Almennu kristilegu mótin

Fyrir nærri 20 árum tók ég saman texta um Almennu kristilegu mótin sem haldin voru í Hraungerði, á Akranesi, á Brautarhóli í Svarfaðardal og síðar í Vatnaskógi.

Árið 1938 var haldið fyrsta almenna kristilega mótið, í Hraungerði í Flóa. Almennu mótin eins og þau voru kölluð urðu að árlegum viðburði í íslensku kristnilífi fram undir lok síðustu aldar og voru lengst af haldin í sumarbúðum KFUM í Vatnaskógi. Hér á eftir mun ég fjalla um fyrstu almennu mótin, leitast við að útskýra markmið þeirra sem leiddu mótin og útskýra þann kirkjuskilning sem var kynntur til sögunnar á mótunum, meðvitað og ómeðvitað.

Til að birta sjálfskilning þeirra sem leiddu almennu mótin leita ég að miklu leiti í blaðið Bjarma, en ritstjórn þess blaðs á hafði veg og vanda af fyrstu mótunum sem haldin voru og sáu reyndar um mótin í Vatnaskógi allt til 1980.

Upphafið

Í desember 1937 birtist í Bjarma grein sem bar yfirskriftina Kristilegt mót á biblíulegum grundvelli næsta sumar? þar sem stóð meðal annars:

Mót þau, er trúaðir menn erlendir halda, hafa meiri þýðingu en flesta grunar. Þau sameina hina trúuðu, meira en ef til vill nokkuð annað, í meðvitundinni um samfélag og samtakamátt lærisveina Krists, til baráttu fyrir Guðs ríki. Og þau styrkja trúarlíf einstaklingsins og halda vakandi ábyrgðinni gagnvart hinum heilnæmu kenningum fagnaðarerindisins.

Hér heima höfum við engin slík mót og gegnir það furðu. Vér höfum að vísu “kirkjufundi” svokallaða í ýmsum myndum. En það er um þá að segja, að þeir fjalla svo að segja einvörðungu um ytri mál kirkjunnar og hafa ómótmælanlega ekki orðið til þess að marka nein trúarleg spor í trúarlíf þjóðarinnar. Enda mun þeim ekki ætlað það hlutverk.

Það er ekkert leyndarmál, að nærri allir játningar- og biblíutrúir menn hér á landi, hafa verið óánægðir með kirkjufundina, að minnsta kosti leikmenn. Veldur það mestu, að hlutur sannrar evangelisk-lútherskrar kristni er fyrir borð borinn af flestum forráðamönnum þessara funda og frjálslyndri kenning og stefnu hampað á kostnað jákvæðs kristindóms. Geta allir séð, að slíkt er alls ekki vel fallið til þess að vinna fylgi trúaðra leikmanna við þessa fundi. …og þeir hafa mikið rætt um það sín á milli, að þeir þyrftu að hafa annað mót, þar sem þeir gætu sameiginlega uppbyggst á sinni helgustu trú, án þess að finnast traðkað á helgustu trúartilfinningum sínum og sannfæringu. (Bjarmi, desember 1937)

Þetta var þó ekki í fyrsta skipti sem umfjöllun um þvílík mót fór fram á Íslandi því nokkur ungmenni úr KFUM og KFUK í Reykjavík höfðu haldið slík mót við Elliðavatn sumrin 1936 og 1937, það fyrra með 33 þátttakendum og hið síðara með 74.

Í árbók Kristilegs bókmenntafélags frá 1938 segir Bjarni Eyjólfsson frá því að á seinna mótinu hafi Sigurður Pálsson prestur í Hraungerði verið þátttakandi og komið hafi til tals að hafa mótið næsta árið á eftir í Hraungerði og

var það mál strax auðsótt, og vakti gleði allra.

Hraungerði

Í fyrsta tölublaði Bjarma á árinu 1938 kom tilkynning um að kristilegt mót yrði haldið í Hraungerði í Flóa dagana 18.-20. júní frá laugardegi til mánudags. Dagskrá mótsins var svo birt í næsta blaði á eftir sem kom út þann 15. janúar.

