Hræðslan við hina er ekki ný. Hina sem kannski stela á endanum landinu okkar. Árlega er skrifað um endalok hvítra Bandaríkja, nú eða fjallað um spár um mannfjöldaþróun sem benda til þess að hinir verði bráðum fleiri en við. Markmiðið er ekki alltaf neikvætt með slíkum fréttaflutningi, en rasíski undirtóninn er óumflýjanlegur.
Eitt einkenni þessarar umræðu er að sagan hefur gleymst. Flestir Bandaríkjamenn eru afkomendur hinna, þeirra sem stálu landinu. Á Íslandi erum við öll flóttamenn, undan fátækt eða skattheimtu á norðurlöndum.
2. Mósebók byrjar á sögu af nýjum egypskum konungi sem þekkti ekki söguna. Hann sá samt að Ísraelsmenn voru hinir og hinum þurfti að halda í skefjum. En það er gömul saga og ný að þrældómur og kvaðir draga ekki úr barneignum (velmegun gerir það hins vegar). Þannig skiluðu tilraunir konungs til að draga úr barneignum með því að þjaka Ísraelsmenn litlu. Hann greip því til þess að krefja ljósmæður um að myrða drengi við fæðingu, en Sifra og Púa sáu við honum, og sögðust einfaldlega ekki vera viðstaddar fæðingar, hebreskar konur þyrftu ekki fæðingarhjálp.
Konungur lét þá boð út ganga um að kasta öllum drengjum í fljótið.
One thought on “2. Mósebók 1. kafli”