Ég var af einhverjum ástæðum að velta fyrir mér lestri drengja og meintum hrakandi lesskilningi þeirra. Ef við gefum okkur að niðurstöður kannanna séu réttar og samanburður við eldri kannanir marktækur og lesskilningur fari versnandi, sér í lagi hjá drengjum, þá kallar það auðvitað á margskonar spurningar og vangaveltur. Tölvur og tölvuleikir eru nefndir til sögunnar, sem er hálfkómískt, enda kallar tölvuleikjaspil á lesskilning og áliktunarhæfni. Aukning nemenda í hverjum bekk með greiningar sem gerir kennurum erfitt fyrir hef ég heyrt nefnt, en fákunnandi ég hefði talið að aukning greininga yki ekki vandann heldur einfaldlega skilgreindi hann.
Eitt sem ég fór að velta fyrir mér er hvort að ytri hvatar til lestrar og lestrarskilnings þegar kemur að bóklestri drengja skorti. Það sem við getum kallað verndandi áherslur í skólaumhverfinu hafa orðið ofan á. Þannig er forðast að láta börn lesa fyrir framan hópinn sem ráða síður við það. Þannig hefur því sem við getum kallað „neikvæða“ ytri hvata verið úthýst á kostnað verndandi hvatningar sem felst í „jákvæðum“ strokum sem styrkja fyrst og fremst innri hvatir einstaklingsins.
Það er auðvitað gífurleg einföldun, en ég velti fyrir mér hvort að þessi skortur á samanburði, það að reynt sé að draga úr félagslegum þrýstingi til árangurs (vegna þess að vissulega getur slíkt sært), hafi fremur áhrif á drengi en stúlkur. Rannsóknir benda til þess að ytri árangurstengdir hvatar hafi mismunandi áhrif á stúlkur en drengi, sjá t.d. John Baer, Gender Differences in the Effects of Extrinsic Motivation on Creativity.
Rannsókn Sarah McGeown, Hannah Goodwin, Nikola Henderson and Penelope Wright skoðar lestur með hliðsjón af kynvitund nemenda fremur en kyni. Þar kemur fram að innri hvatir þeirra sem skilgreina sig með kvenlæg gildi (feminine traits) mælist hærri en hinna sem teljast með karllæg gildi (masculine traits). Rétt er að nefna að í upphafi greinar þeirra er vísað til fjölda rannsókna sem skoða mun á lestrarhæfni, lestrarhvötum og viðhorfum til lesturs svo dæmi séu tekin og ég hef ekki kynnt mér.
Það má færa sterk rök fyrir því að innri hvatir stúlkna til lesturs séu að öðru jöfnu sterkari en drengja. Því velti ég fyrir mér hvort að tilhneigingin til að vernda drengi frá því að þurfa að lesa upphátt, sé að einhverju leiti á misskilningi byggð. Í stað þess að vernda þá frá því að verða sér til skammar, séum við að draga úr hvata þeirra til árangurs, sem kemur þeim síðan í koll síðar.