Dagskráin var á þá leið að mótið hófst með messu kl. 18 á laugardegi, einnig var messa um hádegisbil á sunnudegi, að kvöldi laugardags og sunnudags voru kvöldvaka og fræðsla, á sunnudags- og mánudagsmorgnum voru Biblíulestrar og um miðjan dag á sunnudegi og mánudegi voru svo fræðsluerindi.

Skráning á mótið gekk ágætlega og voru 257 þátttakendur allt mótið en talið var að rúmlega 400 hafi verið í Hraungerði á sunnudeginum. Mótinu voru gerð góð skil í dagblöðum og sagði í Morgunblaðinu, 23. júní 1938 að

Það, sem mest einkenndi mótið var þetta þrent: Söngur, … , eining, … og gleði slík að engin vissi af regni eða óþægindum.

Næsta ár var aftur haldið mót í Hraungerði og fór það fram eins og árið áður fyrir utan að haldin var stund á sunnudagskvöldið sem ekki var í dagskrá:

En þó mun það vera svo, að stundin inni í „stóra tjaldi“ á sunnudagskvöldið sé ógleymanlegust í huga þeirra, sem þar voru. Það var eftir að dagskrá var lokið og gestir úr Rvík voru farnir heim, að haldið var niður í tjaldið til að syngja sálma og hafa stutta vitnisburðarsamkomu eins og í hálftíma eða svo. Þá var kl. ca. 10.30. … Þar rak hver vitnisburðurinn og söngurinn annan, svo ekkert lát varð á fyrr en kl. 1.30 um nóttina. „Þetta er einhver blessunarríkasta stund, sem ég hefi lifað,“ sögðu fleiri en einn, eftir þá stund. (Bjarmi, 1. júlí 1939)

Stund þar sem hver og einn hefur tækifæri til að segja frá trú sinni hefur síðan þetta var verið á dagskrá hvers almenns móts. Í Bjarma, 1. júlí 1939 var talað um að samanborið við fyrsta mótið hafi meiri vakningarandi verið yfir öðru mótinu.

Sumarið 1940 var mótið haldið í Hraungerði í Flóa og einnig var ráðist í að halda mót á Brautarhóli í Svarfaðardal og var það haldið tveimur vikum síðar en það í Hraungerði. Síðasta mótið í Hraungerði var svo haldið 1941. Eftir það voru mótin flutt á Akranes.

Mót fyrir norðan

Það var í Bjarma 1. apríl 1940 að þessi tilkynning kom:

Sú ákvörðun hefur nú verið tekin, að efna til sérstaks móts fyrir norðan. Er það gert vegna þess að þar er all margt af trúuðu fólki, sem þráir að geta verið með á slíkum samfélagsstundum trúaðra en getur ýmissa orsaka vegna ekki tekið þátt í Hraungerðismótinu m.a. vegna vinnu og svo hve dýrt er að ferðast á milli nú orðið. (Bjarmi, 1. apríl 1940)

Mótin á Brautarhóli voru mun fámennari en þau sem haldin voru sunnanlands og voru um 80-100 fastagestir á mótunum fram til 1945.

Fyrstu Brautarhólsmótin voru skipulögð af þeim sömu og skipulögðu mótin fyrir sunnan en allur undirbúningur í höndum norðanmanna. Það var þó fljótlega að kristniboðsfélag kvenna á Akureyri tók að sér skipulag mótsins að fullu. Á þeim tíma sem það var gert var Ólafur Ólafsson kristniboði starfsmaður þeirra og var skipulag og undirbúningur að mestu í hans höndum.

Fyrir norðan myndaðist strax í upphafi sú hefð að í vikunni eftir mót var samkomuröð á Akureyri þar sem prédikarar af mótinu töluðu og voru þær mjög vel sóttar.

