Kólussubréfið 1. kafli

Kólussubréfið er oftast nær talið skrifað af Páli meðan hann sat í fangelsi. Þó hafa komið fram hugmyndir um að áhersla bréfsins á Jesú Krist sem frumburð sköpunarinnar og forsendu alls sem er, rými ekki endilega að fullu við guðfræðiáherslur Páls í þeim bréfum sem talin eru án vafa skrifuð af honum. Þannig telja sumir að bréfinu sé ætlað að gagnrýna gnósisma sem náði ekki fótfestu fyrr en á annarri öld og því sé ómögulegt að Páll sé höfundurinn. Hitt er þó vert að nefna að Kólussuborg, varð jarðskjálfta að bráð 61 e.Kr. og alls ekki víst að borgin hafi verið í byggð á annarri öld.

Ég leyfi mér að nefna þessar efasemdir, en viðurkenni að mér sýnist röksemdir gegn Páli sem höfundi fyrst og fremst æfing í guðfræðilegum pælingum fremur en að hægt sé að fullyrða nokkuð um höfund bréfsins, annað en það sem segir í fyrsta og síðasta versinu. Auðvitað er hægt að ímynda sér að bréfið byggi á grunni bréfs frá Páli til Kólussumanna, sem hafi verið útvíkkað og útfært sem svar við gnósisma á annarri öld. Allt slíkt eru samt aldrei annað en pælingar.

Inntak fyrsta kaflans er að Jesús Kristur er upphaf alls.

Allt er skapað fyrir hann og til hans.
Hann er fyrri en allt og allt á tilveru sína í honum.

Og það sem meira er:

[Hann hefur] nú sætt [ykkur] við sig með dauða Krists í jarðneskum líkama. Hann lætur ykkur koma fram fyrir sig heilög og lýtalaus, óaðfinnanleg, ef þið standið stöðug í trúnni, á föstum grunni og hvikið ekki frá von þess fagnaðarerindis sem þið hafið heyrt og boðað hefur verið öllu sem skapað er í heiminum.

Fagnaðarerindið sem áður var hulið, er nú opinberað þeim sem trúa. Þessi leyndardómur, Kristur á meðal okkar, er þó ekki einvörðungu fyrir þá sem trúa, heldur er ætlaður allri sköpuninni.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.