Að sjá að sér

Saga Páls er áhugaverð. Páll var hugsjónamaður, baráttumaður, hann var það sem hægt er að kalla á ensku „all-in”. Eftir nám í rabbískum fræðum, taldi hann það hlutverk sitt að berjast af krafti gegn villukenningum samtíma síns, m.a. fylgdarmönnum Jesú Krists, sem hafði nýverið verið krossfestur og að sögn fylgdarmannanna risið frá dauðum.

Gagnrýni þessa Jesú og fylgdarfólks hans á atferli og áherslur trúarleiðtoga samtíma síns, voru guðlast og eitur í beinum Páls. Hann stóð meira að segja hjá og tók að sér að geyma yfirhafnir þeirra sem myrtu Stefán, fyrsta píslarvott kristinnar kirkju.

Þegar Páll tók trú á Jesú Krist, var ekki um neitt hálfkák að ræða. Hann baðst ekki einfaldlega afsökunar á fyrri gjörðum og dró sig í hlé. Hann taldi sig skuldbundinn til að nota baráttukraftinn, ástríðuna og harðfylgnina til að boða þann Krist sem hann hafði áður ofsótt. Hann tók afstöðu og barðist fyrir því sem hann taldi nú rétt, jafnvel gegn því sem hann hafði áður verið hluti af.

Þessi umbreyting, þessi skil, fóru ekkert endilega vel í þá sem höfðu áður verið ofsóttir af Páli og félögum. Það er ekki auðvelt að ávinna traust þeirra sem þú hefur einu sinni ofsótt, en það breytti ekki köllun og vilja Páls.

Við gætum sagt að Páll hafi verið hræsnari. Sumir gerðu það sjálfsagt. Við getum og eigum að sjálfsögðu að lesa texta Páls í ljósi bakgrunns hans. Skoða hegðun hans í ljósi fortíðarinnar. Reynslan af misgjörðunum mótaði tilraunir Páls til að ástunda réttlæti síðar.

Það er mikið talað um fyrirgefningar- og/eða afsökunarbeiðnir í fjölmiðlum. Þegar fólki verður á, og okkur verður öllum á, þá er krafan um afsökunarbeiðni fljót að koma fram. Ef afsökunarbeiðni kemur fram fylgja oftast nær efasemdir um einlægni gerandans og það er skiljanlegt.

Einlægni og trúverðugleiki Páls fólst ekki einvörðungu í því að hafa beðist fyrirgefningar á misgjörðum sínum, sem hann vissulega gerði. Trúverðugleikinn felst í því að hann tók sér stöðu með þeim sem hann hafði ofsótt áður, tók stöðu gegn ofsækendunum sem hann áður tilheyrði.

Í stað þess að bölsótast, hóta, leggja í einelti, niðurlægja og myrða, tók Páll stöðu gegn hatrinu og hatursumræðunni. Fortíðin fór samt ekki neitt, Páll var enn maðurinn sem passaði yfirhafnir þeirra sem drápu Stefán. En hann var ekki bara sá. Hann var líka maðurinn sem tók afstöðu gegn hatrinu og leitaðist við að standa með hinum ofsóttu, benti á hræsni annarra meðvitaður af eigin fortíð, fortíð sem hann hafði svo sannarlega lært af.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.