Flutningur á Akranes

Í apríl 1942 var svohljóðandi klausa í Bjarma:

Það gekk ekki vel með að útvega bifreiðar fyrir „Hraungerðismótið“. – Þær fengust ekki. Og nú erum við að hugsa um að nota sjóleiðina. En af því að búast má við, að mörgum þyki sjóleiðin austur fyrir fjall fulllöng, hefir leiðin á „Hraungerðismótið“ verið stytt nokkuð. Það var gert með því að mótið verður haldið á Akranesi.(Bjarmi, 5. tbl. 1942)

Það varð úr að 1942, 1943 og 1944 voru mótin haldin á Akranesi. Mótin þar höfðu annan brag en hin fyrri, sem fólst m.a. í því að nú var mótið haldið inn í bæ sem olli nokkru róti á mótsgestum, en þó minna en óttast var í fyrstu.

Árið 1944 að mótshaldarar ákváðu að bjóða þeim sem það vildu upp á framhaldsmót. Ekki þótti ráð að hafa mótið í heild lengra þar sem talið var að fremur lítill fjöldi gæti séð sér fært að vera heila viku á móti sem þessu. Því varð úr að haldið var framhaldsmót frá mánudagskvöldi er aðalmótið endaði og fram á föstudagskvöld.

Framhaldsmótið var haldið í Hafnarskógi, hjá skála sjálfstæðismanna í Ölveri. Höfðu sjálfstæðismenn heitið að sjá um máltíðir og fleira og var haldið þangað strax eftir mótið á Akranesi. Svona framhaldsmót var haldið aðeins í þetta eina skipti, þó mótið hafi þótt takast vel og voru ástæður sjálfsagt nokkrar. Stærsta ástæðan er þó vafalaust sú að næsta ár var mótið fært upp í Vatnaskóg og strax daginn eftir það var haldið þing sambands kristniboðsfélaga og það sátu flestir mótshaldarar.

Mót í Vestmannaeyjum

Eins og flestum kaupendum Bjarma er kunnugt starfa K.F.U.M. og K. félög í Vestmannaeyjum. … Hefir niðurstaðan orðið sú, að efna til eins konar móts þar fyrir þá vini víðsvegar af landinu, er kynnu að vilja taka þátt í heimsókn til vinanna þar. (Bjarmi 7. marz 1945)

Þetta mót sem haldið var í Vestmannaeyjum var í og með haldið til að fagna aðstöðu sem KFUM og KFUK hafði komið upp út í eyjum og voru ræðumennirnir á því að mestu þeir sömu og talað höfðu í Vatnaskógi þá fyrr um sumarið.

Mótið fært í Vatnaskóg

… „Hraungerðismótið“ á margra máli, …hefir undanfarin þrjú ár verið haldið á Akranesi, … Í ár verður það haldið á stað, sem mörgum trúuðum er mjög kær. Það er Vatnaskógur. … Fyrir tveimur árum var þar háð sambandsþing íslenskra kristniboðsfélaga, svo að ýmsir vinanna úti á landi hafa komið þar. Álit þeirra allra var, að hentugri staður og yndislegri væri ekki til. Það eru ýmsir kostir við að halda mótið þar. Fyrst og fremst er hægt að hýsa þar um hundrað manns með hægu móti. … Og þar sem sambandsþing kristniboðsfélaganna verður að líkindum haldið strax daginn eftir mót, … , léttir það störfin svo mjög, … Það er mikið verk að ljúka móti á mánudagskvöld, fella þá tjaldborg, taka farangur allan – og reisa svo að nýju á öðrum stað. … Allt erfiði sparast við það að hafa mótið í Vatnaskógi.

Svo er annað. Vér höfum í þrjú ár haft mótið í bæ. … Það hefir sína miklu kosti að geta skilið sig alveg frá truflandi skarkala hversdagsleikans. Það er auðveldara utan bæjar en í bæ.

