísað til aðalnámskrár frá 1989, en hún hefur verið endurskoðuð a.m.k. tvisvar frá því að ég skrifaði upphaflega textann.

Verkefnið hefst á umfjöllun um skilgreiningar á ofbeldi gegn börnum. Því næst er fjallað um sögu trúfélagsins og valdar kenningar þess í tengslum við barnauppeldi.

Um ofbeldi gegn börnum

Almennar skilgreiningar á ofbeldi gegn börnum

Í grein sinni Ofbeldi í fjölskyldum sem birtist í ritinu Fjölskyldan uppspretta lífsgilda notar Hrefna Ólafsdóttir eftirfarandi skilgreiningu á ofbeldi gagnvart börnum:

Barn er beitt ofbeldi þegar einhver aðili sem barnið þarf að treysta á misbýður því þannig að barnið getur ekki treyst á vernd frá viðkomandi aðila. Gerandinn getur verið allt frá því að vera aðeins nokkrum árum eldri en barnið sjálft sem sem systkini eða af næstu eða þar næstu kynslóð við barnið. (Hrefna Ólafsdóttir, 1994, bls. 86-87)

Eftir að hafa sett fram þessa skilgreiningu skiptir svo Hrefna ofbeldinu upp í fjóra meginflokka sem eru:

Líkamlegt ofbeldi, þar sem hún vitnar meðal annars í skilgreiningu frá Bandaríkjunum sem segir:

[Líkamlegt ofbeldi er] líkamleg sköddun á barni undir 18 ára aldri frá hendi aðila sem er ábyrgur fyrir velferð barnsins, við aðstæður þar sem velferð barnsins og heilsu er ögrað samkvæmt skilgreiningu í reglum heilbrigðis-, trygginga- og félagsmálaráðuneytis.(Hrefna Ólafsdóttir, 1994, bls. 87)

Andlegt/tilfinningalegt ofbeldi, þar sem Hrefna vitnar í skilgreiningu Kaplan frá 1991:

Þessi tegund ofbeldis felst í atriðum eins og að hafna, ógna, hræða, einangra, láta afskiptalaust og leiða á glapstigu. (Hrefna Ólafsdóttir, 1994, bls. 88)

… t.d. með því að neita unglingnum um aukna ábyrgð á eigin lífi eða að neita að viðurkenna aukna þörf unglingsins til að mynda tengsl utan fjölskyldunnar. (Hrefna Ólafsdóttir, 1994, bls. 88)

Vanræksla, þar sem Hrefna vitnar enn í Kaplan:

Þveröfugt við tvær fyrrnefndar tegundir ofbeldis sem byggja á framkvæmd þá byggir vanræksla á aðgerðaleysi. Vanræksla er viðhöfð af einstaklingum sem eru ábyrgir fyrir börnum og sem ekki uppfylla þær kröfur sem það hlutverk krefst af þeim. (Hrefna Ólafsdóttir, 1994, bls. 88)

Kynferðilegt ofbeldi, en þar velur Hrefna svohljóðandi skilgreiningu, frá Mrazek síðan 1985:

  • Allt kynferðislegt samneyti frá keli til fullkomnaðra, anal-, oral- eða genital-kynmaka.
  • Kynferðislegt, sadistískt eða ofsafullt athæfi gagnvart ungabarni frá hendi fullorðins eða milli tveggja einstaklinga sem eru nálægt í aldri og gefa báðir svokallað samþykki sitt fyrir verknaðinum (sadistískt-masokistískt samband).
  • Allt frá því að gerast einu sinni í það að vera samfellt athæfi í mörg ár.
  • Allt frá duldum verknaði sem aðeins gerandi og fórnarlamb vita um yfir í að vera klámiðnaður þar sem börn og ungmenni eru notuð sem kyntákn.
  • Gerandi getur verið fullorðinn eða ungmenni af báðum kynjum, hann getur verið fjölskyldumeðlimur eða alls ókunnur fórnarlambinu og allt þar á milli. (Hrefna Ólafsdóttir, 1994, bls. 88-89)

Stutt ágrip af sögu Votta Jehóva

Ágripið sem fer hér á eftir byggir að mestu á ritinu Heimsendir í nánd eftir Bjarni Randver Sigurvinsson og úr bókinni Jehovah’s Witnesses – Proclaimers of Gods Kingdom frá 1993.

Trúfélagið

Upphaf Votta Jehóva má rekja til Pennsylvaníuríkis í Bandaríkjunum, en í kringum 1870 kom Charles Taze Russell á fót Biblíuleshópi sem þróaðist yfir í formlegan trúarsöfnuð, þar sem Russell var útnefndur prestur safnaðarins. Russell þróaði guðfræði sína og safnaðarins úr smiðju ýmissa kennimanna, aðallega úr hópi aðventista. Zion’s Watchtower Tract Society var formlega skráð í Pennsylvaníuríki 1884. Í upphafi var megináhersla lögð á helgun og rétt líferni, enda endurkoma Krists yfirvofandi. Árið 1909 voru aðalstöðvar trúfélagsins fluttar úr Pennsylvaníuríki til Brooklyn í New York. Við flutninginn til New York var stofnað nýtt félag Watchtower Bible and Tract Society of New York Inc sem er enn í dag höfuðstöðvar trúfélagsins.

Vottar Jehóva telja sig einvörðungu tilheyra Guðsríkinu, og hafna þar með umboði allra veraldlegra stjórnvalda. Í kringum fyrri heimstyrjöldina neituðu meðlimir félagsins að gegna herþjónustu í Bandaríkjunum og voru einhverjir úr trúfélaginu dæmdir í fangelsi fyrir landráð. Í kjölfar þess styrktist áhersla trúfélagsins á yfirvofandi heimsendi. Bókin Milljónir núlifandi manna munu aldrei deyja kom út 1920 og megináhersla trúfélagsmeðlima var lögð á mikilvægi boðunarstarfsins hús úr húsi, þar sem varað var við yfirvofandi heimsendi og boðin til sölu ritverk trúfélagsins. Þá voru allir meðlimir trúfélagsins skikkaðir til að skila inn skýrslum mánaðarlega til aðalstöðvanna í New York, þar sem hver og einn gerði grein fyrir boðunarstarfi sínu. Sá siður hefur haldist upp frá því meðal Votta Jehóva. Miðstýring trúfélagsins óx með tímanum og öldungum í söfnuðum var bannað að halda ræður frá eigin brjósti, heldur gert að lesa upp úr greinum úr ritum trúfélagsins. 1938 var svo dregið verulega úr sjálfstæði safnaðanna þegar farið var að skipa umsjónarmenn og aðstoðarmenn þeirra í hverjum söfnuði beint frá aðalstöðvunum í Brooklyn.

