Trúin á Guð, unglingar og þroski

Innlegg fyrir foreldra fermingarbarna á fræðslukvöldi, líklega í Grensáskirkju, fyrir 10 árum. Lítillega lagað með tilliti til augljósra villna. Þegar talað er um Guðstrú, trú og trúarvissu, er að alltaf átt við kristna trú eins og hún er boðuð í þjóðkirkjunni.

„Hver er ég?“ og „Til hvers er ég?“ eru grundvallarspurningar unglingsáranna. Sem unglingar uppgötvum við að foreldrar okkar eru ekki fullkomin. Heimurinn er ekki eins einfaldur og við héldum sem börn.

Með skilningnum um það að foreldrar eru ekki alvaldir og fullkomnir koma inn efasemdirnar um Guð, um almættið, það sem skýrir út þennan heim. Hver er þessi Guð? Hver stjórnar þessu öllu saman?

Á unglingsárunum er byrjað að kenna um Darwin og þróunarkenninguna sem leiðir til óumflýjanlegra árekstra milli hlutbundins sköpunarskilnings barnsins og þróunarkenningarinnar. Fyrir hádegi er það Darwin í líffræði og eftir hádegi 1.Mósebók og misvel útskýrð Sköpunarsagan í Fermingarfræðslunni.

Hvernig er hægt að höndla þetta? Unglingar eru að móta getuna til að hugsa huglægt, ræða heimspekilega og skilja líkingar sem ekki snúast um hluti heldur hugtök. Getan til að sjá heiminn ekki bara með eigin augum heldur til að setja sig í spor annarra tekur stórstígum framförum. Getan til að hugsa huglægt hjálpar unglingum til að setja sig í spor annarra og álykta hvernig það hugsar, hvernig því líður.

Spurningarnar vakna: Hver er ég? Til hvers er ég? Hver er þessi Guð? Eða er hann e.t.v. ekki til?

Þekking – Skilningur – Upplifun

Ég tel það gagnlegt í okkar samtali að skipta Guðstrú unglinga í þrjá þætti, þekkingu, skilning og upplifun.

  • Þekking er þannig ákveðin kunnátta sem við tengjum trúnni á Guð. Það að kunna Faðir Vorið, Trúarjátninguna, þekkja söguna um týnda soninn o.s.frv.
  • Skilningur er þá það að skilja merkingu Faðir vorsins og Trúarjátningarinnar ásamt því að skilja hvað Jesús kennir okkur með sögunni um týnda soninn.
  • Þriðji þátturinn, upplifunin er þá það að fara með Faðir Vor og vita Guð sem hlustanda, játa trú sína með orðum Trúarjátningarinnar og treysta þessum Guði eða finna sig í hlutverki einhverrar persónu sögunnar um týnda soninn.

Tveir síðarnefndu þættirnir byggja á því að unglingurinn geti hugsað huglægt. Hann geti tileinkað sér hugtök eins og fyrirgefning og kærleikur án þess að þurfa að tengja þau við ákveðna atburði. Einnig gerir upplifunin þá kröfu til einstaklingsins að hann geti sett sig í spor annarra, geti áliktað um hvernig aðrir hugsa og líður.

Þar með er ekki sagt að börn sem ekki hafa öðlast þessa færni geti ekki trúað. Þó er ljóst er að trú þeirra sem yngri eru, barnatrúin, hvílir á annars konar grunni, grunni barnslegrar einlægni og takmarkalausts trúnaðartrausts til þeirra sem litið er upp til. Orð Jesú Krists sá sem ekki komi í Guðs ríki sem barn muni ekki inn í það koma, vísar til þessa trúnaðartrausts.

Til að trú unglings þroskist þarf því að hjálpa honum til að takast á við efasemdarspurningar um Guð, lífið og tilveruna og hjálpa honum til að orða hugsanir sínar og líðan.

Til að auðvelda unglingi þetta er mikilvægt að hann hafi yfir að ráða þeim tækjum sem nauðsynleg eru til að fjalla um Guð. En þau eru helst, trúarlegt tungutak/trúarlegur orðaforði og bænin.

Án þessara tækja er mjög erfitt fyrir ungling að orða hugsanir sínar, eða hvernig færi fyrir íþróttafréttamanni sem lýsa ætti handboltaleik og hefði ekki á færi sínu orð eins og bolti, leikmaður og mark.

