ÉgSíminn II

Í síðustu viku kom ég mér loksins til að kíkja á iPhone upp í Apple-búðinni í Easton. Þar eru þeir í röðum á borðum svo hugsanlegir kaupendur geti snert og prófað dýrgripinn. Ég lenti reyndar í vandræðum fyrst í stað, þar sem ég festist í YouTube hluta símans og gat ómögulega komist í aðalvalmyndina. Ég vissi að einhvers staðar átti að vera hnappur sem bjargaði mér til baka, en það tók mig nokkurn tíma að finna hann, sem reyndar minnir á hversu hönnunin er stílhrein.

Þegar ég loksins ýtti á takkann, opnaðist dýrðin. Hægt er að velja milli 12 fastra “widget” og síðan eru takar fyrir Safari, Mail, síma og ipod. Fyrsta sem ég hugsaði var hvort ekki væri hægt að bæta við “widgets”, enda ýmislegt á dashboard-inu í MacBook-inni minni sem væri gaman að hafa í svona tæki. Svar sölumannsins var fremur loðið nei, sem gaf í skin að það stæði jafnvel, hugsanlega til bóta.

Ég skoðaði Safari-vafrann, sem er ekki bara farsíma útgáfa af internetinu, heldur alvöru internetið. Ég sannfærðist EKKI. Ég sé nefnilega ekki vandamálið við skýra og einfalda textaútgáfu af heimasíðum, umfram “fansí” vafra á litlum skjá, sem neyðir mann til að “zoom”-a allt sem maður vill lesa. Ég er kannski ekki marktækur þar sem ég og Jenný notuðum LYNX fyrstu árin sem við bjuggum saman, þegar við þurftum að fara á vefinn. Eins er ég farinn að eldast þannig að ég sé ekki vel smáan texta.

Annað sem ég velti fyrir mér í gær, þegar ég var að setja DVD-diska inn á iTunes fyrir iPod konunnar, er hversu lítið geymslupláss 8GB er þegar kemur að myndefni. Þetta eru ekki nema 6 bíómyndir í fullnægjandi gæðum, ef það er ekkert annað í minninu.

En skjárinn er flottur. Ég prófaði fleiri “fídusa” á símanum, skoðaði hvernig skrollið virkaði, kíkti á myndavélina og minnismiða, skoðaði iCal og google-kortin. Mér þótti græjan flott, en ég verð að taka undir með viðskiptavininum sem stóð við hliðina á mér: “Skemmtilegt dót, en $500, ég held ekki.”

Í samanburði við símann sem ég á núna og kostaði mig ekkert, þá er stærsti + við iPhone þráðlausa netið, QWERTY hnappaborðið sem tók mig innan við 30 sekúndur að ná tökum á og sync-ið á iCal, sem vantar í símann minn (iCal-sync var hins vegar í 7 ára gamla SonyEricson símanum mínum). Reyndar skiptir þráðlausa netið ekki öllu máli fyrir símann minn, þar sem ég notast við textavafra en ekki “fansí” Safari, þannig að þörfin fyrir öfluga gagnaflutninga er ekki jafn mikil. Eins get ég “subscribe-að” iCal út á vefinn og notast við textavafrann í símanum mínum, til að nálgast dagbókina. Það er flott að vera með eitt tæki en ekki tvö, en ég notast svolítið við iPod þar sem tónlistarspilarinn í símanum mínum er óaðgengilegur. Auðvitað er iPhone-inn miklu notendavænni en síminn minn. Hins vegar er það ekki eitthvað sem skiptir mig höfuðmáli, þar sem ég er tiltölulega læs á rafmagnstæki.

Á móti kemur að myndavélin í símanum mínum jafngóð (betri) en í iPhone, ég hef aðgengi að talnabreyti í gmsanum mínum með því að smella á einn hnapp sem er widget sem vantar í iPhone (ég bý í mílu og fahrenheit landi), ég ýti á einn hnapp til að nota Samsung Sync sem “diktafón”, fídus sem ég fann ekki á iPhone og síminn minn og iPod-in eru samanlagt minni en iPhone-inn.

Þegar ég notaði símann til að fletta upp veðrinu í Reykjavík þá var hitinn sagður 76 gráður á Fahrenheit eða rúmlega 24 gráður á Celsíus. Maðurinn við hliðina á mér, sem sagði óspurðum fregnum að hann hefði millilent á Íslandi fyrir 35 árum, trúði því tæplega og spurði hvort það yrði svona heitt á Íslandi. Ég kannaðist ekki við það, en líklegast er veðurlýsingin frá Reykjavík lýsandi fyrir égSímann sjálfan. Hann gefur eitthvað í skin sem er líklega ekki alveg rétt og því erfitt að standa undir væntingunum sem fólk hefur.

Þegar minnið verður 30GB og möguleikinn kemur að setja inn sértæk widget, mun ég líklega slá til, en fram að því þá hef ég tvö tæki í vasanum, Samsung Sync og iPod [red].

One thought on “ÉgSíminn II”

  1. Ég er spenntur að sjá hvernig Safari kemur út í þessum síma, hef ekki enn gefið mér tíma til að skoða hann (en það ku vera eitt eintak í annarri hvorri Apple búðinni hér heima).

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.