Þrátt fyrir öflugt boðunarstarf varð lítil aukning í trúfélaginu fram undir 1930, aðallega vegna klofningshópa sem hættu í söfnuðinum jafn óðum og nýjir bættust við. Til að styrkja innviði trúfélagsins meðlimum bannað að hafa samskipti við klofningshópa 1931 og á sama tíma var tekið upp heitið Vottar Jehóva. Boðunin þróaðist jafnframt og áherslan á að verja hið rétta nafn Guðs, Jehóva, varð eitt af lykilverkefnum trúfélagsins. Trúfélagið mótaði auk þess reglur til að aðgreina Votta Jehóva frá öðrum trúhópum, t.d. með banni við að halda hátíðir eins og t.d. jól og páska. Þannig var bann við blóðgjöfum tekið upp 1961.

Bókaútgáfa

Allt frá árinu 1879 hafa meðlimir trúfélagsins gefið út blöð og bækur til að dreifa boðskap félagsins. Hafa sumir félagsfræðingar viljað tala um Votta Jehóva fremur sem bókaútgáfu en trúfélag (Pétur Pétursson, mars 1995) þar sem ákveðinn hópur manna er skuldbundinn til að kaupa ákveðið magn af hverju riti og endurselja. Þessi skoðun er þó vægast sagt einföld þar sem lífsstíl og hugsunum bókasölumannanna er miðstýrt jafn mikið og raun ber vitni.

Árið 1942 varð sú breyting á útgáfumálum að hætt var að skrifa höfundarnöfn á greinar þar sem þau skiptu ekki máli, allt í blaðinu væri komið frá Jehóva Guði.

Vottar Jehóva á Íslandi

Trúsöfnuðurinn barst til Íslands fyrir miðja þessa öld. Hann hefur náð að skjóta hér nokkrum rótum og eru nú rúmlega 500 meðlimir skráðir hjá Hagstofunni. Af þeim taka um 300 virkan þátt í starfi safnaðarins með því að ganga í hús. Söfnuðurinn iðkar fullorðnisskírn og eru í kringum 15 manns skírðir inn í söfnuðinn hér á landi hvert ár.

Valdar kenningar Votta Jehóva

Um Guðræði (Theocracy)

Vottar Jehóva líta svo á að þeir séu hinir útvöldu hér á jörð og hið stjórnandi ráð í New York séu staðgenglar Jehóva Guðs. Vottar líta svo á að þeir lifi í ríki Guðs þar sem hið stjórnandi ráð sé guðleg ríkisstjórn. Af þeim sökum taka Vottar Jehóva ekki þátt í neinu pólítísku starfi og hafa engin samskipti við stjórnvöld umfram það sem nauðsyn krefur. Félagi í Vottum Jehóva á Íslandi skýrði þetta sem svo að hann væri búinn að kjósa í sínum stjórnarkosningum í eitt skipti fyrir öll. Hann hefði kosið Jehóva Guð.

Vottar Jehóva taka því ekki þátt í kosningum eða neinum hátíðarhöldum í tengslum við þjóðerni, s.s. 17. júní eða 1. desember. Þá taka þeir ekki þátt í fánahyllingum eða flutningi á þjóðsöngvum. Ástæða afskiptaleysisins er það að þeir líta svo á að öll stjórnvöld utan stjórnar Vottanna séu hluti af hinu illa skipulagi Satans. (Bjarni Randver, 1994, bls. 55)
Með banni við þátttöku í athöfnum sem miða við að sýna þjóðinni og landinu sem við búum á virðingu, eru börn tekin út úr eðlilegum samskiptum við jafnaldrana. Börn eru neydd til að skera sig úr á forsendum sem ætla má að þau skilji ekki alltaf. Þessi áhersla ein og sér á að skilgreina sig til hliðar í samfélaginu getur styrkt sjálfsvitund og sjálfsmynd barnanna sem Votta Jehóva. En þegar þessi áhersla er skoðuð í ljósi bannfæringa og óttastjórnunnar, þá leiðir hún til einangrunar og dregur úr samskiptahæfni.

Fred W. Franz sem seinna varð forseti trúfélagsins, hélt því fram fyrir rétti í Bandaríkjunum að Guð sjálfur væri ritstjóri tímaritsins Varðturninn sem gefið er út af Vottum Jehóva. Í sama máli kom Nathan H. Knorr sem þá var forseti trúfélagsins og viðurkenndi að efni tímaritsins væri sett fram sem orð Guðs. (Bjarni Randver, 1994, bls. 44)

Hugmyndum um guðræði fylgir krafa um fullkomna virðing fyrir hinu stjórnandi ráði sem sagt er hafa vald sitt frá Guði. Því er börnum gert ljóst að óhlýðni við yfirvaldið í New York veldur ekki bara erfiðleikum hér í heimi heldur hafi það vald um það hverjir komist í paradís á jörð. Óhlýðni við hið stjórnandi ráð er því ávísun á eilífa glötun.

Í bókinni Fjölskyldulíf þitt gert hamingjuríkt er foreldrum bent á að nota það ráð við börn sín, þegar þau nái þeim aldri að skilja, að segja þeim að ef þau ekki hlýðnist geti þau valdið því að foreldrarnir glatist að eilífu.

Hugmyndir um hina síðustu tíma

Heimsendaboðskapur hefur verið mjög stór þáttur í starfi Votta Jehóva allt frá upphafi. Margoft hefur heimsendi verið spáð, t.d. 1914, 1918, 1925 og 1975.