Það er aðallega eitt sem okkur fannst mæla á móti því, að mótið yrði haldið í Vatnaskógi og það er, að þar er engin kirkja. … Vér höfum því hugsað oss að koma því þannig fyrir að altarisgangan verði ein að þessu sinni og fari fram í Dómkirkjunni í Reykjavík, fyrsta kvöldið eftir að þátttakendur koma af mótinu… (Bjarmi, 7. marz, 1945)

Í lokaritgerð Ólafs Jóhannssonar í guðfræðideild H.Í. um heimsókn O’Hallesby til Íslands veltir hann upp spurningunni hvort að færsla almennu mótana upp í Vatnaskóg hafi verið leið „kristna fólksins“ á Íslandi til að afmarka sig frá öðrum „ekki kristnum“. Erfitt er að segja um það en ljóst er að með flutningnum minnkuðu tengsl við hefðir þjóðkirkjunnar. Hér má taka sem dæmi að ekki var altarisganga fyrir mótsgesti strax kvöldið eftir að þátttakendur komu af mótinu, heldur var beðið með altarisgönguna þar til eftir kristniboðsþing í vikunni á eftir og voru þá margir utan af landi haldnir til síns heima.

Þessi tenging við bæði sumarbúðir KFUM og við þing kristniboðssambandsins hafði án efa áhrif á fólk sem ekki var innan þessara félaga og þrengdu að öllum líkindum markhóp almennu mótanna við KFUM-ara annars vegar kristniboðsvini hins vegar. Hvort sem það var meðvitað eða ekki.

Horfið var frá því að hafa framhaldsmót eins og áður hefur komið fram, líklegast vegna þess að forsvarsmenn mótsins sátu flestir kristniboðsþingið og það var jafnvel talið koma í stað framhaldsmóts.

Kristniboðsþing voru haldin annað hvert ár og eftir þetta voru þau til margra ára haldin í tengslum við almennt mót í Vatnaskógi eða allt þar til á 7. áratugnum.

Ritstjórn Bjarma

Það var á nýju ári 1936 að þrír ungir menn tóku við útgáfu tímaritsins Bjarma úr höndum Sigurbjörns Á. Gíslasonar. Þessir menn kölluðu sig „Ungir menn í Reykjavík.“ Þeir voru Ástráður Sigursteindórsson, Bjarni Eyjólfsson og Gunnar Sigurjónsson. Þeir hófu útgáfu Bjarma undir sinni stjórn með yfirlýsingu um útgáfustefnu.

Við sjáum margt í samtíð vorri, sem berjast þarf gegn. Guðleysi hefir verið tízka undanfarin ár og er tízka enn hjá fjölda manna. En hjá sumum ristir það dýpra en að vera tízka, það hefir náð dýpstu hjartarótum og er orðið þeim eilíft banamein. Það er orðin skipulögð sókn á ríki Guðs. Gegn þeirri stefnu mun blaðið eins og áður berjast. Margt er það, sem stimplað er >> helgað Drottni << og borið fram í nafni heilagrar kirkju, en er þó hugarsmíðar manna og gengur í bága við fagnaðarerindið, mannlegar stefnur, sem reka hið heilaga burt, en setja manninn í staðinn, þótt í hjúpaðri mynd sé. Gegn slíku munum við berjast.

Fyrst og fremst mun blaðið reyna að ná tilgangi sínum, með því að boða Orð Guðs opinberunar, eins og það birtist í heilagri Ritningu, svo og með því að birta vitnisburði og skoðanir þeirra, er tileinkað hafa sér þessa opinberun og játa Jesúm Krist sem Drottin sinn og frelsara. Jafnframt bindum vér oss við óbreyttar játningar heilagrar kirkju, sem vér erum skírðir til. (Bjarmi, 1. janúar 1936)

Það voru þessir menn í ritstjórn Bjarma sem stóðu fyrir mótunum í Hraungerði í Flóa og sá um undirbúning að mestu leiti, í samvinnu við séra Sigurð Pálsson í Hraungerði. Þegar svo mótið var flutt, fyrst á Akranes og síðan í Vatnaskóg sáu Bjarmamenn um mótin áfram en hlutverk séra Sigurðar minnkaði til muna.

Í upphafi sáu þeir Bjarmamenn einnig um mótin á Brautarhóli og útveguðu þangað ræðumenn þótt heimilisfólkið á Brautarhóli hefði umsjón með verklegum framkvæmdum á staðnum. Það var svo fljótlega að kristniboðsfélag kvenna á Akureyri tók að sér umsjón með mótinu og var þar í forsvari lengi vel Ólafur Ólafsson kristniboði.

