Fræðslumál í Kirkjuskipan Kristjáns III – þankar

Það er áhugavert þegar kirkjuskipanin er skoðuð hvernig hagsmunir ríkjandi valdakerfis á Íslandi, komu í veg fyrir að Danakonungur gæti byggt upp menntakerfi í landinu á 16. öld. Þannig má ætla að ríkjandi valdastéttir á Íslandi á 16. öld hafi seinkað uppbyggingu samfélagsins á Íslandi e.t.v. um nokkrar aldir í tilraun sinni til að viðhalda ríkjandi ástandi.

Kirkjuskipun Kristjáns III. var gefin út í Kaupmannahöfn 1537. Kirkjuskipunin átti að ná út um allt danska ríkið og vera grunnur að upptöku lúthersks siðar. Hér á eftir gef ég stutt yfirlit yfir þann hluta skipunarinnar sem lýtur að fræðslumálum og áhrifum hennar á Íslandi. Til þess mun ég skoða umhverfi það sem skipunin sprettur úr, hvað kirkjuskipunin segir og afleiðingar hennar á Íslandi.

Umhverfi

Norður-Evrópa

Upphaf sextándu aldar var tími mikilla breytinga í evrópsku umhverfi. Uppgötvun Ameríku, uppgangur prenttækninnar og kostnaður við rekstur páfastóls kölluðu á endurskoðun á ríkjandi samfélagskerfi. Fjarlægð frá páfaveldi Rómar og veik staða Þýskalandskeisara sköpuðu aðstæður fyrir fursta smáríkja í Norður-Evrópu til að kalla á endurskoðun ríkjandi ástands.

Það var í þessu umhverfi sem Marteinn Lúther, vel studdur af nokkrum furstum smáríkja, hóf siðbót sína sem reyndist að lokum ekki vera siðbót heldur siðbreyting í stórum hluta Norður-Evrópu.

Danaveldi

Danaríki var víðfermt í upphafi 16. aldar og náði um allt það svæði sem nú kallast norðurlönd. Um 1520 risu aðalsmenn í Svíþjóð upp og klufu sig úr ríkinu. Gústaf Vasa varð konungur í Svíþjóð og lét lögtaka þar lútherskan sið 1527 og styrkti með því fjárhagsstöðu Svíaríkis.

Í Danmörku deildu Kristján II. og Friðrik I. Sá síðarnefndi hafði betur og var þá skorið á tengsl að mestu við páfaveldi. Við lát Friðriks I., rétt eftir 1530, komu deilurnar aftur upp á yfirborðið. Kristján II freistaði þess að ná völdum en en sonur Friðriks, Kristján III., hafði betur. Í kjölfar þess tekinn upp lúterskur siður með kirkjuskipuninni sem hér er til umfjöllunar.

Ísland

Við lok fimmtándu og upphaf sextándu aldar hafði mikil auðsöfnun átti sér stað hjá kirkjunni á Íslandi, enda kirkjan ekki háð pestum og sóttardauða og gat því keypt upp jarðir þeirra sem létust í plágum fimmtándu aldar. Þannig átti kirkjan um 40% allra jarða á Íslandi á árunum 1540-1550.

Stjórnkerfið á Íslandi var ekki mjög flókið, dómsvald var í höndum tveggja lögmanna, en framkvæmdavald í höndum hirðstjóra og sýslumanna. Allt löggjafarvald var í höndum konungs, sem einnig skipaði hirðstjórana, yfirmenn framkvæmdavaldsins.

Kirkjan myndaði síðan ákveðið mótvægi við þetta stjórnkerfi konungs. Rétt er að taka fram að yfirleitt sátu erlendir menn bæði sem biskupar og sem hirðstjórar. Þó gerist það 1524, í fyrsta skipti frá fyrri hluta 14. aldar, að báðir biskuparnir á Íslandi voru innfæddir.

Fáein orð um kirkjuskipunina

Kirkjuskipunin hefst á nokkrum orðum um tilurð hennar og segir þar meðal annars að skipunin sé skrifuð með það fyrir augum að

viðreisa og á fætur koma þeim niðurfallna vors herra Jesú Krists lærdómi og þeirri réttilegu sönnu og kristilegu Guðs dýrkan…

Kirkjuskipunin var skrifuð í Danaveldi en send í yfirlestur hjá Marteini Lúther. Hún kom til baka í fylgd Hans Bugenhagen og er hann yfirleitt talin höfundur hennar. Skipunin var síðan samþykkt af ríkisráði Danaveldis og síðast send út til prédikara kirkjunnar.