Vottar Jehóva halda því fram í dag að heimsendir verði áður en sú kynslóð sem fædd er fyrir 1914 líður undir lok og sé því nálægur okkur. Heimsendir séu þó ekki endir fyrir alla heldur verði

allir andstæðingar þeirra … teknir af lífi ásamt þeim, sem létu fagnaðarerindið um ríki Jehóva Guðs sig engu varða. (Bjarni Randver, maí 1994, bls. 61)

Í barnabók frá söfnuðinum er þetta orðað þannig:

Hefndardagur Guðs mun koma sem mikil og alveg óvænt skelfing yfir alla þá, sem eru fyrir utan Samfélag hins nýja heims. … Lamandi hræðsla mun breiðast út á meðal mannfjöldans, svo að mennirnir missa algerlega stjórn á sér og fara að drepa hver annan. … Þeim sem verða ekki drepnir af nágrönnum sínum, munu hinar himnesku hersveitir Guðs eyða.
… Plága mun herja á þá, eta hold þeirra og tortíma mörgum. … Tungan mun rotna í munni þeirra, sem spottuðu og hlógu að aðvöruninni um Harmagedón! Augun munu rotna í þeim, sem neituðu að sjá táknið um ,,tíma endalokanna.,,! Holdið mun rotna á þeim, sem neituðu að viðurkenna, að hinn lifandi og sanni Guð heitir Jehóva! …
… Dauðir líkamar munu þá vera alls staðar … (Frá hinni týndu paradís til hinnar endurheimtu paradísar; 1965, bls. 207-210)

Eftir þessa orrustu er tími þúsund ára ríkisins hér á jörðinni samkvæmt Vottum Jehóva og mun þar verða tími gleði, friðar og ánægju sem hefst með því að

… þeir sem lifa Harmagedón af hafa það verkefni að hreinsa jörðina og fjarlægja rústir þessa gamla kerfis. Þá munu þeir, undir stjórn Guðsríkis, yrkja jörðina og gera hana að fögrum bústað. Það verður sannarlega ánægjulegt verkefni! (Þú getur lifað að eiilífu í paradís á jörð; 1984, bls. 159)

Reyndar er ekki öllu lokið hér því eftir þúsund ára ríkið verða menn valdir áfram eftir frammistöðu sinni í því ríki og valdir annað hvort til eilífs lífs eða dauða.

Eins og áður er nefnt þá er foreldrum í hópi Votta Jehóva ráðlagt að nota þá aðferð við uppeldi barna sinna að gera þau ábyrg fyrir eilífri velferð foreldra sinna. Hér er sektarkennd og tilfinningar í garð foreldra notað til að hræða börn frá því að gera það sem ekki er þóknanlegt innan trúfélagsins. Sífellt er barnið í hættu um að valda glötun foreldra sinna.

Annað sem rétt er að staldra við í hugmyndum trúfélagsins um glötun eru lýsingar þeir sem börn eru látin lesa og þekkja. Börnum er kennt að ef þau ljúga þá rotni tunga þeirra, ef þau stela rotni hendin á dómsdegi. Með þessari hótun um glötun og rotnun þeirra líffæra sem brjóta af sér er verið að hræða börn til hlýðni.

Í skilgreiningum Kaplan á ofbeldi gagnvart börnum er það að hræða eitt af einkennum andlegs ofbeldis. Þessi hræðsla sem hér um ræðir er þó ekki hræðslan við það að vera barin eða fá ekki að fara í bíó. Hræðslan sem alið á hér er hræðslan við eilífa glötun, dauða sjálfs sín að eilífu á skelfilegan hátt eða það sem verra er. Hræðslan við það að vera orsök eilífrar glötunar foreldranna.

Í viðtali í bandaríska fréttaþættinum 60 minutes lýsir fyrrum Votti Jehóva því þegar hann var barn og gekk um auðmannahverfin í bænum sem hann bjó og valdi sér hús. Hann vissi það að eftir heimslokin yrðu húsin auð og hann og aðrir Vottar Jehóva gætu valið sér hvaða hús á jörðinni sem var til búsetu. Svo fremur sem safnaðarmeðlimur byggi þar ekki fyrir. Allir sem ekki tilheyrðu söfnuðinum myndu annað tveggja drepa hvor annan við heimslokin eða vera teknir af lífi af himneskum hersveitum Guðs. Náunginn, utan trúfélagsins, var þannig viðfang trúboðs hús úr húsi í tilraun til að bjarga honum en ef hann sæi ekki að sér við heimsóknina eða sýndi áhuga var hann einskis verður.

Í viðtali í Pressunni 17. júní 1992 lýsir kona sem kölluð er Lilja (ekki rétt nafn) samskiptum sínum við söfnuðinn á Íslandi. Hún var í söfnuðinum um tíma og giftist inn í hann. Er hún síðar skildi við mann sinn fékk hún forræði yfir börnum þeirra, en var gerð burtræk úr söfnuðinum. Börnin fara þó til föðurins reglulega. Í viðtalinu kemur fram að eftir að börnin hafa verið hjá föðurnum grátbiðja þau iðulega móður sína að koma aftur í söfnuðinn þar sem hún sé annars að eilífu glötuð. Ástæða þessa er sú að þegar faðirinn hefur börnin, notar hann tíma sinn með þeim til að innræta þeim boðskap safnaðarins. Þar á meðal þá „staðreynd“ að móðirin er glötuð að eilífu.

Ætla mætti að þessar frásagnir væri einstök dæmi um mistúlkun / misnotkun einstaklinga á hugmyndum um glötun en víðar má sjá hvernig viðhorf til náungans sem dæmdur hefur verið „hafur“, er á þá leið að viðkomandi sé einskis verður. En hafur er notað af Vottum Jehóva um þá sem ekkert vilja með trúfélagið hafa. Er þetta orð fengið úr Nýja testamentinu þegar Jesús Kristur talar um að skipa sauðum sér til hægri handar en höfrum til vinstri (þ.e. til glötunar).

Hvað varðar frásögn Lilju er það ljóst að algengt er að fráskildir foreldrar bera illan hug hvort til annars en hér er um meira að ræða. Hugmyndakerfi sem börnin alast upp í að hluta heldur því fram að móðir þeirra sé að eilífu glötuð. Ætla má að börn sem alast upp við þvílíkar aðstæður búi ekki við mikið öryggi í daglegu lífi.

Um hlutverk einstaklinga í heiminum

Vottar líta svo á að þó þeir séu hér í heiminum þá séu þeir ekki hluti af honum. Að þeirra mati er heimurinn á valdi hins illa. Hlutverk þeirra í heiminum er að sýna öllum að Jehóva Guð er réttmætur og verðugur einvaldur á jörðinni. Þetta gera þeir með efalausri hlýðni við staðgengil Jehóva Guðs sem er hið stjórnandi ráð.

… Ef við förum að hugsa sem svo, að við vitum betur en skipulagið, ættum við að spyrja okkur sjálf: „Hvar lærðum við eiginlega hinn biblíulega sannleika? Hefðum við kynnst vegi sannleikans ef við hefðum ekki hlotið leiðsögn frá skipulaginu? Getum við í raun og veru komist af án leiðsagnar skipulags Guðs?“ Nei, við getum það ekki! (Bjarna Randver, maí 1994)

Hver er ég? Hvert er mitt hlutverk í lífinu? Þessar spurningar móta einstaklinginn í lífinu, hvar sem hann er hvaða trúfélagi sem hann tilheyrir. Hér mun ég staldra við spurninguna: Hvernig mótast Vottar Jehóva?

