Í vor sat ég áhugaverða fyrirlestraröð um kirkju, samfélag og ungt fólk á vegum Center for Educational Ministry in the Parish (CEMP) en setrið er staðsett hér í Trinity Lutheran Seminary. Einn fyrirlesarinn, Dr Cheryl M Peterson, sem hefur kennt mér trúfræði hér við skólann, fjallaði á áhugaverðan hátt um guðfræðilega umræðu meðal ungs fólks með áherslu á endatímapælingar. Hún benti á að umræður um dauðann færi í auknum mæli fram í fjarlægð frá kirkjunni. Þær trúarpælingar sem einokuðu umræðuna væru á tíðum tengdar “rapture” hugmyndum bókstafstrúarfólks eða einhvers konar austurlenskum karma hugmyndum. Á fyrirlestrinum nefndi hún hversu mikilvægar síður eins og mydeathspace.com gætu verið sem vettvangur fyrir ungt fólk til að glíma við óumflýjanlegan dauðann, sér í lagi þar sem stundum virtist sem kirkjan hefði misst getuna til að ræða við ungt fólk.
Mér flaug þessi fyrirlestur í hug, þegar ég sá frétt á Vísi fyrr í vikunni um síðuna og síðan aftur rétt í þessu þegar Jay Leno nefndi síðuna í þættinum sínum sem er núna í sjónvarpinu.