Tengsl vonar og hamingju eru áhugaverð. Þannig er mér minnisstætt þegar prófessorinn minn í Kristniboðsfræðum talaði um að rannsóknir í Afríkuríkjum bentu til þess að þeir sem tækju kristna trú færðust upp á við í þjóðfélagskerfinu. Mest áberandi væri breytingin frá hópnum sem lifði við eymd og færðist upp í hópinn sem býr við gífurlega fátækt.
Vonin um framtíð eykur hamingju og kallar fólk til verka í aðstæðum sem virðast vonlausar fyrir þann sem stendur til hliðar.
Þegar ég var á námskeiði í Littleton, Colorado var mikið talað um vonleysi meðal unglinga sem sáu ekki framtíðina. Sáu ekki fyrir sér að lífsfyllingu væri að finna í lífsstílnum sem foreldrar þeirra lifðu. Afleiðingin væri skeytingar- og vonleysi.
Frásagan um Najac endurspeglar þessar hugsanir
Najac fór í skólann í dag, hann mætti snemma og vonaði að hann mætti aftur sitja inni á helgistundinni hjá starfsfólkinu. Þegar hann kom inn mætti hann kennaranum. Kennarinn spurði hvernig hefði gengið hjá tannlækninum og bauð honum svo á stundina.
Það var engin söngur að þessu sinni. Einn starfsmannanna var að deila með hinum frásögn af ferð sem hann hafði farið í til fyrirheitna landsins. Najac var brugðið að sjá hann og langaði að spyrja af hverju hann hefði komið til baka. Er ekki allt betra í fyrirheitna landinu? En Najac þagði og hlustaði.
Ferðalangurinn talaði við starfsfólkið um hvernig alsnægtirnar hefðu áhrif á vonina. Hann sagði frá foreldrum sem ynnu allan daginn, frá börnum sem sáu foreldra sína í minna en 1 klst á dag, jafnvel þó þau byggju í sama húsi. Allt virtist snúast um að eignast, en það að njóta og lifa hefði gleymst. Najac skyldi þetta ekki. Er hægt að eiga allt, skorta ekkert, en vilja samt meira og meira og meira. Najac átti ekkert nema fötin sem hann var í. Hann gat grátið og hlegið, vonað og beðið. Hann langaði samt oft í meira.
Ferðalangurinn bætti við að stundum væri eins og í fyrirheitna landinu væri engin von. Þeir sem vonuðust eftir réttlæti, þyrftu að byrja á að gefa af alsnægtum sínum og það vildi enginn gera. Ferðalangurinn talaði um að hafa ekkert að hlakka til, að þurfa aldrei að vera þolinmóður, að bíða væri talið veikleikamerki. Fyrirheitna landið hefði glatað voninni og framtíðinni í eftirsókn sinni eftir að eignast allt NÚNA. Margir hefðu meira að segja hafnað Guði, þau hefðu allt og þyrftu ekki á Guði að halda.
Najac varð ringlaðri og ringlaðri. Var fyrirheitna landið ekki fullkomið? Eiga þeir sem eiga allt, líka í erfiðleikum? Líður einhverjum illa sem er aldrei hungraður? Hvernig var hægt að segja að Guð skipti ekki máli? Hafði Guð ekki gefið allt?
Ferðalangurinn talaði um einmanaleikann í fyrirheitna landinu. Hvernig fólk væri upptekið af að vinna og eignast að það hefði gleymt því að lifa. Hann talaði um að þau gætu kennt fólkinu í fyrirheitna landinu sitthvað um nægjusemi og samfélag.
Najac varð hugsi. Hafði hann eitthvað upp á að bjóða sem fólkið í fyrirheitna landinu hafði ekki. Hann átti drauma og vonir. Hann hlakkaði til að hitta mömmu sína, bara ef hann kæmist heim á sléttuna.