Strax frá unga aldri er ætlast til að börn mæti með foreldrum sínum á samkomur. Á samkomunum fá allir sömu fræðslu. Börn sitja allan tímann með foreldrum sínum og er ætlast til að þau taki þátt í samkomunni eftir bestu getu. Sú krafa er gerð til barnanna að þau sitji stillt og hlusti allan tímann sem fræðslan fer fram, en geti þó komið með fyrirspurnir og athugasemdir varðandi efni fræðslunnar. Ætlast er til að börnin taki þátt í og nemi það sem og fullorðið fólk að því marki sem mögulegt er. Eins er ætlast til að þau sitji kyrr og hlusti í lengri tíma annars er hætt við flengingu.

Joseph Wilting staldrar við þátttöku barna í samkomum í bók sinni Riket sem ikke kom:

Oftsinnis sá ég börn fá kinnhest á samkomum því þau áttu erfitt með að sitja kyrr, þegar klukkan var orðin það margt að þau hefðu í raun átt að vera komin undir sæng (Wilting, Joseph, 1992, bls. 111).

Allt frá unga aldri sóttu börnin safnaðarsamkomurnar og fóru með okkur út í þjónustuna á akrinum. Skref fyrir skref lærðu þau að prédika – hringja dyrabjöllum, heilsa, segja til nafns, bjóða boðsmiða, smárit eða tímarit. (Vaknið!, október-desember 1991, bls. 13)

Ætlast er til að börn fari með í boðunarferðir allt frá því að þau eru smábörn. Þannig fara þau fyrst með foreldrum en strax upp úr 12 ára aldri er ætlast til að þau geti farið ein með jafnöldrum.

Vottum Jehóva er ætlað að miða allt líf sitt við það að geta tekið þátt í boðun hús úr húsi. Lagt er hart að einstaklingum að velja vinnu sem bjóði upp á frítíma til að ganga hús úr húsi. Framhaldsnám var lengi vel litið hornauga vegna þess að það tæki mikinn tíma og ekki gefist nægur tími til að ganga í hús.

Eftirlit er haft með Vottum Jehóva frá aðalstöðvunum í New York og er öllum sem ganga í hús skylt að skila inn skýrslum þangað mánaðarlega. Meðal þess sem kemur fram í skýrslunum er hvernig sá sem kom til dyra brást við, hvort hann hafi verið áhugasamur eða hvort hann sé ekki verður sannleikans, þ.e. hafur. Hugmyndin um að allt niður í 12 ára börn þurfi að meta hvort viðmælendur séu verðugir líklegir til að þiggja boð um eilíft líf eða vera dæmt til glötunar eru óhugnanlegar.

Um skólagöngu barna í trúfélaginu

Vottar Jehóva líta svo á að skólinn sé til aðstoðar foreldrum við að ala upp börn og því hljóti skólinn að víkja ef um árekstra sé að ræða á milli foreldra og skóla. Þessi réttindi voru enda mjög skýr í Aðalnámskrá grunnskóla frá 1989 sem var í gildi þegar þessi texti var skrifaður upphaflega.

Réttur foreldra til uppeldis barna sinna og ábyrgð á því eru grundvallaratriði í mannréttindasamþykktum sem Íslendingar eru aðilar að. Í samvinnu skóla við heimili verður að virða þennan rétt foreldra. Heimilin bera mesta ábyrgð en saman verða heimili og skóli að stefna að því að meginmarkmiðum grunnskólanáms verði náð. … Mikilvægt er að sýna nærgætni þegar fjallað er um málefni og viðhorf sem tengjast heimilum, t.d. neyslu- og lífsvenjur. Það á sérstaklega við um trúar- og lífsskoðanir. Með hliðsjón af sérstöðu þessara þátta, einkum hvað varðar trúfrelsi, er heimilt að veita einstökum nemendum undanþágu frá ákveðnum þáttum skyldunáms grunnskóla. Jafnframt ber að tryggja hverjum nemanda sem fær undanþágu jafnvæg tækifæri til menntunar og þroska. (Aðalnámskrá grunnskóla, 1989, bls. 9-10)

Á þessu byggir ákvörðun Votta Jehóva að láta börn sín ekki sitja inni í kennslustofum þegar kennsla í kristnifræði fer fram og því að láta börn sín ekki taka þátt í neinum undirbúningi fyrir hátíðisdaga né öðru því sem á einhvern hátt tekur tíma og athygli frá skyldum við söfnuðinn.

Það að geta ekki tekið þátt í öllu starfi skólans einangrar börn án nokkurs vafa. Ekki er gert ráð fyrir að þau séu í kristnifræði og er það varið í námskrá grunnskólans. Þeim er ekki ætlað að taka þátt í undirbúningi fyrir neinar hátíðir og eiga ekki að taka þátt í neinu starfi skólans sem felur í sér virðingu fyrir íslensku þjóðinni.

Reyndar virðist það þó ekki koma að sök hvað varðar viðhorf annarra barna til þeirra. Í ritgerð Kristbjargar Gísladóttur og Laufeyjar Gísladóttur kom fram að börn Votta Jehóva virðast ekki gjörn á að lenda einelti þrátt fyrir sérstöðu sína (Kristbjörg Gísladóttir og Laufey Gísladóttir, 1993). Því er erfitt að dæma um hvort þetta skipti svo miklu máli hvað varðar almannaheill barnanna. Þ.e. frá sjónarhorni þess sem ekki er í söfnuðinum.

Um þátttöku í félagslífi

Vottar Jehóva banna ekki þátttöku í félagslífi í skólum eftir venjulegan skóladag. Hins vegar er til þess mælst að börn taki fremur þátt í skemmtun og uppfræðslu sem foreldrarnir bjóða upp á.

Trúfélagið vísar til I. Kor. 15:33 þar sem stendur:

Villist ekki. Vondur félagsskapur spillir góðum siðum (Skolen og Jehovas Vidner, 1983, bls. 22).

