Hátíð vonar

Franklin Graham er svo sem ekki á vinalistanum mínum á Fb og ég tæki seint undir skoðanir hans varðandi fjölmarga hluti, en hann er stofnandi og* stjórnandi einna stærstu góðgerðasamtaka í BNA sem velta 46 milljörðum ísl. króna á hverju ári og af þeim rennur um 93% 88%** beint í hjálparstarf af ýmsu tagi. Þetta hlutfall er með því besta sem tíðkast í þessum geira.

Þess utan heldur hann utan um samtök sem annast trúboð um allan heim. Það er mikilvægt að árétta að rekstur þessara tveggja verkefna er að fullu aðskilinn og hafa hjálparsamtökin t.d. verið með starfsemi í löndum þar sem trúboð er litið illu auga, án vandkvæða.

Skoðanir Franklin á réttindum samkynhneigðra, sleggjudómar hans um Islam og stjórnmálaþáttaka hans í nafni kristni í BNA eru allrar gagnrýni verð og full ástæða til að gagnrýna hann fyrir þær skoðanir. En sú umfjöllun sem hefur átt sér stað á netmiðlum á Íslandi síðasta sólarhringinn er ekki rýni til gagns. Uppnefni Vísis, atvinnuhommahatari, er umræðunni ekki til framdráttar. Sjálfsritskoðun þjóðkirkjunnar á kirkjan.is og eldri fréttum á biskup.is er pínleg. Viðbrögð sumra presta á samfélagsmiðlum eru sorgleg.

Það sem verra er. Þessi ofsafengnu viðbrögð, tilraunir til að stöðva eða skaða svokallaða Hátíð Vonar, styrkir hugmynd þeirra sem að hátíðinni standa að kristindóminum stafi hætta af réttindabaráttu samkynhneigðra. Umfjöllun gærdagsins ýtir undir þær hugmyndir, sem Franklin Graham heldur ranglega á lofti, að við þurfum að taka afstöðu milli kristindóms og mannréttinda.

Ég ítreka að ég er enginn aðdáandi Franklin Graham. Viðhorf hans til stríðsins í Írak, hugmyndir hans um Islam og andúð hans á réttindum samkynhneigðra eru meðal þess sem ég hef skömm á. Hins vegar stendur Franklin Graham ekki bara fyrir þessa hluti heldur líka vandað hjálparstarf um allan heim og hann er kristinn prédikari og virðist í fræðsluefninu fyrir Kristið líf og vitnisburður (sem ég gat nálgast á vefsíðunni Billygraham.org) geta greint á milli trúar sinnar á frelsarann og persónulegra (og að mínu mati ógeðfelldra) skoðanna.

Þá er mikilvægt að taka fram að Hátíð vonar er meira en Franklin Graham. Dagskráin byggir á framlagi nærri 400 sjálfboðaliða. Þar verður boðið upp á tónlist eins þekktasta gospeltónlistarmanns BNA, Michael W. Smith (ég get svo sem gagnrýnt ýmsar skoðanir hans líka) og eins munu einhverjir Íslendingar stíga á stokk. Það sem er e.t.v. mikilvægast við verkefnið er hvernig það nær að fá fjölmarga mismunandi kirkjuhópa og félög til að vinna saman að sameiginlegu markmiði. Fólk, sem deilir um hvers kyns hluti, m.a. viðhorf til samkynhneigðar og hvernig túlka á ýmis guðfræðileg álitamál, nær í þessu verkefni saman um að blása til hátíðar.

Enn á ný, Franklin Graham er ekki vinur minn. Ég kem hvergi nálægt Hátíð vonar, og í fullkomnum heimi, þá hefðu allir alltaf sömu nálgun á mannréttindi og sömu skoðanir og ég. Það breytir því ekki, að mig tekur sárt að sjá og heyra hvernig fjallað hefur verið um þetta verkefni í dag, m.a. af fólki sem ég tel að ætti að vita betur.

* Leiðr. Samaritan’s Purse var víst stofnað af Bob Pierce 1970. Franklin Graham kom ekki að verkefninu fyrr en 1973.
** Leiðrétting vegna ábendingar um að upplýsingar mínar væru ekki réttar. Nýjar upplýsingar frá Forbes, sjá http://www.forbes.com/companies/samaritans-purse/

4 thoughts on “Hátíð vonar”

  1. >Þess utan heldur hann utan um samtök sem annast trúboð um allan heim. Það er mikilvægt að árétta að rekstur þessara tveggja verkefna er að fullu aðskilinn…

    Þetta er ekki rétt. Þetta verkefni á heimasíðu Samaritan’s purse er klárlega trúboð: http://www.samaritanspurse.org/what-we-do/the-greatest-journey/

    >Uppnefni Vísis, atvinnuhommahatari, er umræðunni ekki til framdráttar.

    Sammála. Atvinnu-baráttumaður-gegn-réttindum-samkynhneigðra væri betra.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.