Kirkjuskipuninni er skipt upp í sex kafla. Þeir eru:

  1. Kaflinn um lærdóminn. Hann fjallar m.a. um val á prédikurum/prestum. Þeir skulu vera góðir og siðsamir, þurfa bæði að kunna og vilja prédika Guðs orð rétt og eins að útdeila sakramentum rétt. Eins þurfa þeir að geta útskýrt og kennt boðorðin 10, trúarjátninguna, Faðir vor og rétta meðferð sakramenta.
  2. Kaflinn um seremóníur og ytri kirkjuþjónustu. Þar sem fjallað er um guðþjónustur og til þess mælst að hún sé nytsamleg öllum. Þannig skal t.d. einfalt og fávíst alþýðufólk ekki að þurfa að hneykslast á kirkjusiðum.
  3. Kaflinn um skólana. Val á skólameisturum í skóla er hér meðal umfjöllunarefnis. Þar er lögð áhersla jafnt á þekkingu og atferli.
  4. Kaflinn um laun þjóna kirkjunnar og ölmusu fátækra.
  5. Kaflinn um biskupa og prófasta. Samkvæmt þessum kafla er verksvið biskupa og prófasta það að halda þjónum Guðs orðs við efnið og sjá til þess að þjónusta þeirra gangi rétt og skikanlega til.
  6. Kaflinn um bækurnar. Hann tekur á bókaeign góðra sóknarpresta og bendir á að þeir þurfi að hafa uppbyggilegar bækur við hendina og skuli varast að vera blekktir af „nokkrum vondum bókum.“

Hér á eftir mun ég skoða kaflann um skólanna og velta í framhaldi af því fyrir mér forsendum skrifanna og afleiðingum þeirra.

 Um barnaskólann

…að barnið megi réttilega upptýttast og undirbúast til að læra Guðs evangelíum af hverjum undirbúningi sá fyrsti æskualdurinn verður hneygður til sannrar guðrækni og réttskikaður til annarra kristilegra dyggða og nemur þær listir hverjar mjög vel kunna að hjálpa annað hvort til að kenna sem tilheyrir Guðs æru í kristindóminum ellegar vernda veraldlega valdstjórn og henni almennilega við halda.

Þessi yfirskrift er yfir þriðja hluta kirkjuskipunarinnar. Námið er eitt, tilgangurinn tvíþættur. Námið er Guðs evangelíum og tilgangurinn er að gera nemandanum mögulegt annað tveggja að kenna um Guðs æru í kristindóminum eða vernda hið veraldlega vald og halda því við. Um tvískiptinguna mun ég staldra við síðar, en fyrst hyggst ég skoða hvernig kennslan átti að fara fram skv. skipuninni.

Kennslan

Fyrsta setning þessa hluta segir svo frá að í hverjum kaupstað skuli var einn latínuskóli og kennarar í þeim skuli vera tveir eða þrír. Lagt verði hart að foreldrum að senda börn sín í slíka skóla í prédikun kirkjunnar.

Í slíkum skólum skuli fyrst kenna lestur og til þess lesið Faðir vor, trúarjátningin, boðorðin 10, innsetningarorð skírnar og innsetningarorð altarissakramenta ásamt nokkrum smábænum. Í framhaldi skal einnig kenna málfræði, dæmisögur Esóps og jafnvel söfn Erasmusar þeim sem best standa sig. Í þriðja hluta námsins skal Cicero lesin og er þar gert ráð fyrir að ekki sé talað annað en latína. Gert er ráð fyrir meira námi sem felst þá í dýpkun þess efnis sem fyrr er nefnt.

Í kirkjuskipuninni er einnig skrifuð upp stundatafla til að fara eftir og gert ráð fyrir að skólinn sé eins alls staðar.

Gert er ráð fyrir ákveðnum þáttaskilum í náminu er nemar eru 12 ára og þá sé skorið úr um hvort þeir muni fá gagn af lærdóminum. Önnur þáttaskil eru svo við 16 ára aldur en þá er komin tími til að sjá hverjir hafi tileinkað sér námsefnið til fulls og geti í framtíð iðkað og kennt fræðin og hverjum sé best að leita embættis í veraldlega kerfinu.

Skólinn

Skipunin gerir ekki ráð fyrir skólaskyldu, en leggur að prédikurum og embættismönnum að boða foreldrum nauðsyn þess að senda börn í skóla. Það að gert er ráð fyrir að skóli sé í hverjum kaupstað hefur sjálfsagt rímað illa við aðstæður á Íslandi þar sem engir kaupstaðir voru í rúmlega 140 ár eftir að kirkjuskipunin varð að veruleika.