Því er það viðtekin venja að Vottar Jehóva láti börn sín ekki taka þátt í öðru starfi utan safnaðarins en brýna nauðsyn ber til. Í blaðinu Vaknið!, október-desember 1991, segir faðir í trúfélaginu frá viðbrögðum sínum við því að barnið hans hafði komist í hóp fyrirmyndarnemenda í eldri bekkjum sem leiðbeina öðrum nemendum. hann segir svo frá:

Ég komst að því að hann hafði fiktað við reykingar, vegna stöðugs þrýstings meðlima í liðinu og sökum forvitni. Við rökræddum saman um það hve hættulegt væri að reykja og sonur minn komst sjálfur að þeirri niðurstöðu að segja sig úr liðinu og hann gerði það. Til að fylla í tómarúmið sem myndaðist við það að hætta þátttöku í óheppilegu skólastarfi skipulögðum við heilnæma afþreyingu með fjölskyldunni og einstaklingum úr söfnuðinum. (Vaknið!; október-desember 1991, bls. 12-13)

Þó er þetta ekki undantekningalaust og er dæmi þess að formaður málfundarfélags í framhaldsskóla í Reykjavík hafi verið í trúfélaginu.

Í sjónvarpsþættinum 60 minutes á CBS sjónvarpsstöðinni heldur Samuel Payne dómari í Chattanooga í Tennesse því fram að

… ef byggt væri á lífsstíl einum gengi forræðisdómurinn alltaf gegn Vottum Jehóva.

Ástæðan væri sú að ef foreldri segði fyrir dómstólum að hann ætlaði að meina barni sínu að taka þátt í félagslífi utan skólans. Hann ætlaði að banna því að mæta t.d. í afmæli, hylla fánann, kjósa í kosningum o.s.frv. Meðan hitt foreldrið segðist ætla að ala það upp eftir venjum og hefðum í Bandaríkjunum þá væri ekki spurning hvort fengi forsjána.

Í þættinum var eins talað við lögfræðing sem er í trúfélaginu og hann spurður um þetta atriði. Hann hélt því blákalt fram að börnin fengju að ráða þessu sjálf hvort þau tækju þátt í félagslífi í skólanum og nefndi sem dæmi að í forræðismáli sem hann vann við fyrir móður í trúfélaginu hafi hann spurt barnið sjálft hvort það hefði áhuga á þátttöku í félagslífi í skólanum. Fréttamaðurinn gerði reyndar athugasemd við þessa röksemdafærslu þar sem barnið var aðeins 6 ára þegar það kom í vitnastólinn.

Hér á Íslandi virðist áherslan á að taka ekki þátt í félagslífi minni en t.d. Bandaríkjunum. Þó að vissulega sé hún til staðar.

Afleiðingar þessarar áherslu á hættuna af félagslífi má taka saman í eitt orð, einangrun. Börnum er ætlað að vera þar sem trúfélagið vill, þegar trúfélagið vill. Lögð er áhersla á það að ef barn sé í samskiptum við önnur börn sé það alltaf á forsendum trúfélagsins. Þannig sé barnið helst með rit frá trúfélaginu í töskunni sinni í skólanum og miði allt sitt athæfi við að geta sagt frá Jehóva Guði og Vottum Jehóva (Vaknið!, október-desember 1991, bls. 13).

Utan skólans skuli reyna að hafa sem mesta dagskrá á vegum trúfélagsins til að börnin þurfti ekki að umgangast aðra umfram það sem nauðsyn krefur.

Um hátíðisdaga, afmæli og veislur

Vottar Jehóva líta svo á að ekki megi upphefja neinn nema Jehóva Guð og því sé ekki rétt að halda hátíðlega daga eins og bóndadag, konudag eða mæðradag. Þá halda Vottar Jehóva ekki upp á afmæli og er ekki heimilt að mæta í afmælisveislur. (Skolen og Jehovas Vidner, 1983, bls. 12-13).

Vottar Jehóva halda aðeins einn dag ársins hátíðlegan sem er um páskaleytið. Þá er haldin sameiginleg kvöldmáltíð safnaðarins til minningar um dauða Jesú. Þeir líta svo á að aðrir hátíðisdagar sé svo til allir komnir úr heiðinni guðsdýrkun og/eða þeim annmörkum háðir að vera tengdir þjóðadýrkun.

Áhrif þessarar einangrunar verður ekki greind hér, en áhugaverð umfjöllun um vandann má sjá í kvikmyndinni Perfect World í leikstjórn Clint Eastwood. En hún fjallar um barn úr söfnuði Votta Jehóva sem kynnist frelsinu við það að glæpamaður á flótta rænir honum og hefur sem gísl.

Um samskipti kynjanna

Vottar leggja mikla áherslu á að kynlíf eigi sé einvörðungu stundað innan hjónabands og allt kynferðislegt samneyti þess utan sé illt og fordæmanlegt.

Í bókinni, Your Youth, getting the Best out of it, er fjallað um samskipti kynjanna. Þar er gert ráð að öll samskipti kynjanna fari fram innan stærri hóps eða þar sem margir eru viðstaddir. Litið er svo á að tveir unglingar af sitt hvoru kyninu eigi helst ekki að vera saman tvö ein undir nokkrum kringumstæðum.

Eins er í blöðum trúfélagsins sem fjalla um börn og unglinga varað við samskiptum við börn af sem eru utan trúfélags (sjá t.d. Vaknið!, janúar-mars 1993, bls. 16 og Vaknið!, október-desember 1992, bls. 19).

Í Vaknið!, október-desember 1994, er því haldið fram að unglingar meðal votta eigi aðeins að giftast innan safnaðarins og komist svo að orði:

Þar eð samdráttur kynjanna er ekki bara skemmtun heldur undanfari hjónabands væri það vanþóknanlegt Guði að einn af þjónum hans drægi sig eftir einhverjum sem hefur ekki vígt Jehóva líf sitt.

Í viðtali í Pressunni 17. júní 1992 lýsir Lilja því þegar hún var kölluð fyrir dómstól öldunga safnaðar Votta Jehóva og látin gera grein fyrir samskiptum sínum við pilt sem var innan safnaðarins. Þar var hún spurð af öldungunum í þaula um samskipti hennar og piltsins til að rannsaka hvort of langt hefði verið gengið fyrir hjónaband. Öldungar í söfnuði Votta Jehóva eru í öllum tilfellum karlmenn og Lilja gefur í skyn í viðtalinu að henni hafi fundist sem þeir nytu þess að spyrja hana. Frá svipuðum atburðum er einnig greint í bókum Joseph Wilting og David A. Reed (sjá í heimildaskrá).

Yfirheyrslur sem framkvæmdar eru á þann hátt sem lýst er í ofangreindu viðtali eru brjóta augljóslega gegn kynvitund og kynverund þess sem er yfirheyrður.

Þá er undarlegt er að 6 ára barn er af söfnuðinum talið hæft til þess að hafna þátttöku í félagslífi utan safnaðarins en ungmenni um tvítugt eru ekki talin hæf til að velja sér maka. Hér er um að ræða óeðlilegt vantraust á allt að tvítugum ungmennum.

