Viðaukar við Daníelsbók er eitt af apókrýfuritum Gamla testamentisins. Ég fjalla e.t.v. seinna um hvaða aprókýfurit eru í íslensku kristnihátíðarþýðingunni af Biblíunni og af hverju, en að þessu sinni mun ég beina sjónum mínum að Viðaukunum við Daníelsbók.
Viðaukarnir sem hér eru birtir eru í raun og veru þrennar viðbætur. Sú fyrsta er helgihaldsljóð, þar sem forsöngvari syngur fyrsta hlutann í nafni Asarja, en síðari hluti fyrstu viðbótanna er væntanlega sungið af söfnuðinum öllum eða þremur forsöngvurum. Hér er sem sé um lofgjörð að ræða fyrir allt sem Guð hefur gert til að vernda þá Hananja Sadrak, Mísael Mesak og Asarja Abed-Negó.
Þessi viðbót er enda oft sett inn á milli versa 3.23-24 í Daníelsbók. Þetta helgihald sem birtist hér, er þó ekki þekkt úr öðrum heimildum gyðingdóms en naut nokkurra vinsælda hjá kristnum söfnuðum á fyrstu öldum kristni.
Stef helgihaldsins er enda vel þekkt. Textinn hefst sem harmljóð og ákall um miskunn og fyrirgefningu og endar í safnaðarsöng:
Þakkið Drottni því að hann er góður
og miskunn hans varir að eilífu.
Lofið Drottin, guðanna Guð, allir þér sem dýrkið hann,
syngið honum lof og þakkargjörð
því að miskunn hans varir að eilífu.
—
Söguna um Súsönnu og tilraunir tveggja valdamanna til að koma henni til lags við sig er um margt áhugaverð. Hún fjallar um spillta stjórnmálamenn og heiðarlega konu sem ekki má vamm sitt vita. Konan ákveður að gera það sem rétt er í stað þess að láta undan hótunum stjórnmálamannanna, en lendir þá í því að þeir bera á hana sögu um framhjáhald. Þar kemur til sögunnar Daníel sem, með því að yfirheyra valdamennina í sitt hvoru lagi, kemst að lygum þeirra.
Þessi saga minnir á skynsemi Salómons og munu fleiri slíkar sögur finnast um Daníel, þó ekki komi þær fyrir í þeim ritum sem teljast til Biblíunnar. Tilvist slíkra sagna gefur til kynna að persóna Daníels hafi e.t.v. verið til á þeim árum sem Daníelsbók er sögð hafa gerst, þó að ritun bókarinnar sé síðar. Þannig er líklegt að munnleg geymd sögunnar um Súsönnu og visku Daníels sé tilkomin miklu mun fyrr en framsetning sögunnar um Daníel í Daníelsbók.
—
Sagan af Bel og drekanum er þriðji viðaukinn við Daníelsbók. Þar er fjallað um hvernig fórnir til Bels voru etnar af æðstuprestunum, en ekki Bel sjálfum. Framsetningin er um margt áhugaverð, enda kemur skýrt fram að fórnargjafir voru ætlaðar prestastéttinni í Ísrael, sbr. 2. Mósebók 29. kafla. En hér virðist sú staðreynd fara leynt og þegar Daníel bendir á að séu ekki skurðgoðin sem borða fórnarkjötið heldur prestarnir,
[v]arð konungur ævareiður og lét grípa prestana, konur þeirra og börn. Sýndu þeir honum leynidyrnar sem þeir voru vanir að koma inn um og eta það sem lagt var á borð. Lét konungur síðan taka þá af lífi en gaf Daníel Bel og eyðilagði hann goðið og hof þess.
Þegar Daníel síðan drepur dreka, sem var einnig talin guðleg vera, þá fá íbúar Babýlóníu nóg og kasta honum í ljónagryfjuna. Hér er það því ekki aðeins það að Daníel neiti að tilbiðja guði Babýlóníumanna, hann brýtur niður trúarbrögð þeirra með visku og snilld sinni.
Loks er í viðaukanum Daníel tengdur Habakkuk spámanni. En Habakkuk færir Daníel súpu á yfirnáttúrulegan hátt í ljónagryfjuna. Mjög lítið er vitað um Habakkuk og því óljóst hvaða hlutverk hann hefur í þessari frásögn. Þó eru til aðrar heimildir um veru Habakkuk í Babýlóníu, hann virðist hafa verið upp á fyrri hluta herleiðingarinnar og því má vera að hér sé um að ræða tilraun til að tímasetja ljónagryfjuævintýri Daníels, það er þó alsendis óvíst, enda vitum við í dag svo sem ekki mikið um Habakkuk og hvenær hann lifði.
—
Þessar þrennar viðbætur sem ég hef skannað yfir hér að ofan minna á að ritunarsaga Biblíunnar er ekki línuleg og framsetning Biblíutextanna er ekki ein og endanleg. Þannig birtast þessir textar í fyrsta sinn sem hluti af Biblíuþýðingu á íslensku 2007. En allt frá árinu 1812 voru apókrýfuritin talin eiga heima utan Biblíuþýðinga, enda var sá skilningur sterkur hjá Ebenzer Henderson, sem mótaði starf Hins íslenska Biblíufélags í upphafi.
“Þannig birtast þessir textar í fyrsta sinn sem hluti af Biblíuþýðingu á íslensku 2007. En allt frá árinu 1812 voru apókrýfuritin talin eiga heima utan Biblíuþýðinga,…”
Fyrri setningin hljómar eins og þú sért að segja að þessi rit hafi aldrei verið í íslenskri þýðingu fyrir 2007, en seinni setningin hljómar eins og þú sért að segja að þau hafi verið hluti af þýðingum fyrir 1812 (sem ég sé að er raunin eftir smá leit). Líklega ertu bara að segja að þau hafi ekki verið í þýðingum frá 1812-2007, en þetta er svolítið klaufalega orðað (amk segir mín frábæra máltilfinning mér það 😉 ).
Kærar þakkir fyrir þessa leiðréttingu/ábendingu Hjalti.