Vestmannaeyjamótið 1945 var haldið m.a. til að fagna nýbyggingu KFUM og KFUK úti í Eyjum. Skipulagning mótsins var að mestu leiti í höndum þeirra Bjarmamanna.

Hvað segir trúarlífsfélagsfræðin?

Í bók sinni Religion: The Social Context, fjallar Meredith B. McGuire um skilgreiningar á trúfélögum / trúhópum.

Hún fer þá leið að skipta þeim í grófum dráttum upp í fjóra hluta. Þeir eru:

 1. Church, sem telur sig hafa sannleikann og starfar eftir viðhorfinu „utan kirkju -ekkert hjálpræði“ en hefur þó jákvætt viðhorf til heimsins.
 2. Sect, sem telur sig hafa sannleikann allan í höndum sér en starfar eftir viðhorfinu „í heiminum en ekki af heiminum.“
 3. Denomination, sem horfir jákvæðum augum á þjóðfélagið og virðir kröfu annarra trúhópa um að hafa sannleikann.
 4. Cult, sem horfir neikvæðum augum á samfélagið en gerir ekki kröfu um að hafa eitt höndlað sannleikann. (McGuire, 143)

Íslenska þjóðkirkjan fellur, í þessari flokkun, líkast til á milli church og denomination. En í krafti stærðar sinnar birtist þjóðkirkjan sem church, þó sjálfsskilningur hennar og sannleikskrafa líkist e.t.v. fremur denomination.

Þeir einstaklingar sem skipulögðu almennu mótin í upphafi áttu það flestir sameiginlegt að tilheyra þjóðkirkjunni. Þeir áttu það einnig sameiginlegt að telja að kristin trú byggðist á afstöðu einstaklinga til Guðs og litu því svo á að hver maður sem hefði afstöðu til Krists, sem byggði

á hinum objektíva hjálpræðisgrundvelli, sem lagður er af Jesú Kristi með friðþægingu hans fyrir syndir vorar og upprisu hans oss til réttlætingar, samkvæmt Heilagri ritningu og játningaritum Evangelisk-Lúterskrar kirkju“ (úr lögum Kristilegs stúdentafélags en tveir stofnenda þess voru í ritnefnd Bjarma)

væri hólpinn en aðrir ekki. Þannig lá áherslan á að hver maður þyrfti að taka persónulega afstöðu til Krist og enginn stofnun, fjölskyldumeðlimur eða vinur gæti gert það fyrir hann.

Mótshaldarar voru gagnrýnir á þjóðkirkjuna og töldu hana ekki í standa sig í því að hvetja fólk til að taka afstöðu.

Þannig voru þessir menn í forsvari fyrir hóp sem taldi sig eiga trú á Jesú Krist, meðan aðrir í þjóðkirkjunni flytu sofandi að feigðarósi. Þessi hópur var því nokkurs konar kirkja í kirkjunni eða það sem Joachim Wach kallar ecclesiolae in ecclesia. (McGuire, 147)

J. Wach heldur reyndar áfram og skiptir því sem hann kallar kirkja í kirkjunni upp í þrennt:

 1. Collegium pietatis. Hópur manna innan kirku sem ekki telur hugmyndir sínar þær einu „réttu“. Þeir eru lítið skipulagðir og leitast eftir að bæta einstaklinginn innan hópsins.
 2. Fraternitas. Er hópur sem lifir að einhverju leiti með sameignarformi. Skipulagið er oft óformlegt og „andlegt“ og jafnrétti allra er oftast nær í hávegum haft.
 3. The Order. Að lokum er það the Order, eða trúarreglan. Trúarreglan krefst algerrar skuldbindingar af hendi einstaklinga og afneitunar á öðrum gæðum en þeim sem reglan leyfir. (McGuire, 147)

Ef við viljum flokka þá sem tóku þátt í og stjórnuðu almennu mótunum upp í þessa flokka má segja að um hafi verið um að ræða collegium pietatis, þó að krafan um sannleikann hjá sér hafi líkast til verið sterkari hjá almennamótsmönnum en hugmynd Wach um collegium pietatis gerir ráð fyrir.

Í hverju fólst kirkjuskilningur Bjarmamanna?