Um agann

Börn verða ekki af sjálfu sér hlýðin, ástúðleg og siðprúð. Þau mótast þannig vegna fordæmis og aga. (Fjölskyldulíf þitt gert hamingjuríkt, 1981, bls. 131)

En hver er þessi agi sem mótar börnin svo þau hlýði, verði ástúðleg og siðprúð? Í Vaknið!, október-desember 1991, sem sérstaklega er tileinkað fjölskyldunni stendur:

Í Biblíunni merkir sögnin „að aga“, að fræða, þjálfa, hirta – meðal annars flengja ef þess er þörf til að leiðrétta ranga hegðun. (Vaknið!, október-desember 1991, bls. 7)

Seinna í sama blaði segir svo:

Hið sanna markmið agans…er ekki að refsa óstýrilátu barni heldur kenna því og leiðbeina og hjálpa því að mynda með sér hemil hið innra. (Vaknið!, október-desember 1991, bls. 8)

En hvenær er þörf á því að nota flengingu? Í blaðinu sem vísað er til hér að ofan eru nefndar nokkrar sögur frá foreldrum sem rétt er að taka sér til fyrirmyndar.

Stundum þurfum við að beita aga. Einu sinni kom sonur okkar, sem þá var kominn á unglingsaldur, seint heim. …, en við ákváðum að salta málið til morguns. Um miðnætti var bankað á svefnherbergishurðina. …
,Pabbi og mamma, ég hef verið andvaka síðustu fjóra klukkutímana, bara af því að ég hlustaði ekki á ykkur þegar þið notuðuð Biblíuna til að var mig við slæmum félagsskap. Eftir skólann í dag lögðu nokkrir krakkar fast að mér að koma í sund og einn af strákunum kaffærði mig. Ég hefði drukknað ef annar strákur hefði ekki komið mér til bjargar. Þeir hlógu að mér og kölluðu mig raggeit. Ég kom beint heim en svo beið ég fyrir utan húsið af því að ég fann til sektarkenndar. Ég skammaðist mín fyrir að hlusta ekki á ykkur þegar þið vöruðuð mig við slæmum félagsskap …
Hann snökti og við táruðumst líka. Við vorum ánægð með að hann skyldi hafa lært sína lexíu, en við öguðum hann líka til að innprenta honum þetta enn betur. Önnur Mósebók 34:6, 7 sýnir að Jehóva er miskunnsamur og fyrirgefur syndir, en hann lætur þeirra ekki með öllu óhegnt.
Einu sinni, eftir að hafa leiðbeint honum nokkrum sinnum, þurfti ég að beita hinum bókstaflega vendi. Mér fannst það afskaplega erfitt en árangurinn var mjög góður. (Vaknið!; október-desember 1991, bls. 11-12)

Í blaðinu eru einnig nefnd „rétt“ viðbrögð barna við ögun og nefni ég hér tvö dæmi:

Við gerum þetta kort til að sýna að okkur finnst vænt um þig. Þegar við fáum lágar einkunnir skrifar þú undir einkunnaspjaldið. Þegar við erum óþekk löðrungar þú okkur. Við grátum kannski, en við vitum að þetta er okkur fyrir bestu. (Vaknið!, október-desember 1991, bls. 7)

Oft sögðu synir mínir við mig eftir að þeir voru agaðir: ,Pabbi, ég skil ekki sjálfan mig, ég veit ekki hvers vegna ég var óhlýðinn. Það var svo heimskulegt.’ Þau kunna að meta foreldra sem láta sér nógu annt um þau til að aga þau. (Vaknið!, október-desember 1991, bls. 12)

Í kaflanum Mikilvægi ástúðlegs aga í bókinni Fjölskyldulíf þitt gert hamingjuríkt er einnig bent á það sem agaleið ef um stálpuð börn er að ræða að útiloka þau frá félagsskap fjölskyldunnar tímabundið, þó er varað við að loka þau úti þar sem það sé of langt gengið (Fjölskyldulíf þitt gert hamingjuríkt, 1981, bls. 144).

Í námskeiðinu Saga stjórnmálakenninga við Háskóla Íslands eyddi kennarinn, Hannes H. Gissurarson nokkrum tíma í að velta fyrir sér leiðum til ákvarðanatöku. Hann taldi að leiðirnar væru þrjár:

  1. Notkun líkamlegra yfirburða
  2. Rannsókn
  3. Kosningar.

Augsýnilega er nokkur munur á niðurstöðum og framkvæmd þessara leiða. Það að nota líkamlega yfirburði er greinilega sú aðferð sem síst er líkleg til að leiða að réttri niðurstöðu.
Á sama hátt má segja að notkun líkamlegra yfirburða við að láta barn komast að „réttri“ niðurstöðu er ekki vænleg. Fyrir það fyrsta er ekki víst að sýn hins sterka sé sú eina „rétta“. Í öðru lagi lærir barnið það sem fyrir því er haft og gæti tekið upp á því að nota þessa leið annars staðar þar sem það er í hlutverki hins sterka. Og svona mætti lengi halda áfram.

Vottar Jehóva nota þó ekki aðeins líkamlega yfirburði til að komast að réttri niðurstöðu, heldur og til að festa börnum í minni að eitthvað sé rangt.

Því er mikilvægt að staldra við er áhrif þess á sálarlíf barna að vera beitt líkamlegum refsingum. Erfitt er að fullyrða um öruggar afleiðingar þeirra en í bók Philip Greven, Spare the Child, er hugsanlegum afleiðingum er gerð góð skil. Þar nefnir hann orð eins og hatur, hræðsla, ofsóknaræði o.fl. og fjallar stuttlega um þau, sem mögulegar afleiðingar líkamlegs ofbeldis.

Um blóðgjafir

Þekktustu kenningar Votta Jehóva eru líklegast kenningar þeirra um blóð og blóðgjafir en trúfélagið bannar meðlimum sínum að þiggja blóðgjöf, jafnvel þótt líf liggi við.

Tímaritið Vaknið! í október-desember 1994 er tileinkað þessum kenningum og á forsíðunni birt mynd af þremur börnum sem sögð eru hafa hlýtt Guði framar öllu. En þau létust öll eftir að hafa neitað að þiggja blóðgjöf.

