Markúsarguðspjall 10. kafli

Í afbrotafræðunum er til kenning um að hugmyndir um lengd refsinga byggi á því hvaða brot ríkjandi stéttir séu líklegar til að brjóta. Þannig sé refsað harðar fyrir brot sem séu algengari hjá minnihlutahópum en brot þeirra sem betur standa. Eins séu fíkniefni valdastétta, t.d. áfengi, leyfð, en fíkniefni minnihlutahópa, t.d. maríúana, bannað. Þrátt fyrir að ekkert liggi fyrir um að bönnuðu efnin séu skaðlegri en þau leyfðu. Auðvitað eru margar leiðir til að burtskýra þennan mun, t.d. kenningar um skömm afbrotamannsins og félagslegan kostnað af glæpnum.

Þessi kenning kemur mér alltaf í hug þegar ég les viðbrögð Jesús við spurningu faríseanna um skilnað. Jesús er nefnilega óvenju afdráttarlaus. Karlmaður sem skilur við konu sína og kvænist að nýju er sekur um synd.

Auðvitað er mikilvægt að lesa þennan texta í sögulegu samhengi. Fráskilin kona á tímum Jesú var dæmd til örbyrgðar og hafði jafnvel verri samfélagsstöðu en ekkjur og munaðarleysingjar. Hún var skilin eftir án alls.

Hins vegar er jafnmikilvægt að benda á að Jesús dæmir ekki og skilur ekki eftir konuna við brunninn sem var marggift, bendir henni einfaldlega á stöðu sína.

Mér sýnist að svar Jesú snúist um vernd hins smáa, gegn þeim sem valdið hefur. Það sem hins vegar fær mig til að staldra við afbrotafræðikenningarnar sem ég nefni hér að ofan, er hversu lítið vægi þessi orð Jesú hafa í trúarlegu samhengi dagsins í dag. Skilnaður er vissulega ekki léttvægur í evangelískum armi kirkjunnar, en svo sannarlega er kynlíf ungs fólks, samkynhneigð og fíkniefnanotkun taldar „stærri“ syndir, enda ólíklegra að slíkt séu „syndir“ þeirra sem ráða, þeirra sem setja reglurnar. En þeir eru að öðru jöfnu gagnkynhneigðir, giftir, velstæðir hvítir karlmenn.

Það er athyglisvert að græðgi, sjálfhyggni og skilnaðir ná sjaldan á höfuðsyndalista trúfélaga, þó ólíkt hinum „syndunum“ séu þetta þættir sem Jesús ávarpar sérstaklega í guðspjöllunum. Það er þó vissulega skiljanlegt í ljósi afbrotafræðikenninganna hér að ofan.

Hér er reyndar mikilvægt að benda á að syndaflokkun og sá syndaskilningur sem ég fjalla um hér að ofan er bæði gagnslaus og næsta vitlaus. Synd mannkyns er fyrst og fremst sjálfhverfan sem birtist alstaðar. Tilraunir til að flokka syndir og skilgreina þær sem einstök verk, lífsviðhorf eða hneigðir er þannig fyrst og fremst tæki valdastétta til að styrkja og viðhalda eigin stöðu, en hefur lítið að gera með vilja Guðs. Jafnvel þvert á móti. Syndaflokkun, sem felst í eigin upphafningu er einmitt birtingarmynd sjálfhverfunnar (sbr. Lúkasarguðspjall 18.11).

Það er ekki auðvelt fyrir lærisveina Jesú að skilja þetta. Þeir reyna að vernda Jesú fyrir börnum og blindum beiningamönnum. Lærisveinarnir deila um hver þeirra sé mikilvægastur og ríki maðurinn heldur að í krafti auð síns sé honum allir vegir færir.

One thought on “Markúsarguðspjall 10. kafli”

  1. “Auðvitað er mikilvægt að lesa þennan texta í sögulegu samhengi. Fráskilin kona á tímum Jesú var dæmd til örbyrgðar og hafði jafnvel verri samfélagsstöðu en ekkjur og munaðarleysingjar. Hún var skilin eftir án alls.”

    En í textanum segir Jesús að þetta sé rangt af því að með þessu er maðurinn/konan að “drýgja hór”. Hann segir ekkert um að þetta sé rangt af því að þá verði konan í vondum málum. Þessi hugmynd (að Jesús hafi bannað þetta bara til þess að vernda konur) er ansi *heppileg* útskýring fyrir nútíma trúmenn sem samþykkja skilnaði, en hún passar ekki við textann.

Leave a Reply to Hjalti Rúnar Cancel reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.