Þegar fjallað er um skilning einstaklinga eða hópa á ákveðnum hlutum á ákveðnum tíma er ekki alltaf hægt um vik. Því hef ég hér nokkra punkta sem ég nota til að rökstyðja þann skilning sem ég hef á skilningi þeirra manna sem héldu almennu mótin.

Í Bjarma er oft gefið í skin eða jafnvel sagt berum orðum að hinir kristnu séu fáir á Íslandi þrátt fyrir að meirihluti Íslendinga tilheyri kirkjunni og kemur þetta viðhorf skírt fram í kringum heimsókn, Norðmannsins Hallesby hér til Íslands. Þetta viðhorf virðist einnig skína í gegn á almennu mótunum. Björn O. Björnsson skrifaði grein í Kirkjuritið í ágúst-september 1939, um ýmsa galla á mótinu sem hann vilji þó ekki ræða frekar. En segir suma þeirra „nokkuð alvarlega.“ Hann heldur svo áfram og segir að

þessi mót eigi að geta bætt allverulega úr göllum sínum, ef að samkvæmni er gætt í þeirri auðsveipni við drottin, er einkennir þau svo mjög.

Hér er hann mjög líklega að vísa til þess sem hann telur að sé þröngur skilningur á hjálpræðisverki Krists.

Annað atriði sem mikilvægt er að staldra við hvað varðar kirkjuskilning er sú mikla virðing sem borin var fyrir prestum og kemur fram í skrifum Björns í Kirkjuritinu. En þar segir hann frá því að prestar á mótinu, alls 12 hafi borðað sér á heimili prestsins í Hraungerði meðan almúginn hafi snætt úti í tjaldi.

Áhersla á réttan lúterskan messuskilning virðist vera mikil á mótunum og kom þessi skilningur mótshaldara fram í svari þeirra neðanmáls í Bjarma, þann 1. júlí 1938, þar sem segir:

Þess skal getið hér vegna athugasemda frá utankirkjumanni, að sú fullyrðing, að forðast sé allt „ritual“ á slíkum mótum sem þessu, er röng. – Þetta mót var á evangelisk-lúterskum grundvelli og hófst með guðsþjónustu þeirrar kirkju, eins og venja er alstaðar að byrja kristilega fundi innan ríkjandi kirkju. Hér var ekki um neitt allsherjarmót margra trúflokka að ræða, þótt hverjum einstaklingi væri heimil þátttaka.

Þessi gagnrýni sem utankirkjumaðurinn hafði viðhaft kom síðan upp aftur í Kristilegu vikublaði í júlí 1942 þar sem messugerðin er gagnrýnd fyrir að vera langdregin og formföst, hún eigi sér enga stoð í Nýja testamentinu, auk þess sem sumir telji hana lítilsvirði og spor í áttina til kaþólskunnar, sem ekki sé viðeigandi á mótum sem slíkum.

Augljóslega lentu því þeir Bjarmamenn í klípu þegar mótið var flutt frá Akranesi upp í Vatnaskóg þar sem ekki var kirkja í Vatnaskógi og því reyndist ómögulegt að hafa altarisgöngu þar sem kirkjuna vantaði.

Pietisminn á mótunum

Þegar búið er að flokka mótshaldara sem kirkju í kirkjunni. Hvað var það þá sem einkenndi/átti að einkenna þann sem tilheyrði þeirri kirkju? Í grein í Bjarma frá þessum tíma, undir fyrirsögninni: Hvað er heittrúarstefna (pietismi)? Skrifar Ólafur Ólafsson þessi orð:

Heittrúarstefnan gerir skýra aðgreiningu milli trúaðra og vantrúaðra, milli Guðs barna og veraldar barna. Annaðhvort er maður á mjóa veginum, sem liggur til lífsins, eða á breiða veginum, sem liggur til glötunarinnar. …