Kenningar þessar voru fyrst kynntar í trúfélaginu upp úr 1927 en það var ekki fyrr 1944 og 1945 sem að greinar byrjuðu að birtast í Varðturninum um helgi blóðsins. Það var síðan 1961 að trúfélagið lýsti því yfir að hver sá sem vanvirti hið guðlega yfirvald, fengi blóðgjöf eða tæki þátt í óguðlegu athæfi væri burtrækur (e. disfellowshipped) úr söfnuðinum (Jehova’s Witnesses – Proclaimers of Gods Kingdom; 1993, bls. 183-184) og þá um leið að eilífu glataður.

Trúfélag Votta Jehóva lítur svo á að ef einstaklingur standi frammi fyrir því að deyja ef hann fái ekki blóðgjöf, sé það í raun prófraun á trú einstaklingsins á Jehóva Guð á þetta jafnt við um börn sem aðra.

Þessum hugmyndum fylgir það að ef foreldrar taki þá ákvörðun fyrir barn sitt að það fái blóð sé alls óvíst að barnið hafi möguleika á að koma inn í þúsund ára ríkið (Bjarni Randver, 1995). Af þessum ástæðum deyr fjöldi barna um allan heim sem tilheyrir trúsöfnuðinum.

Hér á Íslandi er ekki raunveruleg hætta á því að barn deyji vegna kenninga trúfélagsins, þar sem siðaráð landlæknis hefur bent á að læknir geti óskað eftir tímabundinni forsjársviptingu undir ákveðnum kringumstæðum. (Brynja Tomer, Morgunblaðið, 26. nóvember 1993). Ljóst er að sú leið fríar foreldra Votta Jehóva frá því að standa við sannfæringu sína. Þó er alltaf hætta á að til málaferla komi vegna tímabundinnar forsjársviptingar, en það hefur gerst mjög oft í Bandaríkjunum á undanförnum árum. Í Vaknið! október-desember 1994 eru margar sögur af slíkum málaferlum.

Um sannleika og lygi

Hugtakið guðveldislegur hernaður er notað í Varðturnstímaritum frá 6. áratugnum yfir það að leyna sannleikanum fyrir óvinum Guðs. Í Varðturninum 1. maí 1957 stendur meðal annars:

Laug hún? Nei, hún gerði það ekki. Hún var ekki lygari. Þvert á móti notaði hún guðveldislega herkænsku með því að leyna sannleikanum í verki og orðum í þágu þjónustunnar. (Bjarni Randver, maí 1994).

Í bókinni Insight on the Scriptures, Volume 2, er svipaður skilningur lagður í hugtakið sannleika,

Að ljúga felur yfirleitt í sér, að einstaklingi, sem hefur rétt á að heyra sannleikann, sé sagt eitthvað rangt og það sé gert í þeim tilgangi að blekkja eða skaða hann eða einhvern annan einstakling. … Á meðan illkvittin lygi er fordæmd í Biblíunni, merkir það ekki að maður sé skuldbundinn til að ljóstra upp sönnum upplýsingum fyrir því fólki sem hefur ekki rétt á því (Insight on the Scriptures, Volume 2, 1988, bls. 244-245).

Hver er ekki verður þess að heyra sannleikann?

Svarið við því hlýtur að vera allir þeir sem hafa hafnað að tilheyra sannleikanum, trúfélaginu. Raymond Franz staldrar við þetta í bók sinni In Search of Christian Freedom, er hann skoðar rit sem Vottar hafa gefið út fyrir foreldra innan safnaðarins sem eiga í forræðisdeilum. Þar skoðar hann raðlögð svör fyrir dómstólum og ber þau saman við boðun trúfélagsins og bendir á mótsagnir. Samkvæmt þessu er heimilt að ljúga að dómstólum ef það er til að viðhalda ríki Jehóva Guðs.

Joseph Wilting segir í bók sinni Riket som ikke kom frá því að virðing fyrir skipulagi Jehóva Guðs, sem er trúfélagið, sé æðri þagnarskyldu starfsfólks á sjúkrahúsum. Þ.e. ef sjúkrahússtarfsmaður kemst yfir upplýsingar sem varða félagið eða safnaðarmeðlimi, er honum skylt að tilkynna það til öldunga safnaðarins jafnvel þó um trúnaðarmál sé að ræða.

Viðhorfið að ekki þurfi að segja öðrum satt en þeim sem er í söfnuðinum er fremur ógeðfellt. Uppeldi þar sem barni er kennt að ekki þurfi að segja sannleikann hlýtur að byggja upp vantraust og hræðslu hjá barninu. Er ég verður að heyra sannleikann? Er spurning sem barnið þarf sífellt að glíma við.

Eins veit barnið að það getur ekki treyst neinum innan safnaðarins fyrir efasemdum sínum, því sá sem heyrir er skyldur til að láta öldungana vita um allt sem varðar trú safnaðarmeðlima.

Um stöðu konunnar og bannfæringar

Hjá Vottum Jehóva er litið svo á að maðurinn sé höfuð konunnar og konan eigi að vera undirgefin manninum. Þetta má sjá víða í ritinu Fjölskyldulíf þitt gert hamingjuríkt. Eins eru í konur gerðar ábyrgar fyrir hnignun fjölskyldulífs með því að afhenda forskólum börn sín. (Vaknið! október-desember 1991, bls. 3-5).

Þó er einnig mikil áherslu lögð á það að maðurinn misnoti ekki þetta vald sitt. Þegar kemur að uppeldi barna er hlutverkaskipan skýr.

Móðirin getur aldrei vikið frá barninu lengur en tvær til fjórar stundir í senn. … Ég hef alltaf viljað geta kennt börnunum mínum sjálf og sjá þau vaxa úr grasi. Ég vann því ekki úti meðan börnin voru lítil. (Vaknið!, október-desember 1991, bls. 11)

Í skipuriti félagsins er það skýrt að konur geta ekki gegnt neinum valdastöðum í trúfélaginu. Engin kona getur svo dæmi sé tekið orðið safnaðarþjónn eða öldungur.
Það var í ritinu Watchtower 1. mars 1952 sem kynntar voru ráðstafanir til að halda trúfélaginu hreinu. Í kjölfar þess hófst félagið handa við að reka þá úr trúfélaginu sem ekki hegða sér í samræmi við hugmyndir félagsins um rétt og rangt (Jehova´s Witnesses – Proclaimers of Gods Kingdom, 1993, bls. 184-185). Þeir sem burtrækir eru hafa reyndar möguleika á að iðrast og koma aftur inn í trúfélagið og er það nokkuð algengt.

Reglur um samskipti við burtræka hefur breyst í gegnum árin. Þau voru algjörlega óheimil fram á síðari hluta 8. áratugarins, en þá birti trúfélagið grein sem mælti með samskiptum. Síðan var það í upphafi þess 9. að algjört bann var aftur sett á samskipti.