Yfirumsjón skólans

Í kirkjuskipuninni er gert ráð fyrir tveimur heimum, annars vegar hinum veraldlega og hins vegar hinum andlega. Þessi kenning um tvo heima eða tvö ríki kemur fram í kenningum lútherskrar kirkju m.a. í 16. grein Ágsborgarjátningarinnar, sem leggur áherslu á skyldur kristins manns við borgaraleg yfirvöld.

Athyglisvert er í kirkjuskipun Kristjáns III. að gert er ráð fyrir að skólinn tilheyri hinum veraldlega heimi, sé í raun veraldleg stofnun án afskipta kirkju. Vissulega er þar kennd kristnifræði en það er gert vegna þess að kristinfræði er sannleikurinn. Þannig á skólinn að kenna þau fræði sem eru sönn og rétt og nýtast því best í lífinu en ekki vegna frelsunargildis þeirra. Námið er þannig ekki nauðsyn til sáluhjálpar heldur öllu fremur til þess að gera einstaklinga hæfari til að þjóna ríkjunum tveimur, hinu andlega og því veraldlega.

Forstaða skólanna á því samkvæmt kirkjuskipuninni ekki að vera í höndum presta og biskupa, heldur lærðra manna og fróðra, hvort sem þeir eru vígðir eður ei.

Fermingin

Kirkjuskipunin gerði ekki ráð fyrir neinni fermingu, enda leit Lúther svo á að ekkert mætti skyggja á skírnina sem hina fullkomnu gjöf Guðs.

Það var að vísu litið svo á að til þess að ganga til altaris þyrfti að hafa ákveðinn skilning og ákveðna þekkingu á valdi sínu og því var gert ráð fyrir prófi til að skera úr um hvort hún væri til staðar. En þar sem kirkjuskipunin gerði ráð fyrir því að menntunin færi fram í veraldlegri stofnun var einnig gert ráð fyrir að prófið væri haldið í tengslum við skólana en ekki kirkju.

Saga kirkjuskipunarinnar á Íslandi

Katólska kirkjan

Þegar kirkjuskipunin barst til Íslands voru þeir biskupar á Íslandi, Jón Arason í Hólastól og Ögmundur Pálsson í Skálholti. Ekki er að sjá að þeir hafi verið mjög snortnir af skipuninni enda báðir vígðir undir katólskum sið. Ögmundur skrifaði reyndar árið 1539 og varaði við kenningum „þýsks grámunks“ en annað var það ekki. Katólskur siður hélst á Íslandi nokkur ár enn og það var ekki fyrr en með ofbeldisfullum aðgerðum Danakonungs að hann var afnumin.

Viðeyjarklaustursránið

Á hvítasunnumorgun 1539 fóru embættismenn Danakonungs og lögðu undir sig eignir Viðeyjarklausturs með tilvitnun í hina nýju kirkjuskipun. Embættismennirnir héldu síðan á suðurland og hugðust taka yfir eignir þar, en voru ýmist drepnir í Skálholti eða dæmdir sekir fyrir gjörðir sínar.

Lútherskur siður í Skálholti

Gissur Einarsson stundaði nám í Þýskalandi og kynnst hinum nýja sið Lúthers þar í landi. Hann kom síðan heim til Íslands og réðst til starfa í Skálholti undir stjórn Ögmunds Pálssonar. Þrátt fyrir lútherskar skoðanir sínar var hann að því er virðist vinsæll af Ögmundi og svo fór 1539 að Gissur var kjörinn biskup. Hann tók svo við biskupsstjórn í Skálholti 1540 eftir að Ögmundur hafði sagt af sér vegna heilsubrests og elli.

Gissur fékk hins vegar góðan stuðning við breytingar í anda hinnar lúthersku kirkjuskipunar Kristjáns III þegar nýr embættismaður konungs kom hér 1541 í stað þeirra sem myrtir voru í Skálholti tveimur árum áður.

Átök

Við komu Gissurar í biskupsembættið mynduðust tveir pólar í trúmálum Íslendinga. Jón Arason sat á Hólastól og þar var katólskur siður í hávegum hafður. Gissur sat í Skálholti og vann að því hörðum höndum að festa lútherskuna í sessi. Ekki virðist hafa verið um miklar deilur þeirra á milli, en landið var hins vegar skipt. Til nokkurra tíðinda dró við lát Gissurar 1548, en þá freistaði Jón þess að ná suðurlandi aftur undir katólskan sið. Þessi tilraun Jóns fór á þann veg að konungur lýsti hann útlægan og hann var tekinn af lífi ásamt tveimur sonum sínum í Skálholti, þann 7. nóvember 1550.