Vilji trúaður maður njóta þess alls, sem þykir fagurt og gott og gamansamt, án þess að vera á verði gegn hættunni sem því fylgir, þá telst hann ekki til heittrúarmanna. Því þeir sem hugsa sem svo: „Það er mikils tilvinnandi að fá að lifa í samfélagi Krists og hans trúuðu, að eg er þessvegna fús til að neita mér um margt og fara á margs á mis, sem veraldlegir menn láta eftir sér.“ Hann heldur sig á miðjum vegi, í stað þess að reyna að seilast eins langt til hægri eða vinstri og mögulegt er og eiga svo stöðugt á hættu að fara út af honum. …

… Heittrúarmaður þykir, á heimsins mælikvarða, þröngsýnn. Hann gefur sig ekki að list, íþróttum, eða skemmtanalífi. …

…Hann getur ekki notið listarinnar listarinnar vegna, eða náttúrunnar eins og hún er í sjálfu sér, því það væri að dýrka skepnuna í stað Skaparans. Hann er alvörumaður, en á þó þá gleði sem enga hryggð þekkir, gleðina í Guði.

… Hennar mönnum er það ónóg að fara aðeins öðruhvoru í kirkju, og eru þó yfirleitt kirkjuræknir mjög. Þeir halda tíðar uppbyggilegar samkomur. Trúarlífið nærist á tvennan hátt, í einrúmi með Guði og í samfélagi Guðs barna. …

Heittrúarstefnan byggir hvorki á lögmálsþrælkun eða tilfinningafumi, heldur einungis á fullkomnu hjálpræðisverki Jesú Krists og réttlætingu fyrir trú aðeins. … (Bjarmi, 1. tbl. ártal vantar)

Vakningarandi á almennum mótum

Hér heima hljómar einnig boðskapurinn frá Guði, Guði sé lof! Hér endurnærast og vakna hjörtu. En vakningu – fáum við ekki bráðum trúarvakningu? Spurningin er heit, hjartað brennur – og Guð bíður með náðargjafir sínar, að menn taki við þeim. – Biðjum um vakningu! Biðjum Guðsorðinu greiða braut inn í hjörtu meðbræðranna! (Bjarmi 1. ágúst 1936)

Ólíkt öðrum kristnum löndum hafði aldrei orðið almenn trúarvakning innan kirkjunnar á Íslandi og byggðist það að miklu leiti á stöðu þjóðarinnar gagnvart Dönum. Þar sem ofuráhersla var lögð á að þjóðin yrði að vera ein og sameinuð og ekki mætti á neinn hátt ögra samheldni þjóðarinnar. Hvorki með deilum um trúmál né öðru. Því gerðist það að þeir vakningastraumar sem fóru um Evrópu fyrir aldamótin 1900 og þar á eftir bárust ekki hingað til lands.

Væntingar til vakningar á almennu mótunum voru því mjög miklar enda fannst aðstandendum eins og vakningu vantaði sárlega í íslenskt trúarlíf. Ekki bar þó á vakningu á fyrsta mótinu 1938 og þó að á Hraungerðismótinu 1939 hafi verið talað um meiri vakningaranda en á mótinu árið áður varð ekki almenn vakning tengd mótunum á þessum tíma. Vissulega höfðu vitnisburðarstundir mótana ákveðna stemmningu í för með sér, en þó aldrei svo að um almenna vakningu hafi verið að ræða.

Lokaorð

Sá hópur fólks sem leiddi  almennu mótin í lok fjórða og í upphafi fimmta áratugarins leit svo á að þau væru hluti af fremur fámennum hópi kristinna einstaklinga á Íslandi sem héldi á lofti heittrúarguðfræði sem mótvægi við þá „nýguðfræði“ sem hafði náð sterkum tökum í íslensku kirkjunni. En í guðfræðideild Háskóla Íslands á þessum tíma voru nýguðfræðingar alsráðandi og höfðu þar áhrif á guðfræðinema og alla þá umræðu sem fram fór um kristnilíf á Íslandi.

Með ritstjórnarskiptum á Bjarma 1936 og heimsókn O’Hallesby á sama ári má segja að heittrúarstefna (píetismi) hafi blásið til sóknar sem síðan birtist á almennu mótunum.

