Prédikun upphaflega flutt í Hjallakirkju í Kópavogi í september 1998.
Lokum augunum og reynum að sjá fyrir okkar lítið myndbrot. það er snemma morguns, við stöndum í stórum, tignarlegum salarkynnum þar sem ekkert virðist hafa verið sparað til að gera allt sem glæsilegast.
Í salnum sjáum við sjáum útitekinn, skítugan, þreyttan mann standa frammi fyrir skartklæddu stórmenni. Við heyrum að sá skítugi hefur orðið og talar mynduglega. Við færum okkur nær til að heyra orðaskil. Sá skítugi þagnar og skartklæddi maðurinn segir eina setningu. Hann talar setninguna þó eiginlega ekki, heldur andvarpar.
Andvarp skartklædda mannsins ómar um salarkynni hallarinnar sem við stöndum í: Hvað er sannleikur?
Að loknum orðunum þremur snýr sá skartklæddi sér við og gengur út úr salnum.
Andvarpið, Hvað er sannleikur?
Þekktur heimspekingur í upphafi 17. aldar staldraði við það að skartklæddi maðurinn, sem hét Pontíus Pílatus, gaf sér ekki tíma til að fá svar.
Pílatus var mikilvægur maður, hann veitti forstöðu stórum hópi manna og hafði í miklu að snúast. Hann bjó fjarri heimalandi sínu, var í nokkurs konar útgerð. Það skipti hann máli að eyða ekki tíma í vitleysu, tíminn var peningar, ekki síður þá en nú. Hann hafði ekki tíma til að heyra allt sem í boði var. Hann varð að velja og hafna. Hvað hann hlustaði á og hvað ekki.
Hallgrímur Pétursson, íslenskur prestur, sem einnig lifði á 17. öld, leggur áherslu á háðið í andvarpinu er hann segir:
Hæðnissvar hinn til fann:
Hvað er sannleikur? sagði hann.
Svo gekk út með úrskurðinn þann.
Prestinum í íslensku sveitinni, verður starsýnt á öfgarnar. Pílatus, mikið glæsimenni og síðan útitekinn, óhreinn, þreyttur trésmiður. Hvernig dettur trésmiðnum í hug sú firra að hann hafi eitthvað að bjóða Pílatusi, sem var yfirmaður í stærsta þekkta keisaradæmi veraldar.
Þreytan í andvarpi Pílatusar er einnig verð skoðunar. Jóhannesarguðspjall sýnir Pílatus í mikilli klemmu, hann er yfirvald í andsnúnu landi, þar sem deilur voru daglegt brauð. Þetta var land þar sem þjóðin sem þar bjó var fullviss um að hún væri útvalinn af Guði. Þetta var land þar sem fjölmargir frelsarar fóru um og boðuðu sannleika um veröldina og allt sem í henni er/var. Þetta var land þar sem prestar þjóðarinnar höfðu mikil ítök og ögruðu veldi Pílatusar.
Það er í þessu umhverfi, í þessum aðstæðum þar sem prestarnir þrýsta á hann um aðgerðir, að frammi fyrir honum stendur trésmiður og segir: Ég er kominn til að bera sannleikanum vitni.
Skartklæddi maðurinn bregst við eins og við líklega flest hefðum gert, hann velur þá leið sem minnstum vanda veldur. Að hans eigin mati. Hann var of þreyttur til að taka afstöðu í málinu, byggða á því sem fyrir lá. Það var mikið auðveldara að hlýða hrópum lýðsins en berjast fyrir því sem rétt var.
En hvað með innihald andvarpsins, hvað er sannleikur?
Hverju skyldi trésmiðurinn hafa svarað ef Pílatus hefði beðið og hlustað. Hvaða sannleik bar trésmiðurinn, sem eins og við flest höfum áttað okkur á að var Jesús Kristur, hvaða sannleik bar hann vitni?
Guðspjall dagsins fjallar um sannleikann sem Jesús hafði til handa Pílatusi, ef hann hefði beðið svars. Eða eins og segir í Guðspjallinu, ef vér erum stöðug í orði hans, þá erum vér sannir lærisveinar hans og munum þekkja sannleikann. Með öðrum orðum þekking og traust til Jesú Krists gefur okkur sannleikann.
Nú vaknar hjá mörgum okkar hinn sístæða spurning mannsins. Hvað græði ég á því að þekkja sannleikann? Hvað fæ ég í minn hlut?
Svarið liggur í guðspjallsins sem var lesið hér áðan. Sannleikurinn mun gjöra yður frjálsa. Með öðrum orðum það sem við “græðum” er frelsi. Hugsunin rennur áfram og við hljótum að spyrja hvað er þetta frelsi? Hvers virði er það?
Fyrri ritningarlestur þessa dags er tekinn úr spádómsbók Esekíels, 36. kaflanum. Þar sem finna má fyrirheit til Guðsþjóðarinnar, þeirra sem meðtekið hafa sannleikann. Hugtökin, andi og hjarta, standa fyrir manninn í heild. Ég mun gefa yður hjarta af holdi í stað steinhjarta, ég mun leggja anda minn í brjóst þitt og gera þér kleyft að hlýða boðum mínum. Orð Esekíels segja, ef við eigum sannleikann fáum við hjarta af holdi. Við öðlumst líf.
Í síðari ritningarlestrinum sem tekinn er úr einu bréfa Páls er hnikt en frekar á þessu. Þar er talað um að ef einhver heyrir Kristi til, þeim Kristi sem gefur sannleikann, þá sé hann skapaður á ný. Hið gamla líf sé einskis vert, sjá, nýtt er orðið til.
Það frelsi sem sannleikurinn gefur er ekki frelsi afskiptaleysisins, algleymisins, alsælunnar, ekki nirvana eða útslokknun alls sem er. Það frelsi sem sannleikur trésmiðsins gefur er þvert á móti,
- frelsi til aðgerða,
- frelsi til lífs,
- frelsi til að vera.
Það virðist kannski mótsagnakennt, og kannski er það svo, en það frelsi sem trésmiðurinn, sem síðan var negldur á kross og reis upp, gefur okkur er frelsi sem krefst aðgerða. Það krefst þess að við séum lifandi, í merkingunni, meðvituð um okkur, náunga okkar og ekki síður skapara okkar, Guð sjálfan.
Þetta frelsi auðveldar okkur ekki lífið nema síður sé, en það gefur okkur tækifæri til að lifa alvöru lífi.
- Lifa lífi sem skapari okkar hefur kallað okkur til að lifa.
- Lifa lífi í samfélagi við hvort annað.
- Lifa lífi sem Kristur gaf.
- Lifa lífi sem hefur sorgir og sársauka.
- Lifa lífi sem inniheldur gleði og gaman.
- Lifa lífi sem horfir til vonarinnar um eilíft líf.
Hvað er sannleikur?
Spurningin ómar um salarkynnin. Svarið er óhreinn, þreyttur, útitekinn trésmiður sem lifði lífinu til fulls. Hann var negldur upp á tré, kvalinn og píndur, en dauðinn gat ekki sigrað þann sem lifði. Hann reis upp úr gröfinni og stendur nú og bíður þér líf. Líf í fullri gnægð.
One thought on “Hvað er sannleikur?”