Ef Guð á að vera annað og meira en hugtak í kristnifræðitíma er bænin grundvallandi þáttur. Það að geta kyrrt hugann og leitað til Guðs er nauðsynlegt til að unglingurinn geti upplifað. Unglingar sem hafa lært bænir frá barnæsku hafa þannig mikið forskot á þau sem fyrst setjast niður við bænagjörð í fermingarfræðslunni. Ef bæn er ekki eðlilegur þáttur í lífi unglinga er erfitt, jafnvel ómögulegt fyrir nokkra tíma í fermingarfræðslu að breyta því. Því er mikilvægt að bæn sé ekki feimnismál eða óeðlilegur hlutur í lífi fjölskyldunnar.

Að tilheyra

Á unglingsárum losnar um tengsl þeirra við fjölskylduna og ný tengslanet verða til. Þannig tengjast unglingarnir ýmsum hópum og leitast við að skilgreina sig út frá þeim. Þannig eru unglingar ýmist skopparar, gotharar eða e-ð annað sem ég man ekki hvað er. Þeir tilheyra hugsanlega íþróttafélagi, jafnvel úti í heimi. Þau búa í ákveðnu hverfi, sækja ákveðin skóla o.s.frv.

Þannig var ég til dæmis sem unglingur KFUM-ari (góður), Laugalækingur, Laugarnesingur, Liverpool-ari, Skagamaður (út af því mamma var/er það), Ármenningur í handbolta, með ljósmyndadellu, Svarfdælingur (pabbi), gáfumenni o.s.frv.
Þessir hópar hafa mismikil áhrif, t.d. skipti það litlu máli fyrir mig að vera Svarfdælingur, en ég var það víst samt. Það að vera KFUM-ari hafði hins vegar meiri áhrif, þar var mjög ákveðinn mótun og ég skilgreindi mig sem hluta af velskilgreindum hópi sem eyddi miklum tíma saman.

Þessir hópar hafa mikil áhrif á mótun unglingsins. Það fylgir því að vera skoppari að hlusta á ákveðna tónlist, klæða sig í ákveðinn föt og jafnvel ganga á ákveðinn hátt. Öll frávik frá hefðum eru illa liðinn skapa óöryggi í hópnum, því í raun eru allir sem tilheyra hópnum á sama hátt að reyna að skilgreina sig, finna sig.

Þessi þörf fyrir að tilheyra og endurskilgreina hverju/m er tilheyrt, verður hluti upplifunarinnar, mótar það hver við erum.

Niðurlag

Til að barnið þitt þroskist á eðlilegan hátt á öllum sviðum er mikilvægt að gefa því tíma. Hlusta á það, hjálpa því að orða hugsanir sínar og leiða það áfram með kærleiksríkum og raunverulegum áhuga á hugsunum þess og tilfinningum. Það á ekki síst við til að það þroskist trúarlega. Að vera óhrædd við að velta upp spurningum með barninu sínu án þess að þekkja sjálf svörin er barninu og þér nauðsynlegt til að læra meira og verða hæfari til að takast á við lífið.

Til að upplifa þarf barnið/unglingurinn að geta rætt við Guð í bæn. Því þarf að finnast að það að kyrra hugann frammi fyrir Guði sé eðlilegur þáttur í daglegu lífi.

Loks þarf unglingurinn, ef ætlunin er að þroskast í samfylgd við Guð, að finna sig hluta af þeim sem trúa á Guð. Ef fjölskyldan telur Guð framandlegan, vinirnir telja Guð lítt spennandi og kennarinn fussar og sveiar yfir Sköpunarsögunni og talar um hina fávísu kristnu þá er ekki líklegt að trúarhugmyndir nái að þroskast og mótast í samræmi við annan vitsmunaþroska (breyting á texta eftir góða ábendingu Hjalta Rúnars hér fyrir neðan) að Guð nái í gegn.

Að lokum

Fyrir mig sem „fagmann“ á sviði trúmála svíður mér oft þegar fólk talar af vanþroska um trúmál í fjölmiðlum. Fullyrðir hitt og þetta um kirkju og Krists sem er í besta falli misskilningur og í versta falli rangt. Oft á tíðum stafar þetta af því að viðkomandi hefur mistekist að stíga út úr hlutlægum skilningi á Guðshugtökum og yfir í hið huglæga. Trúarþroskinn hefur ekki fylgt öðrum þroska, barnatrúnni eða vonbrigðum með barnatrúna er leyft að ríkja gagnrýnislaust. Guð gefi að börnin ykkar nái að þroska trúarskilning sinn, hver svo sem afstaða þeirra til Guðs kunni að vera í framtíðinni.