Fram til loka síðustu aldar var heittrúnaður enn í hávegum hafður á almennum mótum og félögin sem að þeim stóðu biðu enn vakningar. Aðstandendur mótanna höfðu þannig á vissan hátt meira sameiginlegt í formi og skilningi með kristnum utanþjóðkirkjusöfnuðum en þjóðkirkjunni.

Með mótinu í Vatnaskógi 1945 má segja að ákveðin breyting verði á aðferðum þeirra og þar verði viss meðvituð eða ómeðvituð skil á milli þeirra og hinnar almennu þjóðkirkjunnar á Íslandi.

Heimildir

 • Árbók 1938; 1938, Kristilegt bókmenntafélag
 • Bjarmi tímarit; 1936-1945
 • Björn Magnússon; 1976, Guðfræðingatal 1874-1976
 • Handbók stjórnar Kristilegs stúdentafélags 1995-1996; 1995
 • Kirkjuritið; ágúst-september 1939
 • Kristilegt vikublað; 1938-1945
 • Morgunblaðið; í júní 1938 og 1939
 • McGuire, Meredith B.; 1992, Religion, the Social Context 3. ed.
 • Ólafur Jóhannsson; 1982, Lokaritgerð við guðfræðideild H. Í.
 • Pétur Pétursson; 1995, Fyrirlestrar í kirkjudeildafræði
 • Þórarinn Björnsson (ritstj.); 1989, Lifandi steinar

3 thoughts on “Almennu kristilegu mótin”

 1. Athyglisverð lesning og pælingar. Ég held þó að straumar heittrúarstefnunnar hafi verið nokkuð sterkir hjá séra Friðriki og Sigurbirni Á. Gíslasyni sem urðu fyrir mótun hjá KFUM í Danmörku sem var deild innan Heimatrúboðssamtakanna nema hvað kannski þau hafi verið kirkjulegri en systurhreyfingin í Noregi sem Hallesby leiddi.
  Ég held líka að það sem gerðist innan kristilegu félaganna á þessum árum hafi verið mikil trúarleg endurnýjun sem einskorðaðist við þessi félög að mestu en bar þá ávöxt víðar. Félögin lifðu að miklu leyti á þessu næstu 30-40 árin.
  Ég held að valið um Vatnaskóg hafi einkum verið hagnýtt m.t.t. nýs skála þar. En að sjálfsögðu hafði það sín áhrif. Þegar frá leið fækkaði prestum sem sóttu mótin í Vatnaskógi – en það getur að hluta hafa legið í því að þeir kusu að láta ekki sjá sig lengur og að þeir eigi sinn þátt í því sem gerðist.
  Messur voru fljótlega innleiddar í Vatnaskógi og altari sett upp í samkomutjaldinu en ég veit ekki hvenær það gerðist. Alla vega var það þannig í nokkra áratugi.
  Eigendur Bjarma halda nú aftur austur fyrir fjall í sumar…

 2. Takk fyrir þetta innlegg, Ragnar.

  Ég skoðaði fyrir nokkrum árum samspil Friðriks og Sigurbjarnar Á. Gíslasonar meðan þeir voru báðir starfsmenn danska Heimatrúboðsins með aðsetur í Reykjavik á fyrstu árum 20. aldar.

  Það virðist hafa verið nokkur munur á trúarlegri nálgun þeirra, þar sem Sigurbjörn Á. virðist mjög sterkur heittrúarmaður, en Friðrik mun pragmatískari í nálgun sinni, sér í lagi þegar kom að samstarfsaðilum. Auk þess er katólska Friðriks vel þekkt, sbr. mikinn fjölda róðukrossa í Vatnaskógi. Það væri áhugavert í þessu samhengi að greina guðfræðistrauma í prédikunum, sálmum og skrifum Friðriks í alþjóðlegu samhengi. En það bíður síðari tíma.

  Ég held að það sé rétt hjá þér að tilfærslan á mótunum upp í Vatnaskóg hafi verið praktísk en ekki til að þétta hópinn. Afleiðingar þess að fara með mótið upp í Vatnaskóg, leiddi hins vegar til ákveðinnar aðgreiningar, sem fólst m.a. í fækkun presta í hópi þátttakenda eins og þú bendir á.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.