Skólarnir

Árið 1542 samþykkti danska ríkisráðið að þremur klaustrum, Þykkvabæjar-, Kirkjubæjar- og Skriðuklaustri yrði breytt í barnaskóla og þar yrði kennt í samræmi við kirkjuskipunina. Einnig var gert ráð fyrir latínuskólum í Viðey og á Helgafelli. Ekki varð neitt úr næstu tíu árin enda ekki um að ræða mikinn frið til framkvæmda.

Þegar tekið var að hægjast um 1552 taldi konungur sig ekki hafa bolmagn til framkvæmdanna og ákvað að skólarnir yrðu aðeins tveir, barnaskólarnir yrðu að bíða. Hér er athyglisvert að skólunum tveimur var fundinn staður á biskupsstólunum og voru kostaðir af þeim. Hér hafði verið stigið langt frá hugmyndum kirkjuskipunarinnar. Skólarnir voru settir undir skipulag kirkjunnar, en voru veraldlegar stofnanir eins og gert hafði verið ráð fyrir.

Fermingin

Við siðbreytinguna lagðist fermingin af sem sakramenti og var eins og áður segir gert ráð fyrir að skólarnir myndu taka að sér að prófa ungmenni, hvort þau væru hæf til að meðtaka sakramenti.

Þessi hugmynd stóð hins vegar ekki lengi hér á landi og og telur Bjarne Hareide að ferming hafi verið tekin upp í Hólastifti af Guðbrandi Þorlákssyni biskup árið 1596. Aðeins 46 árum eftir að hún var aflögð á norðurlandi.

Lokaorð

Þegar kirkjuskipunin barst hingað til lands voru til staðar mjög voldugir biskupsstólar sem voru að mestu sjálfstæðir og höfðu mikil völd jafnt andleg sem veraldleg. Þeim hafði tekist að byggja upp fjárhagsleg stórveldi og sáu í kirkjuskipunin tilraun til valdaráns. Því er skiljanlegt að þeir hafi reynt að halda í það sem var. Upptaka Viðeyjarklausturs af erlendum mönnum hefur líkast til styrkt valdakerfi biskupsstólanna meðal landsmanna.

Sjá má í upphaflegum hugmyndum konungs um skólahald á fimm klausturjörðum að konungur hafði hug á að láta skipunina ganga fram. Hins vegar ollu deilur hér á landi því að honum tókst ekki að framfylgja hugmyndunum.

Ástæða þess að fermingin án kirkjulegrar athafnar náði ekki að festast í sessi er líkast til sú að veraldlegar menntastofnanir urðu ekki að veruleika. Prestar þurftu að sjá um menntun og því eðlilegt að þeirra staður, kirkjan, myndaði umgjörð menntunarinnar.

Þessi texti er endurunnin úr tæplega 20 ára gömlu skólaverkefni í Embættisgjörð við Háskóla Íslands. 

One thought on “Fræðslumál í Kirkjuskipan Kristjáns III – þankar”

  1. Takk fyrir þessa góðu samantekt. Íslendingar voru fúlir með þessa kirkjuskipan og reyndu þegar í lok 16. aldar að láta setja nýja skipan sem hæfði betur íslenskum aðstæðum. Guðbrandur Þorláksson og Jón lögmaður Jónsson gerðu víst drög að slíkri ordinansíu en hún fékkst ekki samþykkt. Síðar vísuðu þeir fremur í norsku ordinansíuna frá 1607. Það hafði víst eitthvað með það að gera samfélagsgerðin réði ekki við þær kvaðir sem í þarna stóð, M.a. voru skólar og aðrar stofnanir erfiðar í framkvæmd. Slíkt starfsemi fór þó vitaskuld fram á Hólum og í Skálholti,

    Þarna var þó að finna nokkra nýlundu er tengdist fræðslumálum. Í tengslum við skriftir átti fólk að kunna skil á Fræðum Lúthers minni og það hefur haft hvetjandi áhrif á lestrarkennslu. Börn tóku sakramenti í fyrsta skipti er þau voru talin hafa vit og þroska til þess að skijla hvað að baki bjó. Með því voru þau komin undir kirkjuagann. Þar er því kominn vísir að fermingu enda voru þau frá 9-12 ára er þau stigu það skref inn í fullorðsinsárin.

Leave a Reply to Skúli Cancel reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.