Jesaja 66. kafli

Sögu Ísraelsþjóðarinnar er hér í lokakaflanum líkt við fæðingarhríðir. Ísraelsþjóðin mun fæða af sér réttlæti fyrir allar þjóðir.

Eins og móðir huggar barn sitt,
eins mun ég hugga yður,
í Jerúsalem verðið þér huggaðir.

En í réttlætinu felst dómur.

Þeir völdu sína eigin vegi
og gleðjast yfir viðurstyggðum sínum,
eins valdi ég þeim misþyrmingar
og sendi það yfir þá sem þeir skelfast
því að ég hrópaði en enginn svaraði,
talaði en enginn hlustaði.
Þeir gerðu það sem sem illt var í augum mínum
og höfðu mætur á því sem mér mislíkaði.

Þeir sem leitast við að hlusta og svara hrópi Guðs munu lifa í hinni nýju Jerúsalem.

Ég mun sjálfur koma til að stefna saman ölllum þjóðum og tungum og þær munu koma og sjá dýrð mína. … Þeir skulu flytja alla bræður yðar frá öllum þjóðum sem fórnargjöf til Drottins, … til Jerúsalem, segir Drottinn, … Ég mun jafnvel velja nokkra þeirra til að vera prestar og Levítar, …

Von þriðja Jesaja um að öllum þjóðum verði stefnt saman, hlýtur að vera lesinn af kristnu fólki í ljósi kristniboðsskipunarinnar, í 16. kafla Markúsarguðspjalls (viðbótinni) og í 28. kafla Matteusarguðspjalls.

Spádómsbók Jesaja er fjölbreytt rit, skrifað yfir langt tímabil í þrenns konar aðstæðum. Fyrsti hlutinn er skrifaður í ljósi yfirvofandi innrásar, annar hluti er skrifaður í þjóðarútlegð og sá þriðji eftir útlegðina á tíma uppbyggingar og til þess að gera velmegunar. Tilraun spámannanna er að finna Guði stað og hlutverk í mismunandi aðstæðum þjóðar sem skilur sig sem útvalda af Guði.

Þessi yfirferð mín yfir hvern kafla fyrir sig er að sjálfsögðu takmörkuð, en vonandi gefur hún smá innsýn inn í mismunandi áherslur og skrif höfundanna (ritstjórnanna) sem mótuðu þá þrjá hluta sem finna má í ritinu.

Leave a Reply

Your email address will not be published.

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.