Lokaorð

Hér hef ég skoðað nokkrar hugmyndir og kenningar hjá trúfélaginu Vottar Jehóva. Ljóst er að ýmsir þættir í boðun og atferli trúfélagsins virðast falla undir ofbeldisskilgreiningarnar sem ég tiltók í upphafi.

Það er ljóst er að margar þessara hugmynda eru ekki bundnar við Votta Jehóva eingöngu. Hræðsluáróðurinn um glötun að eilífu er þekkt stef í uppeldi hjá kristnum söfnuðum. Eins má nefna að hugmyndir um mikilvægi líkamlegs aga eru vel þekktar í samhengi trúfélaga. Staða konunnar, tilraunir til einangrunar meðlima, ásamt réttarhöldum innan safnaðar eru einnig allt þekkt stef í sögu trúsafnaða og félaga.

Það sem greinir hins vegar trúfélagið Votta Jehóva frá flestum öðrum hópum er að hér er ekki aðeins um að ræða hugmyndir sem liggja í loftinu. Í þessu tilfelli er um að ræða hugmyndir sem eru skrifaðar niður í bækur eins og Fjölskyldulíf þitt gert hamingjuríkt, Questions Young People Ask – Answers that Work og Your Youth – Getting the Best out of it. Þar sem farið er ítarlega í það hvað á að gera og hvernig. Þetta er síðan stutt með greinum í tímaritum þar sem fólk segir hamingjusamt frá því hvernig gekk og bendir á leiðir til að framkvæma hugmyndirnar.

Að lokum er síðan öllum skylt að hlýða, annars bíði útskúfun úr söfnuðinum og eilíf glötun.

Heimildir

60 minutes, Season 25, Episode 15. CBS, December 27, 1992.
1993 – Yearbook of Jehovah’s Witnesses. New York:Watchtower Bible and Tract Society, 1993.
1994 – Yearbook of Jehovah’s Witnesses. New York:Watchtower Bible and Tract Society, 1994.
1995 – Yearbook of Jehovah’s Witnesses. New York:Watchtower Bible and Tract Society, 1995.
Aðalnámskrá grunnskóla. Reykjavík: Menntamálaráðuneytið, 1989.
Aid to Bible Understanding. New York: Watchtower Bible and Tract Society of New York, 1971.
Awake! August 8 1994. New York: Watchtower Bible and Tract Society of New York inc. 1994.
Awake! August 22 1994. New York: Watchtower Bible and Tract Society of New York inc. 1994.
Awake! November 22 1994. New York: Watchtower Bible and Tract Society of New York inc. 1994.
Biblían, Heilög ritning. Reykjavík: Hið íslenska Biblíufélag, 1981.
Bjarni Randver Sigurvinsson. Heimsendir í nánd. Reykjavík: Guðfræðistofnun, maí 1994.
Bjarni Randver Sigurvinsson. Vottar Jehóva og blóðgjafir. Reykjavík: Námsritgerð, 1995.
Botting, Heather and Gary. The Orwellian World of Jehovah’s Witnesses. Toronto: University of Toronto Press, 1984.
Brynja Tomer. “Biblían bannar blóðgjafir.” Morgunblaðið: 26. nóvember 1993. Reykjavík: Árvakur, 1993.
Franz, Raymond. In Search of Christian Freedom. Útgáfustað vantar, 1991.
Fjölskyldulíf þitt gert hamingjuríkt. New York: Watchtower Bible and Tract Society of New York inc, 1981.
Frá hinni týndu paradís til hinnar endurheimtu paradísar. New York: Watchtower Bible and Tract Society of New York inc., 1965.
Greven, Philip. Spare the Child. New York: Vintage Books, 1992.
Hannes H. Gissurarson. Fyrirlestrar í námskeiðinu Saga stjórnmálakenninga, 1994.
Hrefna Ólafsdóttir. 1994, Ofbeldi í fjölskyldum. Fjölskyldan uppspretta lífsgilda. Reykjavík, 1994.
Insight on the Scriptures, Volume 2. New York: Watchtower Bible and Tract Society of New York inc, 1988.
Jehovah’s Witnesses – Proclaimers of God’s Kingdom. New York: Watchtower Bible and Tract Society of New York inc, 1993.
Kristbjörg Gísladóttir og Laufey Gísladóttir. Vottar Jehóva. Reykjavík: Námsritgerð í Kennaraháskóla Íslands, 1993.
Lög um Vernd barna og unglinga (58/1992). Stjórnartíðindi A. Reykjavík, 1992.
Pétur Pétursson. Fyrirlestur í kirkjudeildafræði, 28. mars 1995.
Reasoning from the Scriptures. New York: Watchtower Bible and Tract Society of New York inc, 1989.
Reed, David A. Behind the Watchtower Curtain. Útgáfustað vantar, 1989.
Questions Young People Ask – Answers that Work. New York. Watchtower Bible and Tract Society of New York inc., 1989.
Skolen og Jehovas Vidner. New York: Watchtower Bible and Tract Society of New York inc., 1983.
Telma Tómasson. Sannleikurinn eða lífið – söfnuðurinn eða „dauðinn“. Pressan 17. júní 1992. Reykjavík, 1992.
Vaknið! október-desember 1991. New York: Watchtower Bible and Tract Society of New York inc., 1991.
Vaknið! október-desember 1992. New York: Watchtower Bible and Tract Society of New York inc. 1992.
Vaknið! janúar-mars 1993. New York: Watchtower Bible and Tract Society of New York inc. 1993.
Vaknið! október-desember 1994. New York: Watchtower Bible and Tract Society of New York inc. 1994.
Wilting, Joseph. Riket som ikke kom. Útgáfustað vantar, 1992.
Your Youth – Getting the Best out of it. New York: Watchtower Bible and Tract Society of New York inc., 1976.
Þú getur lifað að eilífu í paradís á jörð. New York: Watchtower Bible and Tract Society of New York inc., 1984.

2 thoughts on “Trúarlegt ofbeldi gegn börnum”

  1. Áhugaverð lesning. Ég verð nú líka að benda á það að hugmyndir Votta um “eilífa glötun” eru óendanlega fallegri heldur en hugmyndir lútherskra manna um helvíti, Vottar trúa því bara að við munum eyðast á meðan þið talið um að við munum kveljast að eilífu.

  2. Do you mind if I quote a couple of your articles as long as I provide credit
    and sources back to your website? My blog is in the exact
    same niche as yours and my visitors would certainly benefit from some of
    the information you present here. Please let me know if this ok with you.
    Many thanks!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.