3. Mósebók 18. kafli

Upptalningin hér í 3. Mósebók er ítarleg. Textinn gerir ráð fyrir fjölkvæni sem veruleika, en megininntakið er skilgreiningar á sifjaspelli. Kynmök tveggja karlmanna eru bönnuð og þá er lagt bann við mökum við dýr í textanum. Forsendur bannsins eru þær að þessi hegðun hafi tíðkast hjá öðrum þjóðum, m.a. í Egyptalandi og Kanaanslandi. Þær þjóðir sem hafi iðkað þessa siði hafi mátt finna fyrir refsingu Guðs, þær hafi misst landið sitt. Brot við þessum lögum kallar því á útlegð.

Því að allir, sem fremja eitthvað af þessu viðurstyggilega athæfi, verða upprættir úr þjóð sinni.

Það geta flestir tekið undir hluta þessa texta. Sifjaspellslögin ættu ekki að ýta við neinum eða kynferðisleg misbeiting dýra. Það er hins vegar gengið út frá fjölkvæni sem normi, sem er stuðandi og svo er það textinn um samkynhneigða karlmenn.

Þú mátt ekki liggja með karlmanni eins og legið er með konu, það er viðurstyggð.

Textinn er skýr og blátt áfram. Kynmök tveggja karlmanna eru viðurstyggð. Á sama hátt og textinn gengur út frá fjölkvæni sem normi.

Spurningin er fyrst og fremst hvernig við skiljum þennan texta og kannski öllu fremur Biblíutexta almennt. Erum við sem köllum okkur kristinn, ennþá staðsett í eyðimörkinni, stöðugt að skilgreina okkur upp á móti þeirri menningu sem við búum við fyrir þremur árþúsundum, sjáum í kringum okkur í eyðimörkinni við botn Miðjarðarhafs.

Eigum við áfram að vera hrædd við að borða mör og blóð, getum við geymt slátrað kjöt lengur en tvo sólarhringa? Ef við getum það, eigum við að gera það?

Á hverju byggir þessi texti? Getur verið að fordómar prestanna sem skrifuðu 3. Mósebók skíni í gegnum eitthvað af því sem við lesum, jafnvel þó það sé eignað Guði? Hvernig komumst við að þeirri niðurstöðu að skilningur prestanna í Ísrael um kynmök tveggja karlmanna sé réttur, en viðhorf þeirra til skelfisks rangt, nú eða fjölkvænis?

Ef við afgreiðum textann sem fordómafullt bull eins og sumir gera. Hvað þá með sifjaspellslögin? Þau eru skynsamleg, eða hvað?

Það er gagnslaust að halda því fram að textinn segi annað en hann segir. Spurningin er einfaldlega hvernig við skiljum þörf prestanna til að aðgreina sig frá „hinum“ með vel skilgreindum lögum og reglum. Er inntak reglnanna það sem máli skiptir, þörfin fyrir aðgreiningu eða eitthvað allt annað?

Er munur á því hvernig við nálgumst textann eftir því hvort við skilgreinum okkur sem meirihlutatrúfélag sem mótar samfélagið, eða minnihlutahóp sem lifir í jaðri samfélagsins og leitast við að marka sér sjálfsmynd utan við meirihlutann?

Ég persónulega lít á þennan texta sem tilraun samfélags hebrea til að skilgreina sig, utan við og frá þeim sem lifðu í kring. Svipað og faríseinn sem sagði:

Guð, ég þakka þér, að ég er ekki eins og aðrir menn, ræningjar, ranglátir, hórkarlar eða þá eins og þessi tollheimtumaður. Ég fasta tvisvar í viku og geld tíund af öllu, sem ég eignast.

Hér má sjá reglur hins patríarska samfélags, sem skilgreina þá sem setja reglurnar sem réttláta, en þá sem ekki passa í boxið sem rangláta. Það ógildir ekki reglurnar sem heild, en hjálpar okkur að sjá samhengið sem þær eru skrifaðar í. Hjálpar okkur m.a. að sjá að reglurnar sem við lesum gera ekki ráð fyrir konum sem fullgildum manneskjum.

2 thoughts on “3. Mósebók 18. kafli”

  1. >Forsendur bannsins eru þær að þessi hegðun hafi tíðkast hjá öðrum þjóðum, m.a. í Egyptalandi og Kanaanslandi.

    Mér finnst þessi setning hálf-hljóma þannig að ástæða bannanna sé bara sú að þetta sé eitthvað sem grannþjóðirnar gera.

    Er ástæðan fyrir banni við sifjaspelli virkilega sú að grannþjóðirnar stunduðu það? a) á maður virkilega að trúa því að það hafi almennt verið stundað? b) eru ekki aðrar ástæður sem liggja á bak við banni við sifjaspelli?

    Sama tel ég gilda um bannið við banninu við samkynhneigð.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.